Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Glæsilegt framtak - en jafnframt góð leið til fjárfestingar

Það er enginn vafi á að þetta verður nýsköpun mikill stuðningur. Það er algerlega nauðsynlegt að bjóða upp á sem flestar slíkar leiðir fyrir sprotafyrirtækin til að geta tengst mögulegum fjárfestum.

Þetta mun vafalaust einnig ýta á að sprotafyrirtækin séu vel undirbúin og skipulögð því það sækja jú fáir mikla peninga til fjárfestinga án þess að geta sýnt fram á að hugmyndin sé líkleg til árangurs (nema jú viðkomandi eigi banka).

Ég kom að stofnun sprotafyrirtækis í miðri uppsveiflunni og var aðgangur að fjármagni afar ógreiðfær fyrir okkur. Góð hugmynd og vel gerð viðskiptaáætlun breyttu þar litlu um. Fjárfestar höfðu einfaldlega engan hvata til þess að setja peningana sína annað en bara inn á reikning hjá einhverjum bankanna sem að "áhættualaust" skilaði um 15% ávöxtun.

Nú hefur markaðurinn hins vegar aldeilis snúist við og verður þetta vonandi mikill vaxtabroddur fyrir sprotana. Við þurfum fátt eins nauðsynlega í dag og mikla aukningu í nýsköpun.


mbl.is Vona að framlög í sprotasjóðinn BJÖRK verði á annan milljarð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siv segir þennan segja þetta og hinn segja hitt - en hvað segir Siv??

Merkilegt að eyða tíma sínum í ræðustól í að hafa bara eftir öðru fólki um aðra flokka.

Ég hefði einmitt haldið að Siv Friðleifsdóttir sæi þarna tækifæri fyrir stjórnarslitum, en hefði ekki áhyggjur af þeim. Verandi í stjórnarandstöðu, í "hinu" liðinu, hefði maður haldið að hún fagnaði tækifæri sem fælist í mögulegum kosningum.

Mér finnst þessi framsaga Sivjar benda til þess að hún sé að hugsa um að ganga í Sjálfstæðisflokkinn.


mbl.is Formaðurinn með stálhnefann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvetjum Forseta Lýðveldisins til þess að verja það nú á örlagastundu!

Það hefur gengið í dag á bloggi að virðist sá mikli misskilningur að Ólafur Ragnar Grímsson hafi hafnað fjölmiðlafrumvarpinu. Það er alls ekki rétt, Ólafur Ragnar Grímsson mat það svo á þeim tíma að það væri það stór hluti þjóðarinnar að virtist í mikilli andstöðu við frumvarpið og hann taldi því rétt að vísa því til þjóðaratkvæðagreiðslu. Við svo búið dró þáverandi ríkisstjórn frumvarpið til baka, það var sem sagt ríkisstjórnin þá sem kaus að hætta við eða hafna eigin frumvarpi.

Nú ríður hins vegar á að við hvetjum Ólaf Ragnar Grímsson til að bregðast við á sama máta gagnvart fjárlagafrumvarpinu, því í því felast ekki aðeins tillögur um gríðarlegan samdrátt á marga þá sem minna mega sín, heldur er falið í framvarpinu samþykki á því að ofurselja þjóðina undir skuldir við AGS og stjórn þeirra, eða að minnsta kosti mjög sterk afskipti þeirra af stjórn landsins næstu árin. Þetta eru síðustu forvöð, það eru lágmarsmannréttindi að þjóðin fái sjálf að kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta risa stóra málefni.  Sjá nánar hér: http://www.this.is/askorun

Fyrir alla þá sem misstu af viðtali við Göran Pettersson fyrrum ráðherra Svía í gærkvöldi þá mæli ég sterklega með því að fólk hlusti á það: http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4456024/2008/12/16/ 

Göran hefur flestum meiri reynslu af því að leiða þjóð út úr slíkri kreppu sem nú er að skella á Íslendingum.

Skoðaðu málið vel sjálf/ur, taktu persónulega afstöðu til þess.

Es. Sem dæmi um arfa slaka fréttmennsku og augljósa hlutdrægni er sérstaklega tekið fram í fréttinni að Hörður Torfason sé meðal þeirra sem standa að baki áskorunni?!?  Hvaða máli skiptir það?


mbl.is Forseti hafni fjárlagafrumvarpi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú ríður á að Íslendingar losi sig við Bjart í Sumarhúsum heilkennið og skapi með þjóðinni samstöðu

Það er svo merkilegt þetta hugarfar Íslendinga almennt að geta aldrei nokkurn tímann almennilega unnið saman eða stutt annarra manna hugmyndir. Hér situr við völd ríkisstjórn sem er með sögulegan meirihluta þingmanna og á samt í vandræðum með að vinna saman. Hvað þarf til að samstaða geti ríkt við stjórn landsins? Eins flokks stjórn? Ég er að sjálfsögðu ekki á því að það væri góður kostur, að minnsta kosti ekki með neinn núverandi flokka á þingi í huga.

Ég sat áðan með góðum félaga mínum á kaffihúsi og var að ræða þjóðmálin. Sagði honum hvað mér hefði líkað vel þöglu mótmælin á Austurvelli síðasta laugardag, að mér finndist það frábær leið til að tryggja að við gætum öll komið saman í samstöðu, en að sjálfsögðu ættum við ekki að vera svona dómhörð. Að sjálfsögðu eiga hinir ýmsu að mega tala á mótmælum án þess að við túlkum það endilega þannig að þeir séu að tala fyrir okkar hönd eða bregðumst ill við af því að við erum ekki endilega sammála hverju orði sem framsögufólkið segir.

Félagi minn sagði að þetta væri þessi óþolandi aumingjaháttur Íslendinga. Við getum aldrei staðið saman, erum sífellt hrædd við álit annarra eða viljum oft ekki styðja hugmyndir nema að eiga þær sjálf. Ég hef staðið mig að þessu í gegnum tíðina líka, tek það skýrt fram. Stöndum svo gjarnan tilbúin á hliðarlínunni til þess að dæma og hlakkar í okkur að geta sagt: "Sagði ég ekki" þegar einhver hugmynd klikkar.

En nú eru nýjir tímar, aðrir tímar. Það hefur ALDREI verið mikilvægara en nú að við getum sýnt samstöðu. Við einfaldlega verðum að geta tekið höndum saman núna til þess að hreinsa frá þessa gegnsýrðu spillingu sem nú er að koma upp á yfirborðið að virðist í gegnum alla stjórnsýsluna. Þingmenn, embættismenn, bankarnir og svo að sjálfsögðu innherjaviðskiptin á frjálsum markaði sem eru stór þáttur í erlendum skuldum okkar núna. Viðskipti innherja sem oft virtust einungis til þess gerð að með fölskum hætti hækka eigið fé félaganna, auka þar með virði þeirra fyrir ebita fólkið, skuldsetja í topp og taka þar með út mismuninn sem var búinn til með þessu svindli til þess að geyma á reikningunum sínum á til dæmis Cayman eyjum.

Við einfaldlega verðum að ná saman. Nú eru uppi hugmyndir um 3-4 ný framboð að mér skilst. Sturla og félagar fengu sinn lista bókstaf í dag. Það er að sjálfsögðu öllum velkomið að bjóða fram, það er einfaldlega lýðræðislegur réttur okkar allra. En á sama tíma er afar mikilvægt að ná atkvæðunum í sem stærsta einingu til þess að skapa afl sem hefur atkvæðamagnið á Alþingi til þess að geta haft raunveruleg áhrif og þar með staðið fyrir RAUNVERULEGUM breytingum.

Ég legg til að við búum til sameiginlegan vettvang strax á nýju ári, þar sem að þau okkar sem vilja breytingar geta komið saman og lagt til sínar hugmyndir, haft áhrif á lýðræðislegan máta á stefnu framboðs. Ég vil standa að því að skapa vettvang þar sem að við getum sem flest mæst í sameiginlegu framboði. Framboði sem er ekki skilgreint hægri vinstri eitthvað, heldur framboð sem skal skilgreint sem afl til breytinga.

Situr þú í óþreyju og langar að taka þátt en veist ekki hvernig þú getur orðið að liði? Sendu mér endilega línu viljirðu taka þátt. Nú vantar margar fúsar hendur. Það eru stórhreingerningar framundan. Fæstum finnst gaman að þrífa, en okkur líður samt alltaf svo mikið betur eftir á.

Íslandshreyfingin er vettvangur fyrir þessi sjónarmið.


mbl.is Frekar kosningar en að láta undan dulbúnum hótunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú höfðum við mál gegn oki gamla heimsveldisins

Verulega ánægjulegt að mínu mati og þá sérstaklega að að frumvarpinu komi þingmenn úr stjórnarandstöðu einnig. Við eigum ekki að sætta okkur við svona framkomu án þess að láta á það reyna hvort lagalegur skilningur sé fyrir því að við höfum verið beitt freklegum misrétti.

Þetta gæti mögulega haft síðan gríðarleg domino áhrif ef svo vel færi að dæmdist á okkar væng í málinu. Það eru eflaust margir stjörnulögfræðingarnir sem gætu fyrir dómstólum sýnt fram á hvernig fjöldinn allur af fyrirtækjum fóru í þrot í beinum tengslum við þetta mál, eða eru við það að fara í þrot.

Það er afar áríðandi að við samþykkjum að setja í þetta fjármagn.


mbl.is Mál verði höfðað gegn Bretum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tryggvi Jónsson segir fólk heimta blóð

Ég er alls ekki á því að það sé það sem að fólk hefur við þessa ráðningu að athuga, að fólk vilji bara sjá blóð Tryggva renna.

Málið snýst allt um trúverðugleika nú þegar að við höfum almennt misst trúnna á öllum ráðamönnum þjóðarinnar og vinagerningum þeirra í gegnum tíðina. Málið snýst um að vilja sjá nýja hugsun, nýja sýn og nýja tíma í íslenskri stjórnsýslu.

Tryggvi Jónsson er eflaust ágætis kall eins og amma myndi segja, en er ekki samt eðlilegt að ráða ekki fólk til starfa sem yfirmenn í ríkisbönkum sem er enn að sitja af sér fangelsisdóm?

Skilorð Tryggva er rétt nýbyrjað, væri ekki eðlilegt að bíða að minnsta kosti þangað til að hann hefur tekið út sína refsingu áður en hann er verðlaunaður með þægilegu starfi hjá ríkinu?


mbl.is Tryggvi: Kem ekki nálægt Baugi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábært að sjá að menn eru opnir fyrir fleiri hugmyndum en bara áli

Við eigum mikla óbeislaða orku íslendingar, það er ljóst. Að sama skapi er ljóst að nú ríður á að skapa meiri fjölbreyttni í útflutningstekjum. Í gegnum síðustu öld treystum við á fisk sem reyndist okkur afar mikilvæg lyftistöng til þess að ná að þróast í iðnríki frá bændasamfélagi. En fiskurinn nánast einvörðungu olli okkur einnig miklum sveiflum í vergri landsframleiðslu þar sem verð á honum á erlendum mörkuðum sveiflaðist þó nokkuð og þar með íslenska hagkerfið allt.

Þá var byrjað á álbræðslu á Íslandi og hefur það reynst þjóðinni góð viðbót, en aftur misstum við okkur í að vilja treysta um of á eina góða hugmynd, og nú þegar að verð á áli í heiminum hríðfellur er þjóðin við það að fara að borga á fullu með til dæmis Kárahnjúkavirkjun, og ekki er nú til mikið af auka reiðufé til að setja í það.

Við erum einnig búin að byggja upp öfluga ferðaþjónustu hér heima, en yfir vetrarmánuðina hefur hún hins vegar verið nánast alfarið bundinn við Reykjavík og dagsferðir þaðan og það er verkefni sem þarf raunverulega skoðun, hvernig stækka megi köku landsbyggðarinnar yfir vetrarmánuðina. Það koma til að mynda hingað þúsundir manna í hverjum mánuði yfir veturinn sem hafa þann hvata helstan að vilja sjá norðurljósin. Þessu fólki ætti að bjóða einhverja virkilega góða pakka til Vestfjarða eða norðurlands þar sem að norðurljósin sjást mun oftar en á suðurlandi.

Þó að ég vilji ekki vera sérstaklega að auglýsa störf Samfylkingarinnar að þá er hér hjá Össuri þó afar góður listi af hugmyndum sem hafa komið til hans frá fólkinu í landinu undanfarið: http://ossur.hexia.net/faces/blog/ossurentry.do?id=7871&entry=84592
Eins og þið sjáið þarna er augljóst að landinn býr yfir miklu af frábærum hugmyndum, það er ekki ríkisins að koma með þær hugmyndir, það er hins vegar ríkisins að skapa grundvöllin fyrir þær hugmyndir til þess að komast á legg. Að minnsta kosti svona fyrstu skrefin, síðan þurfa hugmyndirnar að sjálfsögðu að verða sjálfbærar hið allra fyrsta.

Danska aðferðin sem að ég hef minnst á hérna áður, byggir á því að "mismuna" fyrirtækjum eftir staðsetningu. Það er, þau fyrirtæki sem hyggja á uppbyggingu á landsbyggðinni fái frekar fyrirgreiðslu og aðgang að ódýru lánsfé, en þau fyrirtæki sem vilja byggja sig upp í þéttbýlinu. Það er ljóst að fyrir flestar hugmyndir er erfiðara um vik með uppbyggingu langt frá helstu þjónustukjörnum og ef við viljum byggja upp fjölbreytta byggð á Íslandi að þá er það verkefni sem virkilega verður að styðja við. Samkvæmt því sem mér hefur verið sagt virkar þetta svona um það bil þannig í Danmörku að sprotafyrirtæki utan þéttbýlis fá vaxtalaus lán, eða lán á afar lágum vöxtum, til nokkurra ára með það að markmiði að fyrirtækið verði að skila að minnsta kosti 3-5 störfum fyrir sitt byggðarlag innan einhvers tímaramma, kannski tveggja ára. Markmiðið er að fyrirtækið verði sjálfbært hið allra fyrsta að sjálfsögðu, það er jú tilgangurinn, að byggja frekari tekjur en ekki útgöld.

Það er til mikil orka í landinu og eitt stærsta málefni íslendinga er sjálfbær nýting hennar. Það er og verður eitt helsta baráttumál Íslandshreyfingarinnar að orkunni verði ekki sólundað, að orkuna verði að nýta íslendingum öllum til framdráttar, núlifandi og afkomendum okkar. Það er mikilvægt að fá hið allra fyrsta fram á borðið niðurstöður heildrænnar kortlagningar á orkuforða landsins og hvernig hann skuli skipulagður. Hingað til hefur nýtingin byggst of mikið á hugmyndinni "að nóg sé til", nú verðum við að fara að skoða hvernig heildarnýtingin þarf að vera.

Það koma hingað á síðuna ótt og títt talsmenn álvera sem vilja draga í efa þær tölur sem ég hef nefnt í sambandi við nýtingu orku landsins í áliðnaðinum. Það er rétt að nýting áliðnaðarins í dag er ekki "nema" rétt tæp 70% af virkjaðri orku landsins í dag. Tölurnar sem að ég hef verið að nefna eru hins vegar allt að 90% af heildar mögulegri orkunýtingu landsins. Það er að segja, miðað við þær núverandi hugmyndir sem uppi eru um fleiri álver var áætlað að á endanum væri það yfir 80%, líklega hátt í 90% af allri virkjanlegri orku landsins sem færi í áliðnaðinn.

Það hljóta allir að sjá að það að nýta um 70% af orkunni til aðeins eins iðnaðar er alveg jafn vitlaust fyrir samfélag eins og að hafa 70% af tekjunum bara af fiski eins og var lengst af á síðustu öld og reyndar mun hærra hlutfall en 70% lengst af.

Ég er félagsinnaður frjálshyggjumaður. Hægri grænn eins og ég hef kosið að skilgreina mig. Ég vill skapa sem mestar tekjur fyrir þjóðina af auðlindum okkar, en ólíkt mörgum skammtíma frjálshyggjumanninum, vil ég skapa sem mestar tekjur af auðlindum þjóðarinnar til framtíðar og þá helst um ókomna framtíð.

Mér finnst það einfaldlega mikið betri viðskiptahugmynd að skapa rekstur sem hefur aðgang að hráefni/auðlindum til langs tíma. Mjög langs tíma. Mun betri hugmynd en að tappa bara af í hvelli núna þeirri orku sem í boði er í t.d. háhita og klóra okkur svo bara í hausnum eftir 30-40 ár þegar við förum að velta því fyrir okkur, hvað nú?

Ættirðu stórt fyrirtæki sem byggi að miklum auðlindum og þyrfti að taka ákvörðun um hvort að ætti að búa til eins mikinn hagnað og mögulegt væri til skamms tíma núna eða hvort að ætti að byggja upp rekstur til framtíðar, hvort myndirðu velja?


mbl.is Opnað á aðra möguleika en Alcoa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Barack Obama - Yes we can!

Þarna sýnir Obama strax í upphafi hversu mikill styrkur er fólginn í því fyrir forseta Bandaríkjanna að vera ekki í skuld við olíu- og orkufélögin í Bandaríkjunum eftir dýra kosningabaráttu.

Hingað til hefur almennt verið talið að enginn kæmist alla leið án stórra framlaga þessara gömlu afla í Bandaríkjunum og væri sá hinn sami þar af leiðandi skuldbundinn þeim öflum að hluta til um leið og til valda væri komið.

Obama er hins vegar að virðist óháður. Það verður virkilega áhugavert að fylgjast með því hvort að hann, sem voldugasti maður heims, leiði þjóðirnar til nýrra hugmynda í umhverfismálum.


mbl.is Ný forysta í loftslagsmálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Álver eða ekki álver - það er spurningin ....

..... sem nú brennur á ýmsum. Þetta er búið að vera furðulega misvísandi fréttaflutningur í dag.

Hagur Hafnfirðinga er að mínu mati mun minni en Húsvíkinga og af tvennu illu myndi ég mun frekar vilja sjá stóriðju rísa fyrir norðan. Það eru augljóslega mun fleiri tækifæri til atvinnu hér á sv-horninu en eru í boði á na-horninu.

Ég myndi vilja leggja mikið á mig fái ég tækifæri til, til að búa því í haginn að frekari uppbygging verði á na-horni landsins. Við ókum þarna um í sumar fjölskyldan og satt best að segja fannst okkur ýmislegt þar orðið svo eyðilegt að við hreinlega undruðumst af hverju fólk héldi enn til á sumum þessara staða. Ég tek skýrt fram að ég ber fulla virðingu fyrir því fólki, þetta er fólk sem flest kaus annað hvort að berjast áfram fyrir sínu eða í sumum tilfellum treystir sér ekki til flutnings.

Stóri vandi landsbyggðarinnar verður hins vegar ekki leystur með einni reddingu, a.m.k. ekki í stóriðju. Stóri vandinn er sá að þegar að yngra fólkið er búið að fara annað til náms, oftast í höfuðborgina eða til Akureyrar, er svo lítið fyrir þau til að snúa aftur að. Fá tækifæri þar sem þörf er á menntun þeirra. Þá er þjónustan mun meiri þar sem fleiri búa saman, það er einfaldlega hagkvæmast þannig.

Af hverju ekki að opna tillögu banka fyrir nýsköpunar hugmyndir á na-horninu? Nú er aldeilis tækifærið til þess að láta í sér heyra, hefur sjaldan heyrst hærra í þeim sem leggja eitthvað jákvætt í umræðuna.

Ég myndi vilja horfa til dönsku aðferðarinnar við uppbyggingu utan þéttbýliskjarnanna. Ég mun taka það mál fyrir hjá Íslandshreyfingunni


mbl.is Engin ákvörðun um að fresta álveri á Bakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjánaleg umræða strax í gang - umhverfisráðherra kennt um áhrif af gríðarlegri lækkun álverðs í heiminum

Nú stíga fram vitringarnir sem berjast hvað ötulast fyrir álveri á Bakka, mest megnis Húsvíkingar og fólk úr Sjálfstæðisflokknum, sem virðist vera farinn að ganga undir nafninu Sjálftökuflokkurinn þessa dagana.

Þetta fólk heldur því nú fram að þessi ákvörðun Rio Tinto sé umhverfisráðherra að kenna vegna þess að hún kaus að fylgja lögum um umhverfismat fyrir framkvæmdina á Bakka. Mikið væri ég nú glaður ef stjórnsýslan okkar almennt kysi að fylgja lögum og láta fremur lögin en vini og vandamenn alltaf njóta vafans. Trúir þú því að fyrirtæki sem er tugfalt stærra en VLF Íslands taki ákvarðanir sínar út frá ákvörðunum einhvers ráðherra, ákvarðanar sem einungis seinkaði málinu um nokkra mánuði?

Þetta er einfaldlega rangt.

Það er rétt að einhverjar tekjur hefðu skapast nú þégar af vinnunni við rannsóknir fyrir norðan og hefði sveitarfélagið þar því mögulega notið einhvers góðs af þeim tekjum, en Rio Tinto hefði engu að síður alltaf dregið sig út úr framkvæmdinni á þessum tímapunkti, óháð því hverju hefði verið búið að kosta til.

Rio Tinto er að tapa stórfé á þessu ári vegna gríðarlegrar lækkunar á álverði það sem af er ári og vegna alþjóðlegrar fjármálakrísu er fjármagn til framkvæmda alls staðar í heiminum afar dýrt þessa dagana.

Finndist þér í alvöru spennandi núna að vera með hátt í 90% af allri virkjanlegri orku landsins skipulagða til nýtingar í áli? Núna þegar álverð hefur hrapað á árinu hafa tekjur þjóðarinnar lækkað gríðarlega af því.

Umhverfisráðherra barðist ekki gegn álveri, umhverfisráðherra fylgdi gildandi lögum og var úthrópuð fyrir. Væri nú munur ef stjórnsýslan almennt tæki sig á í þessum efnum, en léti ekki vini og vandamenn ganga fyrir.

Staðreyndin hins vegar er sú að þessi ákvörðun Rio Tinto hefur nákvæmlega ekkert með ákvörðun ráðherra að gera. Þessi ákvörðun Rio Tinto snýst um það og það eingöngu að álverð í heiminum hefur lækkað um hátt í 60% það sem af er þessu ári og fjármagn til framkvæmda er nánast ófáanlegt í heiminum í dag, eða að minnsta kosti gríðarlega dýrt.

Þeir munu liggja aftur á þröskuldinum hjá okkur um leið og álverð nær aftur nýjum hæðum, vittu til. Það vona ég að Guð gefi að við verðum þá búin að láta okkur detta eitthvað nýtt í hug til þess að nýta orkuna í. Algert hugmyndaleysi okkar allra er það sem mér finnst sorglegast í ferlinu.

Það verða engar stórframkvæmdir á Íslandi á næstunni.
Eftir sem að ég hef heyrt innan úr verkfræðigeiranum virðist vera útséð með að Orkuveitan eða Landsvirkjun fái nokkurs staðar fjármögnun á næstu misserum.

Innan verkfræðigeirans er reyndar stærsti óttinn núna sú raunverulega hætta sem er á því að Landsvirkjun verði komin í erlenda eigu skuldunauta sinna á næsta ári. Landsvirkjun þar endurfjármögnun lána sinna í febrúar skilst mér, lítur ekki vel út með að sú endurfjármögnun takist.

Já, nú hefði verið gott að vera búin að dreifa eggjunum í fleiri körfur. Ég tek undir með "þessu fólki" sem nú er úthrópað ásamt umhverfisráðherra fyrir baráttu sína fyrir aukinni nýsköpun og fjölbreyttara atvinnulífi í samfélaginu. Mikið væri nú dásamlegt ef að fleiri hefðu tekið undir með þeim og sett kraft í nýsköpun í stað þess að setja alla krafta í að berjast fyrir fleiri álverum.

Það vona ég að Guð gefi að við fáum einhverjar nýjar hugmyndir á árinu til nýsköpunar og uppbyggingar. Við höfum hingað til verið að sækja þær að virðist 30-40 ár aftur í tímann til austur Evrópu. Núna þegar ekki liggur á lausu fjármagn til stórframkvæmda þarf að styðja við "litlu" verkefnin. Verkefnin sem að jafnaði skila þó miðað við veltu flestum störfum og gjarnan mestum tekjum í þjóðarbúið.


mbl.is Hætt við stækkun í Straumsvík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband