Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2013

Svigrúmið ætlaða og umrædda - hvort viljum við styðja við velferðarkerfið eða auðmennina?

Þessi hugleiðing félaga míns á fésbókinni varð mér í dag tilefni til hugleiðingar:

"smá pólitík...mér finnst ótrúlega áhugavert að sjá ýmsar þær hugmyndir sem hafa komið fram í núverandi kosningabaráttu, mörg framboðanna og þá helst þau nýju hafa komið með virkilega áhugaverðar hugmyndir til lausnar ýmsum vanda hér, hugmyndir sem verður að taka alvarlega og til raunverulegrar íhugunar...annað sem mér hefur einnig fundist virkilega áhugavert og í raun líka alvarlegt að ekki sé búið að taka á er það svigrúm til ýmissa leiðréttinga sem m.a. forsvarsmenn Samfylkingar og VG segja að sé til staðar en hafa ekki nýtt sér í sinni stjórnartíð....það er mjög alvarlegt mál að nota ekki það svigrúm sem til er þegar ástand margra er jafn erfitt og það er í raun...þessar yfirlýsingar segja okkur einnig að forsvarsmenn núverandi ríkisstjórnar hafa ýtrekað verið að ljúga að okkur á kjörtímabilinu."

 Margir frambjóðendur hafa undanfarið rætt fjálglega um peningana sem að á að nota til hinna ýmsu aðgerða. "Svigrúmið" sem að nýta eigi til að lækka skuldir tímabundið (vegna þess að verðbólgan mun hækka við aðgerðina og hækka aftur lánin á skömmum tíma).

Staðreyndin er hins vegar sú að þetta svigrúm er ekki til og verður ekki til nema að fjölmargir hlutir gangi upp fyrst. Mér finnst það hins vegar vera í besta falli siðleysi og á mörkum óheiðarleika að vera að lofa þessum fjármunum á þessu stigi.

Ég svaraði félaga mínum: 

"Svirúmið er ekki til, heldur er mögulegt að það sé hægt að skapa það með uppkaupum á kröfum á afskriftum.
Á meðan að það er ekki í hendi vill Samfylkingin ekki lofa neinu út á það - mér finnst það heiðarleg nálgun.
Set stórt spurningamerki við það að v
era að lofa einhverju inn í hagkerfið án þess að sjá hvort að það gangi yfir höfuð upp.

Til þess að fléttan gangi upp þarf:
1. Fjármögnun fyrir uppkaupum
2. Samþykki kröfuhafa á afslætti (afskriftum)
3. Kaupanda að hlut ríkisins í bönkunum

Full margt sem getur klikkað þarna til þess að ég myndi lofa einhverju án þess að sjá fyrir endann á ferlinu"

 

Auk þessara vangavelta stendur síðan eftir umræðan um í hvað eigi að nota fjármagnið ef svigrúmið myndast. Hvaða leið sé þjóðhagslega hagkvæmust. Það er alls ekki sjálfgefið að nýta peningana til þess að styðja enn betur við þá sem best standa, eins og tillögur Framsóknarflokksins munu í raun gera.

Ef þú þarft að velja á milli þess t.d. að halda opnum bráðadeildum á Landsspítalanum eða að niðurgreiða lán auðmanna - hvað myndirðu velja?


Afskriftir fyrir þá sem best hafa það?

Framsókn hey-millanna 

Sá þessi yfirskrift og fannst hún bæði fyndin og viðeigandi. Bið þá Framsóknarmenn sem að ég þekki til og ber virðingu fyrir afsökunar á þessu glensi. Finnst þó mikið til í þessu af nokkrum ástæðum.

Hey er skírskotun í bændurna og millarnir þeir sem að flokkurinn hefur skapað. Það er í gegnum klíkuskap og þá með í raun svikum við þjóðina, fært auðlindir og ríkisfyrirtæki í fangið á þeim. 

En þetta er líka kaldhæðnislega rétt þegar það er sett í samhengi við það hverjum almennar skuldaleiðréttingar muni nýtast best. Það er nefnilega enginn jöfnuður eða raunverulegt réttlæti til handa almenningi sem um er að ræða. Seðlabankinn gerði góða faglega úttekt á þessu og komst að þeirri niðurstöðu að langstærsti hluti fjármagnsins færi til þeirra sem yfirburða best standa og það á kostnað allra. Jú, á kostnað allra!
Sjá bls. 91 í skýrslu Seðlabankans hér  sem og góða umfjöllun Vilhjálms Þorsteinssonar um sama mál hér.

Svigrúmið sem að skapast mögulega við uppkaup og afskriftir skulda er nefnilega bara hægt að nýta einu sinni. Það er okkar að velja hvort að við viljum að það komi til almennings alls í gegnum ríkissjóð - eða hvort að stærstur hluti fjármagnsins renni í vasa auðmanna. Bestu vina aðal. 

Ég er búinn að tala við fjölmarga vini og kunningja undanfarnar vikur um þessi mál. Eðlilega, þetta liggur flestum þungt á hjarta. Mér finnst það hins vegar gríðarlega vont að flestir þeir sem ég tala við gera sér enga grein fyrir því að þessi leið sem Framsóknarflokkurinn boðar (að setja í nefnd reyndar) mun kosta flest okkar mun meira en hún skilar.

Er það ástæðan fyrir því að þú ætlar að kjósa Framsókn? (Ef þú ert í þeim hópi)

Ég er ekki til í að skerða meira þjónustu við aldraða, heilbrigðiskerfið eða menntamálin vegna þessa. Hvar ert þú til í að skera niður vegna kostnaðaraukans fyrir ríkissjóð?

Eigum við ekki frekar að skapa öllum jöfn tækifæri en sama rétt fyrir alla?

equality-and-justice

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband