Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2010

Ég var einn starfsmanna Sleðaleigunnar þarna í gær.

Vil byrja á því að þakka björgunarsveitarfólkinu sem þarna kom í gær innilega fyrir gott starf. Það var sambland góðs útbúnaðar og lukku sem þarna spilaði saman í gær og varð þess valdandi að ekki fór verr í þessu ömurlega óhappi. Konan brást sem betur fer við nákvæmlega eins og fyrir hana var lagt og umfram það jafnvel. Við leggjum á það mjög sterka áherslu við fólk sem fer þarna um með okkur að verði það af einhverjum ástæðum viðskila við hópinn, stöðvi það samstundis og bíði. Við þekkjum hvar við vorum á ferðinni og getum því rakið GPS ferilinn okkar til baka sömuleið og fundið viðkomandi. Fari fólk af stað getur tekið afar langan tíma að finna það. Konan brást algjörlega rétt við og umfram það, þegar að hún gerði þeim skjól úr vélsleðanum.

Ég tek heilshugar undir þau orð Sýslumanns að að sjálfsögðu ber að rannsaka þetta mál, eins og öll svona mál eru rannsökuð. Það er eðlilegt ferli máls og á að gera allt til að fá þetta á hreint.

En sem einn starfsmanna af vettvangi þarna í gær og vegna dómhörku bloggara heiman frá sér úr hlýjunni, vil ég koma eftirfarandi á framfæri.

Við allir sem þarna vorum að störfum í gær erum þaulreyndir jeppa- og sleðaleiðsögumenn á Langjökli. Við höfum allir mikla reynslu af störfum þarna, þekkjum landslag svæðisis mjög vel og að sama skapi hvernig veðrið þarna hagar sér almennt. Það var spáð sterkum blæstri á norðurlandi seinni partinn um daginn í gær morgun. Sterkur vindur á norðurlandi hefur almennt ekki stórkostleg áhrif á skyggni syðst á Langjökli nema að það sé þeim mun meiri vindstyrkur. En ef svo er að þá kemur það þar yfir mun seinna en það kemur yfir fyrir norðan. Skyggni var gott þegar við lögðum af stað og framan af. Þegar við sáum að það var að versna var hópnum samstundis snúið við og farið með þau niður að jökuljaðrinum þar sem veðrið var enn í besta lagi og heldur sér almennt mun betra skyggni þar í þessari vindátt. Það átti hins vegar því miður ekki við í gær og þetta ömurlega atvik átti sér stað þegar að skyggnið hvarf okkur þar algerlega líka.

Fyrir þá sem hafa gagnrýnt það að við höfum farið af stað og benda á að samkvæmt veðurspám hafi þetta verið fyrirsjáanlegt að þá vil ég upplýsa ykkur um það að við notumst almennt mest við veðurspár af norsku stofunni http://yr.no. Þetta gerum við vegna þess að reynslan okkar er að þeir hafa staðið sig mun betur í spám á þessu svæði heldur en íslenskar spár. Líklega fyrst og fremst vegna þess að þeir eru með fjöldamargar veðurstöðvar við jökulinn. Vegna reynslu okkar þar af notum við norsku veðurstofuna mun meira en þá íslensku. Það hins vegar brást því miður spáin þeirra í gær, en hún sagði í gærmorgun að vindurinn yrði mestur um 12 m/sekúndu á jöklinum þarna seinnipartinn í gær og þá verst norðan til. Miðað við okkar reynslu bendir það ekki til slæms skyggnis þarna sunnan til.

Við sem þarna störfum fast eða reglulega, höfum afar mikla reynslu af ferðum og aðstæðum um jökul. Eru flestir sem starfa við ferðaþjónustu þarna í föstu starfi, 5-6 daga í viku þarna upp frá og þekkja því aðstæður gríðarlega vel. Förum með hundruði manns á jökul þarna í hverri viku og er þetta fyrsta tilfelli sem upp kemur í yfir 20 ár, þrátt fyrir að veður geti verið afar misjöfn þarna uppfrá. Með hópnum í gær vorum við fjórir leiðsögumenn. Einn sem leiddi, ég aftastur þegar þarna var komið ogtveir til viðbótar sem fylgdu á hvorri hlið hópsins. Þegar veðrið fór að versna, var hópnum þjappað saman í að keyra 3-4 sleðar hlið við hlið til þess að fólk væri þétt saman og við hefðum betri yfirsýn yfir hópinn. Aðstæður urðu hins vegar því miður gríðarlega slæmar þarna og skyggnið þegar minnst nánast ekkert. Við gerðum okkar allra besta við skelfilega erfiðar aðstæður. Eftir á að hyggja er ekki gott að sjá að við hefðum getað brugðist betur við en stjórnendur hópsins fyrirlögðu, eftir að þetta ofsaveður skall svo skyndilega yfir þarna.

Þetta var ömurlegt óhapp í gær, en óhapp engu að síður. Enginn með reynslu af þessum aðstæðum, sá fyrir út frá aðstæðum eða veðurspám hvernig þarna yrði.

Ég þakka Guði fyrir hversu vel þetta fór. Ég veit sem er að aðstæður þarna í gær voru við upphaf ferða okkur ekki óeðlilegar eða forsjárverðar. En veðrið skall á mun harðar en við gátum gert okkur grein fyrir miðað við spár og okkar reynslu.

 


mbl.is Sýslumaður rannsakar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband