Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

Fréttir af ótímabærum dauðdaga Borgarahreyfingarinnar eru stórlega ýktar

Setti þetta inn sem athugasemd hjá Heiðu vinkonu minni hér eftir athugasemd einhvers Gríms þar, og finnst þetta eiga að koma fram hér líka eftir umræðuna undanfarna daga. Tel reyndar líklegt að Grímur þessi sé með undirritun að vísa í grímurnar sem svartstakkarnir báru í janúar mótmælunum.

Sæl öll og Heiða :)

Ég ætla svo sem ekki að leggja mikið inn í þessa umræðu en fróuðu egóinu mínu fannst ekki hægt að sitja hjá athugasemdinni hans Gríms án þess að leggja orð í belg.

Það er rétt hjá Grím að ég hef fullan áhuga á því að taka sæti sem þingmaður. Eins og Heiða bendir á að þá lýsti það sér best í því að ég bauð mig fram í 2. sæti í Reykjavík suður.

Tilgangurinn með því að taka þátt í stofnun Borgarahreyfingarinnar, eftir að hafa verið þar á undan að "fróa egóinu" mínu (svo ég vitni í orð Gríms) bálreiður á Austurvelli í einhverjar vikur, var viljinn til að koma að því að koma á breytingum. Sá vilji minn hefur ekkert breyst, jafnvel ekki þrátt fyrir þá samskiptaörðugleika sem að hreyfingin hefur staðið í undnafarið.

Hvers lags bjáni væri það sem byði sig fram til Alþingis en hefði ekki áhuga á því að sitja á þingi?

Fróuðu egóinu mínu sýnist einfalt að Grímur sé bara enn eitt "fólkið" sem vill stýra því hvernig allir eigi að vera. Eins og Heiða bendir á (takk Heiða :), hef ég frá fyrsta fundi hreyfingarinnar einfaldlega fylgt minni sannfæringu í öllum málum, án þess að vera nokkurn tímann hluti af einum eða neinum hópi innan hreyfingarinnar. Ekki vegna þess að mér líki ekki við þá hópa, heldur vegna þess að fyrir mér er Borgarahreyfingin einn stór hópur sem þarf að læra að hrista sig saman, stíga fram og láta til sín taka.

Þetta sumarþing er búið að vera undarlegur tími. Við setningu haustþingsins vona ég svo sannarlega að við í hreyfingunni, getum farið að einbeita okkur að því sem eru okkar helstu áherslu mál, það er lýðræðisumbætur og uppstokkun flokks- og þingræðis. Við viljum draga úr valdi embættismannakerfisins. Við viljum lýðræði - ekki kjaftæði eins og einhver komst svo vel að orði.

Ég neita því líka alfarið að stjórn hreyfingarinnar (sem ég á sæti í) hafi á nokkurn hátt reynt að stjórna því hvernig þingmennirnir okkar kjósa um einstök mál. Stjórnin hefur fyrst og fremst verið að biðla til þingmannanna um að fá að vera betur inni í málum og ég hef fulla trú á því að þau samskipti séu nú að slípast vel til.

Allar yfirlýsingar um ótímabæran dauða hreyfingarinnar eru stórlega ýktar.

Að lokum minni ég alla á samtöðufundinn á Austurvelli á eftir. Við verðum að vera sýnileg til þess að ráðamenn taki okkur alvarleg. Þeir liggja ekki allir á blogginu þú skilur.
Sjá nánar hér: http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/08/13/samstodufundur_vegna_icesave/


mbl.is Vilja Þráin af þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarsamstarfið hangir á bláþræði vegna andspyrnuhreyfingarinnar innan VG

Það er verulega jákvætt að vita til þess að innan Vinstri hreyfingarinnar Græns framboðs sé starfandi fólk sem fylgir eigin sannfæringu fyrir þjóðarhag, fram yfir flokkslínur. Ögmundur, Guðfríður Lilja og Lilja Mósesdóttir hafa hug og kjark til þess að taka afstöðu til málsins byggða á því hvað þau raunverulega telja best fyrir þjóðina alla, og því ætti að fagna sérstaklega en ekki ráðast að þeim fyrir vikið.

Í fréttum gærdagsins var stöðugt klifað á því að gangi ICESAVE frumvarpið ekki í gegn, sé það væntanlega endir stjórnarsamstarfsins. Aðspurð tekur Jóhanna Sigurðardóttir ekki þar af neinn efa, heldur bætir fremur í ef eitthvað er.

Það er mikið af fullyrðingum í umræðunni og margir stjórnarliðar demba stöðugt yfir okkur, ásamt Indriða H. Þorlákssyni, staðhæfingum um hitt og þetta sem gæti gerst ef ICESAVE málið fari ekki í gegnum þingið. Flestum þeim fullyrðingum er afar ágætlega svarað á bloggi Frosta Sigurjónssonar frá 8. ágúst síðastliðnum, og ég mæli eindregið með því að allir taki sér tíma til þess að lesa færsluna yfir.

Hana á finna hér: http://vidhorf.blog.is/blog/vidhorf/entry/927248/ 


mbl.is Stjórnarsamstarf undir Ögmundi komið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nokkrar góðar skyndilausnir við gríðarlegu þunglyndisálagi á íslensku þjóðinni

1. Uppgjör við hrunið.
Sökudólgar séu yfirheyrðir og fangelsaðir. Að samfélagið fái séð að það sé raunverulegur vilji yfirvalda að uppgjör fari fram. Það verður að gera betur en að láta líða allt að 12 mánuði án þess að grunaðir séu svo mikið sem yfirheyrðir.

2. Kraftmikil hugmyndavinna með aðkomu mjög breiðs hóps fari þegar af stað.
Hér hefur þegar sést vísir að mörgum góðum hugmyndum, en betur má ef duga skal og fjölmargir sem að maður hittir á förnum vegi hafa ekki hugmynd um hvaða möguleikar eru í boði.
Hér þarf sem sagt kraftmikið starf ásamt góðri kynningu á því.

3. Mjög aukið streymi upplýsinga.
Stór hluti af ótta þjóðarinnar er að vita ekki hvað er í rauninni um að vera og að geta ekki lengur treyst ráðamönnum til þess að segja okkur satt um málið. Mögulega hefðum við ekki átt að treysta þeim áður heldur, en nú er runnið upp fyrir okkur að traust verður að ávinnast, og það sem fyrst.

Það hefur verið mikið fjallað undanfarið um erfiðleika í samskiptum innan Borgarahreyfingarinnar. Hreyfingin er vissulega að ganga í gegnum örðugleika, en í engu stærri en hópar fólks, þar með taldir stjórnmálaflokkar og hreyfingar, ganga reglulega í gegnum. Stóri munurinn er sá að við erum að ganga í gegnum þetta að langstærstum hluta fyrir opnum tjöldum og því eðlilegt að mörgum þyki það skrítið á að horfa. Borgarahreyfingin ætlar sér hins vegar að halda áfram með öllum mögulegum leiðum, að auka gegnsæi og upplýsingaflæði.

Við gáfum okkur út fyrir að vilja hafa hlutina uppi á borðinu, það ætlum við okkur að gera áfram.


mbl.is Gífurlegt þunglyndisálag á íslensku þjóðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fundargerð félagsfundar Borgarahreyfingarinnar 6. ágúst 2009 - mun birtast á vefsíðu hreyfingarinnar hið allra fyrsta

Félagsfundur Borgarahreyfingarinnar    Tryggvagötu 17 – 101 Reykjavík

Fimmtudagur klukkan 20:00

Boðuð dagskrá:

 

1. Kosning fundarstjóra og ritara

2. Skýrsla stjórnar - Fjallað verður um samskiptaörðugleika milli þinghóps

og stjórnar og klofning þinghóps

3. Skýrsla þinghóps

4. Skýrslur vinnuhópa

5. Önnur mál

1.      Kosning fundastjóra og ritara

 Margrét Rósa Sigurðardóttir kjörin fundarstjóri og Baldvin Jónsson ritari.

 

2.     Baldvin les skýrslu stjórnar og umræður eru opnaðar um hana.

Skýrsla stjórnar:

Efni skýrslu stjórnar að  þessu sinni er ætlað að varpa ljósi á samstarfsörðugleika milli stjórnar og þingmanna hreyfingarinnar með það fyrir augum að ræða málin á yfirvegaðan hátt og auglýsa eftir tillögum félaga um úrbætur. 

Starf stjórnar hefur því miður einkennst um of af því að bregðast við ytri aðstæðum frá síðasta félagafundi. Ljóst má vera að Borgarahreyfingin er með klofinn þinghóp, Þráin Bertelesson annars vegar og hin þrjú hins vegar. Kemur það til vegna ESB viðsnúningsins sem flest okkar hafa eflaust sterkar skoðanir á. Stjórnin áleit það skyldu sína að hlutast til og lagði fram 2 tillögur fyrir þinghópinn;  

1. Að þinghópurinn velji sér nýjan þingflokksformann.
2. Að það verði aldrei færri en einn varamaður inni á þingi fyrir hreyfinguna.

 Stjórnin taldi tillögurnar vera í anda þeirra lýðræðisbóta sem hreyfingin boðaði. Skýringar með tillögunum voru þær að koma ætti í veg fyrir að þinghópurinn einangrist meira frá hreyfingunni en orðið er og auka lýðræðislegar ákvarðanatökur. Einnig að tryggja að fleiri raddir innan hreyfingarinnar heyrðust inni á Alþingi. Auk þess vonaðist stjórnin til að auka mætti einingu innan þinghópsins með þessum breytingum  

Stjórnin hefur enn ekki fengið formlegt svar frá þinghópnum þrátt fyrir ítrekanir en einstakir þingmenn hafa ekki tekið tillögunum vel. Meirihluta stjórnar er farið að verða það ljóst að vilji þinghóps til að starfa með henni er takmarkaður, hlutverk stjórnar í augum þinghóps er ekki að skipta sér að störfum þingmanna, heldur að skrifa greinar og halda félagsstarfinu gangandi. Skilningur stjórnar á hlutverki sínu er annar. Stjórnin er lýðræðislega kosin af meðlimum hreyfingarinnar og fer með umboð þeirra milli aðalfunda. Ljóst er að samþykktir félagsins eru ekki ítarlegar, en það er engu að síður ljóst að stjórnin fer með vald aðalfundar hvað varðar skipulag og stefnu hreyfingarinnar. Þetta hefur þinghópurinn ákveðið að hundsa og hefur starf hans sem snýr að hreyfingunni einkenst af því að skottið sé að reyna að hrista búkinn. 

Ítrekað hefur stjórnin reynt að bæta samskiptaleiðir við þinghópinn en með takmörkuðum árangri. Nú er svo komið að þinghópur handvelur einstaklinga til að eiga samskipti við og ber hópurinn það fyrir sig að það sé einhver í stjórninni að leka upplýsingum í fjölmiðla. Við nánari athugun taldi stjórnin hins vegar að ekki hefði neinn leki átt sér stað því þá  hefði tillaga stjórnar eflaust verið birt í fjölmiðlum nú þegar.  

Með vísan til ofangreinds vill stjórn Borgarahreyfingarinnar koma eftirfarandi á framfæri við félagsmenn: 
  
Það er skilningur stjórnar að þinghópur Borgarahreyfingarinnar sé hluti af Borgarahreyfingunni og skuli því starfa í samræmi við samþykktir hreyfingarinnar og í nánu samráði við félagsmenn og stjórn. Stjórnin getur ekki skv. umboði sínu sætt sig við að þinghópurinn fari þvert á yfirlýsta stefnu hreyfingarinnar án þess að náið samráð sé haft við stjórn og félagsfundi. Enn fremur gerir stjórnin þá kröfu til þingmanna að þeir láti persónulegar erjur ekki skaða orðspor hreyfingarinnar eða spilla fyrir því nauðsynlega starfi sem þarf að fara fram með aðkomu sem flestra félagsmanna.



Heiða B. Heiðarsdóttir leggur fram þá tillögu að skýrsla stjórnar verði gerð opinber öllum félagsmönnum á heimasíðu hreyfingarinnar.

Fram komu athugasemdir um að ekki heyrðist frá stjórninni í formi fréttatilkynninga.
Stjórnarliðar útskýrðu hvernig stjórnin hefur starfað og hvernig störf stjórnar hafa fyrst og fremst falist í að bregðast við óvæntum uppákomum undanfarið.

Einnig komu fram kröftugar athugasemdir við að fundargerðir stjórnar hreyfingarinnar væru ekki komnar á heimasíðu hreyfingarinnar eins og stefnt er að.

Heiða B. Heiðarsdóttir leggur fyrir fundinn þá tillögu að fundargerðir stjórnarfunda verði birtar ósamþykktar á netinu og að athugasemdir við hana verði opinberar.

Friðrik Þór Guðmundsson leggur tillögu fyrir fundinn:

„Á síðasta auka-aðalfundi var lögð fram tillaga um skipulag Borgarahreyfingarinnar til bráðabirgða, fram að Aðalfundi í haust. Tillögunni var vísað frá sem óþarfri í ljósi aukins sáttavilja. Það hefur ekki gengið eftir.

Félagsfundur beinir því til stjórnar og þinghóps að starfa samkvæmt tillögu þessari fram að aðalfundi í haust.“

Ingólfur Hermannsson leggur til eftirfarandi tillögu um að fundurinn sendi frá sér eftirfarandi:
„Fundurinn lýsir yfir vonbrigðum með að þingmennirnir hafi ekki séð sér fært að mæta á félagsfundinn.“

Gunnar Sigurðsson leggur fram þá tillögu að fram komi harðorð ályktun um að þingmenn séu einungis framlenging hreyfingarinnar og að þeim beri að starfa sem slíkir.

Hjörtur Hjartarson leggur fram að fundurinn álykti samkvæmt eftirfarandi:
„Félagsfundur Borgarahreyfingarinnar, haldinn í Reykjavík 6. ágúst 2009, harmar þann skaða sem persónulegar deilur meðal stjórnarmanna og þinghóps hafa valdið hreyfingunni. Þess er krafist að þingmenn og stjórnarmenn geri út um þessar deilur þannig að ekki hljótist af frekari skaði og einbeiti sér að því að hrinda stefnumálum Borgarahreyfingarinnar í framkvæmd. Til þess voru þeir kjörnir:“

Jón Kr. leggur fram þá tillögu að tillögurnar  sem fram hafa komið verði að einhverju leyti sameinaðar og teknar fyrir sem sérstakur dagskrárliður.

Þorsteinn Barðason leggur fram þá tillögu að félagsfundurinn lýsi yfir fullum stuðningi við þingflokk hreyfingarinnar.

Sævar Finnbogason og Margrét Rósa Sigurðardóttir leggja fram eftirfarandi tillögu:
„Stjórn tilnefnir 2ja manna sáttanefnd sem hefur samband við þinghóp og reynir að koma á sáttum:“

Fundarhlé.

Lagðar fyrir fram komnar tillögur til fundarins. Fundurinn tekur afstöðu til þeirra í tímaröð að því undanskildu að tillaga Jóns Kr. er tekin fyrir fyrst þar sem hún gengur öðrum framar.

Jón Kr. dregur tillögu sína til baka og aðrar tillögur eru teknar fyrir í tímaröð, tillögur Heiðu sameinaðar í eina.

Heiða B. Heiðarsdóttir leggur fram þá tillögu að skýrsla stjórnar verði gerð opinber öllum félagsmönnum á heimasíðu hreyfingarinnar. Að fundargerðir stjórnarfunda verði birtar ósamþykktar á netinu og að athugasemdir við þær verði opinberar, þar með talið fundir stjórnar og þinghóps.

Eftir umræðu kom fram breytingartillaga um að tillagan sé eftirhljóðandi:
„Að skýrsla stjórnar á félagsfundum verði gerð opinber öllum félagsmönnum á heimasíðu hreyfingarinnar. Að fundargerðir stjórnarfunda, þar með talið fundir stjórnar og þinghóps, verði birtar á netinu strax að fundi loknum og að athugasemdir við þær verði opinberar. Að stjórnarfundir séu hljóðritaðir og settir á heimasíðu hreyfingarinnar innan viku frá fundi.“

Tillagan er samþykkt samhljóða.

 

Tillaga Friðriks Þórs var tekin fyrir næst.
Eftir umræður var hún samþykkt samhljóða svohljóðandi:
„Félagsfundur beinir því til stjórnar og þinghóps að starfa samkvæmt tillögu þessari fram að aðalfundi í haust: „Á fundum stjórnar hafa þingmenn, framkvæmdastjóri hreyfingarinnar og starfsmaður þinghópsins setu- og tillögurétt og málfrelsi, en greiða ekki atkvæði. Almennir félagsmenn hafa seturétt á stjórnarfundum sem áheyrnarfulltrúar. Fulltrúar stórnar hreyfingarinnar hafa seturétt sem áheyrnarfulltrúar á þeim þinghópsfundum sem varaþingmenn eru boðaðir til.“

Tillaga Ingólfs Hermannssonar var samþykkt samhljóða.

Eftir umræður var samþykkt að tillaga Gunnars Sigurðssonar yrði borin fram sameiginlega með tillögu Hjartar Hjartarssonar.

Tillaga Hjartar Hjartarssonar var samþykkt samhljóða.


Tillaga Þorsteins var felld með meirihluta greiddra atkvæða.

Tillaga Sævars og Margrétar Rósu var borin upp næst.
Eftir umræður var hún samþykkt samhljóma svohljóðandi:
„Félagsfundur tilnefnir nefnd til þess að vinna að sáttum innan þinghópsins.“

3.     Ritari les bréf frá Margréti Tryggvadóttur þingmanns.

Bréf Margrétar:

Tilkynning til félagsfundar Borgarahreyfingarinnar þann 6. ágúst 2009.

 

Kæru félagar,

 

Í hádeginu í dag vorum við sem skipum þinghóp Borgarahreyfingarinnar boðuð á félagsfund nú í kvöld til að ræða klofning þinghópsins. Ég hef reynt að hafa það sem forgangsatriði að sækja félagsfundi Borgarahreyfingarinnar þótt ég hafi ekki komist á þá alla. Það sem hér á hins vegar að ræða eru yfirlýsingar Þráins Berteilssonar í fjölmiðlum um að hann vilji ekki tala við okkur hin sem skipum þinghópinn með honum. Ég get engan veginn tekið að mér að svara fyrir hann og hans yfirlýsingar, hann verður að sjá um það sjálfur. Því tók ég þá ákvörðun að koma ekki á fundinn í kvöld, auk þess sem ég er ósátt við þann stutta fyrirvara sem ég fékk.

 

Ég get hins vegar greint frá minni hlið málsins. Forsöguna þekkja flestir en Þráinn var og er ósáttur við gjörning okkar við ESB atkvæðagreiðsluna. Það er hins vegar ekki rétt að við höfum ráðist í þá aðgerð án samráðs við hann. Við ræddum við hann áður en við létum til skarar skríða og hann gerði okkur ljóst að hann vildi ekki taka þátt í þessu og hélt ég að hann skyldi fullkomnlega á hverju afstaða okkar byggðist og virti ákvörðun okkar. Samskiptin við hann þá daga sem hasarinn stóð yfir og fram yfir atkvæðagreiðsluna voru öll eins og best verður á kosið. Þráinn fór svo í útvarpsviðtal eftir atkvæðagreiðsluna þar sem hann sagðist ekki vita hvort hann hyggðist starfa með hinum þingmönnum Borgarahreyfingarinnar áfram en ætlaði að taka sér frest fram yfir helgi til að melta það. Mér fannst meira en sjálfsagt að gefa honum þann tíma. Sá tími hefur dregist á langinn.

 

Þráinn Bertelsson hefur verið boðaður á alla þinghópsfundi okkar síðan atkvæðagreiðslan fór fram en ekki mætt á einn einasta. Hann svaraði fundarboði á þann fyrsta, á mánudaginn 20. júlí, að hann myndi ekki mæta á þinghópsfundi en önnur svör hafa alla vega ekki borist mér. Við höfum ítrekað beðið um fundi með honum, sum okkar hafa hringt en aðrir sent bréf. Hann hefur aðeins einu sinni talað við okkur öll þrjú saman síðan þetta var en það var í matsal þar sem við báðum hann að ræða við okkur þingmáls sem kemur til kasta allsherjarnefndar en þar neitaði hann að ræða málið við okkur og var stuttur í spuna.

 

Mér þykir afar vænt um Þráinn og þætti miður ef hann sæi sér ekki fært að starfa með okkur. Ég get auðvitað bara talað fyrir sjálfa mig en að mínu mati er Þráinn meira en velkominn í samstarfið á nýjan leik. Þá þykir mér miður að lesa umræðuna og þá útreið sem hann fær t.d. á Eyjunni í dag og ég vona að félagar í hreyfingunni hafi ekki tekið þátt í þeim ærumeiðingum.

 

Verst þykir mér þó að þetta ósætti skuli taka frá okkur tíma og orku þegar svo margt annað skiptir svo miklu meira máli. Nú vofir Icesave yfir okkur og öllu máli skiptir að koma því máli í einhvern farveg sem við getum lifað við sem þjóð. Þótt málið sé enn ekki til lykta leitt þá held ég að það dyljist engum að þar hafi Borgarahreyfingin, þingmenn sem grasrót, þegar unnið þrekvirki þótt deila megi um sumar aðferðirnar. Við skulum ekki gleyma því að þessum “glæsilega” samningi átti að lauma í gegnum þingið án þess að þingmenn fengju færi á að kynna sér hann og meiri hluti þingheims var sáttur við það vinnulag á þeim tíma.

 

Bestu kveðjur,

Margrét Tryggvadóttir


Fram kemur dagskrárbreytingatillaga sem er svohljóðandi:
„Gert verði hlé á fundinum og kosin strax sáttanefnd samkvæmt framkominni tillögu þar að hljóðandi.“

Tillagan er samþykkt samhljóða.



4.     Kjör í sáttanefnd.
Tilnefnd eru:
Þórður Björn Sigurðsson
Ragnheiður Fossdal
Birgir Skúlason
Baldvin Björgvinsson
Ingólfur Hermannsson
Hörður Ingvaldsson

Tilnefningar eru samþykktar samhljóða. Tilnefndir fá tækifæri til morgundagsins til þess að svara til um hvort að þeir gefi kost á sér.

5.     Skýrslur vinnuhópa
Fram komu engar skýrslur.

6.     Önnur mál.
Baldvin Björgvinsson kemur á framfæri athugasemdum um aðgerðarleysi hreyfingarinnar gagnvart brostnum yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar um „Skjaldborg heimilanna“ sem og stefnu hreyfingarinnar í þeim málaflokki.

Sævar Finnbogason leggur fram tillögu um að haldnir verði félagsfundir hálfsmánaðarlega sem verði þemafundir.
Fram kemur tillaga um að fjalla um þessa tillögu á félagsfundi síðar.
Samþykkt samhljóða.

Baldvin Jónsson leggur fram tillögu um að fundurinn samþykki og sendi út, ásamt ályktun um fréttir dagsins, ályktun félagsfundarins vegna aðgerðarleysis í þágu skulda heimilanna.
Samþykkt samhljóða.

Jón Kr. beinir því til stjórnar að kynna það fyrir félagsmönnum að kominn sé á fastur fundartími, 1. og 3. fimmtudag hvers mánaðar, fyrir félagsfundi.

7.     Framsetning ályktana fundarins.
„Félagsfundur Borgarahreyfingarinnar, haldinn í Reykjavík 6. ágúst 2009, harmar þann skaða sem persónulegar deilur meðal stjórnarmanna og þinghóps hafa valdið hreyfingunni. Þess er krafist að þingmenn og stjórnarmenn geri út um þessar deilur þannig að ekki hljótist af frekari skaði og einbeiti sér að því að hrinda stefnumálum Borgarahreyfingarinnar í framkvæmd. Til þess voru þeir kjörnir:
Þingmenn eru einungis framlenging hreyfingarinnar og þeim ber að starfa sem slíkir.
Fundurinn lýsir yfir vonbrigðum með að þingmenn hafi ekki séð sér fært að mæta á félagsfundinn.

Fundurinn vill að auki koma fram eftirfarandi yfirlýsingu:
Borgarahreyfingin lýsir vanþóknun sinni á framgöngu ríkisstjórnar Íslands gagnvart skuldsettum heimilum í landinu. Ríkisstjórnin hefur gengið á bak orða sinna um að slá skjaldborg um heimilin, til að þóknast Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. “


mbl.is Harmar persónulegar deilur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

HVET ALLA SEM MÖGULEGA GETA TIL ÞESS AÐ FLYTJA VIÐSKIPTI SÍN FRÁ KAUPÞING - FÁI ÞEIR LÖGBANNSBEIÐNINA SAMÞYKKTA

Þetta er ömurleg tilraun fjárglæframanna til þess að fela "blóði" drifna slóð sína. Þjóðin á rétt á því að þessar upplýsingar berist sem víðast, upplýsingar sem sýna okkur svart á hvítu hvert viðskiptasiðferði þessara manna er.

Ert þú tilbúin/n til þess að taka á þig verulega aukna skattbyrði til þess að standa undir skuldum þessa fólks?

Endilega dreifið þessum hlekk sem víðast. Við verðum að halda upplýsingunum lifandi, svona ef ske kynni að dómskerfið stórgallaða hér heima falli í þá gryfju að samþykkja lögbannið.

http://www.wikileaks.com/wiki/Financial_collapse:_Confidential_exposure_analysis_of_205_companies_each_owing_above_EUR45M_to_Icelandic_bank_Kaupthing,_26_Sep_2008

 

 


mbl.is Kaupþing fer fram á lögbann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband