Trúir þú því að Kjalvegur sé umhverfisvænn??

Ómar (ásamt mörgum öðrum) hefur þegar bent á að það væri fyrir minna fé og án þess að hreinlega gefa einkaaðilum Kjalveg, hægt að stytta núverandi veg norður svo að ekki myndi muna nema um 20 km. frá styttingunni sem Kjalvegur gæfi.

Ég skil vel að norðanmenn langi að vera eitthvað fljótari í bæinn, en myndu Akureyringar samþykkja að setja veg í gegnum skrúðgarðinn af því að það myndi stytta svo gríðarlega vegalengdina til "hvert sem er" og draga þar með úr útblæstri Co2??

Það eru margir þættir sem spila saman í umhverfismálum. Losun koltvíoxíðs og flúors eru vissulega stór mál, en það að leyfa náttúrunni og hálendinu að vera einmitt það, náttúra og hálendi en ekki autobahn sem sker í sundur þessa dásamlegu ferðamannaparadís, er líka afar stór þáttur í umhverfismálum.

Ég er ekki öfgaverndarsinni eða lopapeysa, já eða hasshaus eins og svo margir vilja teikna á alla náttúruþenkjandi menn og konur hér á klakanum. Ég er þvert á móti á móti því að friðlýsa hálendið fyrir allri umferð eins og margar raddir heyrast um núna og það m.a.s. í öllum flokkum. Ég hins vegar veit að t.d. mjög stór hluti ferðamanna sem koma hingað koma eingöngu vegna allrar þessarar tiltölulega óspilltu náttúru. Mjög stór hluti.  Og þeir skapa að sjálfsögðu miklar tekjur í þjóðarbúið, að sjálfsögðu mun heilbrigðari tekjur en stóriðjan. Ég vil að við skipuleggjum hálendið þannig að við fáum öll notið þess. Ekki malbika það allt og ekki loka því. Njótum þess.

Það er búin að vera þvílík gullöld fyrir verktaka landsins, er ekki kominn tími á að staldra aðeins við og þó ekki nema skipuleggja heildstætt hvað gerist næst?

Þó að það sé vissulega afturhvarf fyrir marga, þá vilja flest okkar stórflutningana af þjóðveginum sem mest má vera. Að leggja niður strandsiglingarnar á sínum tíma voru virkilega stór mistök og mun dýrari þjóðarbúinu heldur en ég held að nokkur hafi gert sér grein fyrir á þeim tíma.  Þjóðvegur 1 hefur verið nánast ókeyrandi á köflum undanfarin ár og stöðugt viðhald virðist litlu skila til úrbóta.

Út frá umhverfissjónarmiðum þá er því miður mikill útblástur spilliefna frá skipaumferð. En á móti væri hægt að draga verulega úr bæði loft- og hljóðmengun sem og sliti ásamt kostnaði vegna vegagerðar. Það er nefnilega líka mjög umhverfisvænt að draga úr bruðli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband