Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Um niðurstöður Seðlabanka Íslands um skuldir heimilanna - enn ein vanhæf greiningardeildin þarna á ferð??

Niðurstöður starfshópsins má lesa hér: http://www.sedlabanki.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=6922

Þetta er eflaust að sumu leyti ágætis úttekt hjá Seðlabankanum, en það grefur algerlega undan faglegri niðurstöðu hópsins að þarna er verið að miða við eitthvert fasteignaverð sem er fantasía en ekki raunveruleiki.

Raunvirði fasteigna hefur dregist saman um 15-40% að meðaltali, aðeins misjafnt eftir markaðssvæðum og staðan er því (því miður) enn verri en skýrsla SÍ segir til um og væntanlegur kostnaður sem lendir á þjóðarbúinu því væntanlega mikið mun hærri heldur en ráð er gert fyrir.
 
Þess vegna þarf að skoða óhefðbundnar leiðir til lánaniðurfærslu,, þrátt fyrir að það sé ríkissjóði og fjármagnseigendum afar dýrt. Það er að mér skilst, samt mun ódýrara en að standa undir gjaldþrotahrinunni sem óhjákvæmilega annars fylgir og brottflutningi borgaranna úr landi.

Góður félagi minn benti mér sérstaklega á þessa setningu:

Ljóst er að kostnaður við flata afskrift skulda yrði að vera borinn af
ríkissjóði eða erlendum kröfuhöfum að fengnu samþykki þeirra.
Hvers konar aðgerðir sem fela í sér einhliða tilfærslu kostnaðar yfir á
kröfuhafa er ófær.

Starfshópnum finnst sem sagt algerlega ófært að upp kæmi sú staða að fjármagnseigendurnir sjálfir þyrftu mögulega að bera einhvern hluta kostnaðarins af hruninu. Það væri jú mikil synd ekki satt?


mbl.is Ekkert búið nema allt sé búið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðræðisleg lausn - en vekur mig jafnframt til umhugsunar um hvers vegna þetta sé ekki ferlið með öll stefnumál ALLRA flokka?

Þetta er afar eðlileg lending að mínu mati og mjög lýðræðisleg. Með þessu er þó ekki verið að stíga neitt ljósára skref í þróun, heldur aðeins verið að fara með málið í heilbrigðan feril. Það er jú alltaf á endanum meirihluti Alþingis sem ætti að taka ákvarðanir um frumvörp og í þessu máli er einfaldlega ekki stuðningur beggja stjórnarflokkanna og já, það er heilbrigt.

Af hverju hefur verið komið á þessari venju á Íslandi að stjórnarflokkarnir þurfi alltaf í öllum málum, að vera sammála? Hvers vegna er það svo?

Öll framboð leggja upp stefnuskrá sem að þau lýsa því yfir í kosningabaráttunni, að séu mál sem að þau ætli að berjast fyrir á komandi kjörtímabili. Þau loforð eru ekki háð því að fá meirihluta, það eru einungis loforð um að tiltekið framboð vilji vinna að því að koma ákveðnum málum í farveg. Augljóslega þarf síðan meirihluta, stundum jafnvel aukinn meirihluta, á Alþingi til þess að málin komist áfram. Fái framboð mikinn stuðning í kosningum er það nokkuð skýrt merki þess að þeir kjósendur vilji vinna þeim málefnum framgang.

Þetta væri þó mikið mun skýrara ef um persónukjör væri að ræða, því það er jú þannig að þegar að ég kýs bara einhvern bókstaf þarf ég á sama tíma að sætta mig við að málamiðla með atkvæði mitt, og það líkar mér illa. Ég er að málamiðla vegna þess að á sama tíma og ég kýs það sem mér líkar best eða skást, er ég líka líklega að kjósa önnur málefni sama framboðs sem mér líka hreint ekki eða illa. Með persónukjöri gæti ég einfaldlega kosið þau tilteknu mál og hugsjónir sem mér líkaði, með því að kjósa það fólk sem leggur þau fram sem sínar áherslur í framboði.

Er það stórfrétt að stjórnarflokkarnir hafi nú ákveðið að leggja málið um ESB fyrir Alþingi? Nei, alls ekki. Það er mikið frekar stórfrétt að það eigi ekki einfaldlega við um öll þeirra málefni. Það myndi ríkja mun meiri almenn sátt á þinginu ef almenna hefðin væri sú að vinna með heildinni að því að ná málefnum í gegn.

Þar til á síðustu árum, líklega svona um það bil síðustu 18 árum eða svo, tíðkaðist það mjög gjarnan að frumvörp væru lögð fyrir Alþingi af samstæðum hópi þingmanna, þvert á flokka, sem hefðu vilja til að koma ákveðnum málum í farveg.

Í stjórnartíð Davíðs Oddssonar varð það hins vegar nánast algild venja að frumvörp, sem fengu afgreiðslu í nefnd, voru stjórnarfrumvörp unnin af ráðuneytunum og lögð fram af ráðherrum. Áður fyrr var hlutfallið nálægt 40 þingmannafrumvörp á móti 60 stjórnarfrumvörpum, en undanfarin ár er hlutfallið orðið 4 á móti 96. Það er enn eitt skýrt dæmið um það alræði framkvæmdavaldsins sem hér er orðið.

Sameinumst öll um breyttar áherslur, lýðræðið verður að stýra vinnunni á öllum sviðum, vinna þingmanna á alltaf að miðast við þeirra eigin sannfæringu en ekki flokkslínunnar.


mbl.is ESB-málið til Alþingis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppsagnir? Skjaldborg? Þessi mynd segir einfaldlega allt sem segja þarf um viðbrögð ríkisstjórnarinnar!

allt_sem_segja_tarf
mbl.is Öllum starfsmönnum sagt upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gylfi Magnússon vill ekki að ríkisstjórnin þurfi að taka ábyrgð á aðild sinni að banka- og kerfishruninu

Gylfi Magnússon hefur að mínu viti staðið sig nokkuð vel sem viðskiptaráðherra og mér hefur fundist hressandi að fylgjast með fagráðnum ráðherra, í stað pólitísks ráðherra, út tala sig um málefni ráðuneytisins hverju sinni. Er ferskur andblær í þessa hefðbundnu pólitísku umræðu.

Nú hins vegar ber svo við að Gylfi er farinn að horfa á málin með afar pólitískum gleraugum að mínu mati. Hér svarar hann fyrir vangaveltur í samfélaginu og virðist miða við það að ríkið hafi ekki verið gerandi í banka- og kerfishruninu og þar með ekki einn sökudólganna í því hvernig fór.

Með virkri þáttöku ríkisins varð hér gríðarlegt efnahagshrun þar sem að höfuðstóll lána hefur vaxið um um 20% frá því í janúar 2008, en það er sú dagsetning sem sanngjarnt er að miða við vegna þess að ríkisstjórnin vissi frá þeim tíma nákvæmlega hvert stefndi.

Er það sanngjörn krafa að fólkið sem var blekkt af ríkisstjórninni um raunverulega stöðu mála, borgi að fullu kostnaðinn af lyginni?

Réttlát leiðrétting á höfuðstóli lánanna er sanngjörn og eðlileg krafa og greiðsluverkfall er án nokkurs vafa eitt al sterkasta verkfærið til að vekja athygli á þeirri kröfu. Ég get ekki hvatt til þess opinberlega en tel engu að síður að fólk ætti að skoða sín eigin mál ítarlega. Það er að virðist rétt, að í mörgum tilfellum mun það koma betur út fyrir fólk að safna heldur peningum inn á annan reikning og eiga þá þar varasjóð til samninga, þegar í þrot er nánast komið.

Er Gylfi að verða pólitískur?


mbl.is Flestir geta staðið í skilum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrir hvern ert þú að greiða af lánunum þínum?

Það er eðlilegt að margir séu nú að íhuga að hætta að greiða af skuldbindingum sínum. Þetta hefur svo augljóslega lítinn sem engan tilgang á sama tíma og verðtryggingin er okkur lifandi að éta út frá viðmiði neyslunnar í samfélaginu á síðasta ári og 2007!  Það einfaldlega verður að gera eitthvað í málum og það strax.

Ég er búinn að tala við tugi fjölskyldna að undanförnu sem eru með lán á milli 20 og 50 milljónir í heildina og örfáar fjölskyldur jafnvel rúmlega tvöfalda þá upphæð.

Fjölskylda með um 30 milljónir í húsnæðisláni er í dag að greiða um 120.000 á mánuði af því en lánið er að hækka um um það bil 500.000 á sama tímabili. Það sé hver heilvita maður að þetta gengur aldrei upp.

Borgarahreyfingin lagði til afar róttæka en gagnlega aðgerð til þess að koma heimilunum til bjargar. Slíkar aðgerðir er hins vegar enn ekki hægt að ræða vegna þess að núverandi ríkisstjórn situr yfir tebolla í Norræna húsinu til þess að ræða í rólegheitunum hvaða afstöðu þau vilji taka til ESB í næstu ríkisstjórn.

Er ESB svarið við öllum spurningum? Nei, það er það augljóslega ekki.

Við verðum að krefjast þess að Jóhanna, Steingrímur og föruneyti þeirra stigi umsvifalaust fram og fari að vinna í lausnum að bráðavanda heimilanna. Það er FORGANGSATRIÐI kæru valdherrar.


mbl.is Margir íhuga greiðsluverkfall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grein Jóns Steinssonar hagfræðings í Morgunblaðinu 27. apríl síðastliðinn er skyldulesning!

Set þessa grein hérna inn aðallega til þess að hafa fljótlegt aðgengi að henni sjálfur til framtíðar. Mæli eindregið með lestri - já lestur er nánast skyldulestur fyrir alla þá sem hafa minnsta áhuga á endurreisn Íslands.

Sjálfa greinina má finna hér, fyrir þá sem hafa vefaðgang að Mogganum.

Mánudaginn 27. apríl, 2009 - Aðsent efni

Ráðleggingar til vinstristjórnar

Eftir Jón Steinsson

Jón Steinsson
Jón Steinsson
Eftir Jón Steinsson: "Vitaskuld þarf ríkið að gegna sérstöku hlutverki nú fyrst eftir hrun. En þegar frá líður á ríkisstjórnin að treysta því að þjóðin hafi eitthvað fram að færa sem ekki þarf sérstaklega á stuðningi ríkisins að halda."


 

MÍN kynslóð hefur ekki upplifað vinstristjórn á Íslandi síðan við vorum á barnsaldri. Síðastliðin 18 ár hefur okkur verið talin trú um það að vinstrimönnum sé ekki treystandi fyrir stjórn efnahagsmála. Nú fáum við væntanlega í fyrsta skipti að mynda okkur okkar eigin skoðun á þessari staðhæfingu. Ég vona svo sannarlega að væntanlegri stjórn takist vel til. Það er sérstaklega mikilvægt á þessum erfiðu tímum. En það skiptir þar að auki miklu máli þar sem það mun til langframa breyta landslaginu í íslenskri pólitík. Það er hollt fyrir lýðræðið á Íslandi að hægrimenn þurfi að hafa meira fyrir því að sannfæra frjálslynda kjósendur um ágæti sitt.

Átján ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins gerbreytti íslensku samfélagi. Á þessum tíma jókst misskipting tekna og eigna á Íslandi hröðum skrefum. Eitt helsta markmið vinstriflokkana mun án efa vera að snúa þessari þróun við. En næsta ríkisstjórn mun einnig taka veigamiklar ákvarðanir er varða stöðu heimila og fyrirtækja og móta nýja efnahagsumgjörð á rústum þess sem fyrir var. Skynsamleg útfærsla slíkrar stefnu er vandasöm.

 

Frjálslynd jafnaðarmennska

Á síðustu öld einkenndist stefna vinstriflokka ekki einungis af jafnaðarmennsku heldur einnig af forsjárhyggju. Það var viðtekin skoðun að nauðsynlegt væri að hefta verulega frelsi fólks til þess að eiga viðskipti hvað við annað. Slík forsjárhyggja hefur sem betur fer verið á undanhaldi. Vonandi mun næsta ríkisstjórn tileinka sér frjálslynda jafnaðarmennsku þar sem unnið er að markmiði vinstrimanna um aukinn jöfnuð en þess gætt að hefta frelsi sem minnst.

Næsta ríkisstjórn getur hæglega orðið markaðsvænni en ríkisstjórnir síðustu 18 ára. Það er mikilvægur munur á því að vera markaðsvænn (e. pro-market) og að vera fjármagnsvænn (e. pro-business). Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn falla allt of oft í þá gryfju að beita sér fyrir fjármagnsvænni stefnu á kostnað markaðsvænnar stefnu. Hér má nefna afstöðu þessara flokka til uppboða á veiðiheimildum, skeytingarleysi þeirra varðandi hringamyndun í íslensku atvinnulífi og rétt smærri hluthafa og einstaklega fjármagnsvænt fyrirkomulag einkavæðingar. Vinstristjórn getur gert betur hvað þetta varðar.

Næsta ríkisstjórn á að vinna hratt að því að klára uppgjör nýju bankanna við þá gömlu, klára samninga um Icesave, klára sérstakar aðgerðir fyrir illa stæð heimili og fyrirtæki. Það er mikilvægt að þessu sé lokið hratt þar sem þá fyrst er unnt að afnema gjaldeyrishöftin. Þá er einnig unnt að byrja að huga að einkavæðingu bankanna og þeirra fyrirtækja sem lent hafa hjá ríkinu eftir hrunið. Einkavæðing án spillingar væri eitt mesta afrek sem næsta ríkisstjórn gæti unnið.

 

Hátekjuskattar mega ekki verða millitekjuskattar

Í dag búum við Íslendingar við skattkerfi sem í samanburði við skattkerfi annarra landa í OECD er einstaklega hagstætt fyrir þá sem eru best efnaðir. Þetta skattkerfi er afrakstur markvissrar stefnu Sjálfstæðisflokksins síðustu 18 ár. Það hefur átt verulegan þátt í því að ýta undir aukna misskiptingu tekna og eigna á Íslandi á undanförnum árum.

Þrepaskipt skattkerfi er besta leiðin til þess að auka jöfnuð á Íslandi. En hátekjuskattar mega ekki verða millitekjuskattar. Hátekjuskattar eiga einungis að leggjast á verulega háar tekjur. Í þessu sambandi er mikilvægt að þrepin í skattkerfinu verði vísitölutengd og að tengingin sé við launavísitölu en ekki neysluvöruvísitölu. Annars mun verðbólga og/eða hækkun kaupmáttar leiða til þess að smám saman færist fleiri og fleiri upp í hærri skattþrep. Það mun grafa undan markmiðum slíkrar skattlagningar.

Hið sama á við um erfðafjárskatta og hugsanlega eignaskatta. Slíkir skattar eiga að hafa há fríeignamörk (ef til vill 100 milljónir) og fríeignamörkin eiga að vera vísitölutengd. Einn helsti galli eignaskattsins sem lagður var af fyrir nokkrum árum var hversu lág fríeignamörkin voru. Sá eignaskattur lagðist því þungt á venjulegt fólk sem átti ekki annað en rúmgott húsnæði.

Forsenda þess að hátekjuskattar nái markmiðum sínum er að skattlagning fjármagnstekna verði samræmd skattlagningu launatekna. Þetta má gera með því að hækka tekjuskatt fyrirtækja þannig að sá skattur og fjármagnstekjuskattur einstaklinga til samans sé jafn tekjuskatti á laun einstaklinga.

 

Alvöru siðbót er forsenda blómlegs samfélags

Umræða um fjármál stjórnmálaflokka og einstakra frambjóðenda setti svip sinn á kosningabaráttuna. Þegar lagaumhverfið er jafn veikburða og raun ber vitni á Íslandi er ekki við öðru að búast en að allt sé morandi í svínaríi. Það er bráðnauðsynlegt að róttækar breytingar verði gerðar í þessum málaflokki.

Reynslan frá Bandaríkjunum sýnir að mjög erfitt er að takmarka framlög til stjórnmálaflokka. Takmörk á beinum framlögum leiða til óbeinna framlaga. Skynsamleg stefna hvað varðar fjármál stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna á að byggjast á algjörlega opnu bókhaldi allra. Kjósendur eiga kröfu á að vita hver kostar kosningabaráttu hvers. Í Bandaríkjunum eru öll framlög, hversu lág sem þau eru opinber. Þannig á það að vera.

Persónuleg fjármál kjörinna fulltrúa, æðstu embættismanna og maka þeirra eiga einnig að vera algerlega uppi á borðinu. Annað býður upp á alvarlega spillingu. Einnig er bráðnauðsynlegt að settar verði strangar siðareglur um samskipti opinberra starfsmanna við einkaaðila í starfi. Í Bandaríkjunum er opinberum starfsmönnum óheimilt að taka við gjöfum sem eru verðmætari en sem nemur um 3000 kr. Viðurlög við brotum á þessum lögum eru þung. Slíkar reglur þurfa að gilda á Íslandi um opinbera starfsmenn og einnig um starfsmenn lífeyrissjóða.

Þá er óþolandi að fyrirtæki eins og Landsvirkun geti selt náttúru Íslands án þess að þjóðin viti á hvaða kjörum salan fór fram. Næsta ríkisstjórn á að birta allar upplýsingar um samninga við erlend álfyrirtæki og setja lög sem skylda ríkisfyrirtæki til þess að birta slíka samninga í framtíðinni.

 

Markaðurinn þarf nýtt regluverk

Eftir hrun bankanna hefur komið betur og betur í ljós hversu veikt regluverk hefur gilt um hlutafélög og fjármálamarkaði á Íslandi á undanförnum árum. Gríðarlega flókin krosseignatengsl fyrirtækja hafa einkennt íslenskt atvinnulíf. Flókin net eignarhaldsfélaga hafa skapað skilyrði fyrir óeðlilega viðskiptahætti tengdra aðila. Ef slíkt fær að viðgangast til frambúðar er hætt við því að það fæli smærri fjárfesta frá íslenskum hlutabréfum og eyðileggi þar með íslenska hlutabréfamarkaðinn til frambúðar. Það er bráðnauðsynlegt að gagnger endurskoðun eigi sér stað á lögum og reglum um hlutafélög og fjármálamarkaði.

Setja þarf nýjar reglur sem draga úr hringamyndun. Í Bandaríkjunum er slíkt gert meðal annars með því að skattleggja arðgreiðslur milli fyrirtækja. Sú leið hefur þann mikilvæga kost að viðskiptasamsteypur leysast upp af sjálfu sér í stað þess að samkeppnisyfirvöld, lögreglan og dómstólar þurfi að leysa þær upp með valdi. Fjárhagslegt sjálfstæði banka gagnvart þeim aðilum sem þeir lána til er sérstaklega mikilvæg forsenda fyrir öflugum markaðsbúskap. Í Bandaríkjunum er bönkum bannað að eiga meira en 5% í fyrirtækjum sem þeir lána til.

Styrkja þarf til muna reglur um ábyrgð stjórnenda fyrirtækja gagnvart hluthöfum. Einnig þarf ný úrræði sem tryggja að smærri hluthafar geti leitað réttar síns ef þeir telja að ráðandi hluthafar taki hagsmuni sína fram yfir hagsmuni fyrirtækisins. Þá er mikilvægt að tryggt sé að reglur um endurskoðendur séu styrktar til þess að enginn vafi leiki á sjálfstæði þeirra gagnvart viðskiptavinum sínum. Í Bandaríkjunum var farið yfir reglur um mörg þessara atriða eftir Enron-hneykslið. Því miður átti engin hliðstæð endurskoðun sér stað á Íslandi. Nú er þarf það að gerast.

 

Treystum á sköpunarkraft þjóðarinnar

Einn versti ókostur ríkisstjórna Sjálfstæðisflokksins undanfarin 18 ár hefur verið hræðsla þeirra við það að leyfa hagkerfinu að vaxa og dafna af sjálfu sér. Alltaf þegar eitthvað hefur bjátað á hefur lausnin verið stóriðja. Og oftar en ekki hafa rökin verið: „Hvað á að koma í staðinn?“ Þetta vantraust á sköpunarkraft þjóðarinnar er sorglegt. Vitaskuld þarf ríkið að gegna sérstöku hlutverki nú fyrst eftir hrun. En þegar frá líður á ríkisstjórnin að treysta því að þjóðin hafi eitthvað fram að færa sem ekki þarf sérstaklega á stuðningi ríkisins að halda.

 

Höfundur er lektor í hagfræði við Columbia-háskóla í New York.


mbl.is Nýjan sáttmála um stöðugleika
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hælisleitendur og anarkistar slá höndum saman við verkalýðinn í 1. maí göngunni - því miður er þetta þó allt saman skipulagt af verjendum fjármagnseigenda

Ég komst því miður ekki í gönguna í dag, átti ekki heimangegnt. Hefði mikið vilja mæta og taka þátt til þess að sýna hælisleitendum stuðning í sinni baráttu. Það er einfaldlega gríðarlegt ofbeldi sem þeim er sýnt af yfirvöldum á Íslandi og þjóðinni allri til háborinnar skammar.

Ég er ekki að segja að það eigi endilega að veita þeim öllum hæli á Íslandi, til þess vals á að liggja vel ígrundað og gagnsætt ferli, en meðan að hælisleitendur bíða úrlausnar sinna mála verðum við sem þjóð og gestgjafar að sýna þeim þó ekki væri nema lágmarkskurteisi og sinna þeim af gestrisni.

Aðstæðurnar sem að þeim eru boðnar í dag eru í raun stofufangelsi. Í ofanálag við að skilja lítið og fá litla sem enga túlkun, nema frá íslenskum sjálfboðaliðum, eru þau reglulega þvinguð til þess að skrifa undir samninga um þeirra aðstæður Á ÍSLENSKU!!! Þetta er mjög gróft mannréttindabrot og setur ráðamenn þessara mála á Íslandi í flokk með Talíbönum og öðrum einræðishyggjum.

Anarkistar mættu víst líka "glaðreifir" í gönguna með svarta fána til þess að vekja máls á sínum málstað. Maður verður bara að vona að þau hafi verið búin að gera þarfir sínar áður en gangan lagði af stað Whistling

En hvers vegna er ég að vísa til fjármagnseigenda í titli þessa pistils?

Jú, vegna þess að verkalýðsfélögin eru því miður búin að taka alfarið afstöðu með fjármagnseigendum landsins í stað þess að vera að berjast með málstað verkalýðsins. Þátttaka þeirra í þessari göngu er því lítið annað en einhver sýndarmennska og hefði í raun átt að afþakka þeirra aðkomu að málum þetta árið. Meðan að verkalýðnum svíður og eignirnar þeirra brenna í verðtryggingarbálinu, verja forystumenn verkalýðshreyfinganna verðtrygginguna með kjafti og klóm svo að lífeyrissjóðirnir þeirra tapi ekki peningum.

Afsökunin er að þeir séu að verja framtíðarréttindi okkar?!?

Hvernig væri að verja heldur rétt okkar akkúrat NÚNA og verja rétt okkar til þess að hafa bæði fæði og húsaskjól??

Hvernig væri að hjálpa til við að liðka til hjá almenningi til þess að samfélagið komist aftur af stað með samneyslunni og koma þar með hjólum atvinnulífsins af stað?

Nei, þeir vilja bara verja sína eigin fjármuni. Löglegt? - Já.  Siðlaust? - Maður spyr sig......


mbl.is Kröfugangan lögð af stað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband