Lýðræðisleg lausn - en vekur mig jafnframt til umhugsunar um hvers vegna þetta sé ekki ferlið með öll stefnumál ALLRA flokka?

Þetta er afar eðlileg lending að mínu mati og mjög lýðræðisleg. Með þessu er þó ekki verið að stíga neitt ljósára skref í þróun, heldur aðeins verið að fara með málið í heilbrigðan feril. Það er jú alltaf á endanum meirihluti Alþingis sem ætti að taka ákvarðanir um frumvörp og í þessu máli er einfaldlega ekki stuðningur beggja stjórnarflokkanna og já, það er heilbrigt.

Af hverju hefur verið komið á þessari venju á Íslandi að stjórnarflokkarnir þurfi alltaf í öllum málum, að vera sammála? Hvers vegna er það svo?

Öll framboð leggja upp stefnuskrá sem að þau lýsa því yfir í kosningabaráttunni, að séu mál sem að þau ætli að berjast fyrir á komandi kjörtímabili. Þau loforð eru ekki háð því að fá meirihluta, það eru einungis loforð um að tiltekið framboð vilji vinna að því að koma ákveðnum málum í farveg. Augljóslega þarf síðan meirihluta, stundum jafnvel aukinn meirihluta, á Alþingi til þess að málin komist áfram. Fái framboð mikinn stuðning í kosningum er það nokkuð skýrt merki þess að þeir kjósendur vilji vinna þeim málefnum framgang.

Þetta væri þó mikið mun skýrara ef um persónukjör væri að ræða, því það er jú þannig að þegar að ég kýs bara einhvern bókstaf þarf ég á sama tíma að sætta mig við að málamiðla með atkvæði mitt, og það líkar mér illa. Ég er að málamiðla vegna þess að á sama tíma og ég kýs það sem mér líkar best eða skást, er ég líka líklega að kjósa önnur málefni sama framboðs sem mér líka hreint ekki eða illa. Með persónukjöri gæti ég einfaldlega kosið þau tilteknu mál og hugsjónir sem mér líkaði, með því að kjósa það fólk sem leggur þau fram sem sínar áherslur í framboði.

Er það stórfrétt að stjórnarflokkarnir hafi nú ákveðið að leggja málið um ESB fyrir Alþingi? Nei, alls ekki. Það er mikið frekar stórfrétt að það eigi ekki einfaldlega við um öll þeirra málefni. Það myndi ríkja mun meiri almenn sátt á þinginu ef almenna hefðin væri sú að vinna með heildinni að því að ná málefnum í gegn.

Þar til á síðustu árum, líklega svona um það bil síðustu 18 árum eða svo, tíðkaðist það mjög gjarnan að frumvörp væru lögð fyrir Alþingi af samstæðum hópi þingmanna, þvert á flokka, sem hefðu vilja til að koma ákveðnum málum í farveg.

Í stjórnartíð Davíðs Oddssonar varð það hins vegar nánast algild venja að frumvörp, sem fengu afgreiðslu í nefnd, voru stjórnarfrumvörp unnin af ráðuneytunum og lögð fram af ráðherrum. Áður fyrr var hlutfallið nálægt 40 þingmannafrumvörp á móti 60 stjórnarfrumvörpum, en undanfarin ár er hlutfallið orðið 4 á móti 96. Það er enn eitt skýrt dæmið um það alræði framkvæmdavaldsins sem hér er orðið.

Sameinumst öll um breyttar áherslur, lýðræðið verður að stýra vinnunni á öllum sviðum, vinna þingmanna á alltaf að miðast við þeirra eigin sannfæringu en ekki flokkslínunnar.


mbl.is ESB-málið til Alþingis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

heyr heyr

Birgitta Jónsdóttir, 5.5.2009 kl. 13:40

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Heyr, heyr

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 6.5.2009 kl. 01:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband