Grein Jóns Steinssonar hagfræðings í Morgunblaðinu 27. apríl síðastliðinn er skyldulesning!

Set þessa grein hérna inn aðallega til þess að hafa fljótlegt aðgengi að henni sjálfur til framtíðar. Mæli eindregið með lestri - já lestur er nánast skyldulestur fyrir alla þá sem hafa minnsta áhuga á endurreisn Íslands.

Sjálfa greinina má finna hér, fyrir þá sem hafa vefaðgang að Mogganum.

Mánudaginn 27. apríl, 2009 - Aðsent efni

Ráðleggingar til vinstristjórnar

Eftir Jón Steinsson

Jón Steinsson
Jón Steinsson
Eftir Jón Steinsson: "Vitaskuld þarf ríkið að gegna sérstöku hlutverki nú fyrst eftir hrun. En þegar frá líður á ríkisstjórnin að treysta því að þjóðin hafi eitthvað fram að færa sem ekki þarf sérstaklega á stuðningi ríkisins að halda."


 

MÍN kynslóð hefur ekki upplifað vinstristjórn á Íslandi síðan við vorum á barnsaldri. Síðastliðin 18 ár hefur okkur verið talin trú um það að vinstrimönnum sé ekki treystandi fyrir stjórn efnahagsmála. Nú fáum við væntanlega í fyrsta skipti að mynda okkur okkar eigin skoðun á þessari staðhæfingu. Ég vona svo sannarlega að væntanlegri stjórn takist vel til. Það er sérstaklega mikilvægt á þessum erfiðu tímum. En það skiptir þar að auki miklu máli þar sem það mun til langframa breyta landslaginu í íslenskri pólitík. Það er hollt fyrir lýðræðið á Íslandi að hægrimenn þurfi að hafa meira fyrir því að sannfæra frjálslynda kjósendur um ágæti sitt.

Átján ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins gerbreytti íslensku samfélagi. Á þessum tíma jókst misskipting tekna og eigna á Íslandi hröðum skrefum. Eitt helsta markmið vinstriflokkana mun án efa vera að snúa þessari þróun við. En næsta ríkisstjórn mun einnig taka veigamiklar ákvarðanir er varða stöðu heimila og fyrirtækja og móta nýja efnahagsumgjörð á rústum þess sem fyrir var. Skynsamleg útfærsla slíkrar stefnu er vandasöm.

 

Frjálslynd jafnaðarmennska

Á síðustu öld einkenndist stefna vinstriflokka ekki einungis af jafnaðarmennsku heldur einnig af forsjárhyggju. Það var viðtekin skoðun að nauðsynlegt væri að hefta verulega frelsi fólks til þess að eiga viðskipti hvað við annað. Slík forsjárhyggja hefur sem betur fer verið á undanhaldi. Vonandi mun næsta ríkisstjórn tileinka sér frjálslynda jafnaðarmennsku þar sem unnið er að markmiði vinstrimanna um aukinn jöfnuð en þess gætt að hefta frelsi sem minnst.

Næsta ríkisstjórn getur hæglega orðið markaðsvænni en ríkisstjórnir síðustu 18 ára. Það er mikilvægur munur á því að vera markaðsvænn (e. pro-market) og að vera fjármagnsvænn (e. pro-business). Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn falla allt of oft í þá gryfju að beita sér fyrir fjármagnsvænni stefnu á kostnað markaðsvænnar stefnu. Hér má nefna afstöðu þessara flokka til uppboða á veiðiheimildum, skeytingarleysi þeirra varðandi hringamyndun í íslensku atvinnulífi og rétt smærri hluthafa og einstaklega fjármagnsvænt fyrirkomulag einkavæðingar. Vinstristjórn getur gert betur hvað þetta varðar.

Næsta ríkisstjórn á að vinna hratt að því að klára uppgjör nýju bankanna við þá gömlu, klára samninga um Icesave, klára sérstakar aðgerðir fyrir illa stæð heimili og fyrirtæki. Það er mikilvægt að þessu sé lokið hratt þar sem þá fyrst er unnt að afnema gjaldeyrishöftin. Þá er einnig unnt að byrja að huga að einkavæðingu bankanna og þeirra fyrirtækja sem lent hafa hjá ríkinu eftir hrunið. Einkavæðing án spillingar væri eitt mesta afrek sem næsta ríkisstjórn gæti unnið.

 

Hátekjuskattar mega ekki verða millitekjuskattar

Í dag búum við Íslendingar við skattkerfi sem í samanburði við skattkerfi annarra landa í OECD er einstaklega hagstætt fyrir þá sem eru best efnaðir. Þetta skattkerfi er afrakstur markvissrar stefnu Sjálfstæðisflokksins síðustu 18 ár. Það hefur átt verulegan þátt í því að ýta undir aukna misskiptingu tekna og eigna á Íslandi á undanförnum árum.

Þrepaskipt skattkerfi er besta leiðin til þess að auka jöfnuð á Íslandi. En hátekjuskattar mega ekki verða millitekjuskattar. Hátekjuskattar eiga einungis að leggjast á verulega háar tekjur. Í þessu sambandi er mikilvægt að þrepin í skattkerfinu verði vísitölutengd og að tengingin sé við launavísitölu en ekki neysluvöruvísitölu. Annars mun verðbólga og/eða hækkun kaupmáttar leiða til þess að smám saman færist fleiri og fleiri upp í hærri skattþrep. Það mun grafa undan markmiðum slíkrar skattlagningar.

Hið sama á við um erfðafjárskatta og hugsanlega eignaskatta. Slíkir skattar eiga að hafa há fríeignamörk (ef til vill 100 milljónir) og fríeignamörkin eiga að vera vísitölutengd. Einn helsti galli eignaskattsins sem lagður var af fyrir nokkrum árum var hversu lág fríeignamörkin voru. Sá eignaskattur lagðist því þungt á venjulegt fólk sem átti ekki annað en rúmgott húsnæði.

Forsenda þess að hátekjuskattar nái markmiðum sínum er að skattlagning fjármagnstekna verði samræmd skattlagningu launatekna. Þetta má gera með því að hækka tekjuskatt fyrirtækja þannig að sá skattur og fjármagnstekjuskattur einstaklinga til samans sé jafn tekjuskatti á laun einstaklinga.

 

Alvöru siðbót er forsenda blómlegs samfélags

Umræða um fjármál stjórnmálaflokka og einstakra frambjóðenda setti svip sinn á kosningabaráttuna. Þegar lagaumhverfið er jafn veikburða og raun ber vitni á Íslandi er ekki við öðru að búast en að allt sé morandi í svínaríi. Það er bráðnauðsynlegt að róttækar breytingar verði gerðar í þessum málaflokki.

Reynslan frá Bandaríkjunum sýnir að mjög erfitt er að takmarka framlög til stjórnmálaflokka. Takmörk á beinum framlögum leiða til óbeinna framlaga. Skynsamleg stefna hvað varðar fjármál stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna á að byggjast á algjörlega opnu bókhaldi allra. Kjósendur eiga kröfu á að vita hver kostar kosningabaráttu hvers. Í Bandaríkjunum eru öll framlög, hversu lág sem þau eru opinber. Þannig á það að vera.

Persónuleg fjármál kjörinna fulltrúa, æðstu embættismanna og maka þeirra eiga einnig að vera algerlega uppi á borðinu. Annað býður upp á alvarlega spillingu. Einnig er bráðnauðsynlegt að settar verði strangar siðareglur um samskipti opinberra starfsmanna við einkaaðila í starfi. Í Bandaríkjunum er opinberum starfsmönnum óheimilt að taka við gjöfum sem eru verðmætari en sem nemur um 3000 kr. Viðurlög við brotum á þessum lögum eru þung. Slíkar reglur þurfa að gilda á Íslandi um opinbera starfsmenn og einnig um starfsmenn lífeyrissjóða.

Þá er óþolandi að fyrirtæki eins og Landsvirkun geti selt náttúru Íslands án þess að þjóðin viti á hvaða kjörum salan fór fram. Næsta ríkisstjórn á að birta allar upplýsingar um samninga við erlend álfyrirtæki og setja lög sem skylda ríkisfyrirtæki til þess að birta slíka samninga í framtíðinni.

 

Markaðurinn þarf nýtt regluverk

Eftir hrun bankanna hefur komið betur og betur í ljós hversu veikt regluverk hefur gilt um hlutafélög og fjármálamarkaði á Íslandi á undanförnum árum. Gríðarlega flókin krosseignatengsl fyrirtækja hafa einkennt íslenskt atvinnulíf. Flókin net eignarhaldsfélaga hafa skapað skilyrði fyrir óeðlilega viðskiptahætti tengdra aðila. Ef slíkt fær að viðgangast til frambúðar er hætt við því að það fæli smærri fjárfesta frá íslenskum hlutabréfum og eyðileggi þar með íslenska hlutabréfamarkaðinn til frambúðar. Það er bráðnauðsynlegt að gagnger endurskoðun eigi sér stað á lögum og reglum um hlutafélög og fjármálamarkaði.

Setja þarf nýjar reglur sem draga úr hringamyndun. Í Bandaríkjunum er slíkt gert meðal annars með því að skattleggja arðgreiðslur milli fyrirtækja. Sú leið hefur þann mikilvæga kost að viðskiptasamsteypur leysast upp af sjálfu sér í stað þess að samkeppnisyfirvöld, lögreglan og dómstólar þurfi að leysa þær upp með valdi. Fjárhagslegt sjálfstæði banka gagnvart þeim aðilum sem þeir lána til er sérstaklega mikilvæg forsenda fyrir öflugum markaðsbúskap. Í Bandaríkjunum er bönkum bannað að eiga meira en 5% í fyrirtækjum sem þeir lána til.

Styrkja þarf til muna reglur um ábyrgð stjórnenda fyrirtækja gagnvart hluthöfum. Einnig þarf ný úrræði sem tryggja að smærri hluthafar geti leitað réttar síns ef þeir telja að ráðandi hluthafar taki hagsmuni sína fram yfir hagsmuni fyrirtækisins. Þá er mikilvægt að tryggt sé að reglur um endurskoðendur séu styrktar til þess að enginn vafi leiki á sjálfstæði þeirra gagnvart viðskiptavinum sínum. Í Bandaríkjunum var farið yfir reglur um mörg þessara atriða eftir Enron-hneykslið. Því miður átti engin hliðstæð endurskoðun sér stað á Íslandi. Nú er þarf það að gerast.

 

Treystum á sköpunarkraft þjóðarinnar

Einn versti ókostur ríkisstjórna Sjálfstæðisflokksins undanfarin 18 ár hefur verið hræðsla þeirra við það að leyfa hagkerfinu að vaxa og dafna af sjálfu sér. Alltaf þegar eitthvað hefur bjátað á hefur lausnin verið stóriðja. Og oftar en ekki hafa rökin verið: „Hvað á að koma í staðinn?“ Þetta vantraust á sköpunarkraft þjóðarinnar er sorglegt. Vitaskuld þarf ríkið að gegna sérstöku hlutverki nú fyrst eftir hrun. En þegar frá líður á ríkisstjórnin að treysta því að þjóðin hafi eitthvað fram að færa sem ekki þarf sérstaklega á stuðningi ríkisins að halda.

 

Höfundur er lektor í hagfræði við Columbia-háskóla í New York.


mbl.is Nýjan sáttmála um stöðugleika
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Þórðardóttir

Sammála, frábær grein. Skemmtilegt hvað orðið frjálslynd kemur oft fyrir. Bara svona til gamans. Gott veganesti fyrir ykkur í Borgarahreyfingunni. Hefði reyndar viljað sjá þig á þing en þú hvetur þitt fólk til góðra verka það er ég viss um.

Helga Þórðardóttir, 2.5.2009 kl. 00:14

2 Smámynd: Ólafur Þór Gunnarsson

Þörf ábending hjá þér Baldvin. Takk fyrir það.

Ólafur Þór Gunnarsson, 2.5.2009 kl. 13:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband