Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Barack Obama - tími stóru orðanna er að bresta á!

Ég, eins og eflaust flestir Evrópubúar, býð spenntur eftir því að fylgjast með Obama í forsetastóli. Líklega valdamesta forsetastóli í heiminum í dag. Fólk vonar á miklar breytingar á ýmsum stefnumálum Bandaríkjamanna, og þá væntanlega mest í utanríkisstefnu þeirra sem hefur verið vægast sagt blóðug.

Á sama tíma eru eflaust sterk öfl víðsvegar sem vilja ekkert heitar en að sjá honum mistakast við að innleiða breytingar, því mörgum hentar jú betur að hafa allt bara nákvæmlega eins og það er nú þegar.

Einhvern veginn eigi ég líka fjarlæga von um það að takist ætlunarverkið að einhverju eða miklu leyti í Bandaríkjunum, megi það verða fyrirmynd fyrir gagngerar breytingar á kerfum víða um heim. Það veit Guð að okkur veitir svo sannarlega ekki af því hér á Íslandi til að mynda.

Forsætisráðherra klikkti út í áramótaávarpi sínu til þjóðarinnar með orðunum "Guð blessi Ísland" og rann mér kalt vatn milli skinns og hörunds við þau orð. Þessi þrjú orð fannst mér segja mér meira um raunverulegt ástand hér heima en allt það þvaður sem borið hafði verið fyrir okkur á tveimur mánuðum þar á undan.

Það eru svo sannarlega tímar erfiðleika framundan - en þetta geta líka verið tímar endurreisnar! Það er hins vegar okkar að taka á því og virðast vera afar sterkar líkur á því að þjóðin muni ekki fylkja sér með okkur að endurreisn meðan að stærstu gerendur hrunsins sitja enn sem fastast við völd.

Krefjumst kosninga hið fyrsta - við þurfum nýtt fólk með nýtt hugarfar til þess að byggja nýja Ísland!!


mbl.is Obama hylltur í Washington
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í bullandi popularisma Framsóknar er ekki skrítið að ung risaeðla í flokknum nái ekki kosningu formanns

Þessi niðurstaða kom mér ekki á óvart svo sem, en það kom mér á óvart að ekki skyldu vera fleiri aðilar með einhverja reynslu innan flokksins í framboði. Til að mynda tel ég að Hallur Magnússon hefði hlotið nokkuð fylgi hefði hann kosið að bjóða sig fram.

Páll Magnússon er brenndur af því að hafa starfað í flokknum á að mínu mati versta skeiði hans og því eðlilegt að þessi nýju öfl með nýjar áherslur innan flokksins veljji hann ekki.

Kemur hins vegar verulega á óvart að aðili, sem að mínu viti hefur ekki tengst flokknum hingað til, geti stigið þar inn og boðið sig fram til formanns og unnið kosningu?!?  Það finnst mér mjög merkilegt.

Samsæriskenningin er hins vegar sú að Sigmundur sé í raun bara framlenging á Guðna Ágústssyni.


mbl.is Páll: Niðurstaðan kom á óvart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórn með ENGAR framtíðaráætlanir spáir batnandi tíð 2010?!?

Fyrirgefiði mér barnaskapinn í skrifum, en er þetta eitthvað sjúkt grín?

Á hvaða forsendum þeim reiknast þetta til skil ég ekki. Það liggur alls ekki fyrir til að mynda hver samdrátturinn verður raunverulega af landsframleiðslu. Spár um 10% held ég að séu byggðar á mikilli bjartsýni. Árið 2008 voru til að mynda ennþá hérna stórir bankar að skila miklum tekjum til þjóðarbúsins.

Krónan er ónýt, sem styrkir útflutning en það kemur aðeins mögulega til móts við hratt lækkandi afurðaverð erlendis í dag. Fiskurinn hríðlækkar og álið með. Ofan á það bætist síðan að gjaldeyristekjurnar rata ekki hingað heim, menn fá meira fyrir hann annarsstaðar virðist vera.

Ríkisstjórnin hefur hingað til ekki sýnt minnstu hugsun um framtíðarplön, er aðeins í því að slökkva elda og vísa sökinni annað. Með enga eða litla framtíðarsýn, á hvaða forsendum geta menn spá fyrir um ástandið 2010??

Kreppan er ekki einu sinni byrjuð hér að ráði ennþá. Við Geir erum um það sammála að árið 2009 verður mjög mjög erfitt, ég spái því hins vegar því miður, að 2010 verði það líka.


mbl.is Geir: Árið verður mjög erfitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samstöðufundi lokið á Austurvelli - opið hús í Borgartúni 3 á eftir

Þeim sem ekki komust á Austurvöll má benda á að Raddir Fólksins tilkynntu um það á fundinum að eftir fundinn yrði opið hús í Borgartúni 3 þar sem að Raddir Fólksins hafa nýlega komið sér fyrir ásamt mörgum öðrum þrýstihópum sem eru starfandi í dag og þar fremst í flokki hópurinn um Borgarafundina.

Ég finn fyrir sterkri samkennd eftir fundinn í dag og sérstaklega fannst mér framsaga Gylfa Magnússonar góð. Hún var jarðbundin en um leið kom fram skýr krafa um að núverandi stjórnvöldum beri að víkja. Þau starfa ekki í trausti fólksins og án trausts í samfélaginu í dag mun endurreisnarstarfið ekki ná að hefjast.

Það hringdi í mig góður félagi minn meðan að á fundinum stóð. Ég sagði honum hvar ég væri og þá tjáði hann mér að hann mætti ekki, að hann væri ekki enn viss um hvort að hann vildi taka þátt. Ég sagði ekkert við hann við þetta tækifæri, var ekki staður né stund á miðjum Samstöðufundi. En ég velti því fyrir mér lengi eftir símtalið, hvað þarf til þess að "Grillfólkið" vakni líka og vilji gera eitthvað í málinu? Grillfólkið er nefnilega ekki bara Sjálfstæðismenn, eins og Hannes Hólmsteinn talaði um og snerist algerlega í höndunum á honum, grillfólkið er stærstur hluti þjóðarinnar sem nennir almennt ekki að taka þátt í pólitík og vill bara að einhverjir sjái um að til sé kerfi fyrir þau að starfa í.

Hvernig væri nú að hætta að grilla og vera með? Steikin kólnar hratt þessa dagana hvað sem við gerum!


mbl.is Fjöldi manns á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver vill koma upp um Milljarðamæring?

Mér persónulega finnst Kastljósið og svo Silfrið með Agli Helga bera höfuð og herðar yfir alla þessa þætti. Þar fer fram nokkuð óhlutdræg umræða um málefnin. Markaðurinn er þáttur sem mikið til hefur verið að fá til sín undanfarið nú-ríka, ný-ríka eða var-ríka kalla til þess að afsaka sig og útskýra. Ég veit ekki með þig, en ég hef nákvæmlega engan áhuga á skýringum þeirra. Við vitum flest nokkuð ágætlega hvað gerðist.

Það er helst að vanti sjónvarpsþáttinn "Hver vill koma upp um milljarðamæring?"

Mætum á Austurvöll á morgun og sýnum hvort öðru samstöðu og stuðning.


mbl.is Björn Ingi hættur á Markaðnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótmælafundur? Nei - á morgun ætla ég að mæta á samstöðufund!!

Hvað með þig?

Ég mæti ekki á Austurvöll bara til þess að láta í ljós óánægju mína, ég mæti til þess að sýna samstöðu með þjóðinni og upplifa samhyggðina sem þar er.

Mótmæli hafa á sér oft afar neikvæðan blæ, en þeirra er þörf engu að síður. En ef þú ert andstæðingur mótmæla funda, mættu þá endilega með mér á Samstöðu fund á morgun.

Og hver veit, það er aldrei að vita nema komi þar eitthvað alveg nýtt fram....


mbl.is Mótmælin halda áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

NMT áfram - góðar fréttir

Fyrir okkur sem þurfum að vera mikið á hálendinu vegna vinnu og svo fyrir marga sem stunda sjómennsku er NMT kerfið enn á mörgum stöðum betra en GSM kerfið er orðið.

Þetta er mér gleðiefni og eykur öryggi á mörgum stöðum hálendisins þar sem eru skuggasvæði í GSM kerfinu en NMT samband næst.

Vonandi stendur kerfið sem lengst, helsta vandamál þess er að ekki fást lengur að mér skilst varahlutir í kerfið.


mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er það svo komið að slökkviliðsmenn á Íslandi þurfi stefnu til að innheimta launin sín??

Nú fer ég í geðshræringar gírinn. Hvað er í gangi eiginlega???  Þetta hefur ekkert með núverandi efnahagsástand að gera, þessi smánargreiðsla hefur ekki verið greidd í nokkur ár. Það er varla hægt að segja að tæpar 20.000 krónur á ÁRI séu rausnarleg greiðsla fyrir að vera alltaf á bakvakt er það?

Ég gæti skrifað um þetta langan skammarpistil en ætla ekki, þetta einfaldlega skýrir sig sjálft þetta mál. Skammarlegt!


mbl.is Stefna slökkviliði Árborgar vegna símapeninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju er kvótinn enn í forræði Útvegskónga??

Stærstur hluti kvótans er nú í raun í eigu bankanna þar sem að hann hafði verið tví og þrí veðsettur. Þetta er besta tækifæri sem að þjóðin hefur fengið gagnvart kvótakerfinu frá því að það var sett á, til þess að snúa af leið og endurheimta kvótann til þjóðarinnar aftur.

Núna er tækifærið. Það eru allar hafnir fullar af smærri bátum sem aðhafast lítið vegna kvótaleysis og verðsins á leigukvótanum. Á tímum vaxandi atvinnuleysis eigum við að sjálfsögðu að horfa til þess að fjölga störfum og dreifa auðlindum á fleiri hendur.

Það eru góðar fréttir, virkilega góðar, að hægt sé að auka við veiðiheimildir. Það hefur líklega aldrei haft eins mikið að segja og akkúrat núna. En leyfum þjóðinni að sækja þetta saman.


mbl.is Viðbótin skilar 10 milljörðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er framtíðin í vatni? Hver er samfélagsleg ábyrgð okkar í heiminum?

Ég velti þessu oft fyrir mér. Á hverjum degi rennur á Íslandi til sjávar margfalt það magn af ferskvatni sem mannkynið í heild sinni drekkur daglega. Ég hef heyrt tölur í því samhengi frá tífalt og upp í hundraðfalt. Þori ekki að fullyrða um það, en ljóst er miðað við þetta að það er alls ekki ferskvatns skortur í nánd í heiminum.

Skortur á fersk vatni hefur verið nefnt sem helsta vá hlýnunar jarðar. Í Mexíkó til að mynda eru nánast engar vatnsbirgðir eftir og þegar þurrt er dögum saman lenda þeir hratt í vandræðum. Samt býr Perú við svipað ástand og Ísland, gríðarlegt umfram magn af fersk vatni.

Vandinn er því augljóslega ekki skortur á fersk vatni, vandinn er hvernig við flytjum það á milli? Frá Perú til Mexíkó er svarið augljóst, pípulögn.

En hvað með vatnsflutnigna frá okkur? Það er ljóst að þessi útflutningur til Persaflóasvæðisins er í hagnaðarskyni og því er það einfaldlega neytandinn sem greiðir á endanum fyrir flutninginn. Mér hins vegar er þetta meira hugleikið í samhengi við samfélagslega ábyrgð okkar í heiminum. Ef hægt er til dæmis að rækta upp stór svæði í Afríku með vatnsflutningum og áveitukerfum er það þá ekki eitthvað sem að við eigum að horfa til?

Er mögulegt að með ódýrri lausn á vatnsflutningum mætti nánast útrýma hungri í heiminum? Það er dýrt að flytja vatnið, en á móti gætum við átt hlutdeild í ræktuninni sem færi fram.

Ef við skoðum þetta í minni skala að þá ættum við þess utan að sjálfsögðu að senda neysluvatn á þurrkatímum til þeirra sem þess þarfnast. Við getum það og ættum ekki að skorast undan því.

Já, ég veit. Þetta eru kannski skrítnar hugleiðingar á þessum krepputímum hér heima. Þetta eru einfaldlega vangaveltur sem hafa verið mér hugleiknar um langt skeið.


mbl.is Jökulvatn til Persaflóa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband