Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Allt litróf tilfinninganna á góðum Borgarafundi

Fór á Borgarafundinn í gærkvöldi og átti góða ferð. Fundurinn stóð vel undir væntingum mínum, og komu framsögumenn og flestir fundargestir máli sínu skýrt fram. Skyggði aðeins á fundinn þegar að birtist þar afar athyglissjúkur jólasveinn sem var vísað frá. Skapaðist mikil tilfinningasveifla í húsinu fyrst á eftir, það er að segja þangað til að fundargestir gerðu sér grein fyrir því hver var í hlutverki jólasveinsins. Þar var á ferðinni maður sem fyrir löngu síðan missti af sínu "cue'i", vísbendingu um að slaka á og gera eitthvað annað. Vísbendingu um að almenningur í landinu treystir honum ekki til nokkurs verks frekar en mörgum núverandi ráðamönnum þjóðarinnar. Það sorglegasta við þessa uppákomu er líklega að svona upphlaup skemma bara fyrir og draga athyglina frá alvarleika málsins.

Jólasveinninn virðist víða halda því fram að innan hópsins um borgarafundina ríki spilling. Ég get ekki svarað fyrir hópinn, en finnst þó áríðandi að benda á að það er ekki endilega spilling þó að allir vilji ekki "vera memm". Stundum er það bara einfaldlega vegna þess að maður hefur sjálfur rúið sig öllum trúverðugleika.

En aftur að fundinum.
Hörður Torfason olli mér í upphafi nokkrum vonbrigðum, það er að segja hann sagði harla fátt í upphaflegu erindi sínu. Hann átti hins vegar gríðar sterka innkomu á fundinum eftir að tilfinngaríkur fundarstjóri hafði misst stjórn á honum. Innkomu þar sem að hann klökkur kallaði yfir salinn í nánast uppgjafartóni að það væri nákvæmlega þetta, svona samstöðuleysi, sem að væri að sundra okkur öðru fremur. Ég verð að taka undir með honum þar heilshugar, ég hef einmitt skrifað um það nýlega hvað það sem ég kalla "Bjartur í Sumarhúsum" heilkennið, eyðileggur gríðarlega fyrir okkur. Allar verða að ráða, allir verða að eiga hugmyndina. Annarra manna hugmyndir hljóta sjaldan stuðning vegna þess að hroki okkar er gjarnan svo mikill að við getum ekki fylgt einhverju nema að a) við höfum átt hugmyndina eða b) við erum þess fullviss og þar með örugg um almenningsálitið að hugmyndin muni hljóta almennt fylgi. Þetta er fötlun.

Eva Hauksdóttir hélt ágætis erindi um þróun mótmæla víðsvegar í heiminum, heldur mikil langloka, en kraftmikil framsögn. Ég get verið sammála hennar afstöðu upp að vissu marki, en mér finnst þó enn að þegar að borgaraleg óhlýðni er farin að valda líkamlegum skaða að þá hefur hún stigbreyst í eitthvað sem er nær stríðsástandi en hefðbundinni óhlýðni. Margir á fundinum vitnuðu í Gandhi. En þegar Gandhi vísaði til þess að oft væri uppreisn eina lausnin, var hann að mér virðist að vísa til uppreisnar í formi friðsamlegra mótmæla og borgaralegrar óhlýðni þar sem að enginn meiddist nema mögulega maður sjálfur (þegar lögregla eða önnur yfirvöld, bera mann á brott). Gandhi var til dæmis afar hrifinn af borgaralegri óhlýðni eins og fram fór í Seðlabankanum okkar. Óhlýðni þar sem mikið af fólki safnast saman og hefur mikil truflandi áhrif á umhverfi sitt, en gera samt kannski ekki neitt annað. Eru bara einfaldlega mikið fyrir.

"Grímur" nefndi sig grímuklæddur framsögumaður sem talaði þarna fyrir sína hönd sem aðgerðarsinni (gott íslenskt orð fyrir activism). Grími nefndum lá að sjálfsögðu mikið niðri fyrir eins og ungu fólki er tamt og tók stórt upp í sig fannst mér á köflum, en hafði margt gott fram að færa líka.
Hugmynd Gríms um að fulltrúa lýðræðið sé svo ósanngjarnt fannst mér þó nokkuð skammsýn. Honum finnst kerfi þar sem að minnihlutinn verður alltaf óánægður með ákvarðanir óréttlátt. Mér er þó spurn, er líklegt að minnihlutinn verði eitthvað minna óánægður við beint lýðræði??
Ég er ekki endilega á því að fulltrúa lýðræði sé svarið, en það er þó kerfið sem ég bý við í dag og ég tel því liggja beinast við að nota það kerfi til þess að koma á nauðsynlegum breytingum.

Stefán lögreglustjóri ásamt Geir Jóni voru þarna mættir fyrir hönd lögreglunnar og fannst mér þeir komast afburða vel frá sínu á fundinum. Eiga að auki að mínu mati mikið hrós skilið fyrir að mæta og skýra frá sinni hlið mála. Það er eitthvað annað en dusilmennið hann Björn Bjarnason, honum hefur ekki fundist þessir fundir nægjanlega merkilegir hingað til að hafa nennt að mæta.  (Innskot:  Var rétt í þessu að sjá frétt á Vísi um að Björn Bjarnason hygðist ekki gegna starfi ráðherra mikið lengur, sjá hér)
Stefán skýrði meðal annars vel frá hlutverki lögreglu í að styðja við mótmæli, aðstoða við að þau færu slysalaust fram og svo framvegis. Helst fannst mér skyggja á ítrekuð frammíköll aðgerðarsinnanna þar sem að þeim fannst ósanngjarnt að við aðgerðum þeirra væri brugðist. Ég hef bara eitt við því að segja og það er sletta: "If you can't do the time - don't do the crime".
Aðgerðir aðgerðarsinna hafa margar hverjar verið afar sterk skilaboð, en að verða undrandi við því að við lögbrotum sé brugðist er að sjálfsögðu mikil skammsýni. Gandhi títtnefndur var til að mynda ítrekað fangelsaður og vissi að það yrðu oft afleiðingarnar. Það er einfaldlega ein afleiðing þess að berjast gegn kerfinu, hversu óréttlátt sem það hljómar.

Sigurlaug, sem kom fram sem talsmaður Nýrra Tíma, lýsti stefnuskrá hreyfingarinnar. Ég er sammála langstærstum hluta þeirrar stefnu, ég er bara afar ósammála því að "þeir" eigi að gera þetta og hitt. Við verðum að taka ábyrgð gott fólk og gera okkur grein fyrir því að "þeir" eru bara "við"!!  Ef ég vill breytingar er það á mína ábyrgð, en ekki "þeirra" að koma þeim á. Viljið þið breytingar á það sama að sjálfsögðu við um ykkur. "Þeir" munu alltaf bara gera áfram það sem þeim kemur best. Ætlum við að halda áfram að kjósa "það" yfir okkur???

Þá kom afar áhugaverð spurning úr sal á fundinum til lögreglustjóra, þar sem að hann var spurður að því hvort að ekki væri undarlegt að fjölga í sérsveit á tímum sem þessum en á sama tíma að FÆKKA í efnahagsbrotadeildinni. Hann hafði að sjálfsögðu ekki svör við því enda nokkuð pólitískur en mér finnst þetta afar mikilvæg hugleiðing fyrir okkur öll.

Þeir sem ráða eru að auka við EIGIN varnir á sama tíma og þeir spara í deildum sem eiga að rannsaka málið?!?

Það var einnig spurning úr sal um hvers vegna lögregla ákæri ekki ráðamenn, gerendurnar í bankahruninu. Lögreglan svaraði því til að allar ákærur væru að sjálfsögðu skoðaðar, það væri hins vegar ekki lögreglan sem ákærir. Efnahagsbrotadeild (sem var einmitt verið að fækka í) sæi um að rannsaka málin.

Það vöknuðu nokkrar spurningar hjá mér á fundinum, en mér tókst ekki að koma þeim að þar. Set þær fram hér til hugleiðingar. 

Mér er spurn, má hver sem er kæra grunaða valda bankahrunsins og yrðu þær kærur teknar fyrir?

Hefur Hörður Torfa hug á að hleypa að á mælendaskrá mótmæla fundanna talsmönnum pólitískra afla sem eru ný eða ekki við völd, sem vilja breytingar?

Og aðgerðarsinna, almenna mótmælendur og ykkur öll hin spyr ég: Ef kerfið þarfnast gagngerra breytinga, fulltrúa lýðræði eður ei, er það þá ekki okkar að koma á þeim breytingum??  Eigum við þá ekki heldur að eyða kröftum okkar í að sameinast um að koma þeim breytingum á??


mbl.is Lá við að fundurinn leystist upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður áhugavert að sjá hvernig að markaðurinn meti virði Actavis

Samkvæmt því sem að mér var sagt er skráð viðskiptavild félagsins nú þó nokkuð hærri en eigið fé þess sem verður að teljast afar undarlegt, en er þó orðið nokkuð algengt í dag í þessum félögum sem gengið hafa kaupum og sölum milli stórra hluthafa.

Þetta gerist gjarnan á þann máta um það bil að félag A er stofnað til að kaupa ráðandi hlut í félagi B. Til þess að fjármagna kaupin er tekið lán fyrir stærstum hluta kaupverðsins.

Eftir að félag B er komið í ráðandi eign, er virði þess félags gjarnan aukið enn frekar til þess að geta veðsett það hærra áður en að mögulegri endursölu kemur. Virðið er gjarnan aukið með því að einfaldlega hækka viðskiptavildina. Afar vafasamt, en verður spennandi að sjá hvort að hinn frjálsi markaður samþykki skráð virði viðskiptavildarinnar.


mbl.is Fullyrt að Actavis verði selt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valdið sem býr við mikla misskiptingu launa - oftast dulið en flestir upplifa það

Frásögn af því hvernig starfsfólk Fjármálaeftirlitsins hefur upplifað þessa fundi með "fína" fólinu í bönkunum og misskiptunga skín hér í gegnum fréttina. Þessi gríðarlegi launamunur sem kerfið býr við í dag er þess valdandi að hæfasta (eða metnaðarfyllsta/gráðugasta eftir því hvernig fólk vill meta það) fólkið sækir í stöðurnar hjá þeim sem best borga og ríkið er langt í frá samkeppnishæft.

Þetta veldur því svo í keðjuverkun að ríkisstarfsfólki líður gjarnan eins og það sé ekki fyrsta flokks og hefur sú líðan án nokkurs vafa mikil áhrif á líðan þeirra og afköst í starfi. Hin afleiðing þessarar líðanar er síðan mögulega mikilmennskubrjálæði þegar ríkisstarfsmaðurinn fær einhver völd sem getur einnig verið afar varasamt.

Ég er ekki að segja að starfsfólk FME heyri allt undir þessa lýsingu, en efast þó ekki um að þessi staða hafi haft áhrif á störf þeirra í samskiptum við bankana.

En nú er lag, hvort tveggja ríkisstofnanir í dag, FME og bankarnir, og því ekkert því til fyrirstöðu að setja sömu launastefnu á báða aðila.


mbl.is „Rauðir í framan af reiði“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki við stakan ráðherra að sakast - vandinn er gríðarstór kerfisvilla

Ég er ekki að mæla þessum aðgerðum heilbrigðisráðherra bót, alls ekki. Viðurkenni fúslega að ég þekki ekki þarna málavexti nægjanlega til að leggja mat á það. Get hins vegar án minnsta hiks bent á ansi marga ráðherra og opinbera starfsmenn sem ættu hiklaust að segja af sér á undan umræddum heilbrigðisráðherra.

Vandinn fyrir mér er því miður mikið mun stærri en þessar tilteknu aðgerðir. Vandinn er fólginn í algeru getuleysi löggjafavaldsins og hálfgerðu alræðisvaldi sem að framkvæmdavaldið virðist orðið búa yfir hér á landi. Það er með sorg í hjarta sem ég geri mér orðið betur og betur grein fyrir því að hér á landi búum við ekki lengur við þrískiptingu valdsins. Það er af og frá. Þessar tilteknu aðgerðir voru til að mynda skipulagðar og ákveðnar, já og meira að segja settar í framkvæmd, allt áður en þær voru ræddar hjá heilbrigðisnefnd Alþingis Íslands. Þeirri nefnd verður einfaldlega skýrt frá aðgerðunum á fundi nefndarinnar á morgun ef satt reynist. Hið versta mál.

Umræðan um gagngerar breytingar á uppbyggingu lýðræðis okkar verður sífellt háværari, og skyggir lítið orðið á hana nema tilraunir ráðamanna til þess að láta Evrópuumræðuna fá athyglina. Evrópusambands umræðan og gjaldeyrismálin eru vissulega mál sem brýnt er að ræða, en ég tel mikilvægara að ræða fyrst og ákveða við hvaða kerfi og lýðræði við viljum búa. Gagnvart heimilunum og fyrirtækjum er skaðinn því miður þegar skeður gagnvart hruni krónunnar og ólíklegt að versni til muna til skamms tíma. Það er sá tími sem að við ættum að nýta til þess að ræða undirstöðurnar og hvert við viljum stefna.

Hugmyndin mín er að ná saman stórum og breiðum hópi fólks til þess að taka þess umræðu, leggja þar fram hugmyndir og ræða þær með gagnrýnum hætti. Tilgangur slíkrar umræðu er að ná breiðri samstöðu um þau málefni sem brýnust eru í samfélaginu í dag og í framhaldinu að koma þeim í framkvæmd. Með þessari leið sé ég fram á að ná frekar nægjanlega sterkri samstöðu og meðbyr með slíkum málum til þess að við getum raunverulega gert eitthvað.

Ég tel að Íslandshreyfingin geti verið afar sterkur vettvangur til þess að starfa með og koma málunum áfram - með breiðum hópi fólks úr ýmsum áttum. Íslandshreyfingin er einmitt hreyfing sem kennir sig hvorki við hægri né vinstri, hreyfing sem er ekki stór og hefur því mikla möguleika til vaxtar og mótunar.

Ef við höfum ekki þegar rætt okkar á milli (eða skrifast á um) þessa hugmynd og þú vilt taka þátt í að koma henni í framkvæmd sendu mér þá endilega hið allra fyrsta línu á baddiblue@gmail.com með upplýsingum og símanúmeri.

Eins auglýsi ég hér með eftir húsnæði sem að stæði slíkum fundarhöldum og málþingi til boða án endurgjalds á höfuðborgarsvæðinu. Ég reikna með að við þyrftum að hafa afnot af húsnæðinu í hámark viku tíma, en væri að sjálfsögðu gott ef það gæti verið lengri tími. Upplýsingar um mögulegt húsnæði ásamt upplýsingum um tengilið óskast á baddiblue@gmail.com


mbl.is Ráðherra segi af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Merkilegt - þarf að virðist ekki nema 70 manns til þess að taka yfir Framsóknarfélagið í Reykjavík

Verður afar spennandi miðað við þetta að fylgjast með Sjálfstæðisfélögunum í Reykjavík. Hvað ætli þurfi marga til að gera gagngera hallarbyltingu þar?

En svona bara til umhugsunar, er ekki stjórnmálafélag sem þarf ekki meira til "fjandsamlegrar yfirtöku" dautt fyrir?


mbl.is Fjandsamleg yfirtaka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fullkommið dæmi um getuleysi löggjafavaldsins gagnvart framkvæmdavaldinu

Tek mér það bessaleyfi hér að endurbirta færslu frá Helgu Völu, þú fyrirgefur mér vonandi ritstuldinn Helga Vala. Finnst þetta bara of stórt mál til þess að bera það ekki áfram. Stórkostlegt dæmi um algert getuleysi löggjafavaldsins nú orðið.

Helga Vala birtir þetta undir fyrirsögninni "Framkvæmdavaldið að störfum"

Guðlaugur Þór heilbrigðisráðherra ætlar að halda blaðamannafund í dag um hvernig niðurskurður verði í heilbrigðiskerfinu. Þar verða allar leiðir kynntar.

Ásta Möller, formaður heilbrigðisnefndar Alþingis hefur boðað nefndarmenn til fundar á föstudag til að kynna fyrir þeim hvernig niðurskurður verði í heilbrigðiskerfinu.

Væri ekki nær að nefndarmenn (sem jafnframt eru kjörnir þingmenn þjóðarinnar) mættu bara á blaðamannafundinn, til að komast að því hvað á að gera varðandi heilbrigðiskerfið? Þá þarf liðið ekki að lesa um það í blöðunum á morgun og heyra um í fréttum kvöldsins, heldur getur jafnvel fengið þetta beint í æð frá framkvæmdavaldinu.

... og þá þarf ekkert að vera að eyða tíma í fundarhald á föstudag. Málið dautt.....


mbl.is Vinnubrögðin átalin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er bara of hrópandi fáránleiki til þess að vekja ekki frekari athygli á málinu

Tek mér það bessaleyfi hér að endurbirta færslu frá Helgu Völu, þú fyrirgefur mér vonandi ritstuldinn Helga Vala. Finnst þetta bara of stórt mál til þess að bera það ekki áfram. Stórkostlegt dæmi um algert getuleysi löggjafavaldsins nú orðið.

Helga Vala birtir þetta undir fyrirsögninni "Framkvæmdavaldið að störfum"

Guðlaugur Þór heilbrigðisráðherra ætlar að halda blaðamannafund í dag um hvernig niðurskurður verði í heilbrigðiskerfinu. Þar verða allar leiðir kynntar.

Ásta Möller, formaður heilbrigðisnefndar Alþingis hefur boðað nefndarmenn til fundar á föstudag til að kynna fyrir þeim hvernig niðurskurður verði í heilbrigðiskerfinu.

Væri ekki nær að nefndarmenn (sem jafnframt eru kjörnir þingmenn þjóðarinnar) mættu bara á blaðamannafundinn, til að komast að því hvað á að gera varðandi heilbrigðiskerfið? Þá þarf liðið ekki að lesa um það í blöðunum á morgun og heyra um í fréttum kvöldsins, heldur getur jafnvel fengið þetta beint í æð frá framkvæmdavaldinu.

... og þá þarf ekkert að vera að eyða tíma í fundarhald á föstudag. Málið dautt.....


Sóknarfæri í ensku knattspyrnunni - ætli skuldsett yfirtaka Liverpool á Everton myndi ekki styrkja fjárhagsstöðu félagsins verulega?

Merkilegast fannst mér samt að sjá West Ham mun betur staðsett á þessum lista en Liverpool. Eiginlega ógnvænlegt bara.

En er þetta ekki útrásartækifæri? Kaupum Liverpool og Everton í pakka díl í skuldsettri yfirtöku og leggjum svo niður Everton.  Hljómar það ekki bara vel?


mbl.is Tíu ensk félög tæknilega gjaldþrota
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýjir leikmenn ætla á yfirtöku Framsóknarflokksins eða hvað?

Mér þykir það sæta furðu að eldri Framsóknarmönnum í Reykjavík skuli koma þessi gríðarlega mæting svona mikið á óvart. Það hefur gengið um nokkurt skeið í netheimum áskorun um að skrá sig í flokkinn og taka hann yfir. Jónína Ben hefur meðal annars bent á ítrekað í athugasemdum við bloggskrif Egils Helgasonar að Framsóknarflokkurinn liggi best við höggi, að þar væri skjótasta leiðin á toppinn og mögulega stysta leiðin til þess að komast til valda. Skemmtilegt ef að allir valdapotararnir hópast nú í Framsóknarflokkinn til liðs við þá sem þar voru fyrir.

Við hin vitum þá enn betur að það verður ekkert X við B í næstu kosningum.

Við þurfum að byggja upp eitthvað nýtt, eitthvað sem hefur traust og getu til þess að byggja á heiðarleika og hugsjónum. Ég að minnsta kosti get bara ekki hugsað mér að sitja hjá og halda bara áfram í sama farinu, hvað með þig?

Við þau ykkar sem hafið verið í sambandi við mig vegna áhuga á því að stíga fram og gera eitthvað, biðst ég velvirðingar, hef verið afskaplega afhuga pólitísku vafstri yfir hátíðirnar. Þessi Jól voru svo sannarlega tími fjölskyldunnar hjá mér og mínum.

En nú er kominn tími á aðgerðir. Ég mun verða í sambandi við ykkur öll á næstu dögum.


mbl.is Hiti á fundi framsóknarmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er sökin augljóslega eða bara mjög líklega Íslendinga?

Hvernig stendur á því að málinu er nú svo komið að ríkið getur bent á skilanefnd Kaupþings og skilanefnd Kaupþings vísar málinu aftur tilbaka? Ríkið býr til laga"vafning" sem heimilar okkur að fara í mál og lítur þar með ansi vel út svona út á við til almennings, en á sama tíma telur skilanefndin það ekki liggja fyrir að þeir hafi umboð til þess að sækja málið. Er þetta bara reykmerki í almannatengslum?

Mér er helst spurn hvort að geti ekki verið að líklegt sé að réttur okkar sé svo vafasamur gagnvart Bretunum, að ríkið viti af einhverjum gjörningum þar úti sem að við höfum ekki verið fyllilega upplýst um, að þeir sem til þekki telji mjög ólíklegt að sigur hefðist í málinu. Að það sé verulegum efasemdum ofið að Íslendingar eigi þarna einhvern rétt að sækja. Það er jú vissulega þannig að ef slík málssókn myndi leiða í ljós verri mál, verri framkomu en nú þegar er í umræðunni, væri að sjálfsögðu betur heima setið en af stað farið.

En ættum við hin, almenningur í landinu þá ekki heimtingu á að vita af því?  Fresturinn er að renna út. Hversu lengi ætlum við að þola að sitja undir slíkri óstjórn?


mbl.is Fresturinn að renna út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband