Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009
Aðildarviðræður besta leiðin - tvöföld kosning er tímaeyðsla
11.1.2009 | 11:35
Fyrir mér er þetta engin spurning, við eigum að fara hið fyrsta í aðildarviðræður. Þannig að bara þannig fær þjóðin raunverulegu kostina og skilyrðin á borðið. Við getum karpað um þetta endalaust fram og til baka en staðreyndin er að meðan að við vitum ekki nákvæmlega frá fyrstu hendi um hvaða skilyrði viðræðurnar munu snúast, getur þjóðin ekki tekið afstöðu byggða á raunveruleika.
Ég sjálfur er eflaust búinn að skipta um skoðun 50 sinnum nú þegar um málið, kostirnir eru fyrir mér augljósir í niðurfellingu verðtryggingar og upptöku sterkari gjaldmiðils. Spurningin er hins vegar hvort að ekki sé hægt að ná þeim markmiðum án hálfgerðs afsals sjálfstæðisins á sama tíma.
Ég veit það ekki, ekki frekar en flestir virðast vita. Aðildarviðræður ættu því að vera leiðin, við getum svo öll saman kosið í einni þjóðaratkvæðagreiðslu þegar að skilyrðin liggja fyrir.
Þangað til erum við bara að þusa fram og til baka í óskýrleika.
Þjóðin á að kjósa um aðild | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Carsten Valgreen í rannsóknarnefndina
11.1.2009 | 01:22
Já, eða bara einhvern erlendan aðila sem að hefur til að bera kunnáttuna og einhvern skilning á íslenska kerfinu fyrir og eftir hrun. Það er bara svo einfalt að í okkar litla samfélagi erum við öll einhvern veginn tengd hvert öðru. Hvernig á einhver Íslendingur að geta verið fyllilega óháður í slíkum störfum.
Það hafa margir bent á þetta, nefndin verður að hafa að minnsta kosti einn aðila, sem þá er í forsvari, sem er ekki fæddur og uppalinn á Íslandi og á ekki íslenska ættingja. Það er eina leiðin.
Á þessum síðustu og verstu þarf að byggja upp trúverðugleika ásamt svo mörgu öðru. Trúverðugleikinn verður ekki til af því að nota okkar eigin aðferðir áfram. Það mun ekki byggja traust annarra þjóða á okkur.
Í dag hitti ég góðan félaga á Austurvelli sem tjáði mér það að í Skandinavíu hefði íslenska Kauphöllin verið brandari, eða að minnsta kosti eitthvað sem Norska og Sænska Kauphöllin gerðu ótt og títt grín að. Allir þar virtust vita að íslenska Kauphöllin var bara lítill einkaklúbbur fárra aðila að mestu, aðila sem nýttu sér þessa leið til þess að ítrekað kaupa og selja sjálfum sér eigin fyrirtæki aftur og aftur. Og það sem meira er, íslenska Kauphöllin var sú eina sem gerði ekki þá kröfu að menn raunverulega ættu peninga á reikningi fyrir þeim viðskiptum sem þeir gerðu tilboð í þann daginn í Kauphöllinni.
Auðvitað er þetta nánast brandari, en skelfilega svartur húmor. Hættum þessu bulli og breytum til. Förum að hegða okkur þannig að bæði við sjálf sem og aðrir geta farið að upplifa trúverðugleika aftur. Það er svo ferlega óþægileg tilfinning að vakna svona eftir partíið og sjá að flest hin löndin vorðast bara einfaldlega hafa "drukkið" svo miklu miklu minna en við.
Íslensk stjórnvöld harðlega gagnrýnd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vantar virkjun á Vestfjörðum?
10.1.2009 | 21:57
Mér finnst það grundavallarspurning áður en byrjað er að biðja um og plana virkjanir fyrir vestan. Í hvað á að nota orkuna og hvaða hagsmunum skilar hún byggðarlaginu?
Ég er meðlimur í Íslandshreyfingunni sem hefur gjarnan verið stillt upp sem umhverfisflokki sem er á móti öllum framförum af andstæðingum hennar. Það er þó fjarri sanni. Íslandshreyfingin hefur aldrei talað um að virkja ekkert meira, en við höfum talað fyrir sjálfbærri nýtingu orkunnar. Ekki virkja bara til þess að virkja, ekki virkja bara fyrir okkar og næstu kynslóð.
Hættum þessari skammsýni, klárum heildrænt skipulag allrar orku landsins og skoðum svo málið. Það þarf ekki að taka langan tíma eða standa í vegi fyrir frekari vexti á öllum landshlutum. Það er hins vegar ábyrgð okkar gagnvart afkomendum okkar.
Nýlegt kerfishrun er einmitt afar góð birtingar mynd á lífstíl sem er ekki sjálfbær. Endurskoðum hegðun okkar og gildi. Nú er tíminn.
Vilja skoða stóra virkjun á Vestfjörðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hversu mörg fyrirtæki þurfa að deyja áður en brugðist verður við?
10.1.2009 | 21:31
Það er stórundarlegt viðhorf í stjórn sem skipuð er krötum og hægri sinnuðum að skilningurinn sé ekki meiri á því hvað þetta háa vaxtastig er að gera fyrirtækjunum okkar. Það er ekki nóg með að mörg þeirra hafi bæði tapað stórum hluta af reiðufé sínu og hlutabréfum nýlega, það er verið að kyrkja þau endanlega með þessar vaxtastefnu. Vaxtastefnu sem enginn virðist tilbúinn að viðurkenna að sé frá sér komin. Stjórnin bendir á AGS og þeir vísa því frá sér.
Lækkum vextina strax - það eru allra síðustu forvöð á að reyna að bjarga þar einhverju og koma í veg fyrir enn verra ástand, enn meira atvinnuleysi en við horfum fram á nú þegar. Þetta er aðgerð sem hægt er að framkvæma án tafar og myndi strax virka mjög hvetjandi á atvinnulíf í landinu.
Fyrirtæki hanga í snöru | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mínir menn í Liverpool ekki alveg að skila sínu í dag
10.1.2009 | 21:02
Eftir að hafa nánast orðið klökkur á Austurvellinum í dag þar sem "Þú gengur ekki einn" var sungið svo ágætlega er þetta "tap" enn sorglegra. Já ég segi tap, hvernig er jafntefli gegn Stoke eitthvað annað en að nánast tapa leiknum? Töpuðum án nokkurs vafa að minnsta kosti 2 stigum.
Chelskie og United eiga nú enn frekari möguleika. Koma svo Poolarar, ykkar tími er kominn!
Markalaust hjá Stoke og Liverpool | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Siðleysið mun halda áfram þar til að við opnum augum - þessir menn eru EKKI í viðskiptum til þess að hjálpa okkur
10.1.2009 | 14:12
Það vekur mér ugg hversu margir eru enn að verja þessa menn. Þessi þjóðsaga um að til dæmis Bónus sé einhversskonar baráttutæki fyrir bættum kjörum er ekkert annað, þjóðsaga. Hagafjölskyldan er ekki í viðskiptum til þess að bæta kjör þjóðarinnar. Það kemur sér afar vel að gefa til einhvers góðgerðarmáls reglulega til þess að viðhalda þessari hugmynd, en fjölskyldan er að sjálfsögðu í viðskiptum með það meginmarkmið að græða peninga. Það er eðlilegt, en verður nánast afstætt þegar að stór hluti þjóðarinnar virðist heldur vilja trúa því að þessi fjölskylda sé í bisness til þess að hjálpa þjóðinni. Sérstaklega nú þegar að þessi sama fjölskylda stýrir verðlagi á vörum á öllum stigum smásölunnar. Í Bónus, Hagkaupum og 10-11 veslunum. Þau einfaldlega ráða því hvaða verð við greiðum fyrir matvöru eins og staðan er í dag.
Ég er hættur að versla við þau nánast algerlega, þau eiga þó mjög líklega án þess að ég viti af því hlut í einhverjum þeim fyrirtækjum sem ég versla við í dag, en ég er að gera mitt besta og sofna með ágætis samvisku á kvöldin gagnvart þessu. Hvað með þig?
Þetta siðleysi mun halda áfram hérna svo lengi sem að við samþykkjum það og styðjum það áfram.
Tilboð Haga gerði ráð fyrir staðgreiðslu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
www.rannsoknarnefnd.is
10.1.2009 | 13:00
Það er einfalt, svona grun má ekki horfa fram hjá fyrr en allar upplýsingar liggja fyrir. Ég er reiður og við flest, réttilega. Við eigum heimtingu á því að fá að vita hverjir það voru sem viljandi tóku stöðu gegn þjóð sinni til þess að græða. Það fólk á ekki að fá að ganga um götur bæjarins brosandi á meðan að þjóðin sveltur, heilbrigðiskerfið er skorið niður úr öllu og gamla fólkið situr eftir með nánast tvær hendur tómar.
Ég veit að reiðin er ekki leiðin til hamingju, en einhversstaðar verður að stappa niður fæti og gera eitthvað. Þetta fólk allt saman, fólk sem einhverjir aðrir þekkja og vita af, er fólk sem að á að tilkynna til rannsóknarnefndar.
Hafirðu einhverjar upplýsingar kíktu endilega á www.rannsoknarnefnd.is og láttu vita. Það er án vafa hægt að setja þar inn nafnlausar ábendingar eða að minnsta kosti að fara fram á nafnleynd.
Við þurfum vissulega að stíga fram af eins mikilli yfiregun og kostur er, en notum ekki yfirvegun og önnur gömul íslensk bælingarhugtök til þess að gera ekkert í málinu!!
Rannsókn nauðsynleg vegna galdmiðlaskiptasamninga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Rannsóknarnefnd tryggir öryggi gagna
10.1.2009 | 00:03
Tja, að minnsta kosti þeirra gagna sem að þeir fundu og er ekki enn búið að eyða á þeim ÞREMUR MÁNUÐUM næstum sem liðnir eru frá upphafi hrunsins.
Mér finnst frábært að nefndin hefur tekið til starfa, mér finnst það afar ánægjulegt en óttast jafnframt að þetta sé heldur seint í rassinn gripið gagnvart helstu sökudólgum og ráðamönnum.
Hef þá tilfinningu núna að störf nefndarinnar muni skila öðrum af tveimur möguleikum eftir 10 mánaða starf. A) Þetta var rétt hjá ykkur öllum en við finnum því miður ekki frumgögn til þess að gera eitthvað frekar í málinu eða B) Ýmislegt misfórst augljóslega í aðdragandanum og misserunum fyrir bankahrunið, en þar er ekki við einstaklinga að sakast.
Ég hallast frekar að því að kostur B verði ofan á. B hefur jú líka í flestu verið skammstöfun spillingar svo lengi sem ég hef fylgst eitthvað með pólitík. Nefndarstörfin verða vonandi til gagns, en ekki til að bjarga neinu.
Nú er það okkar að bjarga því sem eftir stendur áður en skipið sekkur endanlega.
Öryggi rannsóknargagna tryggt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ísland vs. Titanic - í raun sorglega keimlík staða
9.1.2009 | 21:26
Það eru án nokkurs vafa ekki öll kurl komin til grafar í þessu máli og því miður er það nánast öruggt að kreppan og afleiðingar hennar eru bara rétt að byrja.
Góður félagi sendi mér í dag hugleiðingu sem að hann í raun dreymdi, en mér finnst svo áhugaverð og skemmtileg lesning að ég skelli því hér inn með hans leyfi. Hann sendi mér þessa hugleiðingu eftir að ég setti inn hvatningu um aðgerðir til breytinga á Facebook. Feitletranirnar eru mínar.
Sæll Baldvin,
Bylting??? Það kemur fyrir einstaka sinnum að mig dreymi eitt og annað og fái svona einskona sýnir milli draums og vöku. Oftar en ekki hafa þessar sýnir/draumar komið til veruleika stundum þægilega óvart eins og svona "aha" já einmitt tilfinning, stundum eins og "shit" ég hefði betur átt að nýta mér þær upplýsingar sem draumurinn/sýnin gáfu mér.
Ég upplifði svona draum/sýn seint í nótt/snemma í morgun.
Hvað sá ég? Svona í stuttu máli þá byrjar það með spurningu; hefur þú séð kvikmyndina Titanic? Reikna mað því..
Ég fékk að sjá atburði undafarinna mánaða sem áhorfandi að þeim hamförum sem áttu sér stað um borð á Titanic,, sem greinilega er ísland.
Fékk nákvæmar líkingar á milli atburðanna þá og þess sem er að gerast í dag. Titanic! Besta skip í heimi!! ósökkvandi!! hrokafullir eigendur o.s.frv. Aðvaranir um rekís og borgarísjaka,,, hundsað fullt stím áfram!! Búmm... krash... bang!!! áreksturinn - bankahrunið!
Smá hristingur,,, fólk hrætt... einhverjir slasast o.s.frv.. en skipið flýtur enn.. (yfirtaka ríkisins á bankakerfinu) aðgerðir ??? láta sem ekkert sé.. halda ljósavélunum í gangi,, róa farþegana..
OK.. þú skilur hvað er í gangi og hefur séð myndina og veist hvernig hún endar.. Þá er það spurningin; Hvar erum við staddir í myndinni núna?
Nákvæmlega í dag erum við staddir þar sem allt virðist rólegt á yfirborðinu.. skipið aðeins byrjað að hallast,, fólk á fyrsta og öðru farrými búið að dressa sig upp,, byrjað að sjósetja nokkra björgunarbáta og koma fyrirfólki og fyrstafarrýmisfarþegum frá borði...hljómsveitin er að byrja að spila og öllum sagt að "allt"sé í stakasta lagi..
fólk á öðru og þriðja farrými frekar órótt en skríllinn á fjórða og fimmta farrými að flippa út en.... who cares... hvort eð er læst inni..
Og hvað er pointið?? Jú ég er búinn að sjá þess mynd nokkrum sinnum og...hún endar "alltaf" eins....
Stundum þegar ég sé svona fyrir mér hef ég rænu á því að spyrja hvað sé verið að sýna/kenna mér... og svarið var skýrt; Það er ekkert sem bendir til þess að endirinn verði öðruvísi....
Skipinu verður ekki bjargað... en það eri enn tími til að bjarga flestum þeim sem enn eru um borð.
Ég er einungis tilbúinn til að vera með í björgunaraðgerðum sem byggjast á;
"Ein þjóð - eitt kjördæmi" , "Einn maður - eitt atkvæði" , "Alger aðskilnaður framkvæmda og löggjafavalds" , "Uppræting lénsveldis á Íslandi" (þ.e. gereyðing hins eina pólítíska flokks á Ísland "Fjórflokksins")
Virkilega góð hugleiðing hjá félaga mínum, spurningin til okkar er þá hvort að við ætlum bara að trúa því að allt verði í lagi eða hvort að við ætlum að gera eitthvað til þess að annað hvort laga skipið eða skipta árabátunum sanngjarnlega á milli okkar allra?
FME: Enn unnið að rannsókn á bönkunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hvar er fólkið sem er að missa vinnuna eða er búið að því?
9.1.2009 | 17:15
Um allan bæ er verið að skipuleggja atburði. Friðsamleg mótmæli, mótmæli óhlýðni. Nýjar stjórnmálahreyfingar, endurkipuleggja aðrar.
Nokkur hundruð til nokkur þúsund manns mæta á mótmæla fundina á laugardögum. Mér finnst afar merkilegt hvað það eru fáir í raun miðað við þann fjölda sem sér fram á að komandi ár verði þau verstu í lífi sínu. Ef nú þegar eru um 7.000 manns atvinnulausir getum við áætlað að að lágmarki séu um 21.000 manns sem að það hefur veruleg áhrif á. Fyrir hvern atvinnulausan eru vafalaust að meðaltali að minnsta kosti tveir að auki sem að það hefur verulega áhrif á.
Hvar er allt þetta fólk? Ætlar fólk ekkert að gera í málinu? Eigum við bara að vona að þetta jafni sig og verði einhvern tímann vonandi betra? Eða eigum við kannski að gera eitthvað sjálf og breyta kerfinu?
3.500 fyrirtæki í þrot? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |