Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Hvað er málið með Vodafone völlinn?

Ég vil nýjan sponsor hið fyrsta á völlinn, Valur hlýtur að vera eina félagið sem virðist bara hreinlega ganga verr á heimavelli í deildinni.

Hvað er málið með stemmninguna þarna?


mbl.is Skagamenn með útisigur á Val
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Finnst okkur svona ótrúlegt að til sé Kani sem skilur kaldhæðni?

Sé á viðbrögðum bloggara hérna að menn trúa því jafnvel upp á Mikka (Michael Moore) að hann sé illa innrættur.

Ég tel það afar einfalt af okkur ef að við kjósum að skilja þetta á einhvern annan máta en sem grín. Mikki er grínar og hefur gaman af því að vekja fólk til umhugsunar um málefnin með óþægindum.

Að henda okkur út fyrir þægindasviðið virkar einmitt svo afar vel.

Mikki missti því miður mikinn trúverðugleika í Bandaríkjunum eftir Fahrenheit 911 (Sjá líka hér), þar sem að hann tók ekki tillit til fjölskyldna þeirra sem voru að berjast í Írak. Spurningin hins vegar á kannski rétt á sér varðandi það hvort að eigi að taka tillit? Eðlilega óttast fólk um ástvini í stríði, en ætti fólk ekki vera að eyða kröftum sínum í að ná þeim heim aftur?  Með eða án olíunnar.  Hér að neðan sýnishorn úr myndinni af You Tube vefnum:

 

 


mbl.is Segir Gústav sönnun þess að Guð sé til
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúlegur ræðumaður - kröftug útgeislun...

ObamaHljóma heldur dramatískur, en eftir þessar rétt um 2 mínútur úr ræðunni langar mig nánast að flytja til Bandaríkjanna og verða þegn til þess að geta kosið Barack Obama sem forseta.

En við getum treyst því að eftir þessa innblásnu ræðu verður nú allt vitlaust hjá þeim sem "stýra" bakvið tjöldin í Bandaríkjunum. Sérstaklega í olíu iðnaðinum. Þessi stefna Obama að kalla herinn heim frá Írak er til að mynda ekki í velvild stórra afla í Bandaríkjunum, afla sem sjaldan eða aldrei eru nefnd, en eru þó talin nánast stjórna forsetanum hverju sinni.

Obama ætlar að lækka skatta á venjulega fólki og hætta að verðlauna fyrirtæki með lægri sköttum sem eru hægt og rólega að flytja framleiðslu sína úr landi. Ég veit ekki hversu miklu það muni breyta í rekstri þeirra fyrirtækja, hvort að þau breyti einhverju í stefnu sinni. Flytji jafnvel höfuðstöðvar sínar úr landi eins og við virðumst óttast mest með stór íslensk fyrirtæki a.m.k. En það er ljóst að þessar skatta hugmyndir Obama munu vekja hjá honum miklar vinsældir hjá venjulegu fólki, vekja von um að ameríski draumurinn geti aftur orðið raunveruleiki.

Gaman að sjá líka að í raun er Obama að hegða sér ekki ósvipað íslenska landsliðinu í handbolta gerði á Ólympíuleikunum. Hann er að hegða sér í framkomu eins og hann sé orðinn forseti nú þegar. Kallast jákvæðar staðhæfingar og er nánast sjálfsdáleiðsla. En virkar afar vel yfirleitt, sáum það best í silfri hér heima. Vonandi skilar það Obama Gulliverðlaunum í kosningunum.

 


mbl.is Obama fellst á útnefningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur ræðumaður kvöldsins, engin samkeppni þar....

Dásamlegur drengur, kemur fram af þvílíkri einlægni og hispursleysi að frábært er að fylgjast með.  Hlýnaði líka verulega um hjartaræturnar íslendingnum í mér við að sjá strákana nánast alla (sumir gleymdu sér í geðshræringunni) faðma Forseta lýðveldisins þegar þeir gengu á sviðið. Hvar annarsstaðar þætti það við hæfi?

Tek heilshugar undir orð Ólafs, það er ótrúleg gjöf að fá að vera íslendingur.  Þrátt fyrir tímabundna niðursveiflu í hagkerfinu og genginu að þá höfum við það svo ólýsanlega gott samanborið við stærstan hluta heimsins. Það er nú bara þannig.

Ólafur hefur einmitt verið duglegur að koma því að hjá okkur, að vera þakklát fyrir það sem við höfum og að sameiginlega getum við breytt heiminum.  Ég trúi því sannarlega og hef meðal annars verið að starfa með ABC Barnahjálp því markmiði til framfylgis. Þar er það trú okkar að besta leiðin til að breyta heiminum sé að gefa fólki menntun og tækifæri til að breyta sér og sínum. Trúin á breytinguna þarf að sjálfsögðu líka að koma innan frá, að byggja upp fólk trúi ég að breyti heiminum hraðar en bein fjárframlög gætu nokkurn tímann.  Það er búið að vera að senda peninga til Afríkuríkja í yfir 100 ár með litlum árangri.

En árangurinn lætur ekki á sér standa þegar við förum að vinna með einstaklingum í uppeldi og menntun.  Ólafur er einn af sendiherrum ABC Barnahjálpar og þar erum við virkilega stolt af drengnum eðlilega.

En með þakklætið í huga er líka gott að minnast þeirra sem minna mega sín og koma þakklætinu í framkvæmd. Einhver sagði að þakklæti væri lítils virði ef af því hlitist ekki eitthvað gott.

Ef þú getur hjálpað til að þá þarf starf ABC Barnahjálpar svo sannarlega aðstoð núna, því vegna mikilla gengissveiflna hafa sjóðir starfsins þurrkast upp og starfið stendur afar illa.  Kíktu endilega inn á heimasíðuna og leggðu málinu lið ef þú ert aflögufær á peninga og/eða tíma.  Getur líka smellt hér beint til að fara beint í að styrkja barn.


mbl.is Ótrúleg gjöf að vera Íslendingur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Takk fyrir mig Hreinn Loftsson

Var mér til mikillar undrunar að lesa bara hreinlega virkilega vel skrifaða grein í helgarblaði DV frá 22. ágúst síðastliðnum. Gáði ekki að því hver væri höfundur fyrr en eftir á, og í fordómum mínum átti ég satt best að segja bara alls ekki von á svo góðum skrifum í DV.

Greinin:
Hreinn Loftsson (2008, 22. ágúst), Stuðningur íslenskra stjórnvalda við Íraksstríðið. DV, bls. 22-23.

Við vitum jú flest að í samskiptum við Davíd Oddsson eru fáir hlutlausir og Hreinn Loftsson telst seint einn af þeim, en engu að síður finnst mér hann skila frá sér þarna virkilega greinargóðri lesningu og fyrir mig afskaplega upplýsandi.  Mæli eindregið með að þú lesir greinina ef að t.d. lög og stjórnsýsla vekja áhuga þinn. Gott í greininni að sjá m.a. vitnað til þess að á bakvið greinar stjórnarskrárinnar okkar liggur mikil reynsla sem síðan birtist þar í lögum.  Eða eins og Hreinn Loftsson kemst að orði í greininni:

Í stjórnarskránni segir í 21. grein, að íslensk stjórnvöld geti ekki gert
samninga við önnur ríki ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi
eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins, nema samþykki
Alþingis komi til. Hér er sleginn sá varnagli að æðstu embættismenn þjóðarinnar, ráðherrarnir, sem hver um sig fara með æðsta stjórnvald á
sínu sviði, geta ekki án heimildar Alþingis skuldbundið íslenska ríkið með samningum við önnur ríki, ef um er að ræða meiriháttar mál á borð við skerðingu á frelsi og fullrétti þóðarinnar. Þetta stafar af þingræðisreglunni,
sem hér gægist fram í nefndu ákvði stjórnarskrárinnar, en í henni felst að ráðherrar starfa í skjóli og með tilstyrk Alþingis. Þingræðisreglunni er ætlað
að tryggja Alþingi sterka stöðu til áhrifa á stefnu og framkvæmd verka ráðherranna og þá ekki hvað síst í utanríkismálum. Þetta er ekki spurning
um form heldur efni. Mikil saga er að baki reglunni; gjörvöll sjálfstæðisbarátta þjóðarinnar á 19. og fram á 20. öld snerist að stórum hluta um stöðu Alþingis sem æðstu valdastofnunar íslensku þjóðarinnar (leturbreyting mín).

Fyrir fólk eins og mig, sem að er óðum að gleyma því af hverju það skilgreindi sig sem Sjálfstæðismenn að þá hóf Hreinn Loftsson skrif sín á tilvitnun í Bjarna heitinn Benediktsson, sem ég bara hreinlega verð að láta fylgja hér með líka. Þessi tilvitnun finnst mér kristalla svo skýrt hugarfarið sem ríkti eitt sinn í Sjálfstæðisflokknum og varð til þess að þessir miklu baráttujaxlar sem áður störfuðu fyrir flokkinn, náðu eins langt og raun ber vitni með þjóðina alla. Á í rauninni örskömmum tíma var þjóðin dregin út úr moldarkofum og landbúnaðarsamfélagi sem var nánast algerlega staðnað inn í það að vera tæknivætt samfélag rekið með arði.

Þessi auðmýkt sem þá ríkti er því miður illa sjáanleg í störfum forsvarsmanna Sjálfstæðisflokksins í dag og í mínu tilfelli þyrftu að koma til verulegar breytingar á bæði hugarfari og framkomu forystumanna í flokknum til þess að ég gæti hugsað mér að leggja þeim lið.

Ætla að ljúka þessari langloku með því að birta hérna tilvitnunina í Bjarna Benediktsson:

Þeir eru allt of margir, ekki sízt á opinberum vettvangi, sem hafa
tamið sér það að tala svo um andstæðinga sína sem þeir væru
samblönduð hjörð fábjána og misindismanna ... slík baráttuað-
ferð er átakanlegt vitni þröngsýni og víðsýnisskorts. Hún er merki
sjálfbirgingshrokans, sem telur sig einan vita allt, þykist sjálfum
sér nógur og upp yfir það hafinn að læra af öðrum ... Í fyrstu byrja
sumir sjálfsagt þennan leik í hálfkæringi og alvöruleysi. Enda er
það auðveldasta aðferðin í deilum um alvarleg mál að svara með
getsökum og aðdróttunum. Áður en varir eru svo þeir, sem slíkt
hafa um hönd, farnir að trúa sjálfum sér og verða þar með þröng-
sýnni með hverri stund er líður. Og verra en það. Sá, sem trúir því,
að andstæðingi sínum gangi illt eitt til og hann kjósi fremur rangt
en rétt, lendir áður en varir í þeirri hættu að hverfa frá baráttuað-
ferðum lýðræðisins. Það er býsna almenn trú, að illt skuli með illu
út reka. Ef menn telja því við óþokka eina að eiga, þá er viðbúið,
að ekki verði þokkabrögðum einum beitt til að koma þeim fyrir
kattarnef.

Þykir miður að klikkja út þessi skrif með leiðindum eftir þennan innblástur frá Bjarna heitnum, en ég verð bara að koma því hér að að mér þykja þessi skrif Bjarna lýsa Davíð Oddssyni bara svo ótrúlega vel. Þar var á ferðinni stjórnmálamaður sem færðist frá því að, mínu mati, að vera frábær leiðtogi og stjórnmálamaður í það að vera maður hefnda og ofsóknarkenndar. Leiðtogi sem var á endanum svo viss um eigið ágæti að hann taldi sig almennt ekki þurfa að bera ákvarðanir sínar undir hvorki kóng né prest. Hvorki Alþingi né nefndir þess.

Það sem verst er að að virðist hefur hann kennt stórum hluta flokksmanna þessa framkomu. Geir H. Haarde gæti verið sá maður sem leiðir Sjálfstæðiflokkinn frá þessari stefnu, en Geir verður þá að taka af skarið og GERA eitthvað.

Það sagði mér góður maður að ef að maður gerir ekki neitt, gerist ekki neitt.


Eru ekki flestir orðnir því sammála að breytinga sé þörf?

Eiginlega alveg ótrúlegt að mínu viti að John McCain skuli hafa náð að sannfæra svona marga um það að hlutirnir muni breytast frá því sem nú ef fólk kjósi hann sem forseta. Trúir þú því?

Breytinga er þörf og þó að Pink sé kannski ekki sá mest sannfærandi talsmaður útigangsfólks sem að ég hef séð að þá finnst mér samt við hæfi að skeyta inn hérna svona eins og einu myndbandi frá henni:

 


mbl.is Draumurinn lifir í Obama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Getur þú bjargað barni??

Fékk þetta sent áðan frá skrifstofu ABC barnahjálpar, endilega ef þú mögulega getur sendu þetta áfram á þína tengiliði. Skelfilegt þegar að eitthvað jafn óviðráðanlegt og mikil gengissveifla setur fleiri þúsund börn í verulega afkomu hættu.

Kæri viðtakandi
 
Fall krónunnar hefur ekki farið fram hjá neinum og hefur ABC barnahjálp hefur ekki farið varhluta af því ástandi.
 
Um 12 þúsund börn eru í skólum og barnaheimilum ABC barnahjálpar í hinum ýmsu löndum og kostar yfir 27 milljónir á mánuði að sjá fyrir þessum stóra barnaskara miðað við gengi krónunnar í dag. Íslenska krónan hefur fallið yfir 40% frá áramótum sem er þriðja mesta fall allra gjaldmiðla í heiminum á þessum tíma. Þegar svo við bætist hækkun matarverðs í heiminum sem er verulegt vandamál í þeim löndum sem ABC starfar er ljóst að endar ná hvergi nærri saman.
 
Allir sjóðir ABC eru nú uppurnir og þó hefur ekki verið hægt að senda nauðsynlegt fjármagn til barnanna. Matarreikningar hafa hlaðist upp og þolinmæði birgja er á þrotum.
 
Í svona árferði væri eðlilegast að skera niður og senda á brott þau börn sem enn vantar stuðningsaðila, en það er ekki valkostur í hugum okkar. Við viljum berjast fyrir börnunum okkar sem mörg hver hafa komið úr ömurlegum aðstæðum og hafa leitað á náðir starfsins í neyð sinni.
 
Hefðir þú tök á að hjálpa einu barni svo að hægt sé að tryggja því örugga dvöl á heimili og/eða skóla ABC barnahjálpar. Það kostar ekki nema 2500 kr./mán. að sjá barni fyrir skólagöngu með skólamáltíðum, bókum og öðru tilheyrandi skólanum. Ef barnið dvelur á barnaheimili ABC eða heimavist með fullri framfærslu er þessi kostnaður 3900 kr./mán.
 
Vinsamlegast smelltu hér ef þú vilt taka að þér að styðja barn.
 
Það væri frábært ef þú vildir hjálpa okkur í baráttunni með því að áframsenda þennan póst sem víðast.
Hjartans þakkir fyrir hjálpina.
ABC barnahjálp


Græða Olíufélögin á hækkandi verðbólgu?

Mér er spurn. Mér finnst það alveg ótrúlega óforskammað á sama tíma og Ríkisstjórnin ásamt Seðlabankanum berst gegn verðbólgu af krafti, verðbólgu sem nálgast það að vera óðaverðbólga, að þá taka Olíufélögin sig til og HÆKKA álagningu á eldsneyti á markaði. Í skjóli óstöðugleika á heimsmarkaði og mikilla gengisbreytinga á Íslandi hafa Olíufélögin hækkað álögur og það um allt að 8 krónur á líter af dísel olíu.

Eldsneytis verð er stór þáttur í vísitölunni á Íslandi og þá alveg sérstaklega dísel olían því það má færa fyrir því rök að nánast allt annað hækki hér heima við hækkun dísel olíu. Við hækkun dísel olíunnar hækkar flutnings kostnaður á öllu innanlands, sem að sjálfsögðu síðan skilar sér í hærra verði til neytandans.

Hærra verð til neytandans skilar sér síðan í hækkandi vísitölu sem þá áfram ýtir undir hækkun á verðbólgu.  Er ekki hægt að refsa svona aðilum á einhvern máta?

Á sama tíma og talað er um að endurnýja þurfi þjóðarsátt, að allir aðilar markaðarins þurfi að taka höndum saman, að launþegar þurfi að sætta sig við verulega versnandi kjör, þá ákveða Olíufélögin að nýta sér ástandið og auka tekjurnar sínar um áætlaðar 140 milljónir á mánuði.

Hvernig á að bregðast við svona fréttum?


mbl.is Eldsneyti lækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sat aðalfund Íslandshreyfingarinnar í gærkvöldi.

Afar ánægjulegt að sjá Ómar í sínu besta formi eftir mikil veikindi undanfarna mánuði.

Ég hlakka til að takast á við málefnin og uppbygginguna sem framundan er undir handleiðslu góðs fólks. Ekki aðrir stjórnmálaflokkar sem geta státað af öðrum eins umhverfis baráttujaxli í forsvari eins og hann Ómar er, og nýleg viðurkenning sem hann fékk frá Seacology samtökunum glæsileg staðfesting á þörf baráttu hans hingað til.

Margir í kringum mig hafa viljað efast um þörf á framboði flokks með umhverfismál sem sína helstu áherslu, en ítrekuð og endurtekin dæmi nýlega sýna kröftuglega að þvert á móti hefur þörfin fyrir umhverfisframboð aldrei verið meiri.

Nú situr í ríkisstjórn flokkur sem náði væntanlega mjög stórum hluta síns fylgis út á fullfagurt plagg sem gengur undir nafninu Fagra Ísland.  Nú þegar eru þingmenn Samfylkingar búnir að samþykkja meiri framkvæmdir tengdar stóriðju en meira að segja þingmenn Framsóknarflokksins voru tilbúnir til að lofa fyrir síðustu kosningar.

Hver á á verja okkur ef ekki við sjálf?


mbl.is Ómar endurkjörinn formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikið er ég ánægður með þig Marsibil :)

Mér hlýnar við það að vita til þess að enn séu til manneskjur í pólitík sem taka hugsjón fram yfir valdasæti.  Takk Marsibil fyrir að auka trú okkar á að það sé enn von.

En mikið er það nú samt merkilegt að nú sé að hefjast annað meirihluta starf þar sem að manni með afar lítið bakland og lítið sem ekkert fylgi er stillt upp af Sjöllum sem valdamanni en hefur samt ekki einu sinni stuðning næstu manneskju á eigin lista.

Finnst einhverjum þetta samstarf eitthvað trúverðugra en það síðasta?

Verst þykir mér að Hanna Birna sem eflaust vill vel (og völd) og gæti orðið hinn ágætasti Borgarstjóri mun alltaf verða þekt héðan í frá af miklum plotthæfileikum, fremur en af störfum sínum fyrir borgarbúa.


mbl.is Marsibil styður ekki nýjan meirihluta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband