Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Vilt þú verja Hengilssvæðið og Ölkelduháls??

Sendu þá vinsamlegast tölvupóst á Skipulagsstofnun skipulag@skipulag.is og á Ölfushrepp á olfus@olfus.is og leggðu inn athugasemdir.  Athugasemda frestur er til 9. nóvember.

Sendu endilega cc. á Umhverfisráðherra á tsv@althingi.is

Vanti þig efni í bréfið er hér mjög gott bréf af síðunni hengill.nu, vinsamlega passaðu að setja undir bréfið fullt nafn, kennitölu og heimilisfang:

Skipulagsstofnun
Laugavegi 166
150 Reykjavík

og

Sveitarfélagið Ölfus
Hafnarbergi 1
815 Þorlákshöfn

21. október 2007

Efni: Athugasemd við fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir - Bitruvirkjun, allt að 135 MW jarðvarmavirkjun
í Sveitarfélaginu Ölfusi og Grímsnes- og Grafningshreppi.

Ég undirritaður/undirrituð mótmæli fyrirhuguðum virkjunarframkvæmdum Orkuveitu Reykjavíkur
á svokölluðu Hengilssvæði með eftirfarandi atriði í huga:

  1. Hengilssvæðið og dalirnir austan, vestan og sunnan þess hafa lengi verið ein helsta útivistarparadís
    íbúa höfuðborgarsvæðisins og er skilgreint sem útivistarsvæði, staðfest af umhverfisráðherra í janúar
    2005. Nú, þegar verið er að þétta byggð á höfuðborgarsvæðinu svo gríðarlega sem raun ber vitni,
    byggja á öllum auðum blettum og fækka útivistarsvæðum í þéttbýli, er brýnna en nokkru sinni að íbúar
    höfuðborgarsvæðisins eigi kost á að njóta óspilltrar náttúru í hæfilegri dagsferðarfjarlægð frá heimilum
    sínum. Þetta svæði er eitt örfárra í nágrenni höfuðborgarsvæðisins þar sem hægt er að ganga um í
    friði og ró, njóta ótrúlega fjölbreyttrar náttúrufegurðar fjarri amstri dagsins og síaukinni bílaumferð á
    höfuðborgarsvæðinu.

    Ég mótmæli því harðlega að stórfyrirtæki verði heimilað að svipta íbúa höfuðborgarsvæðisins og
    afkomendur þeirra þessum lífsgæðum til þess eins að þjóna hagsmunum erlendra auðhringa í áliðnaði
    eða annarri stóriðju. Þar af leiðandi mótmæli ég einnig að hluta svæðisins verði breytt í iðnaðarsvæði
    skv. fyrirhugaðri breytingu á aðalskipulagi Ölfuss.

  2. Ein helsta tekjulind íslensku þjóðarinnar nú er ferðaþjónusta. Erlendir ferðamenn koma fyrst og fremst
    til Íslands til að njóta þeirrar náttúrufegurðar sem landið hefur upp á að bjóða. Við auglýsum landið
    sem óspillta náttúruperlu og á þeim svæðum sem það loforð stenst standa ferðamenn á öndinni yfir
    þeirri fegurð sem við þeim blasir. Hengilssvæðið er einn þessara staða og vinsælt að fara þangað í
    dagsferðir með erlenda ferðamenn, ýmist gangandi eða á hestbaki. Margir ferðamenn gera stuttan
    stans á landinu og þá er nauðsynlegt að geta sýnt þeim óspillta náttúru sem næst
    höfuðborgarsvæðinu.

    Ég mótmæli því harðlega að stórfyrirtæki verði heimilað að svipta ferðaþjónustuna tækifæri til að sýna
    erlendum ferðamönnum óspillta náttúru í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og legg til að svæðið verði
    friðað til frambúðar.

  3. Framkvæmdaraðili virkjana á Hengilssvæðinu er Orkuveita Reykjavíkur, en hún er einnig sá aðili sem
    lét gera umhverfismat og ber kostnað af því.  Þetta eru ámælisverð vinnubrögð þar sem stór
    hagsmunaaðili erí raun dómari í eigin máli. Ég mótmæli slíkum vinnubrögðum harðlega og geri þá kröfu
    að óvilhallir aðilar sjái alfarið um mat á umhverfisáhrifum og íslenska ríkið beri kostnaðinn.
    Umhverfismat sem framkvæmt er og kostað af hagsmunaaðila framkvæmdar getur aldrei verið marktækt.

  4. Einnig geri ég alvarlega athugasemd við kynningu og tímalengd hennar þegar svo stórar framkvæmdir
    eru annars vegar sem snerta nánasta umhverfi og lífsgæði ríflega helmings íslensku þjóðarinnar.
    Sex vikna frestur til athugasemda er allt of skammur og allt kynningarferlið til þess gert að sem fæstir
    veiti málinu athygli og hafi skoðanir á því.

Með von um árangur,


_________________________

Nafn, kt.
Heimilisfang


Hver verður framtíð Hengilssvæðisins og Ölkelduhálss?

FRAMTÍÐ HENGILSSVÆÐISINS:

VILJUM VIÐ

ÚTIVISTARPARADÍS

bild1_liten

 EÐA IÐNAÐARHVERFI

bild2_liten?

Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.


Já, ég veit. Ég er einn af þessum stórkostlega ófrumlegu bloggurum hérna á svæðinu....

Rakst á þetta ljóð eftir hann Einar Ben. á bloggsíðu hjá félaga mínum og finnst þetta bara of fallegt til að birta ekki hérna. Já ég veit, það er sérlega ófrumlegt að apa upp efni frá öðrum, ef ég væri svona frumlegur og listfenginn myndi ég að sjálfsögðu aldrei birta neitt nema eitthvað rosalega frumlegt og Guðdómlega fallegt og listfengið.

Vitið líklega flest sem lesið síðuna mína að ég er óvirkur (alki þ.e.a.s., er ansi nálægt því að vera ofvirkur sjálfur Whistling ) og hef verið um langa hríð.

Þetta fallega ljóð sitt orti Einar Ben. til sinnar heittelskuðu þegar að hann vaknaði upp eftir einn túrinn í Rómarborg og mundi að sjálfsögðu væntanlega lítið af því sem hafði á daga sína drifið í millitíðinni. Það var ekki eins og í dag þarna um árið 1903. Samgöngur voru ekki á hverju strái og það tók Einar blessaðan um 6 mánuði að komast aftur heim.

En til að segja ástinni sinni að hann væri hultur og án vafa til að biðjast fyrirgefningar á sinn máta og koma tilfinningum sínum til hennar orði hann þetta ljóð og sendi henni.

"Minn síðasta þanka sendi ég þér,
svanninn minn hjarta-góði.
Mig sakar ei neitt, hve svo sem fer,
sál mín breyska vátryggð er;
mér er unnað af einu fljóði.

Og hafi ég brotið of margt og margt
og mæði mig syndanna þungi,
þá veit ég, að allt verður um mig bjart,
að aldrei hverf ég í myrkrið svart,
fyrir bæn þína engillinn ungi,-"


Loksins loksins - komnar inn nýjar myndir

Frúin tók sig til í dag og fór og keypti nýjan USB kapal fyrir myndavélina.  Týndum hinum og höfum þess vegna ekki haugast til að koma inn nýjum myndum af stúlku Baldvinsdóttur og bróður hennar.

En loksins loksins, komnar inn nýjar myndir á Picasa

Stoltur stóri bróðir tók ansi margar þeirra.


Er BDSM - nýr meirihluti - með lausnina??

Var bent á það í dag að maður er má ekki vera hlutlaus.  Maður er annað hvort með eða á móti BDSM!!!

Það þýðir ekkert millimoð. Engar málamiðlanir eða skátahnúta.  Með eða á móti!!

BDSM er víst ný skammstöfun fyrir nýjan meirihluta í Reykjavík, Björn, Dagur, Svandís og Margrét.

Hljómar strax einhvern veginn meira spennandi en REI stjórnin.


mbl.is Fá aldrei fullnægingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenska landsliðið fékk stóran skell gegn "Breiðablik"!!

Kannski ekki Breiðablik nei, en búa samt jafn margir hausar í Kópavogi og í smáríkinu Liechtenstein!!

Og það ekki neitt "smá tap", ekkert "voða óheppnir tap".  Nei bara ömurleg niðurlæging.

 

Eyjólfur, vertu maður að meiru.  Finndu þér einhverja þægilega dagvinnu bara að fyrra bragði.


mbl.is Ljótur skellur Íslands í Liechtenstein
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Horfði á Kastljósið í kvöld, aumingja Vilhjálmur kom skelfilega út þarna....

Vilhjálmur kemur skelfilega út úr þessum þætti.  Var fát á honum allan tímann og afskaplega ósannfærandi í öllu fasi.  Kemur fyrir eins og drukknandi maður að leita að síðasta hálmstráinu.

Bjarni hins vegar yfirvegaður.  Horfði ekki mikið til Vilhjálms og hafa menn viljað túlka það þannig að hann væri með sektarkennd gagnvart Villa.  Að mínu mati var eina ástæða þess að hann horfði ekki mikið til Vilhjálms sú, að honum bauð við pólitísku bullinu og lyginni sem að Villi jós yfir borðið.  Bjarni sat þarna hinn rólegasti og fór yfir það sem hafði gerst, var með skráð niður minnisatriði og undirrituð plögg af öllum málsaðilum, þ.á.m. af Vilhjálmi.

Er ekki mál að linni?  Þurfum við ekki öll bara að sætta okkur við það núna að sundurleitur hópur D fólks í borginni klúðraði þessu og Vilhjálmur, því miður, spilar afar stórt hlutverk í því klúðri sjálfur.  Vilhjálmur var líklega ekki, eftir allt saman, svikinn af B mönnum.

Hann fékk rýtinginn frá bræðrum sínum og systrum í D hópi.


mbl.is Minnist þess ekki að hafa séð minnisblaðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erfitt verkefni framundan....

Sjáum hvað setur, aldrei að vita nema REI listinn undir stjórn Dags nái að gera góða hluti. SÉRSTAKLEGA af því að Bingi "Glanni" Hrafnsson er ekki með meira vægi en raunin er í samstarfinu.  Dagur hefði þó verið maður að meiru hefði hann krafið Björninn um að segja af sér trúnaðarstörfum á vegum OR og REI.

Ég hef reyndar nokkra trú á Degi og er ánægður með að hann fái tækifæri sem Borgarstjóri, gæti m.a.s. orðið honum til enn meiri hvatningar hvernig málin þróuðust. Hann gerir sér væntanlega grein fyrir hversu litla möguleika hann á í næstu kosningum geri hann og hans fólk ekki eitthvað stórglæsilegt sem sitjandi meirihluti.

Ólafur F. og Margrét vissulega í óþægilegri stöðu að vissu leyti. Bæði skráð meðlimir í XÍ en voru ekki kosin sem slík og verða því að gæta orða sinna. Sérstaklega til að ergja ekki enn meira virkilega grama F-menn sem hafa í mikilli rætni elst við Margréti eftir að hún tók sitt hafurtask og fólk og yfirgaf listann þeirra.
Ólafar og Margrétar bíður mikið verk ætli þau sér að ná manni inn aftur í næstu kosningum. Best væri náttúrulega að standa sig með þvílíkri prýði að þau bætti við manni næst (jafnvel á kostnað B-lista).

Það sem mér finnst verst af öllu fyrir mig persónulega í öllum þessum gjörningi er hversu afhuga pólitík þetta gerði mig.  Mér finnst allt svona baktjaldamakk algerlega ömurlegt og eigi alls ekki að líðast í lýðræðis ríki.

Ef pólitískt kjörnir leiðtogar geta ekki sýnt okkur þá lágmarkskurteisi að fela ekki gjörðir sýnar og framkvæma í skúmaskotum, þá eiga þeir ekki að mínu mati rétt á setu sinni.

Þetta á jafnt við um núverandi meirihluta sem og skíthælana í minnihlutanum sem voru á hlaupum um allan bæ að reyna að finna "vini" til að stofna með nýjan meirihluta, án Villa, án vitneskju Villa sem virðist alltaf vilja trúa því besta í öllum málum. Hvort sem um er að ræða samstarfsfólk eða risastóra samninga sem að hann skrifar undir án þess að lesa.


mbl.is Nýr meirihluti nýtur stuðnings 56,5% borgarbúa samkvæmt könnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heppinn?

Haninn sagði: "Það var ekki ég, það var ehf'ið mitt".

Heppinn?


mbl.is Úthlutaði sjálfum sér 106 milljónum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers virði er æran? Lágmarkskrafa að Björn Ingi hverfi frá völdum alfarið!!

Plott ofan á plott, þvílík tík sem hún er þessi pólitík.  Ojbarasta.  Alfreð sagður höfundurinn að plottinu skv. frétt á Vísi, sem er að sögn höfð eftir Birni inga. Alfreð enda væntanlega ansi reiður Guðlaugi Þór fyrir að setja hann af.  Stjórnmál eru ömurleg almennt, en alveg sérstaklega siðlaus að virðist hér heima.  Kannski bara af því að þau eru gegnsærri en á mörgum öðrum stöðum, hver veit.

Mér finnst þetta mál allt hið ömurlegasta.  Sjálfsagt að Vilhjálmur stígi frá, en að hampa Birni Inga eitthvað fyrir hans framgöngu, tja það er náttúrulega bara sjúkt.  Er hann ekki í raun gerandi í málinu og Villi leiksoppur?

Fyrstu viðbrögð mín voru ánægja, en er ekki svo viss eftir íhugun.
Á hvaða verði er árangur metinn?  Hvers virði er sómikennd?
Mér persónulega finnst þetta mál hið ömurlegasta. Ég hefði viljað sjá Vilhjálm víkja vissulega, en eftir því sem að maður les er Björn Ingi ef eitthvað er, meiri gerandi í málinu en nokkurn tíma Villi, sem þarna virðist opinbera sig sem nettan einfeldning í raun.
En hver er æran í því að stökkva til um leið og færi gefst og sænga hjá úlfinum, á sauðgærunni væntanlega, eingöngu til þess að fá mögulega örlítil völd?
Mér finnst alger lágmarkskrafa að Björn Ingi hverfi einnig frá stjórn borgarinnar og frá öllum störfum á vegum Orkuveitunnar og tengdum félögum.
Er vert að fagna þegar árangur næst eingöngu vegna mistaka annarra og baktjaldamakks stjórnmála?
Mér finnst ekki.  Kallið mig einfeldning, en mér finnst það hreint ekki.

mbl.is „Fyrrum minnihluti bjargaði Birni Inga fyrir horn"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband