Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Skemmtilegt - Ísland er á eldvirkni korti heimsins
28.3.2009 | 09:15
Þetta er flottur listi og gaman að lesa þarna í gegn. Ég sakna þó Lakagíga í upptalningunni og þeirrar staðreyndar að þeir ættu án vafa að vera á lista á undan til dæmis Krakatau. Lakagíga gosið er mesta gos á jörðunni í tíð mannsins, þar rann um 565 fkm hraun og áætlað er að askan og gjóskan sem steig til himins hafi verið margfalt það magn.
Móðuharðindin sem fylgdu eru okkur Íslendingum flestum vel kunn, það sem færri vita er að sjá má afleiðingar þessa goss í sögunni þegar lesið er um þetta tímabil um alla Evrópu. Væntanlega var þetta gos til dæmis upphaf frönsku byltingarinnar þegar að uppskeru brestur varð mikill í Frakklandi vegna þessa.
Ég er líka mjög glaður að sjá Santorini á þessum lista. Það er einn af mínum uppáhaldsstöðum í heiminum. Afar falleg eyja með mikla sögu og að hluta til dulúðuga þar sem margir telja að þar sé að finna leifar Atlantis, eða að náttúruhamfarirnar sem þar gengu yfir hafi eytt Atlantis. Ofsalega fallegt þar og gott að vera.
Grímsvötn á lista merkilegustu eldfjalla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Siðblinda og valdýrkun - hvað varð um Persónukjörið sem mér var lofað?
27.3.2009 | 23:42
Yfirlýsing vegna persónukjörs
Borgarahreyfingin - þjóðin á þing átelur ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna harðlega fyrir að ætla að ganga á bak orða sinna um persónukjör í komandi alþingiskosningum.
Boðað undanhald ríkisstjórnarinnar í málinu byggir á einni ósannfærandi álitsgerð um að 2/3 hluta atkvæða þurfi til að samþykkja frumvarpið um persónukjör. Það bendir til þess að hugur fylgi ekki máli. Frumvarpið um persónukjör felur í sér eitt varfærnislegt en mikilvægt skref í átt til aukinna áhrifa almennra kjósenda á Íslandi. Auknu lýðræði. Rök sem tínd hafa verið til gegn frumvarpinu - fyrst af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins en síðan af þingmönnum stjórnarflokkanna eftir að þeir höfðu sjálfir tryggt sér örugg þingsæti í lokuðum prófkjörum - eiga það sameiginlegt að vera veikburða. Íslensk stjórnvöld brugðust þjóðinni og í kjölfar efnahagshruns er brýnt að verða við kröfunni um aukin áhrif kjósenda.
Borgarahreyfingin - þjóðin á þing krefst þess að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, og Framsóknarflokkurinn, efni sín heit við kjósendur, standi við orð sín og afgreiði frumvarpið um persónukjör með einföldum meirihluta á Alþingi eins og lög gera ráð fyrir. Borgarahreyfingin - þjóðin á þing mun láta almennum kjósendum eftir að raða frambjóðendum á sínum framboðslistum 25. apríl. Það eina sem getur komið í veg fyrir það er að flokkarnir sem standa að ríkisstjórninni taki höndum saman við Sjálfstæðisflokkinn og svíki þar með kjósendur um þann valkost sem persónukjör er.
Borgarahreyfingin - þjóðin á þing.
27. mars 2009
Siðrof í íslensku samfélagi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Borgarahreyfingin er enn á flugi - bætir mest við sig af öllum framboðum
27.3.2009 | 08:37
Til hamingju frábæru félagar. Til hamingju Íslendingar með að vera að vakna til lífsins :) Þetta eru afar góðar fréttir og þessi jákvæða þróun heldur áfram. Ég tel ennþá að við munum ná milli 10-20% fylgi í kosningum og verða þar afar mikilvæg sem oddaaflið í samstarfi félagshyggjuflokka.
Fyrir mér ber Samfylkingin ekki mikið minni ábyrgð á ráðaleysinu og þögguninni sem viðgengist hefur á Íslandi frá 2007, þegar að fyrir lá að kerfishrun væri mögulega yfirvofandi og því er mikið fylgi við hana mjög merkilegt, þó ekki jafn merkilegt og fylgið sem enn hangir á Sjálfstæðisflokknum. Ég hef talað við fólk sem jafnvel er búið að tapa öllu sínu vegna óstjórnar þeirra en reiknar samt með að kjósa þá aftur. Hvaða rök eru fyrir því spyr ég? Fólkið veit það ekki. Líklega hefur það bara ekki lengur hæfileikann til að endurskoða líf sitt og skipta um skoðun.
VG er einfaldlega besti kostur þeirra sem vilja kjósa einhvern af gömlu flokkunum, þeirra blað er óspillt og reyndar óskrifað.
Fyrir okkur hin sem ekki kjósum VG er Borgarahreyfingin frábær kostur.
Mýtan um að fylgi okkar komi frá vinstri afsannast skýrt í þessari könnun. Þrátt fyrir að síga aðeins niður núna er Samfylkingin búin að styrkjast síðustu vikur í könnunum. Ég tel að stærsti hluti okkar fylgis komi frá Framsókn, sem er nánast að hverfa. Það tel ég afar jákvæða þróun.
VG upp fyrir Sjálfstæðisflokk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Skítt með þjóðina - Geir Haarde biður flokkinn sinn afsökunar
27.3.2009 | 00:37
Ég er hættur að undrast þegar kemur að algerum skorti á veruleika skynjun hjá Geir H. Haarde. Hann virðist einfaldlega bara vera í körftugri afneitun á aðstæður og á það hvað hér gerðist.
Geir biður flokkinn sinn afsökunar en sýnir þjóðinni bara hroka með yfirlýsingum sínum. Hvernig ber hann ekki ábyrgð á "afglöpum og lögbrotum fyrirferðarmikilla manna í bönkum og atvinnulífi" eins og hann segir í ræðunni? Var það ekki undir hans stjórn sem forsætisráðherra sem að eftirlitið var lítið sem ekkert?
Ég er að sjálfsögðu sammála því að það hafi verið risavaxin mistök að falla frá hugmyndum um dreifða eignaraðild við sölu bankanna, en hef litla trú á því að það hafi verið tilviljun.
En sem fyrr finn ég mig knúinn til þess að benda á það að iðrun felur ekki aðeins í sér tilfinningaríkar afsökunarbeiðnir, iðrun er að sjá að sér, biðjast fyrirgefningar OG bæta fyrir brot sín.
Að segja afsakið en ætla samt flokknum að stýra áfram veikum lýðnum (þessum nærri þriðjungi þjóðarinnar sem enn ætlar að veita þeim umboð sitt) er í besta falli hroki og ömurlegur dónaskapur.
Sendum XD í langt frí - það er kominn tími á endurheimt lýðræðis. X við O tryggir þér og mér réttlæti. http://xo.is
Mistök gerð við einkavæðingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Frábært framtak hjá Hagsmunasamtökum Heimilanna - málsókn í undirbúningi
27.3.2009 | 00:10
Það er engin spurning að það verður einfaldlega að láta kröftuglega á það reyna hvort að aðgerðir ríkisins og fjármálastofana gagnvart lánþolum standist lög. Neytendalögin verja rétt leikmanna (neytenda) í viðskiptum við atvinnuaðila. Þeir aðilar sem koma fram sem sérfræðingar á einhverju sviði bera mjög ríkar skyldur gagnvart neytendum og þá stöðu er ekki hægt að meta á jafnræðisgrunni. Annar aðilinn hefur einfaldlega mun meira af upplýsingum og þekkingu til þess að meta aðstæður og ber því ríkari skyldur.
Það verður afar fróðlegt að fylgjast með framvindu þessa máls og ég vona innilega að ekki verði beitt óheilindum í vörnum fyrir dómstólum þar sem málin eru endalaust dregin á langinn til þess eins að draga kjarkinn úr kærendum.
Verum sterk saman - okkar tími, tími þjóðarinnar er kominn. Nú skulum við leita réttar okkar á öllum sviðum. Það er gömul mýta að við þurfum að lúta vilja ráðamanna, þeir eiga að lúta vilja þjóðarinnar. Þeir starfa jú einu sinni í umboði hennar.
Hagsmunasamtök heimilanna undirbúa málsókn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Borgarahreyfingin bætir enn við sig milli kannana - og það þrátt fyrir nákvæmlega enga aðstoð fjölmiðlaí millitíðinni
26.3.2009 | 18:24
Ég er afar ánægður að sjá að Framsóknarflokks fylgið sé farið að lækka. Það sama ætti að sjálfsögðu að eiga við um Sjálfstæðisflokkinn, en fólkið þar sem beitt var ofbeldi upplýsingaleysis og þöggunar, virðist vera heldur lengur að taka við sér og átta sig á ofbeldinu sem flokkurinn er búinn að beita landsmenn.
Virkilega ánægjulegt að Borgarahreyfingin skuli halda áfram að bæta við sig milli kannana og er það þvert á reynsluna af nýjum framboðum, sem hafa yfirleitt mælst hæst fyrst og síðan snarlækkað í fylgi fram að kosningum. Við erum að bæta við okkur jafnt og þétt og erum þess algerlega fullviss að við verðum með okkar fulltrúa á þingi eftir komandi kosningar.
Við erum einnig að eiga við gríðarlega lýðræðisskekkju þegar kemur að fjölmiðlum, en þeir fjalla ítrekað ítarlega um fjórflokkinn en setja síðan nýju framboðin og Frjálslynda undir einn hatt sem ber heitið "aðrir". Er það trúverðug og óháð fréttamennska? Nei segi ég.
Ég hvet ykkur eindregið til þess lesendur mínir kærir að senda áskorun á helstu fjölmiðla þess efnis að þið fáið réttar og upplýstar fréttir af gengi flokkanna, þar sem öllum framboðum er gert jafn hátt undir höfði.
Svei mér þá ef Borgarahreyfingin þarf ekki bara að taka verulega til í fjölmiðlaflórunni líka þegar við verðum komin á þing.
Við erum með kynningarfund á Akranesi í kvöld - endilega láttu sjá þig :)
Fylgi Framsóknarflokks minnkar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Jóhanna hafnar lausnum Framsóknar og VG en minnist ekki á lausnir Borgarahreyfingarinnar
25.3.2009 | 22:48
Merkilegt nokk, ætli Samfylkingin sé þá ekki að vinna í því að taka stefnumál okkar í Borgarahreyfingunni upp fyrir komandi kosningar?
Við höfum bent á þá leið til lausnar að færa vísitölu viðmið húsnæðislána aftur til janúar 2008. Það þýðir í raun nálægt 19% niðurfellingu af höfuðstól skulda landsmanna í húsnæðislánum. Þetta er aðgerð sem kostar ekki nálægt því sem nefnt hefur verið í útreikningum á lausnum annarra og gengur nokkuð jafnt yfir alla.
Margir spyrja sig hvers vegna fólk sem skuldar á að fá aðstoð en ekki hinir sem skulda ekki? Jú, einfaldlega vegna þess að hinir þurfa ekki aðstoð að virðist og ef ekki verður brugðist við hjá þeim sem nauðsynlega þurfa á aðstoðinni að halda, munum við öll hvort eð er þurfa að bera kostnaðinn af fjöldagjaldþrotum á Íslandi.
Þá er nú björgunarleiðin mun betri kostur.
Hafnar flatri niðurfærslu skulda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Það er enn möguleiki á því að spara almenningi á Íslandi að greiða allt að 400 milljarða í Icesave
25.3.2009 | 19:45
Þessi frétt snýst um 444 milljónir sem hefði mögulega verið hægt að spara og er að sjálfsögðu miður að það var ekki gert. Það er þó mun alvarlega að ráðamenn undir stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ætlist til þess að almenningur á Íslandi greiði Icesave peningana án þess að fyrir liggi skýr lagalegur úrskurður um að okkur beri raunverulega að greiða þessa peninga.
Ert þú tilbúin/n til þess að greiða nánast allt sem þjóðin þénar næstu 40-60 árin í þrotabú Landsbankans án þess að okkur beri sannanlega að gera það? Ekki ég það er öruggt.
Það verður að láta skera úr um þetta mál fyrir dómstólum einhversstaðar.
Að sama skapi viljum við í Borgarahreyfingunni að málið í heild, bankahrunið og kerfishrunið sem fylgdi, verði rannsakað sem sakamál. Það er búið að hafa okkur að algerum fíflum undir styrkri stjórn ráðamanna og það verður ekki við það unað.
Við eigum heimtingu á réttlæti og skýrri niðurstöðu í málunum. Ef þú þorir að setja X við O munum við taka á þessum málum. http://xo.is
Gátu sparað 444 milljónir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Borgarahreyfingin mun taka á þessum málum!
25.3.2009 | 01:07
Það er alveg ljóst í okkar huga að þessi mál, hvert og eitt þeirra, verða rannsökuð sem sakamál. Íslenska þjóðin var rænd fyrir fram alþjóð og ráðamenn landsins stóðu bara hjá og gerðu lítið annað en að reyna að breiða yfir vandræðin og rufu þar með samfélagssáttmálann. Við kjósum að veita þeim völd gegn því að þeir vinni fyrir okkur og verji okkar hagsmuni. Það traust okkar hefur verið stórkostlega misnotað og verður að taka aftur til okkar, þjóðarinnar.
Hreinn Loftsson kemur fram í þessari grein og í raun staðfestir með frásögn sinni að sala bankanna hafi á endanum verið pólitískt valdatafl.
Ég kann Hreini bestu þakkir fyrir, það verður afar hjálplegt að hafa þessar upplýsingar við hendina ásamt öllum öðrum sem málinu tengjast, þegar að raunveruleg rannsókn sakamálsins hefst.
X við O er atkvæði með því að fá svör og uppræta spillinguna.
Lentu í höndunum á ævintýramönnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Leikriti Samfylkingarinnar og VG um persónukjör fer nú senn að ljúka - takk fyrir "skemmtunina"
24.3.2009 | 21:17
Þetta er ótrúlega furðulegt mál allt saman. Samfylkingin hefur nú reyndar ítrekað tekið upp mál grasrótar Samfylkingarinnar svona bara rétt til að friða fólk eins og Dofra Hermannsson og umhverfishópinn, en þetta mál gengur enn lengra.
Í þessu máli pikka Samfylkingin og Vinstri Grænir upp mál sem brennur á fólki um allt, mál málanna gegn flokksræðinu á Íslandi sem þau eðlilega vilja ekki í raun minnka, þrátt fyrir yfirlýsingar um annað.
Það hefur opinberlega einn einasti maður gefið út yfirlýsingu um að þurfi aukinn meirihluta þingmanna til að frumvarpið fái samþykki og það er Sturla Böðvarsson!
Algert áhugaleysi Samfylkingar og Vinstri Grænna á því að fá úr því skorið hvort að það sé skilningur lögfróðra manna, sem hafa ekki persónulegra hagsmuna að gæta í málinu eins og Sturla og félagar, er ekki hægt að túlka á annan máta en að í raun sé enginn áhugi á þeim bæjunum heldur á því að þetta mál nái í gegn.
Það er fínt að "þykjast" vilja lýðræði - hvenær fáum við að sjá það á borði en ekki bara í orði?
X við O er einfaldlega réttlætismál. http://xo.is
Persónukjör ekki lögfest nú | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |