Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008
Þarna verð ég að vera algerlega sammála þeim þremur
19.11.2008 | 11:29
Hugmyndin um að taka stórt erlent lán til þess eins að spreða því í að reyna að halda gengi krónunnar við íslensku skráninguna er einfaldlega alger fásinna. Töpum þá tvöfalt, bæði erlenda láninu og gengismuninum.
Er ekki einfaldara að tapa "bara" á gengismuninum í nokkrar vikur eða mánuði og hafa þá einhver raunveruleg not til uppbyggingar af erlenda láninu?
Annars virðist þjóðin vera að komast á þann stað sorgarferilsins þar sem fólk er í uppgjafar og þunglyndis skeiðinu. Ferlið er tóm - reiði - þunglyndi - framkvæmd. Þjóðin fer þá vonandi hratt í gegnum þunglyndið og í það að gera eitthvað.
Set hérna inn að mínu mati einn albesta flutning Johnny Cash. Hér tekur hann Hurt með Nine Inch Nails.
Krónunni verði leyft að falla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Góður vinur minn hringdi í mig áðan
18.11.2008 | 22:06
Hann tjáði mér að hann væri kominn á band með Davíð. Ég þagði. Hann sagðist hafa lesið ræðuna hans Davíðs frá fundinum í morgun og að augljóst væri að Davíð hefði gert sitt besta til þess að stoppa þetta.
?????????????
Hvernig getur maður brugðist við svona? Ég varð undrandi. Gapandi undrandi. Benti honum á, eins kurteisilega og ég gat - sem var ekkert sérstaklega mikið - að þessi ræða væri ekki sannleiks uppgjör embættismanns.
Þessi ræða var framboðsræða atvinnu pólitíkusar.
Farið eftir ráðleggingum Seðlabankans | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2ja tíma fundur þingflokks Samfylkingar um Davíð Oddsson er lokið
18.11.2008 | 20:41
Um allan bæ hljóma raddir þess eðlis að þingmenn Samfó séu gjörsamlega að missa það yfir enn einum skandalnum hjá DO. Á hvers ábyrgð starfar þessi maður? Er hann ekki í dag embættismaður í störfum FYRIR ríkisstjórnina??
Það er algjörlega augljóst og kristaltært eftir að hafa hlustað á svör Árna og Geirs í sjónvarpsfréttum í kvöld, þar sem að þeir könnuðust ekki við neinar ráðleggingar frá SÍ sem ekki hefði verið tekið tillit til, að baráttan innan Sjálfstæðisflokksins er á leið inn í lokaorustuna.
Ég spái því að það verði Þorgerður Katrín sem standi eftir sem leiðtogi flokksins. Trúi því reyndar að ekkert væri betra fyrir Sjálfstæðismenn í stöðunni.
Fundi Samfylkingar lokið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hér á Billy Joel bara afar vel við.... tribute til valdhafa, DO og fjölmiðla
18.11.2008 | 10:56
Hann Egill minnti mig á eitt af mínum uppáhaldslögum með Billy Joel og hvað það á mikið erindi inn í umræðuna alla þessa dagana.
Skelli því hérna inn, þetta er tribute til valdhafanna, seðlabankastjóra og síðast en ekki síst, til fjölmiðlanna. Vona að Billy fyrirgefi mér.
Fjölmiðlar í heljargreipum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Nú hljóta m.a.s. Sjálfstæðismenn að fara að viðurkenna fyrir sér að það þurfi að kjósa í vor. Birti hér íslenskan úrdrátt úr umsókninni til IMF
18.11.2008 | 09:21
Sívaxandi fólksfjöldi sem lætur sig málefnin varða hlýtur á endanum að ná í gegnum afneitunar skýið sem Sjálfstæðismenn sitja í. Þjóðin treystir ykkur ekki lengur til starfans!
Sá að það er komið inn á vef Forsætisráðuneytisins íslensk útgáfa af umsókninni til IMF. Að vísu bara "pólitískur" útdráttur, en á íslensku a.m.k. Ótrúlegt að stjórnvöld sjái ekki sóma sinn í því að upplýsa atvinnurekendur sína, þjóðina, um framgang mála.
Hér er íslenska útgáfan, fengin hér í dag:
Áætlun Íslands um efnahagsstöðugleika
Í kjölfar hamfaranna á alþjóðlegum fjármagnsmarkaði stendur þjóðarbúskapur Íslendinga frammi fyrir svo alvarlegri fjármálakreppu að slíks eru fá dæmi. Þjóðarbúskapurinn er nú á leið inn í tímabil mikils samdráttar, stóraukins fjárlagahalla og mikillar aukningar opinberra skulda um 80% af vergri landsframleiðslu. Hugsanlegt er að mikið fjármagnsflæði úr landi leiði til verulegrar viðbótarlækkunar á gengi krónunnar. Þar sem hagkerfið er mjög skuldsett, gæti slíkt valdið stórskaða á efnahag þjóðarinnar allrar og miklum samdrætti í efnahagslífinu. Fyrsta verkefnið er því að koma aftur á starfhæfu bankakerfi og tryggja stöðugleika krónunnar. Til lengri tíma litið er verkefnið að lækka hinar miklu skuldir hins opinbera með viðvarandi aðhaldi í ríkisfjármálum.
Endurskipulagning bankakerfisins og endurskoðun gjaldþrotalaga
Íslensk stjórnvöld munu koma á traustu og gagnsæju ferli í samskiptum við innlánshafa og lánveitendur hinna yfirteknu banka. Unnið er skipulega að sambærilegu samkomulagi við alla þá erlendu aðila sem hagsmuna eiga að gæta gagnvart Tryggingasjóði innstæðueigenda og fjárfesta hér á landi í samræmi við lagaramma EES. Ísland hefur heitið því að virða skuldbindingar á grundvelli innstæðutryggingakerfisins gagnvart öllum tryggðum innlánshöfum. Þetta byggist á þeim skilningi að unnt verði að forfjármagna þessar kröfur fyrir tilstyrk viðkomandi erlendra ríkja og að jafnt Ísland sem þessi ríki séu staðráðin í að efna til viðræðna á næstu dögum með það að markmiði að ná samkomulagi um nánari skilmála vegna þessarar forfjármögnunar. Ennfremur er viðurkennt að það sé lykilatriði í réttlátri meðferð gagnvart innstæðueigendum og kröfuhöfum á hendur yfirteknu bönkunum að nýju bankarnir greiði sannvirði fyrir þær eignir sem fluttar voru frá gömlu bönkunum. Komið hefur verið upp gagnsæju ferli þar sem tvö teymi sjálfstæðra endurskoðenda sjá um að meta sannvirði eigna. Almennt verður tryggt að meðferð á innstæðueigendum og lánardrottnum sé sanngjörn, jöfn og án mismununar og í samræmi við gildandi lög.
Regluumgjörð fjármálastarfsemi og framkvæmd bankaeftirlits verður endurskoðuð til að efla viðbúnað gegn hugsanlegum fjármálakreppum í framtíðinni. Hafi fyrrverandi yfirstjórnendur og helstu hluthafar í yfirteknu bönkunum gerst sekir um afglöp í rekstri eða misnotkun á bönkunum eiga þeir ekki að gegna sambærilegu hlutverki næstu þrjú árin.
Farið verður yfir lagarammann um gjald- og greiðsluþrot þannig að taka megi á niðurfærslu skulda og heimtu eigna í bönkum, fyrirtækjum og hjá heimilum á skilvirkan hátt.
Opinber fjármál
Áætlað er að brúttókostnaður ríkisins vegna innstæðutrygginga og endurfjármögnunar bæði viðskiptabankanna og Seðlabankans geti numið um 80% af landsframleiðslu og að halli hins opinbera árið 2009 verði 13,5% af landsframleiðslu. Í heild má gera ráð fyrir að vergar skuldir hins opinbera aukist úr 29% af landsframleiðslu í lok árs 2007 í 109% af landsframleiðslu í árslok 2009. Hreinn kostnaður verður eitthvað lægri að því gefnu að fjármunir endurheimtist með sölu á eignum gömlu bankanna.
Til að auka ekki frekar á samdrátt í þjóðarbúskapnum verður fjárlagahalla árið 2009 leyft að aukast í takt við aukin útgjöld og lægri tekjur vegna hagsveiflunnar. En vegna mikillar þarfar ríkissjóðs fyrir fjármagn og stóraukinnar skuldsetningar hans er fyrirhugað að draga verulega úr fyrri áformum um slaka í ríkisfjármálum á árinu 2009.
Áformað er að minnka halla á undirliggjandi halla ríkissjóðs fyrir vaxtagreiðslur (sk. hagsveifluleiðréttum frumjöfnuði) um 2-3% af landsframleiðslu á ári yfir áætlunartímabilið með það að markmiði að hann verði orðinn jákvæður árið 2011 og jákvæður um 3,5-4% árið 2012. Farið verður yfir núverandi umgjörð ríkisfjármála þegar litið er til lengri tíma og lagðar fram tillögur þar að lútandi sem einnig munu ná til þess hvernig fjármál sveitarfélaga verði betur samræmd áformum í ríkisfjármálum.
Stefnan í peninga- og gengismálum
Brýnasta verkefni Seðlabanka Íslands er að tryggja stöðugleika krónunnar og búa í haginn fyrir styrkingu gengisins. Hætt er við að gengi krónunnar verði fyrir skammtímaþrýstingi þegar búið verður að koma á eðlilegum gjaldeyrismarkaði. Þess vegna þarf að grípa til sértækra aðgerða til að mæta þessari skammtímaáhættu og koma í veg fyrir fjármagnsútflæði í miklum mæli.
Til mjög skamms tíma er ætlunin að beita eftirfarandi blöndu af hefðbundnum og óhefðbundnum aðgerðum:
- Að hækka stýrivexti í 18%. Seðlabankinn er reiðubúinn til að hækka stýrivextina enn frekar, en óvíst er að hækkun stýrivaxta nægi ein og sér til að koma í veg fyrir fjármagnsútflæði.
- Beitt verður miklu aðhaldi í aðgangi bankanna að lánum frá Seðlabankanum til að koma í veg fyrir að dregið verði um of á mikið lausafé eftir þessum farvegi.
- Seðlabankinn er reiðubúinn til að nota gjaldeyrisforðann til að koma í veg fyrir of miklar sveiflur í gengi krónunnar.
- Ennfremur er Seðlabankinn reiðubúinn til að beita tímabundnum gjaldeyrishöftum á fjármagnsviðskipti. Slík höft hafa talsverð neikvæð áhrif og ætlunin er að afnema þau svo fljótt sem auðið er.
Afturhvarf til eðlilegs ástands og lækkunar verðbólgu og vaxta getur hafist um leið og krónan verður stöðugri á gjaldeyrismarkaðnum, gjaldeyrismarkaður mætir þörf fyrir alla eftirspurn eftir gjaldeyri vegna viðskipta við útlönd og ekki er lengur nauðsynlegt að styðja við markaðinn með því að draga á gjaldeyrisforðann. Reiknað er með að í kjölfar þeirra aðgerða sem lýst er að framan styrkist krónan fljótt og að verðbólga á ársgrundvelli verði komin í 4,5% við lok ársins 2009. Gert er ráð fyrir að krónan styrkist enn frekar og verðbólgan haldi áfram að hjaðna árið 2010. Þetta mun gera okkur kleift að slaka á hömlum á lánveitingum Seðlabankans og smám saman reiða okkur aftur á stýrivexti sem aðalstjórntæki peningamála innan ramma sveigjanlegrar gengisstefnu.
Stefna í kjaramálum
Mikilvægt er að ná þjóðarsátt sem er samrýmanleg við þjóðhagsleg áform áætlunarinnar. Sagan sýnir að stefnan í kjaramálum hér á landi hefur verið mjög skilvirk. Fyrri kjarasamningar hafa stutt þjóðhagslega aðlögun þegar þess hefur verið þörf. Aðilar vinnumarkaðarins hafa viðurkennt nauðsyn þess að gera kjarasamninga sem samrýmast þeirri alvarlegu stöðu sem nú er uppi.
Þingleg meðferð og birting
Áætlunin var þann 3. nóvember sl. send Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, undirrituð af fjármála¬ráð¬herra og formanni bankastjórnar Seðlabanka Íslands. Stjórn sjóðsins mun taka málið fyrir á fundi sínum miðvikudaginn 19. nóvember. Þá verður einnig birt skýrsla starfsmanna sjóðsins sem er hluti af þeim gögnum sem stjórn sjóðsins tekur afstöðu til.
Í dag, 17. nóvember, var áætlunin lögð fram sem þingsályktunartillaga fyrir Alþingi og verður rædd þar á næstu dögum.
Opnaður hefur verið upplýsingavefur um áætlunina á heimasíðu forsætisráðuneytisins: Áætlun um efnahagsstöðuleika. Þar er viljayfirlýsing íslenskra stjórnvalda á íslensku og ensku og skýringar við einstakar greinar hennar auk annars upplýsingaefnis sem tengist áætluninni.
Reykjavík, 17. nóvember 2008
Troðfullt á fundi á Nasa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ný fæðing eða endurnýting flokksgæðinga?
17.11.2008 | 13:42
Það er sagt að skorturinn sé móðir hagfræðinnar. Að allar ákvarðanir byggi á skorti og vali á milli mismunandi kostnaðar. Það er nú ljóst að kostnaðurinn er orðinn stórkostlegur. Allt raus um að ekki megi breyta vegna mögulegs frekari skaða hljómar eins og óráðsía valdasjúkra lítilmenna sem eru hræddir við að missa völdin.
Nú stöndum við frammi fyrir slíku vali, og það dramatískara en flestir núlifandi íslendingar hafa nokkurn tíma þurft að horfa fram á áður á lífsleiðinni.
Valið fyrir mér er einfalt. Ég vil fá að kjósa um NÝJA ráðamenn með NÝJAR hugmyndir til lausna á þessu NÝJA aðkallandi vandamáli.Ég vil EKKI ríkisstjórn byggða á GÖMLUM hugmyndum og GÖMLU stjórnendunum sem smíðuðu þetta GAMLA kerfi. Ég vil EKKI banka byggða á GÖMLU stjórnendum þeirra og GÖMLU hugmyndafræðinni um að skuldir séu undirstaða eignauppbygginga banka.Ég vil eitthvað NÝTT og ferskt.Ég hljóma eins og frekur krakki, en er ekki eðlilegt að mér sé farið að ofbjóða?
Kröfulistinn minn hljómar í hnotskurn eitthvað á þessa leið:
1. Kosningar til alþingis eigi síðar en í vor 2009.
2. Framboð sem hefur það að meginmarkmiði að gjörbreyta framboðsmálum í núverandi flokkadrátta-mynd
3. Framboð sem að bendir á trúverðugar lausnir byggðar á öðru en "góðri trú".
4. Að núverandi forystumenn skammist sín og axli ábyrgð í auðmýkt
5. Að allt kapp verði lagt á að ná saman um nýjan gjaldmiðil fyrir þjóðina hið snarasta.
Og hvað svo?
Ég vil starfa að því að eftirfarandi mál fái hljómgrunn á alþingi:
...enduruppstokkun embættismanna kerfisins á Íslandi
...skýr mörk á milli Framkvæmdavalds og Löggjafavalds
...ráða sérfræðinga til þess að stýra peningamálastefnu þjóðarinnar og ráðuneytum
...að ráðherrar veljist úr hópi fólks sem hefur sérhæft sig í málaflokknum
...setja af stað verkefni um stórnýtingu orku til grænna verksmiðju-gróðurhúsa
Vilt þú vera samferða?
Allra augu á Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
Trúir því einhver orðið að stjórnarflokkarnir séu samstíga í einhverju???
17.11.2008 | 10:49
Áhugavert að lesa Vefþjóðvilja dagsins, en þar segir m.a.:
Það kom ekki á óvart að í gær hafi Samfylkingarfélögin byrjað að álykta um kosningar. Þetta er nákvæmlega eftir þeirri áætlun forystu Samfylkingarinnar sem næstum allir sjá í gegnum. Fyrst þurfti að bíða til að forysta Sjálfstæðisflokksins tæki með þeim ábyrgð á Icesave-skuldunum, sem Samfylkingin vill endilega ábyrgjast til að Brusselstjórnin verði ekki æst, og svo má fara að heimta kosningar af því að forysta Samfylkingarinnar telur að samstarfsflokki hennar myndi ganga illa í þeim.
Þetta eru svokölluð Samfylkingarheilindi, sem nær allir sáu fyrir áður en Sjálfstæðisflokkurinn var teymdur inn í stjórn með Samfylkingunni.
En hvernig ætli næsta skref áætlunar Samfylkingarinnar gengi. Að sækja kosningasigurinn sem hún heldur að bíði tilbúinn?
Samfylkingarforystan gleymir því, að núna eru skoðanakannanir teknar þegar Sjálfstæðisflokkurinn segir ekki orð. Ver sig ekki fyrir ásökunum, slær ekki skjaldborg um neinn forystumann sinn og segir ekki styggðaryrði um svokallaðan samstarfsflokk sinn og ekki um stjórnarandstöðuna heldur. En um leið og stjórnarsamstarf yrði rofið myndi það loks breytast. Þá yrði vandlega rætt um framgöngu Samfylkingarinnar síðustu misserin, yfirlýsingar ráðherranna mánuðum saman, hvernig ráðherrarnir grófu undan gjaldmiðlinum, hvernig þeir tóku útrásarmenn í heilagra manna tölu, hvernig Samfylkingarmenn hömuðust á þeim sem þeir sökuðu um að vilja koma böndum á útrásina og svo framvegis og framvegis. Það er ekki víst að sá kosningasigur sem Gallup býður nú, verði talinn upp úr kössum í raunverulegum kosningum. Eftir samstarfsslit gæti nefnilega farið svo að Sjálfstæðisflokkurinn sýndi Samfylkingunni sömu vinsemd og hún telur sér leyfilegt að sýna fyrir samstarfsslit.
Ætli það sé ekki farið að styttast all verulega í kosningar? Við vonum það að sjálfsögðu ansi mörg.
Þá er bara að fara að snúa sér að næsta kvíðakasti: Hvað á þá eiginlega að kjósa??
Annað, rak augun í það að svo virðist sem að Davíð Oddsson hafi skrifað upp á það í byrjun mánaðarins, að hann ætti að segja sig frá öllum bankastörfum í ríkisstofnunum. Sjá frétt á Vísi hér.
DV birtir yfirlýsingu stjórnvalda til IMF | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hér er kominn maðurinn sem ætti að ráða hið snarasta sem sértækan efnahagsráðgjafa ríkisstjórnarinnar næstu 3-12 mánuði
14.11.2008 | 00:57
Mér hugnast afar vel hugmyndir R.Z. Alibers prófessors. Hér er á ferðinni sprenglærður sérfræðingur í kreppum og leiðum úr kreppum. Nú eigum við að leggja vel við hlustir.
Ég er meira og meira að færast inn á þá skoðun að við ættum að yfirgefa alfarið IMF og láni frá þeim. Það lán ætti hvort að er aðeins að nota til þess að fleyta krónunni og myndi hverfa í þá hít sem að það skapar. Sammála þér með það að leyfa heldur útflutningnum að fylla í þá hít hægt og sígandi á næstu örfáum árum. Það þarf þ.a.l. að stórauka kvóta til skamms tíma.
Síðan er fyrir mér afar brýnt að skoða alvarlega upptöku dollara eða evru ÁN frekari skuldbindinga. Einungis strípað gjaldmiðla samstarf og ekkert meira með því. Það væri einungis gert til þess að skapa hraðar trúverðugleika á viðskiptum hér heima á alþjóðagrundvelli.
Við erum augljóslega, miðað við fréttaflutning af "stuðningi" frá ESB undanfarna daga og vikur, betur sett ein á eyðiskeri en í samstarfi með þessu ríkjasambandi.
Nú er lag fyrir stjórnina að setjast niður og gera aðgerðaráætlun til skemmri og lengri tíma og boða svo að gengið verði til kosninga í vor. Ef að Geir og co. ætlar sér að halda minnsta snefil af trúverðugleika verða þau A) að leggja fram plan og B) að bjóðast til þess að stefna á kosningar. Nú geta þau ekki á neitt annað treyst en að heilla okkur svo mikið með plani að þau verði mögulega kosin aftur, eða a.m.k. einhver þeirra.
Ég vil vekja upp hreyfingu sem hefur það að meginmarkmiði að gjörbreyta stjórnsýslunni hérna, þ.e.a.s. tengslum þrískipta valdsins. Eru nú þegar komnar af stað a.m.k. 3 grúppur á Facebook með það að markmiði og um að gera fyrir þá sem hafa ekki samvisku í að bara bíða og bíða og bíða, að fara þar inn og skrá sig til þáttöku.
Gætum hæglega sleppt IMF-láni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hvar í heiminum er dýrast að versla fyrir pr. vinnustund?
13.11.2008 | 10:17
Nú þegar eru 3 nánir félagar mínir að flytja með sínar fjölskyldur til Noregs. Fengu allir 3 umsvifalaust gott starf í Noregi við eftirgrennslan.
Noregur er vissulega dýrasta land í heimi. En miðað við hvað? Miðað við hvað þú færð fyrir t.d. hverja unnan vinnustund er Noregur hreint ekki svo dýrt land lengur. Laun í Noregi eru nefnilega líka þau hæstu í heiminum í dag.
Mér er sagt af þeim sem hafa verið bæði hér og þar, að það sé verulega mikið dýrara að búa á Íslandi hlutfallslega, en í Noregi. Þessu þarf að breyta. Það ætti að vera jöfnuður milli þess hvað maður fær fyrir hverja unna vinnustund.
Dýrast í Ósló | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ótrúlegur göngurstígur - alls ekki fyrir lofthrædda
13.11.2008 | 09:49
Sá þetta á blogginu hjá Dr. Gunna, verð að senda þetta áfram hérna. Þó ekki væri nema til þess að eiga þetta lag í safninu mínu. Hef gengið og komið víða á fjöllum, veit ekki hversu vel mér liði við göngu þarna.
Þetta er upphaflega fengið hér: http://www.livefortheoutdoors.com/Videos/Search-Results/Fun--misc/The-scariest-path-in-the-world/?&R=EPI-12900
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 09:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)