Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Merkilegt nokk, Norðmenn voru rétt í þessu með fullum stuðningi Sameinuðu Þjóðanna að stakka landhelgina sína um 200 sjómílur. Það jafngildir 235.000 ferkílómetrum sem þeir bættu við lögsöguna sína í einfaldri aðgerð.
En það sem stakk mig í fréttinni er þessi lína hér: "Strandríki eiga kröfu út að 350 sjómílum geti þau sannað með vísindalegum hætti að landgrunnið sé náttúruleg framlenging landsins."
Drekasvæðið norður af Íslandi er nefnilega ekki náttúrulegt framhald af Íslandi, það er landgrunninum okkar, heldur er það náttúruleg framlenging á Jan Mayen þar sem Norðmenn ráða jú ríkjum eins og við vitum.
Það er ekki ætlun mín að valda hérna einhverri geðshræringu en mér finnst samt áhugavert að velta því fyrir mér að eftir allar væntingarnar sem búið er að byggja upp um möguleikana þarna að þá virðist eignarréttur okkar eða nýtingarréttur á svæðinu vera undir samningi við Norðmenn kominn. Ef þeir kjósa að segja upp þeim samningi sem nú er í gildi um nýtingu svæðisins gæti komið til alþjóðlegs úrskurðar um hvar mörkin eiga að liggja. Eða eru kannski núverandi mörk þau einu sanngjörnu?
Ég hef svo sem ekki raunverulegar áhyggjur af milliríkjadeilu um málið í augnablikinu, en er þetta möguleiki miðað við þessar reglur? Maður spyr sig.
Noregur stækkar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hnökrarnir eru túlkun flokksbundinna einstaklinga í kjörstjórnum - Borgarahreyfingin skilaði öllu réttu samkvæmt laganna hljóðan
15.4.2009 | 13:10
Við búum viði svo merkilega mikinn lýðræðishalla á Íslandi að það er farið að nálgast það að hljóta að eiga heima í heimildarmynd um Lýbíu.
Þegar að ný framboð skila inn sínum listum samkvæmt kosningalögum þá tekur þar á móti þeim svo kölluð kjörnefnd sem er ætlað það hlutverk að fara yfir að allt sé samkvæmt lögunum. Kjörnefnd þessi er skipuð AF ÞINGFLOKKUM Á ALÞINGI og þó ætlað að gæta jafnræðis milli allra framboða. Það að kjörnefnd skuli skipuð af fjórflokknum er svo gríðarlegur lýðræðishalli að ÖSE nefndin sem stödd er hér á landi til þess að fylgjast hér með kosningunum (sem oft er gert í þriðja heims löndum) átti bara ekki orð til að lýsa undrun sinni á ástandinu.
Borgarahreyfingin sem sagt skilaði inn öllum skjölum sem til var ætlast í gær og vorum við að vonum afar hamingjusöm með árangurinn. Hnökrarnir sem vísað er til voru þeir að körnefndir SV og RS kjördæma vildu meina að á listum með staðfestingar undirskriftum frambjóðenda yrði að koma fram í hvaða kjördæmi nákvæmlega þeir væru að bjóða fram. Þetta kemur hvergi fram í lögunum og reyndar vorum við líka áður en skilað var inn, búin að fá á því staðfestingu frá Hjalti Zóphóníassyni skrifstofustjóra að þess væri ekki þörf, enda kæmi ekkert fram um það í lögunum.
Kjörstjórnin ber fyrir sig að þetta sé hefðin. Ég hef ekkert bindandi séð um hefð í lagatúlkun að réttarvenjum undanskildum. Þá þarf hins vegar að hafa fallið dómur í máli til þess að hefðin skapist.
Hér erum við einfaldlega að eiga við varðhunda flokksræðisins - ekki lýðræðisins.
Mikið er ég þakklátur fyrir að brátt munum við fá að takast á hendur það verkefni að breyta þessu kerfi, þessari flokksbundnu stjórnsýslu hér á landi, til betri vegar.
Hér verður að fá að ríkja jafnræði til handa ÖLLUM þegnum þessa lands!
Borgarahreyfingin - þjóðin SJÁLF á þing (Takk Hlédís fyrir flotta viðbót við slagorðið )
Einhverjir hnökrar á framboðslistum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þegar á móti blæs er gott að draga fram í fjarstýrða fjölmiðla 9 DAGA GAMLA fylgiskönnun - Ert þú að hugsa um að skila auðu?
15.4.2009 | 12:21
Hvað er málið með fjölmiðla hér á landi, býr enginn sómi þarna innan dyra? Er fréttavalið fjarstýrt frá Valhöll?
Ég bara spyr, því að það eru augljós svik við kjósendur þessa lands sem óðum eru nú að reyna að gera upp hug sinn fyrir kjördag, að birta hér tölur úr könnun sem gerð er FYRIR styrkja málið mikla.
Þegar að fylgi D lista lítur ekki nógu vel út lengur, þá já, þá grípa þeir til könnunar sem er gerð FYRIR mútu umræðuna til þess að þetta líti nú allt betur út. Að vitna til að verða 10 daga gamallar könnunar á þvílíkum umbrota tímum sem nú ganga yfir, er einfaldlega algerlega ómarktækt og fjölmiðlum til skammar.
Ert þú að hugsa um að skila auðu? Mundu að autt atkvæði á Íslandi er talið sem ÓGILT og hefur því ekki þá meiningu sem þú væntanlega vilt koma til skila. Ekki henda atkvæðinu þínu, kjóstu með breytingum á kerfinu sem þú vilt mótmæla. Borgarahreyfingin býður fram fyrir þig.
MMR: Fylgi VG eykst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
"Ópersónulega" lögreglan ræðs til inngöngu hjá hústökufólki að Vatnsstíg
15.4.2009 | 10:30
Ég hef sagt það áður og ég endurtek það hér, mér líka afar illa þessir óeirða búningar lögreglunnar. Þeir hreinlega hrópa á neikvæða athygli og nánast biðja reitt fólk að skeyta skapi sínu á þeim.
Þegar að mótmælin í janúar voru við það að breytast í borgarastyrjöld að þá fæddist hugmyndin um appelsínu byltinguna. Það er að segja við sem vildum standa fyrir rétti okkar til að mótmæla á friðsamlegan hátt, merktum okkur sérstaklega með appelsínugulum borðum eða fatnaði.
Þetta tókst svo vel að lögreglan gat pakkað niður bardagagallanum sínum og stigið fram aftur sem persónur. Þar liggur einmitt lykillinn. Um leið og búið er að pakka lögreglumönnum í þessar múnderingar sem afmá algjörlega þeirra eigin persónuleika verður svo auðvelt fyrir þá sem eru orðnir nógu reiðir að skeyta skapi sínu á þeim. Í þessum afar ópersónulega búningi eru þeir nefnilega ekki lengur manneskjur, heldur hlutur. Bardagahlutur.
Hvernig væri að horfast í augu við það bara að á Íslandi erum við öll skyld og saman í blíðu og stríðu. Þessi kreppa, þetta kerfishrun er að bitna til jafns á okkur öllum. Verðum bara manneskjur við hvort annað.
Ég mótmæli því harðlega að orka löggæslunnar sé að fara í þessa hluti á meðan að verstu glæpamenn sem landið hefur alið ganga enn lausir og eru ekki svo lítið sem kallaðir til yfirheyrslu einu sinni.
Komnir upp á aðra hæð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
2 stærstu loforð núverandi ríkisstjórnar þegar svikin - Hvernig ætli Framókn líði með þetta?
15.4.2009 | 01:50
Þau lofuðu okkur breytingum á kosningalögum með það í huga að leyfa persónukjör fyrir þau framboð sem það vildu. Það var svikið. Þau fegra það einhvern veginn, telja okkur trú um að það sé öðrum að kenna. Vilja meina að þurfi aukin meirihluta alþingismanna til að samþykkja. Byggja það hins vegar bara á túlkun eins lögmanns. Það er furðuleg þröngsýni, já eða tækifæri til að halda áfram nýfengnum völdum.
Fyrir mér? Jú, svikið loforð - það er svo einfalt.
Stjórnlagaþings málið? - jú jú, sama sagan. Miklu lofað, efndir engar.
Er þetta það sem á að heita trúverðugleiki?
Hvað um það, við í Borgarahreyfingunni munum ná inn fólki samkvæmt nýustu könnunum og við munum svo sannarlega berjast fyrir þessum lágmarks lýðræðis umbótum sé hér er þörf á. Lýðurinn, við fólkið, þjóðin, þarf svo sannarlega að fara að fá aftur valdið til sín.
Við verðum að segja nei við þessu ráðherra- og flokksræði sem hér stjórnar í dag. Burt með þetta endalausa blaður, þetta pólitíska málæði.
Borgarahreyfingin - við viljum lýðræði ekki kjaftæði!
Stjórnarskráin áfram á dagskrá | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
YESSSSS!!!!! Borgarahreyfingin mælist í 8,1% fylgi
14.4.2009 | 17:51
Eðlilega erum við algerlega í skýjunum með þessa niðurstöðu. Þetta eru stórkostlegar fréttir og ég er þess algerlega sannfærður að fylgið okkar mun aukast enn frekar hægt og bítandi fram að kosningum.
Við höfum ekki fengið mörg tækifæri í fjölmiðlum, en höfum fengið fylgisaukningu í hvert einasta sinn sem að við höfum fengið að koma okkur einhversstaðar á framfæri. Nú loksins mælumst við það hátt að þjóðin sér okkur sem eitthvað alvöru, eitthvað sem að getur haft raunveruleg áhrif.
Kæru landsmenn - NÚ ER LAG!!!
Borgarahreyfingin - http://xo.is - við erum raunverulegt afl til breytinga.
Samfylking stærst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Enn eitt dæmið um mjög slæmar afleiðingar vanhæfrar ríkisstjórnar
14.4.2009 | 10:37
Málið er einfalt, þegar að maður í atvinnu- eða eigin lífi stendur frammi fyrir gríðar stórri krísu, krísu sem er svo stór að maður hreinlega sér ekki fram úr henni að þá kemur maður að stað þar sem að maður þarf að leita sér aðstoðar sérfræðinga.
Þetta gerði ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks ekki heldur óð af stað í vanmætti og hroka, án tengsla við raunverulegt ástand og vildu á sama tíma fullvissa okkur um að allt væri í lagi með því að lofa okkur öllu fögru.
Um leið og ríkisstjórnin lofaði öllum innistæðu eigendum í Landsbankanum á Íslandi fullri tryggingu voru þau á sama tíma að taka á sig miklu meiri ábyrgðir en þau óraði fyrir. Ábyrgð á öllum sambærilegum reikningum Landsbankans hjá útibúum erlendis.
Þetta er því miður bara enn eitt dæmið um algert vanhæfi. Að starfa í hroka og ofurvissu á eigið ágæti er einfaldlega mjög slæmt veganesti fyrir hvaða verkefni sem er.
Hollenskir sparifjáreigendur leita réttar síns | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Treystir hinn almenni kjósandi Guðlaugi Þór?
14.4.2009 | 00:49
Með eða án einhvers stimpils frá Ríkisendurskoðun held ég að Guðlaugur Þór sé búinn að vera í bili að minnsta kosti sem stjórnmálamaður. Ráðamenn þjóðarinnar verða að hafa til að bera eitthvert lágmarks traust og það virðist ekki vera mikið álit almenning á Guðlaugi Þór, að minnsta kosti ekki rétt í augnablikinu. Ég er ekki að taka persónulega afstöðu til hvorki gjörða hans eða siðferðis, eða því hvort að hann hafi yfirleitt tengst málinu nokkuð. Ég er hér aðeins að meta þau samskipti sem að ég hef átt við fólk um málið undanfarna daga.
En hvers vegna er Guðlaugur Þór einn fárra sem stillt hefur verið fram? Eru Sjálfstæðisflokksmenn að ota honum í ljónagryfjuna viljandi? Maður spyr sig.
Hér eru skýr skilaboð til þín frá Borgarahreyfingunni:
Óskar úttektar á störfum sínum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Óspillt myndskilaboð Borgarahreyfingarinnar til þín - ásamt frábærri ræðu Sr. Hildar Eir Bolladóttur
13.4.2009 | 09:42
Set hérna inn með ræðu sem að Sr. Hildur Eir Bolladóttir sóknarprestur í Laugarneskirkju flutti í messu á Föstudaginn langa. Að mínu mati frábær pistill og eins og talað úr mínu hjarta.
Ósæð Krists
Flutt 10. apríl 2009 í Laugarneskirkju
Þegar Jesús sá móður sína standa þar og lærisveininn, sem hann elskaði, segir hann við móður sína: Kona, nú er hann sonur þinn. Síðan sagði hann við lærisveininn: Nú er hún móðir þín. Og frá þeirri stundu tók lærisveinninn hana heim til sín.
Mig langar að staldra við þennan hluta guðspjallsins í dag, vegna þess að ég held að þessi einföldu skilaboð Jesú feli í sér stærra samhengi en virðist í fyrstu. Hvað er Jesús að segja hér? Jú hann er að mælast til þess að við myndum alvöru tengsl við annað fólk. Þarna við krossinn stóðu þessar manneskjur sem áttu það sameiginlegt að elska hinn þjáða, þau voru mætt í sömu erindagjörðum, að kveðja og syrgja og þar sem þau standa í örvinglan sinni, setur Jesús þeim fyrir að eiga hvert annað.
Ég veit ekki hvort þú hefur upplifað að sitja við dánarbeð ástvinar ásamt fjölskyldu þinni, mörg okkar eigum þá reynslu í hjartanu. Það er svo merkilegt hvað dauðanum fylgja mikilvæg skilaboð til þeirra sem eftir standa, hvernig hann oft á tíðum nær að sameina jafnvel þá sem hafa ekki talast við lengi, þá sem líða fyrir óuppgerðar tilfinningar í garð hvers annars. Það er svo merkilegt og öfugsnúið hvað dauðinn nær oft að glæða mikið líf um leið og hann þokast nær. Þá á ég við tilfinningalíf, dauðinn vekur tilfinningar til lífsins sem hafa legið í dvala, undir frosthörku tjáningarleysis.
Þess vegna er það enginn tilviljun að dauðinn er undanfari lífs bæði í trúarlegum og tilfinningalegum skilningi.
Og hér erum við stödd í dag, á sömu forsendum, ástvinur er látinn og við erum fjölskylda hans. Samt er ekki víst að þér finnist þú endilega eiga erindi við manneskjuna sem situr á bekknum fyrir framan þig, ekki víst að þér finnist þig beint varða tilfinningar hennar eða aðstæður þó þú óskir henni auðvitað alls hins besta. Hvernig ætli þetta hafi verið með Maríu og lærisveininn elskaða? Ætli þeim hafi þótt þetta jafn sjálfsagt og Jesú að hann tæki hana með sér heim og hún liti á hann sem son sinn og hann á hana sem móður? Allavegana orðlengir Jesús ekkert fyrirmælin sem segir okkur að krafan er gerð í fullri trú á að þau muni bregðast við, þau voru náttúrulega búin að fylgja honum eftir á vegi fagnaðarerindisins, þau voru búin að sjá og heyra sannleikann í orði og verki.En hvað með okkur? Erum við ekki líka búin að fylgja Jesú eftir á vegi fagnaðarerindisins, við erum allavegana mætt hingað í dag, mætt til að sameinast undir krossinum í iðrun og von um að dauðinn sé fyrirboði lífs, að gróðurbrumið sé rétt að fara að blómgast.
Ég er sannfærð um að tilmæli Jesú á krossinum hafi öðlast dýpri merkingu í sálarlífi íslensku þjóðarinna nú en fyrir ári, það er svo merkilegt hvernig reynslan ritskoðar sjálf ritninguna án þess að maður í raun geri sér grein fyrir því, fyrir ári hefði ég ekki staðnæmst við þennan kafla frásagnarinnar. En nú hefur sá kafli öðlast dýpri merkingu, því hjá okkur hafa einmitt orðið kaflaskil við höfum á mjög skömmum tíma breyst sem þjóð vegna þess að við höfum staðið sameiginlega frammi fyrir áfalli,
Við erum ekki sama þjóðin, sama kirkjan og sameinaðist undir krossinum fyrir ári síðan, áföll þýða breytingar og stundum leiða áföll til góðra hluta, góðra breytinga þó svo að enginn kjósi slíkar aðstæður til þess eins að lifa sem betri manneskja. En þar sem enginn maður nær að fara í gegnum lífið án þess að upplifa einhverja mynd þjáningarinnar þá er það í raun áskorun okkar allra að finna þjáningu okkar merkingu og tilgang í lífinu. Foreldri sem missir barnið sitt sér eðlilega engan tilgang með slíkum hörmungum en þegar frá líður og hrúður myndast á hjartasárið getur verið mjög mikilvægt að nýta reynslu sína til breytinga bæði fyrir sig og aðra. Um leið og við hættum að leita að tilgangi og merkingu í lífinu í gleðinni og þjáningunni glötum við voninni og við tekur örvæntingin ein, manneskjan kemst af í hörðum heimi með því að finna tilgang með lífi sínu. Trúin er afar gagnleg til að hjálpa okkur að finna tilgang með lífinu, gleðinni og þjáningunni. Einmitt þess vegna er saga Jesús Krists kölluð hjálpræðissaga, hún gefur lífi okkar merkingu og von svo við getum lifað af allar aðstæður, sama hversu skelfilegar þær eru.
Og nú erum við samferða eina ferðina enn að krossinum og í dag erum við ekki bara einstaklingar með persónulega reynslu í farteskinu, persónulegar sorgir og þjáningar, við erum samfélag sem höfum tekist á við sameiginlegt áfall og við erum breytt. Kannski má líkja aðdraganda þess sameiginlega áfalls sem ákveðnum sjúkdómsferli þar sem við sem þjóð lifðum í ákveðnum ótta og jafnvel afneitun, fólk var síður en svo alltaf samtaka eins og þekkt er í fjölskyldum þar sem ástvinur er veikur, fólk tók mismikla ábyrgð og sumir voru sannarlega raunsærri á ástandið en aðrir. En svo kom að leiðarlokum þessa undarlega ferlis, sumir voru óviðbúnir og trúðu ekki þeim staðreyndum sem fyrir lágu, aðrir urðu reiðir og enn aðrir dofnir, allt viðbrögð sem sorgin þekkir. Og nú er svo margt breytt og við sem þjóð leitumst við að finna sameiginlegu lífi okkar tilgang og merkingu. Þess vegna er það tengslasagan á Golgata þar sem Kristur felur ástvinum sínum að gæta hvers annars, sem talar sterkt til okkar í dag. Veraldleg tilvera okkar varð að hrynja svo við gætum skilið að tengsl eru það dýrmætasta sem við eigum. Mannleg tengsl er það fyrsta sem þú skynjar við fæðingu og það síðasta sem þú finnur og átt þegar dauðinn nálgast, tengsl, þessi ósæð lífsins sem knýr okkur áfram þrátt fyrir allt. Ekkert getur skorið á þá æð nema vondar hvatir, hið ófædda fóstur skynjar tengsl og hinn þjáði og deyjandi sömuleiðis en sá sem er týndur í ágirnd sinni hann skynjar ekki tengsl, nema þau séu þá viðskiptalegs eðlis. Mannleg tengsl gera líf okkar merkingarbært og þau gefa einnig þjáningunni tilgang séu þau aukin í kjölfar hennar. Sundruð fjölskylda sem sameinast við andlát ástvinar hefur gefið þjáningunni tilgang, sundruð þjóð sem hefur sameinast í brostnum væntingum hefur gefið erfiðleikunum tilgang. En höfum við brugðist þannig við, höfum við sameinast á undanförnum mánuðum? Svarið er já, það eru augljóslega fleiri virkir þátttakendur í okkar þjóðfélagi í dag, það hafa fleiri rödd og samtakamáttúrinn hefur aukist í kjölfarið. Í sjónvarpinu sér maður ný andlit og hlýðir á nýjar raddir tjá sig um þjóðfélagsmál í því eru fólgin þau skilaboð að hinn almenni borgari hafi heimikið til sins máls. Á fjölmennum borgarafundum fá allir sem vilja tækifæri til að tjá sig og spyrja spurninga, tjáningarþörfin hefur verið leyst úr prísundinni. Og bara hér í Laugarneshverfi tala forsvarsmenn í íþrótta og tómstundastarfi ungmenna um að foreldrar gefi sér meiri tíma til að fylgjast með börnum sínum í íþróttum og listsköpun. Það eitt og sér er dásamleg afleiðing þessa hruns. Mannleg tengsl rísa hér eins og eyja upp úr djúpi.
Jesús Kristur gaf þjáningunni eilífa merkingu þar sem hann hékk á krossinum hæddur og píndur og rændur og í kjölfarið urðu til einhver dýmætustu og útbreiddustu tengsl sem heimsbyggðin hefur eignast, það er hin lifandi kirkja sem byggð er úr fólki sem játar trú á hinn krossfesta og upprisna Krist.
Erindi hinnar lifandi kirkju í veröldinni er að vera ósæð tengsla sem dælir líkama og blóði Krists til þín. Tengslamyndunin sem átti sér stað við krossinn þar sem elskaða lærisveininum var falið að gæta Maríu sem væri hún móðir hans og hann sonur hennar, er birtingarmynd þess erindis sem Kristur á við heiminn, erindið er að við elskum hvert annað eins og hann hefur elskað okkur. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda amen.
Fleiri pistla Hildar Eir má lesa hér: http://tru.is/sida/hofundar/hildur_eir_bolladottir
Fengu meiri styrki árið 2006 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Ég veit ég veit, allir sem ég hef rætt þetta mál við hafa haldið því fram að maðurinn gangi ekki heill til skógar í andans heimi og að maður eigi ekki að eltast við að svara slíku fólki miklu. Ég hef hins vegar ekkert í höndunum sem staðfestir geðveilu mannsins og get ekki setið undir þessum ítrekuðu lygum hans lengur án þess að bera blak fyrir höfuð félaga minna sem hann ræðst ítrekað gegn, nú síðast í færslu á blogginu hans frá því snemma eftir miðnætti í nótt.
Ég skrifaði þar inn langt svar en hafði því miður ekki rænu á að vista það áður en ég sendi það inn hjá honum, sá engin þess merki á síðunni að allar athugasemdir færu fyrst í gegnum síu síðuhaldara áður en að þær birtust hjá honum. Ég skrifaði honum þar afar kurteist en rökfast svar sem að honum virðist ekki hafa hugnast, þar sem að minnsta kosti síðast þegar ég kíkti inn hjá honum, hefur ekki enn verið birt við færsluna.
En tilgangur þessarar færslu er ekki að eyða tíma mínum í að rægja tiltekinn mann, heldur að svara fyrir þessar rakalausu lygar sem að hann setur ítrekað fram.
1. Hann hefur ítrekað skrifað um það að formaður Borgarahreyfingarinnar sé í framboðsvinnu fyrir hreyfinguna á sama tíma og hann á að vera að sinna öðrum starfa hjá vinnuveitanda sínum, RÚV.
Þetta gerir hann þrátt fyrir að hafa fengið staðfest í vitnaviðurvist, meðal annars minnar, frá yfirmanni Herberts hjá RÚV, að Herbert sé í sumarfríi fram yfir kjördag.
Þarna er Ástþór Magnússon því vísvitandi að ljúga til að vekja athygli á eigin brestum.
2. Hann nefnir einnig í ofangreindri bloggfærslu að Þráinn Bertelsson, einn fambjóðenda Borgarahreyfingarinnar, sé á heiðurslaunum frá ríkinu sem rithöfundur og jafnframt í framboði á sama tíma. Eftir því sem mér hefur skilist er ekki skilgreint ákveðið við úthlutun heiðurslauna á hvaða tíma dagsins, nætur, vikunnar eða mánaðarins listamönnum ber að vinna. Ég persónulega treysti Þránni Bertelssyni, sem hefur þegar skrifað fjölmargar stórgóðar bækur, til þess að velja á hvaða tímum honum ferst best úr hendi að skrifa.
3. Hann skrifar um það að einhverjum aðilum hafi verið úthlutað sérstök sæti á listum Borgarahreyfingarinnar. Eftir að hafa persónulega útskýrt fyrir honum á skýran máta hvernig listauppröðunin hjá okkur fór fram að þá er augljóst að hann kýs að ljúga upp á okkur í þeim tilgangi að virðist að eigna sér einum viljann til þess að standa lýðræðislega að málum. Að ljúga verður að teljast afar vafasöm aðferð til lýðræðisbóta.
Til upplýsinga að þá fór uppröðun á lista hjá Borgarahreyfingunni þannig fram að fólk gaf sjálft kost á sér í ákveðin sæti. Ef fleiri en einn aðili sóttust eftir sama sætinu fórum við þess á leit við þá/þau/þær að ræða málið sín á milli og reyna að komast að málamiðlun þannig. Ef það myndi ekki ganga átti að varpa einföldu hlutkesti um hver fengi sætið. Þessi leið er sú leið sem að okkur þótti lýðræðislegust þar sem að stjórnarflokkarnir stóðu ekki við gefin loforð um að koma hér á persónukjöri fyrir kjördag. Langbest hefði verið að hafa tíma og fjármagn til þess að geta farið í opið prófkjör, en fyrst að við réðum ekki við það þótti okkur þetta mjög lýðræðisleg lausn.
4. Hann nefnir ítrekað að Magnúsi Ólafssyni hafi verið úthýst frá Borgarahreyfingunni og tölvupóstsamskiptum verið komið til fjölmiðla.
Þetta er enn ein lygin frá þessum annars ágæta manni og erfitt að sjá hvað annað er stórkostlega bjöguð athyglissýki geti búið að baki.
Tiltekinn Magnús Ólafsson gaf kost á sér í fyrsta sæti hjá Borgarahreyfingunni í suðvestur kjördæmi. Þegar að ljóst var að hann fengi því ekki einfaldlega úthlutað af stjórninni (sem telur sig ekki hafa það vald yfir lýðræðinu að starfa þannig), heldur þyrfti að sitja þar með meðal annars þeim ágætu herramönnum Þór Saari og Valgeir Skagfjörð, þá varð Magnús óánægður og dró framboð sitt til baka. Hvergi í ferlinu báðum við hann að draga sig út. Hann einfaldlega ætlaðist til þess að fá að eiga sætið og við samþykktum það ekki.
Við stóðum með lýðræðinu. Það var aldrei hugmyndin að verða einhverskonar "frægt fólk" framboð heldur vildum við vera brú fyrir alla sem vildu, inn á þing. Þjóðin á þing eins og við nefndum það þangað til að Ástþór fór að nota það slagorð líka í kosningasjónvarpi RÚV. Reikna ekki með að við nefnum það meira þar sem að við viljum eðlilega gæta þess eftir fremsta megni að fólk rugli okkur ekki saman við störf Ástþórs Magnússonar.
5. Að lokum bara til nánari skýringar. Borgarahreyfingin er ekki sami hópur og stóð að Borgarafundunum, eins og Ástþór einnig veit mæta vel. Nokkur þeirra sem stóðu að Borgarafundunum eru félagar í Borgarahreyfingunni ásamt mjög breiðum hópi fólks úr öðrum áttum. Þar á meðal má nefna mig og nokkra aðra sem komu frá hópnum kenndum við Lýðveldisbyltinguna, sjá http://lydveldisbyltingin.is. Þar varð stór hluti stefnunnar sem að Borgarahreyfingin kaus síðan að nota að miklu leyti, til fyrir opnum tjöldum með þátttöku allra sem að vildu koma. Þar fór meðal annars fram mikill hluti hugmynda vinnunnar um beint lýðræði sem að Ástþór hefur nú gert að sínum, þrátt fyrir að hafa hvergi komið að gerð þeirra á vefnum okkar.
Þá er einnig í Borgarahreyfingunni stór hópur fólks sem kom úr grasrótarhópnum Samstöðu sem varð til upp úr fjölmörgum smærri hópum, svo sem Nýjum Tímum sem voru skipuleggjendur að mörgum mótmælaaðgerðum.
Ástþór kýs þó ítrekað að blanda þessum tveimur hreyfingum saman til að flækja fólk enn frekar í rýminu, Borgarahreyfinguna og Borgarafundina. Ástþóri gramdist það mjög að fá ekki að taka til máls úr sal á Borgarafundunum þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og vill meina að það hafi verið eitthvað persónulegt. Ég get ekki svarað fyrir það þar sem að ég kom ekki að skipulagi Borgarafundanna, en get þó staðfest að ég sjálfur reyndi einnig ítrekað að fá að koma að fyrirspurnum úr sal á Borgarafundum, en tókst það aldrei.
Þessum fullyrðingum reyndi ég að fá að svara honum inni á hans eigin síðu en þar sem að hann samþykkir ekki mínar athugasemdir þar að virðist, kaus ég að birta þetta hér. Það er sjálfsagður réttur borgara þessa lands að fá að verja sig gegn ómaklegum og ósönnum árásum manna sem að virðist hafa þann tilgang einan að vekja á sjálfum sér athygli.
Lýðræðið er vandmeðfarið Ástþór, þú þarft endilega að kynna þér það betur. Það er ekki nóg að hirða bara annarra manna hugmyndir, eins og til dæmis beint lýðræðis hugmyndir Daða Ingólfssonar og félaga hans og markaðssetja þær, þó að þú sért vissulega mjög fær í því. Maður þarf líka að skilja hvað lýðræði og réttlæti þýðir innst með sjálfum sér. Ég verð að taka hér undir orð Þráins Bertelssonar, lýðræðið grætur vissulega og ekki furða. Meira að segja þeir sem í blekkingum koma fram og þykjast vera sérstakir erindrekar þess, svífast einskis til þess að koma sjálfum sér á framfæri og það hiklaust á kostnað lýðræðisins með óheiðarleika.
Já, svona að lokum - Sjálfstæðisflokksmenn eru að sjálfsögðu afar velkomnir í Borgarahreyfinguna þó að framboðslistar hjá okkur séu þegar fullunnir. Já fólk úr öllum flokkum, stéttum og landshlutum er hjartanlega velkomið til okkar.
Borgarahreyfingin - http://xo.is
Taka á móti sjálfstæðismönnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |