ER ÞÖGGUN UM SAMNING SEM ICESAVE LANDRÁÐ? - HVAÐ FINNST ÞÉR?
18.6.2009 | 22:28
Fékk þetta á Facebook frá henni Margréti Tryggvadóttir, þingmanni Borgarahreyfingarinnar.
Þessi dagur var hræðilegur. Icesave samningurinn sem við höfum verið að biðja um að fá að sjá í nærri tvær vikur vofði yfir honum.
Í morgun fengum við tvo góða gesti til okkar. Það voru tveir lögfræðingar úr Indefence hópnum en samningnum var bæði lekið í þá og Rúv í gær. Þeir höfðu varið nóttinni í að fara yfir samninginn, lúslesa hann og voru ekki parhrifnir. Þeir sýndu okkur þó ekki samninginn enda hefði það getað komið þeim í 16 ára fangelsi. Þeir vöktu hins vegar athygli okkar á nokkrum ákvæðum hans sem gera hann algjörlega óásættanlegan fyrir íslenska þjóð.
Þingfundur hófst svo eftir hádegi. Ég ætlaði að vera með fyrirspurn til Svandísar Svavarsdóttur um Icesave samninginn og spyrja hana hvort hún teldi sig hæfa til að greiða atkvæði um hann en Svandís er sem kunnugt er dóttir Svavars Gestssonar sem fór fyrir íslensku samninganefndinni. Svandís datt hins vegar á hjóli rétt fyrir þingfund og var flutt á sjúkrahús. Ég vona svo sannarlega að meiðsli hennar séu ekki alvarleg og að hún noti hjálm í framtíðinni.
Eftir atkvæðagreiðslu um standveiðar, listamannalaun og búvörusamninga (allt samþykkt) og umræður um ýmis mál var gert hlé á störfum þingsins og þessir blessuðu samningar kynntir fyrir okkur. Birgitta fékk kynningu kl. 15:30 í utanríkismálanefnd en kl. 16:30 fengum við einn af samningamönnunum á okkar fund. Við náðum sem betur fer að kalla til okkar Elviru Mendez Pinedo, lektor og sérfræðing í Evrópurétti sem sérstakan ráðgjafa okkar og var mikill fengur í því. Fulltrúi samninganefndarinnar mætti stundvíslega en tómhentur því verið var að ljósrita samningana. Samningana fengum við ekki í hendurnar fyrr en klukkan var orðin fimm og þá höfðum við klukkutíma til að fara yfir, þessar 21 síðu af flóknum lagatexta á ensku áður en utandagskrárumræður um þá hófust. Samningarnir eru að mestu samhljóða og því báðir jafnskelfilegir.
Fyrst ber að nefna 16. greinina sem fjallar um "Afsal á griðhelgi fullveldis" en hún hljómar svo í íslenskri þýðingu Magnúsar Thoroddsens hrl.:
Afsal á griðhelgi fullveldis
Bæði Tryggingasjóðurinn og Ísland samþykkja algerlega hvers konar málsókn gegn sér í sambandi við hvaða deiluefni, sem upp kunna að koma og hvers konar annað réttarúrræði gegn sér, þar á meðal aðför eða fjárnám, í hvaða eignum eða réttindum ( án tillits til hvaða nota þau eru ætluð) samkvæmt hvers konar úrskurði eða dómi.
Ef Tryggingasjóðurinn eða Ísland, eða hvers konar eigur eða réttindi þeirra, eiga rétt á griðhelgi í einhverri lögsögu frá málshöfðun eða birtingu annarra skjala í tengslum við hvaða deilu sem er, eða eiga rétt á hvers konar annarri griðhelgi frá lögsögu, lögsókn, dómi, fjárnámi, kyrrsetningu ( þótt það sé áður en dómur gengur til þess að tryggja aðför eða annað réttarúrræði) eða annars konar lögsókn, þá er hér með óafturkallanlega fallið frá griðhelgi á eins algeran hátt og lög viðkomandi lögsögu leyfa.
Bæði Tryggingasjóðurinn og Ísland lýsa því einnig óafturkallanlega yfir, að þau samþykki, að gera ekki kröfu um griðhelgi sjálfum sér til handa eða vegna eigna eða réttinda hvors um sig.
Þetta þýðir einfaldlega algjört afsal íslenska ríkisins á eigum sínum erlendis. Fjármálaráðherra heldur því fram að þetta sé venjulegt ákvæði í lánasamningum á milli þjóða. Þeir sérfræðingar sem ég hef talað við í dag eru sammála um að svo sé ekki. Þetta ákvæði sé hins vegar því miður að finna í mörgum samningum sem t.d. Afríkuríkjum og fátækari ríkjum Suður-Ameríku er boðið upp á. Nú þegar Icelandair er komið í eigu ríkisins gætu Bretar eða Hollendingar því gert flugvélar félagsins upptækar hvar sem er í heiminum utan við Ísland. Í þessu hafa mörg ríki sem reka ríkisflugfélög lent, t.d. Tyrkir. Hvernig væri ferðaþjónustan stödd ef við gætum ekki einu sinni flogið hingað fólki.
Til þess að virkja þetta ákvæði þarf að koma til samningsbrot og hugsanleg samningsbrot eru tíunduð í löngu máli í 11. grein samningsins. Sum þeirra eru skiljanleg og jafnvel eðlileg, svo sem ákvæðið um greiðslufall af okkar hendi en önnur eru illvígari, t.d. ákvæði 11.1.11 sem fjallar um hugsanlegar lagabreytingar íslenska ríkisins um eignir ríkisins eftir 5. júní 2009 (daginn sem gengið var frá samningnum) valdi því að samningurinn allur gjaldfalli og 16. greinin virkist.
Eini jákvæði punkturinn í þessum hryllingi er ákvæði í 3. grein þar sem segir að þingið verði að veita ríkisábyrgð áður en það fari í sumarfrí nú í sumar svo samningurinn öðlist gildi. Nú verðum við að þrýsta á alla þingmenn og skora á þá að kjósa eftir sannfæringu sinni. Reynum að höfða til þeirra betri manns. Næstu dagar munu skipta sköpum fyrir framtíð og lífskjör okkar allra.
Samningurinn var ræddur í utandagskrárumræðum eftir að við höfðum fengið að handfjatla hann í klukkutíma. Hver flokkur fékk tvo ræðumenn og töluðum við Þór. Hér er ræðan mín:
http://www.althingi.is/raedur/?start=2009-06-18T18:30:23&end=2009-06-18%2018:34:48
Þór talaði svo og var heitt í hamsi:
http://www.althingi.is/raedur/?start=2009-06-18T18:52:13&end=2009-06-18%2018:56:28
Við megum þakka þeim sem láku samningnum fyrir það að almenningur fær að sjá hann. Stjórnvöld höfðu haldið því fram að ekki mætti sína hann vegna þess að Bretar og Hollendingar hefðu ekki leyft það! Í samtali Birgittu og Þórs við hollenska samningsmanninn kom fram að sú krafa hafi alls ekki verið uppi. Á fundi með formönnum þingflokkanna í morgun missti fjármálaráðherra það út úr sér að hann hefði nú kosið að almenningur hefði ekki fengið að skoða samninginn því hann væri svo flókinn og á erfiðri ensku að fólk myndi bara misskilja hann! Ríkisstjórnin og þá sérstaklega þau Jóhanna og Steingrímur treysta þjóðinni nefnilega ekki fyrir nokkrum sköpuðum hlut. Dæmi um það er frumvarp ríkisstjórnarinnar um "ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur". Þau ætla sem sagt að spyrja þjóðina um ESB en leyfa henni samt ekki að ráða neinu. Þess vegna ákváðu þingmenn Borgarahreyfingarinnar að semja sitt eigið frumvarp um þjóðaatkvæðagreiðslur og var því dreift á þinginu í dag. Þetta er fyrsta frumvarp okkar og var eini ljósi punktur dagsins. Hér er linkur á frumvarpið:
http://www.althingi.is/altext/137/s/0149.html
Á morgun á svo að fjalla um bandorm ríkisstjórnarinnar sem er vísbending um það sem koma skal. Þróunarríkið Ísland.
Steingrími finnst sem sagt henta betur að halda okkur í myrkri vanþekkingar. Glæsilegt?
Skammist þið ykkar" | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Jamm, vont mál. Hvað getum við gert?
Arinbjörn Kúld, 19.6.2009 kl. 00:13
Þau vona að við sættum okkur við það að vera óupplýst, ég tek undir orð Þórs Saari stjórnarþingmenn ættu að skammast sín. Ef þessi samningur fær þingmeirihluta, þá er illa komið fyrir okkur.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 19.6.2009 kl. 00:55
er það mæting á Austurvöll klukkan 15:00 á Laugardaginn?
Fannar frá Rifi, 19.6.2009 kl. 01:31
Það hefur eitthvað gleymst gegnsæið margumrædda. En þennan samning verður að stöðva með öllum ráðum.
Ævar Rafn Kjartansson, 19.6.2009 kl. 11:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.