Nú ríður á að Íslendingar losi sig við Bjart í Sumarhúsum heilkennið og skapi með þjóðinni samstöðu

Það er svo merkilegt þetta hugarfar Íslendinga almennt að geta aldrei nokkurn tímann almennilega unnið saman eða stutt annarra manna hugmyndir. Hér situr við völd ríkisstjórn sem er með sögulegan meirihluta þingmanna og á samt í vandræðum með að vinna saman. Hvað þarf til að samstaða geti ríkt við stjórn landsins? Eins flokks stjórn? Ég er að sjálfsögðu ekki á því að það væri góður kostur, að minnsta kosti ekki með neinn núverandi flokka á þingi í huga.

Ég sat áðan með góðum félaga mínum á kaffihúsi og var að ræða þjóðmálin. Sagði honum hvað mér hefði líkað vel þöglu mótmælin á Austurvelli síðasta laugardag, að mér finndist það frábær leið til að tryggja að við gætum öll komið saman í samstöðu, en að sjálfsögðu ættum við ekki að vera svona dómhörð. Að sjálfsögðu eiga hinir ýmsu að mega tala á mótmælum án þess að við túlkum það endilega þannig að þeir séu að tala fyrir okkar hönd eða bregðumst ill við af því að við erum ekki endilega sammála hverju orði sem framsögufólkið segir.

Félagi minn sagði að þetta væri þessi óþolandi aumingjaháttur Íslendinga. Við getum aldrei staðið saman, erum sífellt hrædd við álit annarra eða viljum oft ekki styðja hugmyndir nema að eiga þær sjálf. Ég hef staðið mig að þessu í gegnum tíðina líka, tek það skýrt fram. Stöndum svo gjarnan tilbúin á hliðarlínunni til þess að dæma og hlakkar í okkur að geta sagt: "Sagði ég ekki" þegar einhver hugmynd klikkar.

En nú eru nýjir tímar, aðrir tímar. Það hefur ALDREI verið mikilvægara en nú að við getum sýnt samstöðu. Við einfaldlega verðum að geta tekið höndum saman núna til þess að hreinsa frá þessa gegnsýrðu spillingu sem nú er að koma upp á yfirborðið að virðist í gegnum alla stjórnsýsluna. Þingmenn, embættismenn, bankarnir og svo að sjálfsögðu innherjaviðskiptin á frjálsum markaði sem eru stór þáttur í erlendum skuldum okkar núna. Viðskipti innherja sem oft virtust einungis til þess gerð að með fölskum hætti hækka eigið fé félaganna, auka þar með virði þeirra fyrir ebita fólkið, skuldsetja í topp og taka þar með út mismuninn sem var búinn til með þessu svindli til þess að geyma á reikningunum sínum á til dæmis Cayman eyjum.

Við einfaldlega verðum að ná saman. Nú eru uppi hugmyndir um 3-4 ný framboð að mér skilst. Sturla og félagar fengu sinn lista bókstaf í dag. Það er að sjálfsögðu öllum velkomið að bjóða fram, það er einfaldlega lýðræðislegur réttur okkar allra. En á sama tíma er afar mikilvægt að ná atkvæðunum í sem stærsta einingu til þess að skapa afl sem hefur atkvæðamagnið á Alþingi til þess að geta haft raunveruleg áhrif og þar með staðið fyrir RAUNVERULEGUM breytingum.

Ég legg til að við búum til sameiginlegan vettvang strax á nýju ári, þar sem að þau okkar sem vilja breytingar geta komið saman og lagt til sínar hugmyndir, haft áhrif á lýðræðislegan máta á stefnu framboðs. Ég vil standa að því að skapa vettvang þar sem að við getum sem flest mæst í sameiginlegu framboði. Framboði sem er ekki skilgreint hægri vinstri eitthvað, heldur framboð sem skal skilgreint sem afl til breytinga.

Situr þú í óþreyju og langar að taka þátt en veist ekki hvernig þú getur orðið að liði? Sendu mér endilega línu viljirðu taka þátt. Nú vantar margar fúsar hendur. Það eru stórhreingerningar framundan. Fæstum finnst gaman að þrífa, en okkur líður samt alltaf svo mikið betur eftir á.

Íslandshreyfingin er vettvangur fyrir þessi sjónarmið.


mbl.is Frekar kosningar en að láta undan dulbúnum hótunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góður lestrar pistill Baldvin !!  En mér langar að segja þér fyndna sögu af sjálfum mér, Þannig er nú mál með vexti að ég byrjaði að blogga fyrir 1-2 vikum síðan og hef sagt "mínar skoðanir" og þær eiga fullan rétt á sér að mínu mati en greinilega ekki að mati sumra hér :)   Eftirlitsnefnd fasteignasala sendi bréf þar sem útskýringar væri óskað með eignarhald fasteignasölunar sem er allt í fínu og allt samk. lögum og hefur aldrei verið leynd með það " nema hvað bréfinu fylgdi útprentun af blogginu og bréfið barst til þeira fyrir 5 dögum og kom í morgun til mín. Eftirlitstnefndin hefði að sjálfsögðu ekki átt að vera með útprentun af blogginu, En það vonandi fást skýringar og eflaust fáum við að vita hvaðan kvörtunin kom og verður það gaman að blogga um það. Málfrelsi er ekkert og baknag virðist vera lenska.

Gangi þér vel Baddi minn í framboðinu.

Gunnar Björn Björnsson (IP-tala skráð) 17.12.2008 kl. 17:19

2 Smámynd: Guðmundur Andri Skúlason

Þú veist að framboð er ekkert annað en "branding". Þannig hefur það a.m.k. verið hér á landi um árabil, engu hefur skipt hvað sagt er heldur hver sagði það.

Það væri kannski ráð að fara að breyta þessu, hætta þessari umræðupólitík og fara kannski að byggja upp einhverja innihaldspólitík þannig að eitthvað sé að ræða um...

eða þannig...

Annars bara gott framtak hjá þér, kannski maður skrái sig í flokkinn.. :)

kv. Gandri

Guðmundur Andri Skúlason, 17.12.2008 kl. 17:26

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Kostirnir eru tveir: Annars vegar sá, sem auðvelt er að framkvæma ef vilji er fyrir því, en það er að breyta kosningalöngunum með persónukjöri og afnám þröskulds á heldarfylgi.

Þetta er prófsteinn á raunverulegan lýðræðisvilja sitjandi þingmanna, - annars eru þeir í raun að viðhalda Alþingi sem vernduðum vinnustað þar sem meirihlutinn er í "öruggum sætum" og getur því gert hvað sem honum sýnist.

Þessi sjálfsverndaraðferð þingmanna byggist á sérstökum lög um sem eru sett til að eyðileggja möguleikana á nýjum framboðum vegna þess að áróðurinn um "ónýt atkvæði" bítur svo vel.

Ef breytingar á kosningalögum fást fram er mun meira svigrúm en áður fyrir eðlilega nýsköpun í pólitík.

Hitt er sennilega líklegra að sitjandi flokkar ríghaldi í vernd sína andspænis fólkinu.

Í því tilfelli kynni það að verða nauðsynlegt að nýjum straumum yrði í tæka tið fyrir kosningar veitt í sameiginlegan farveg undir einum listabókstaf eða sameiginlegu framboði sem byggðist á listum á borð við X og XX.

Framboð getur líka verið undir merkjunum XX og óháðir þar sem til dæmis Íslandshreyfingin, sem er grasrótarsamtök utan þings yrði móðurskip nýs framboðs.

Ég er ekki að varpa þessu fram sem einhverju sem ég eða mínir samherjar höllumst að einmitt núna, heldur til að sýna fram á að það eru ýmsir möguleikar til í pólitík og að vika er svo langur tími í pólitík, að það sem kann að sýnast af og frá í dag, getur orðið að möguleika eftir viku.

Ómar Ragnarsson, 17.12.2008 kl. 17:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband