Frábært að sjá að menn eru opnir fyrir fleiri hugmyndum en bara áli

Við eigum mikla óbeislaða orku íslendingar, það er ljóst. Að sama skapi er ljóst að nú ríður á að skapa meiri fjölbreyttni í útflutningstekjum. Í gegnum síðustu öld treystum við á fisk sem reyndist okkur afar mikilvæg lyftistöng til þess að ná að þróast í iðnríki frá bændasamfélagi. En fiskurinn nánast einvörðungu olli okkur einnig miklum sveiflum í vergri landsframleiðslu þar sem verð á honum á erlendum mörkuðum sveiflaðist þó nokkuð og þar með íslenska hagkerfið allt.

Þá var byrjað á álbræðslu á Íslandi og hefur það reynst þjóðinni góð viðbót, en aftur misstum við okkur í að vilja treysta um of á eina góða hugmynd, og nú þegar að verð á áli í heiminum hríðfellur er þjóðin við það að fara að borga á fullu með til dæmis Kárahnjúkavirkjun, og ekki er nú til mikið af auka reiðufé til að setja í það.

Við erum einnig búin að byggja upp öfluga ferðaþjónustu hér heima, en yfir vetrarmánuðina hefur hún hins vegar verið nánast alfarið bundinn við Reykjavík og dagsferðir þaðan og það er verkefni sem þarf raunverulega skoðun, hvernig stækka megi köku landsbyggðarinnar yfir vetrarmánuðina. Það koma til að mynda hingað þúsundir manna í hverjum mánuði yfir veturinn sem hafa þann hvata helstan að vilja sjá norðurljósin. Þessu fólki ætti að bjóða einhverja virkilega góða pakka til Vestfjarða eða norðurlands þar sem að norðurljósin sjást mun oftar en á suðurlandi.

Þó að ég vilji ekki vera sérstaklega að auglýsa störf Samfylkingarinnar að þá er hér hjá Össuri þó afar góður listi af hugmyndum sem hafa komið til hans frá fólkinu í landinu undanfarið: http://ossur.hexia.net/faces/blog/ossurentry.do?id=7871&entry=84592
Eins og þið sjáið þarna er augljóst að landinn býr yfir miklu af frábærum hugmyndum, það er ekki ríkisins að koma með þær hugmyndir, það er hins vegar ríkisins að skapa grundvöllin fyrir þær hugmyndir til þess að komast á legg. Að minnsta kosti svona fyrstu skrefin, síðan þurfa hugmyndirnar að sjálfsögðu að verða sjálfbærar hið allra fyrsta.

Danska aðferðin sem að ég hef minnst á hérna áður, byggir á því að "mismuna" fyrirtækjum eftir staðsetningu. Það er, þau fyrirtæki sem hyggja á uppbyggingu á landsbyggðinni fái frekar fyrirgreiðslu og aðgang að ódýru lánsfé, en þau fyrirtæki sem vilja byggja sig upp í þéttbýlinu. Það er ljóst að fyrir flestar hugmyndir er erfiðara um vik með uppbyggingu langt frá helstu þjónustukjörnum og ef við viljum byggja upp fjölbreytta byggð á Íslandi að þá er það verkefni sem virkilega verður að styðja við. Samkvæmt því sem mér hefur verið sagt virkar þetta svona um það bil þannig í Danmörku að sprotafyrirtæki utan þéttbýlis fá vaxtalaus lán, eða lán á afar lágum vöxtum, til nokkurra ára með það að markmiði að fyrirtækið verði að skila að minnsta kosti 3-5 störfum fyrir sitt byggðarlag innan einhvers tímaramma, kannski tveggja ára. Markmiðið er að fyrirtækið verði sjálfbært hið allra fyrsta að sjálfsögðu, það er jú tilgangurinn, að byggja frekari tekjur en ekki útgöld.

Það er til mikil orka í landinu og eitt stærsta málefni íslendinga er sjálfbær nýting hennar. Það er og verður eitt helsta baráttumál Íslandshreyfingarinnar að orkunni verði ekki sólundað, að orkuna verði að nýta íslendingum öllum til framdráttar, núlifandi og afkomendum okkar. Það er mikilvægt að fá hið allra fyrsta fram á borðið niðurstöður heildrænnar kortlagningar á orkuforða landsins og hvernig hann skuli skipulagður. Hingað til hefur nýtingin byggst of mikið á hugmyndinni "að nóg sé til", nú verðum við að fara að skoða hvernig heildarnýtingin þarf að vera.

Það koma hingað á síðuna ótt og títt talsmenn álvera sem vilja draga í efa þær tölur sem ég hef nefnt í sambandi við nýtingu orku landsins í áliðnaðinum. Það er rétt að nýting áliðnaðarins í dag er ekki "nema" rétt tæp 70% af virkjaðri orku landsins í dag. Tölurnar sem að ég hef verið að nefna eru hins vegar allt að 90% af heildar mögulegri orkunýtingu landsins. Það er að segja, miðað við þær núverandi hugmyndir sem uppi eru um fleiri álver var áætlað að á endanum væri það yfir 80%, líklega hátt í 90% af allri virkjanlegri orku landsins sem færi í áliðnaðinn.

Það hljóta allir að sjá að það að nýta um 70% af orkunni til aðeins eins iðnaðar er alveg jafn vitlaust fyrir samfélag eins og að hafa 70% af tekjunum bara af fiski eins og var lengst af á síðustu öld og reyndar mun hærra hlutfall en 70% lengst af.

Ég er félagsinnaður frjálshyggjumaður. Hægri grænn eins og ég hef kosið að skilgreina mig. Ég vill skapa sem mestar tekjur fyrir þjóðina af auðlindum okkar, en ólíkt mörgum skammtíma frjálshyggjumanninum, vil ég skapa sem mestar tekjur af auðlindum þjóðarinnar til framtíðar og þá helst um ókomna framtíð.

Mér finnst það einfaldlega mikið betri viðskiptahugmynd að skapa rekstur sem hefur aðgang að hráefni/auðlindum til langs tíma. Mjög langs tíma. Mun betri hugmynd en að tappa bara af í hvelli núna þeirri orku sem í boði er í t.d. háhita og klóra okkur svo bara í hausnum eftir 30-40 ár þegar við förum að velta því fyrir okkur, hvað nú?

Ættirðu stórt fyrirtæki sem byggi að miklum auðlindum og þyrfti að taka ákvörðun um hvort að ætti að búa til eins mikinn hagnað og mögulegt væri til skamms tíma núna eða hvort að ætti að byggja upp rekstur til framtíðar, hvort myndirðu velja?


mbl.is Opnað á aðra möguleika en Alcoa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldvin Jónsson

Erlingur, hver eru "við"?  Þetta hljómar spennandi.

Gísli, þekki ekki hvaðan leiðin er upphaflega, er kannski eins og margt í Danmörku, ekki fundið þar upp en aðlagað að þeirra samfélagi með árangursríkum hætti.

Ég hjó einmitt eftir fréttum af svona hálfgerðum jöfnunarsjóðum í Þýskalandi. Þar var einmitt sérstaklega tekið fram að sökum stærðar landsins væri svo erfitt að fylgjast með því hvað væri ekta og hvað væri bara excel félag, eins og þú nefndir það. Ég get ekki séð að það yrði vandamál á Íslandi þar sem að sökum smæðar allt slíkt eftirlit er auðvelt og yrði mjög líklega að mestu vaktað af borgurunum. Dæmi: Fyrirtæki á Kópaskeri fær samþykkta fjárhags- og aðgerðaráætlun að nýju fyrirtæki. Þessu er slegið upp í blöðum og auglýst á na-landi. Gangi fyrirtækið vel og skapi þennan lágmarks skilgreinda fjölda starfa innan gefinna tímamarka er ekkert meira um það að segja. Allir bara glaðir og fyrirtækið greiðir til baka lánið á einhverjum tilteknum árafjölda, sá tími þyrfti að vera fremur styttri en langur. Sé fyrirtækið bara plat mun fólk á Kópaskeri augljóslega verða þess vart nánast samstundis að ekkert sé á bakvið hugmyndina annað en excel, og mér segir svo hugur að fólkið þar, sem sá möguleika á nýjum störfum, muni ekki sitja þegjandi og aðgerðarlaust yfir slíku plati.

Ég þekki ekki ítarlega fyrirkomulagið sem haft var á við lánveitingar frá Byggðjasjóði. En ég man hins vegar að Byggðasjóður var stöðugt í umræðunni vegna "vina-lána" til "gæluverkefna" sem afar oft skiluðu engum árangri. Ég tel að lausnin á slíkum vanda sé sú að í stað stofnunar, verði sett upp nefnd sem á að hafa umsjón með umsóknum um slíkar lánveitingar. Slík nefnd skildi skipuð til þess menntuðum sérfræðingum með reynslu. Þeir skildu heyra undir sameiginlegt viðskipta- og iðnaðarráðuneyti og sitja að hámarki í 4 ár. Þessi störf skildu vera ágætlega launuð og það þyrfti að búa um þau þá umgjörð að það væri eftirsóknarvert að taka þátt í slíku starfi tímabundið. Spillingin umtalaða á Íslandi finnst mér aðallega vera í því fólgin, að þegar einhverjir sitja of lengi á embætti sínu virðast þeir/þær einfaldlega hægt og rólega verða dofin fyrir mörkunum sem verða að vera á milli persónulegs lífs og opinberra starfa.

Baldvin Jónsson, 16.12.2008 kl. 13:15

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Eins og nú er komið málum er hugsanlegt að 5-6 risaálver myndu ekki aðeins krefjast 90% af orku landins heldur langt yfir 100% ef miðað er við endingu hennar til frambúðar.

Það er því brýnt að ítarlegum vísindalegum rannsóknum á náttúruverndargildi og orkuafköstum háhitasvæða svo að við völtum ekki yfir komandi kynslóðir.

Ómar Ragnarsson, 16.12.2008 kl. 19:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband