Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
1. Uppgjör við hrunið.
Sökudólgar séu yfirheyrðir og fangelsaðir. Að samfélagið fái séð að það sé raunverulegur vilji yfirvalda að uppgjör fari fram. Það verður að gera betur en að láta líða allt að 12 mánuði án þess að grunaðir séu svo mikið sem yfirheyrðir.
2. Kraftmikil hugmyndavinna með aðkomu mjög breiðs hóps fari þegar af stað.
Hér hefur þegar sést vísir að mörgum góðum hugmyndum, en betur má ef duga skal og fjölmargir sem að maður hittir á förnum vegi hafa ekki hugmynd um hvaða möguleikar eru í boði.
Hér þarf sem sagt kraftmikið starf ásamt góðri kynningu á því.
3. Mjög aukið streymi upplýsinga.
Stór hluti af ótta þjóðarinnar er að vita ekki hvað er í rauninni um að vera og að geta ekki lengur treyst ráðamönnum til þess að segja okkur satt um málið. Mögulega hefðum við ekki átt að treysta þeim áður heldur, en nú er runnið upp fyrir okkur að traust verður að ávinnast, og það sem fyrst.
Það hefur verið mikið fjallað undanfarið um erfiðleika í samskiptum innan Borgarahreyfingarinnar. Hreyfingin er vissulega að ganga í gegnum örðugleika, en í engu stærri en hópar fólks, þar með taldir stjórnmálaflokkar og hreyfingar, ganga reglulega í gegnum. Stóri munurinn er sá að við erum að ganga í gegnum þetta að langstærstum hluta fyrir opnum tjöldum og því eðlilegt að mörgum þyki það skrítið á að horfa. Borgarahreyfingin ætlar sér hins vegar að halda áfram með öllum mögulegum leiðum, að auka gegnsæi og upplýsingaflæði.
Við gáfum okkur út fyrir að vilja hafa hlutina uppi á borðinu, það ætlum við okkur að gera áfram.
Gífurlegt þunglyndisálag á íslensku þjóðinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fundargerð félagsfundar Borgarahreyfingarinnar 6. ágúst 2009 - mun birtast á vefsíðu hreyfingarinnar hið allra fyrsta
7.8.2009 | 13:14
Félagsfundur Borgarahreyfingarinnar Tryggvagötu 17 101 Reykjavík
Fimmtudagur klukkan 20:00
Boðuð dagskrá:
1. Kosning fundarstjóra og ritara
2. Skýrsla stjórnar - Fjallað verður um samskiptaörðugleika milli þinghóps
og stjórnar og klofning þinghóps
3. Skýrsla þinghóps
4. Skýrslur vinnuhópa
5. Önnur mál
1. Kosning fundastjóra og ritara
Margrét Rósa Sigurðardóttir kjörin fundarstjóri og Baldvin Jónsson ritari.
2. Baldvin les skýrslu stjórnar og umræður eru opnaðar um hana.
Skýrsla stjórnar:
Efni skýrslu stjórnar að þessu sinni er ætlað að varpa ljósi á samstarfsörðugleika milli stjórnar og þingmanna hreyfingarinnar með það fyrir augum að ræða málin á yfirvegaðan hátt og auglýsa eftir tillögum félaga um úrbætur.
Starf stjórnar hefur því miður einkennst um of af því að bregðast við ytri aðstæðum frá síðasta félagafundi. Ljóst má vera að Borgarahreyfingin er með klofinn þinghóp, Þráin Bertelesson annars vegar og hin þrjú hins vegar. Kemur það til vegna ESB viðsnúningsins sem flest okkar hafa eflaust sterkar skoðanir á. Stjórnin áleit það skyldu sína að hlutast til og lagði fram 2 tillögur fyrir þinghópinn;
1. Að þinghópurinn velji sér nýjan þingflokksformann.
2. Að það verði aldrei færri en einn varamaður inni á þingi fyrir hreyfinguna.
Stjórnin taldi tillögurnar vera í anda þeirra lýðræðisbóta sem hreyfingin boðaði. Skýringar með tillögunum voru þær að koma ætti í veg fyrir að þinghópurinn einangrist meira frá hreyfingunni en orðið er og auka lýðræðislegar ákvarðanatökur. Einnig að tryggja að fleiri raddir innan hreyfingarinnar heyrðust inni á Alþingi. Auk þess vonaðist stjórnin til að auka mætti einingu innan þinghópsins með þessum breytingum
Stjórnin hefur enn ekki fengið formlegt svar frá þinghópnum þrátt fyrir ítrekanir en einstakir þingmenn hafa ekki tekið tillögunum vel. Meirihluta stjórnar er farið að verða það ljóst að vilji þinghóps til að starfa með henni er takmarkaður, hlutverk stjórnar í augum þinghóps er ekki að skipta sér að störfum þingmanna, heldur að skrifa greinar og halda félagsstarfinu gangandi. Skilningur stjórnar á hlutverki sínu er annar. Stjórnin er lýðræðislega kosin af meðlimum hreyfingarinnar og fer með umboð þeirra milli aðalfunda. Ljóst er að samþykktir félagsins eru ekki ítarlegar, en það er engu að síður ljóst að stjórnin fer með vald aðalfundar hvað varðar skipulag og stefnu hreyfingarinnar. Þetta hefur þinghópurinn ákveðið að hundsa og hefur starf hans sem snýr að hreyfingunni einkenst af því að skottið sé að reyna að hrista búkinn.
Ítrekað hefur stjórnin reynt að bæta samskiptaleiðir við þinghópinn en með takmörkuðum árangri. Nú er svo komið að þinghópur handvelur einstaklinga til að eiga samskipti við og ber hópurinn það fyrir sig að það sé einhver í stjórninni að leka upplýsingum í fjölmiðla. Við nánari athugun taldi stjórnin hins vegar að ekki hefði neinn leki átt sér stað því þá hefði tillaga stjórnar eflaust verið birt í fjölmiðlum nú þegar.
Með vísan til ofangreinds vill stjórn Borgarahreyfingarinnar koma eftirfarandi á framfæri við félagsmenn:
Það er skilningur stjórnar að þinghópur Borgarahreyfingarinnar sé hluti af Borgarahreyfingunni og skuli því starfa í samræmi við samþykktir hreyfingarinnar og í nánu samráði við félagsmenn og stjórn. Stjórnin getur ekki skv. umboði sínu sætt sig við að þinghópurinn fari þvert á yfirlýsta stefnu hreyfingarinnar án þess að náið samráð sé haft við stjórn og félagsfundi. Enn fremur gerir stjórnin þá kröfu til þingmanna að þeir láti persónulegar erjur ekki skaða orðspor hreyfingarinnar eða spilla fyrir því nauðsynlega starfi sem þarf að fara fram með aðkomu sem flestra félagsmanna.
Heiða B. Heiðarsdóttir leggur fram þá tillögu að skýrsla stjórnar verði gerð opinber öllum félagsmönnum á heimasíðu hreyfingarinnar.
Fram komu athugasemdir um að ekki heyrðist frá stjórninni í formi fréttatilkynninga.
Stjórnarliðar útskýrðu hvernig stjórnin hefur starfað og hvernig störf stjórnar hafa fyrst og fremst falist í að bregðast við óvæntum uppákomum undanfarið.
Einnig komu fram kröftugar athugasemdir við að fundargerðir stjórnar hreyfingarinnar væru ekki komnar á heimasíðu hreyfingarinnar eins og stefnt er að.
Heiða B. Heiðarsdóttir leggur fyrir fundinn þá tillögu að fundargerðir stjórnarfunda verði birtar ósamþykktar á netinu og að athugasemdir við hana verði opinberar.
Friðrik Þór Guðmundsson leggur tillögu fyrir fundinn:
Á síðasta auka-aðalfundi var lögð fram tillaga um skipulag Borgarahreyfingarinnar til bráðabirgða, fram að Aðalfundi í haust. Tillögunni var vísað frá sem óþarfri í ljósi aukins sáttavilja. Það hefur ekki gengið eftir.
Félagsfundur beinir því til stjórnar og þinghóps að starfa samkvæmt tillögu þessari fram að aðalfundi í haust.
Ingólfur Hermannsson leggur til eftirfarandi tillögu um að fundurinn sendi frá sér eftirfarandi:
Fundurinn lýsir yfir vonbrigðum með að þingmennirnir hafi ekki séð sér fært að mæta á félagsfundinn.
Gunnar Sigurðsson leggur fram þá tillögu að fram komi harðorð ályktun um að þingmenn séu einungis framlenging hreyfingarinnar og að þeim beri að starfa sem slíkir.
Hjörtur Hjartarson leggur fram að fundurinn álykti samkvæmt eftirfarandi:
Félagsfundur Borgarahreyfingarinnar, haldinn í Reykjavík 6. ágúst 2009, harmar þann skaða sem persónulegar deilur meðal stjórnarmanna og þinghóps hafa valdið hreyfingunni. Þess er krafist að þingmenn og stjórnarmenn geri út um þessar deilur þannig að ekki hljótist af frekari skaði og einbeiti sér að því að hrinda stefnumálum Borgarahreyfingarinnar í framkvæmd. Til þess voru þeir kjörnir:
Jón Kr. leggur fram þá tillögu að tillögurnar sem fram hafa komið verði að einhverju leyti sameinaðar og teknar fyrir sem sérstakur dagskrárliður.
Þorsteinn Barðason leggur fram þá tillögu að félagsfundurinn lýsi yfir fullum stuðningi við þingflokk hreyfingarinnar.
Sævar Finnbogason og Margrét Rósa Sigurðardóttir leggja fram eftirfarandi tillögu:
Stjórn tilnefnir 2ja manna sáttanefnd sem hefur samband við þinghóp og reynir að koma á sáttum:
Fundarhlé.
Lagðar fyrir fram komnar tillögur til fundarins. Fundurinn tekur afstöðu til þeirra í tímaröð að því undanskildu að tillaga Jóns Kr. er tekin fyrir fyrst þar sem hún gengur öðrum framar.
Jón Kr. dregur tillögu sína til baka og aðrar tillögur eru teknar fyrir í tímaröð, tillögur Heiðu sameinaðar í eina.
Heiða B. Heiðarsdóttir leggur fram þá tillögu að skýrsla stjórnar verði gerð opinber öllum félagsmönnum á heimasíðu hreyfingarinnar. Að fundargerðir stjórnarfunda verði birtar ósamþykktar á netinu og að athugasemdir við þær verði opinberar, þar með talið fundir stjórnar og þinghóps.
Eftir umræðu kom fram breytingartillaga um að tillagan sé eftirhljóðandi:
Að skýrsla stjórnar á félagsfundum verði gerð opinber öllum félagsmönnum á heimasíðu hreyfingarinnar. Að fundargerðir stjórnarfunda, þar með talið fundir stjórnar og þinghóps, verði birtar á netinu strax að fundi loknum og að athugasemdir við þær verði opinberar. Að stjórnarfundir séu hljóðritaðir og settir á heimasíðu hreyfingarinnar innan viku frá fundi.
Tillagan er samþykkt samhljóða.
Tillaga Friðriks Þórs var tekin fyrir næst.
Eftir umræður var hún samþykkt samhljóða svohljóðandi:
Félagsfundur beinir því til stjórnar og þinghóps að starfa samkvæmt tillögu þessari fram að aðalfundi í haust: Á fundum stjórnar hafa þingmenn, framkvæmdastjóri hreyfingarinnar og starfsmaður þinghópsins setu- og tillögurétt og málfrelsi, en greiða ekki atkvæði. Almennir félagsmenn hafa seturétt á stjórnarfundum sem áheyrnarfulltrúar. Fulltrúar stórnar hreyfingarinnar hafa seturétt sem áheyrnarfulltrúar á þeim þinghópsfundum sem varaþingmenn eru boðaðir til.
Tillaga Ingólfs Hermannssonar var samþykkt samhljóða.
Eftir umræður var samþykkt að tillaga Gunnars Sigurðssonar yrði borin fram sameiginlega með tillögu Hjartar Hjartarssonar.
Tillaga Hjartar Hjartarssonar var samþykkt samhljóða.
Tillaga Þorsteins var felld með meirihluta greiddra atkvæða.
Tillaga Sævars og Margrétar Rósu var borin upp næst.
Eftir umræður var hún samþykkt samhljóma svohljóðandi:
Félagsfundur tilnefnir nefnd til þess að vinna að sáttum innan þinghópsins.
3. Ritari les bréf frá Margréti Tryggvadóttur þingmanns.
Bréf Margrétar:
Tilkynning til félagsfundar Borgarahreyfingarinnar þann 6. ágúst 2009.
Kæru félagar,
Í hádeginu í dag vorum við sem skipum þinghóp Borgarahreyfingarinnar boðuð á félagsfund nú í kvöld til að ræða klofning þinghópsins. Ég hef reynt að hafa það sem forgangsatriði að sækja félagsfundi Borgarahreyfingarinnar þótt ég hafi ekki komist á þá alla. Það sem hér á hins vegar að ræða eru yfirlýsingar Þráins Berteilssonar í fjölmiðlum um að hann vilji ekki tala við okkur hin sem skipum þinghópinn með honum. Ég get engan veginn tekið að mér að svara fyrir hann og hans yfirlýsingar, hann verður að sjá um það sjálfur. Því tók ég þá ákvörðun að koma ekki á fundinn í kvöld, auk þess sem ég er ósátt við þann stutta fyrirvara sem ég fékk.
Ég get hins vegar greint frá minni hlið málsins. Forsöguna þekkja flestir en Þráinn var og er ósáttur við gjörning okkar við ESB atkvæðagreiðsluna. Það er hins vegar ekki rétt að við höfum ráðist í þá aðgerð án samráðs við hann. Við ræddum við hann áður en við létum til skarar skríða og hann gerði okkur ljóst að hann vildi ekki taka þátt í þessu og hélt ég að hann skyldi fullkomnlega á hverju afstaða okkar byggðist og virti ákvörðun okkar. Samskiptin við hann þá daga sem hasarinn stóð yfir og fram yfir atkvæðagreiðsluna voru öll eins og best verður á kosið. Þráinn fór svo í útvarpsviðtal eftir atkvæðagreiðsluna þar sem hann sagðist ekki vita hvort hann hyggðist starfa með hinum þingmönnum Borgarahreyfingarinnar áfram en ætlaði að taka sér frest fram yfir helgi til að melta það. Mér fannst meira en sjálfsagt að gefa honum þann tíma. Sá tími hefur dregist á langinn.
Þráinn Bertelsson hefur verið boðaður á alla þinghópsfundi okkar síðan atkvæðagreiðslan fór fram en ekki mætt á einn einasta. Hann svaraði fundarboði á þann fyrsta, á mánudaginn 20. júlí, að hann myndi ekki mæta á þinghópsfundi en önnur svör hafa alla vega ekki borist mér. Við höfum ítrekað beðið um fundi með honum, sum okkar hafa hringt en aðrir sent bréf. Hann hefur aðeins einu sinni talað við okkur öll þrjú saman síðan þetta var en það var í matsal þar sem við báðum hann að ræða við okkur þingmáls sem kemur til kasta allsherjarnefndar en þar neitaði hann að ræða málið við okkur og var stuttur í spuna.
Mér þykir afar vænt um Þráinn og þætti miður ef hann sæi sér ekki fært að starfa með okkur. Ég get auðvitað bara talað fyrir sjálfa mig en að mínu mati er Þráinn meira en velkominn í samstarfið á nýjan leik. Þá þykir mér miður að lesa umræðuna og þá útreið sem hann fær t.d. á Eyjunni í dag og ég vona að félagar í hreyfingunni hafi ekki tekið þátt í þeim ærumeiðingum.
Verst þykir mér þó að þetta ósætti skuli taka frá okkur tíma og orku þegar svo margt annað skiptir svo miklu meira máli. Nú vofir Icesave yfir okkur og öllu máli skiptir að koma því máli í einhvern farveg sem við getum lifað við sem þjóð. Þótt málið sé enn ekki til lykta leitt þá held ég að það dyljist engum að þar hafi Borgarahreyfingin, þingmenn sem grasrót, þegar unnið þrekvirki þótt deila megi um sumar aðferðirnar. Við skulum ekki gleyma því að þessum glæsilega samningi átti að lauma í gegnum þingið án þess að þingmenn fengju færi á að kynna sér hann og meiri hluti þingheims var sáttur við það vinnulag á þeim tíma.
Bestu kveðjur,
Margrét Tryggvadóttir
Fram kemur dagskrárbreytingatillaga sem er svohljóðandi:
Gert verði hlé á fundinum og kosin strax sáttanefnd samkvæmt framkominni tillögu þar að hljóðandi.
Tillagan er samþykkt samhljóða.
4. Kjör í sáttanefnd.
Tilnefnd eru:
Þórður Björn Sigurðsson
Ragnheiður Fossdal
Birgir Skúlason
Baldvin Björgvinsson
Ingólfur Hermannsson
Hörður Ingvaldsson
Tilnefningar eru samþykktar samhljóða. Tilnefndir fá tækifæri til morgundagsins til þess að svara til um hvort að þeir gefi kost á sér.
5. Skýrslur vinnuhópa
Fram komu engar skýrslur.
6. Önnur mál.
Baldvin Björgvinsson kemur á framfæri athugasemdum um aðgerðarleysi hreyfingarinnar gagnvart brostnum yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar um Skjaldborg heimilanna sem og stefnu hreyfingarinnar í þeim málaflokki.
Sævar Finnbogason leggur fram tillögu um að haldnir verði félagsfundir hálfsmánaðarlega sem verði þemafundir.
Fram kemur tillaga um að fjalla um þessa tillögu á félagsfundi síðar.
Samþykkt samhljóða.
Baldvin Jónsson leggur fram tillögu um að fundurinn samþykki og sendi út, ásamt ályktun um fréttir dagsins, ályktun félagsfundarins vegna aðgerðarleysis í þágu skulda heimilanna.
Samþykkt samhljóða.
Jón Kr. beinir því til stjórnar að kynna það fyrir félagsmönnum að kominn sé á fastur fundartími, 1. og 3. fimmtudag hvers mánaðar, fyrir félagsfundi.
7. Framsetning ályktana fundarins.
Félagsfundur Borgarahreyfingarinnar, haldinn í Reykjavík 6. ágúst 2009, harmar þann skaða sem persónulegar deilur meðal stjórnarmanna og þinghóps hafa valdið hreyfingunni. Þess er krafist að þingmenn og stjórnarmenn geri út um þessar deilur þannig að ekki hljótist af frekari skaði og einbeiti sér að því að hrinda stefnumálum Borgarahreyfingarinnar í framkvæmd. Til þess voru þeir kjörnir:
Þingmenn eru einungis framlenging hreyfingarinnar og þeim ber að starfa sem slíkir.
Fundurinn lýsir yfir vonbrigðum með að þingmenn hafi ekki séð sér fært að mæta á félagsfundinn.
Fundurinn vill að auki koma fram eftirfarandi yfirlýsingu:
Borgarahreyfingin lýsir vanþóknun sinni á framgöngu ríkisstjórnar Íslands gagnvart skuldsettum heimilum í landinu. Ríkisstjórnin hefur gengið á bak orða sinna um að slá skjaldborg um heimilin, til að þóknast Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.
Harmar persónulegar deilur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
HVET ALLA SEM MÖGULEGA GETA TIL ÞESS AÐ FLYTJA VIÐSKIPTI SÍN FRÁ KAUPÞING - FÁI ÞEIR LÖGBANNSBEIÐNINA SAMÞYKKTA
1.8.2009 | 18:22
Þetta er ömurleg tilraun fjárglæframanna til þess að fela "blóði" drifna slóð sína. Þjóðin á rétt á því að þessar upplýsingar berist sem víðast, upplýsingar sem sýna okkur svart á hvítu hvert viðskiptasiðferði þessara manna er.
Ert þú tilbúin/n til þess að taka á þig verulega aukna skattbyrði til þess að standa undir skuldum þessa fólks?
Endilega dreifið þessum hlekk sem víðast. Við verðum að halda upplýsingunum lifandi, svona ef ske kynni að dómskerfið stórgallaða hér heima falli í þá gryfju að samþykkja lögbannið.
http://www.wikileaks.com/wiki/Financial_collapse:_Confidential_exposure_analysis_of_205_companies_each_owing_above_EUR45M_to_Icelandic_bank_Kaupthing,_26_Sep_2008
Kaupþing fer fram á lögbann | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Steingrímur J.: Hvers vegna ekki bara að segja satt??
22.7.2009 | 19:43
Ég er hryggur yfir þessu máli eins og oft hefur komið fram, og verð hryggari með degi hverjum. Steingrímur J. var fyrir mér talsmaður litla mannsins á þingi, maður sem sagði satt og stóð fast á sínu. Þessu bar ég mikla virðingu fyrir, þrátt fyrir að hafa ekki getað kosið VG hingað til vegna ólíkra áhersla þeirra og minnar hugmyndafræði í efnahagsmálum.
En nú hefur Steingrímur í fjölda mála á undanförnum örfáum vikum, snarsnúist og það þvert á yfirlýsta stefnu VG í kosningunum. En eins og það sé ekki nóg, að þá er hann farinn núna að hreinlega afneita skýrum sannleika og halda fram einhverri fásinnu sem stenst enga skoðun.
Hvers vegna ekki bara að segja satt?
Auðvitað er Icesave málið nátengt ES aðildarviðræðum. Auðvitað munu Hollendingar og Bretar gera sem þeir geta til þess að stilla málum þannig upp. Þeir eru í stríði við okkur - efnahagsstríði. Stríði sem við, því miður, stofnuðum til undir "öruggri" efnahagsstjórn Sjálfstæðisflokks og þeirra þýðis.
Hvernig sem að allt fer, hvernig sem að Icesave málið mun verkast á endanum, að þá er krafan skýr. Þjóðin á ALLAN rétt á því að fá ALLAR upplýsingar upp á borðið, að sannleikurinn í samningnum verði gerður opinber.
Við sem eigum að greiða, eigum að sjálfsögðu rétt á því að fá að vita um hvað málið snýst nákvæmlega.
Þrýst á Íslendinga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Enn eitt RISA BANKARÁNIÐ í uppsiglingu
21.7.2009 | 01:52
Já nú munu eflaust stíga fram einstaklingar og saka mig um hræðsluáróður. Það virðist algengt orðið hjá ráðþrota fólki um allt samfélagið. Fólki sem kaus og vill verja þá ákvörðun sína (hver sem hún var) í fulla hnefana.
En nú stefnir í enn eitt bankaránið segi ég. Nú hefur verið tilkynnt, samkvæmt forsíðufrétt Morgunblaðsins einhvern tímann í síðustu viku um skilanefndirnar, að nýju bankarnir muni taka yfir eignasöfn gömlu bankanna á bókfærðu virðu þeirra. Á skráðu gengi sem er væntanlega gríðarlega yfirskráð og má ætla að raunvirði krafna erlendra kröfuhafa sé ekki nema vel innan við 50% af skráðu virði þeirra.
Hér á sem sagt að hlífa erlendum kröfuhöfum við tapinu og rukka íslenskan almenning í staðinn. Glæsilegt?
Mér er spurn hvort að þetta sé enn einn rándýr aðgöngumiðinn að ESB borðinu?
Steingrímur í beinni á CNBC | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Maðurinn sem ákvað að lána Kaupþingi 500 milljarða svona um það bil "korteri" áður en að hann ákvað síðan að þjóðnýta bankann og kostaði með því þjóðina svipaða upphæð og heildarskuldsetningin vegna Icesave, á nú að líta út eins og einhver hetja. Maðurinn sem öðrum fremur er hugmyndasmiður og gerandi markaðarins og þar með hrunsins, á nú að vera einhver riddar á hvítum hesti fyrir týnda þjóð.
Hvað er að? Er fólk alveg orðið firrt? Er skammtímaminnið horfið? Er langtímaminnið ekkert?
Er nema von að maður efist reglulega um eigið geðheilbrigði og annarra?
Davíð Oddsson er kominn á rétta hillu í dag, það er upp á hillu. Ég reyndar er þess nokkuð viss að hann þori ekki að taka sénsinn á því að reyna endurkomu og mistakast hrapalega og muni því blessunarlega bara halda sig áfram heima við.
Það er þjóðinni allri fyrir bestu.
Skorað á Davíð á Facebook | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Icesave? Nah, get ekki, vil ekki, skal ekki og ætla ekki!
14.7.2009 | 08:16
Það er svo merkilegt að undanfarið hef ég bara ekki fengið mig til að blogga eitt einasta orð. Hef oft ætlað, en bara hreinlega fæ mig ekki til þess. Þetta verður svo oft á tíðum neikvæð orka hérna og bloggheimar yfir höfuð oft á tíðum ótrúlega óvægir og grimmir og einelti algengt að virðist.
Afstaða mín til mála hefur ekkert breyst, ég er hins vegar bara búinn að dvelja nánast alla daga frá því í maí á fjöllum við akstur ferðamanna og orkan þar er bara svo dásamleg að ég næ ekki að setja mig inn í fréttir dagsins eða daganna (eftir lengri ferðir) þegar heim er komið.
Hélt ekki að ég væri svona skýrt merki um einn "þeirra", en það er ég greinilega. Ég verð vanhæfur til vanlíðunar á sumrin, verð væntanlega alveg snar í haust bara í staðinn. Hver veit?
Fékk sendan þennan vísdóm, langar að birta hann hér:
I imagine one of the reasons people cling to their hates
so stubbornly is because they sense, once hate is gone,
they will be forced to deal with pain.
-- James Baldwin
Engin ríkisábyrgð á Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sá þessa tilvísun í athugasemd á Facebook og einfaldlega verð að koma henni hér á framfæri líka.
VG liðar einfaldlega verða að fara að sjá hversu sárlega maðurinn er að skaða lýðræðisumræðuna hér heima og ætlar á sama tíma að klára það starf sem Davíð Oddsson lagði grunninn að, að afnema fullveldið Ísland.
Við megum ekki gefast upp, nú verða allir flokkar og grasrótarsamtök að starfa saman og berjast gegn þessari valdkúgun sem Bretar og Hollendingar vilja beita okkur með þessum samningi. Góða greiningu á því ofbeldi má sjá á yfirvegaðan máta hér: http://elvira.blog.is/blog/elvira/entry/905403/
Athugasemdin sem ég sá er þessi:
Steingrímur J. telur ICESAVE samningana of flókna fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu!! Árið 2003 taldi fjármálaráðherrann sem vill ekki leggja eitt stærsta hagsmunamál þjóðarinnar í atkvæðagreiðslu nauðsynlegt að efna til þjóðaratkvæðis um stóriðju á Austurlandi. Á Alþingi 4. mars 2003 sagði Steingrímur J. meðal annars:
"Ekki getur það verið vandinn að nokkrum manni í þessum sal, þingræðissinna, detti í hug að þjóðin sé ekki fullfær um að meta þetta mál sjálf og kjósa um það samhliða því að hún kýs sér þingmenn. Stundum heyrist að vísu einstaka hjáróma rödd um að sum mál séu svo flókin að þau henti ekki í þjóðaratkvæði. Það er einhver allra ömurlegasti málflutningur sem ég heyri. Menn geta alveg eins haft ónefnd orð um gáfnafar þjóðarinnar, og það ætla ég a.m.k. ekki að gera.
Ósvífin og ódýr afgreiðsla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Uppvakningur snýr aftur - ömurlegir "sagði ég ekki frasar" sem gera ekkert nema að benda á algert vanhæfi hans sjálfs í málinu öllu!
5.7.2009 | 11:53
Davíð er ekki upprisinn, hann er bara að reyna að kenna öðrum um eins og lítill krakki.
Nú stígur fram skapari þess skrímslis sem hér ríkti og lýsir yfir ágæti sínu. Hönnuður Frankensteins fjármálakerfisins sem hér fékk að valsa um eftirlitslaust, bæði undir hans eigin stjórn og annarra, telur sig nú saklausan og hafa vitað betur.
Davíð er ómerkingur sem nú ætlar að nýta sér ástandið til þess að slá sig til riddara. Mjög pólitískt, en ekkert minna ömurlegt fyrir vikið.
Davíð er ajatolla kerfisins sem skapaði hér það ástandi sem nú ríkir. Látið ekki blekkjast, látið ekki draga ykkur yfir í fagurgala lýðræðismorðingjanna í Sjálfstæðisflokknum. Ástandið í dag er ÞEIRRA GJÖRÐ!!
Samþykki yfirvalda á Icesave samningnum eru ekki verstu mistök sem hér hafa verið gerð frá 1262. Þau eru NÆST verstu mistök frá 1262. Verstu mistök frá 1262 eru síðustu 8 ár Davíðs við völd á þingi og í Seðlabankanum. Þau mistök eru helsta orsök ástandsins sem nú ríkir hér yfir.
Ég hef fengið um það fjölmargar ábendingar í athugasemdum að mér beri sem varaþingmanni, að gæta orða minna. Trúið mér kæru vinir og lesendur, ég er svo sannarlega að gera það. Það væri afar freistandi að taka mun sterkar til orða.
Til þess að taka skýrt af allan vafa, þá snúast mótmæli okkar undanfarið ekki undir neinum kringumstæðum um það að koma núverandi ríkisstjórn frá og valdasjúkum D og B mönnum aftur að. ALLS EKKI.
Mótmælin snúast um að verja þjóðina fyrir hræðilegum meðvirkum gjörðum núverandi ráðamanna. Snúast um það að fá þau hin sömu til þess að gera EKKI þessi skelfilegu mistök sem nú vofa yfir.
Það er ekki of seint, það er enn hægt að velja að berjast fyrir þjóð sína (hvar er)Jóhanna og Steingrímur!
Snúum bökum saman og mætum vandanum með hag þjóðarinnar allrar fyrir brjósti. Og öllu öðru framar, látum þjóðina vita hvernig málum er háttað í gegnum allt ferlið. Upplýsingastreymið er vægast sagt glatað frá nýrri ríkisstjórn líka.
Hvers vegna er til dæmis engin að spyrja að því hvaða (hræðilegu) upplýsingar fengu Steingrím J. til þess að skipta algerlega um skoðun, 180° viðsnúningur, gagnvart Alþjóðagjaldeyrisjóðnum, þegar að Steingrímur var sestur í stól fjármálaráðherra?
Ekki setja þjóðina á hausinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Álfeheiður Ingadóttir staðfestir taktleysi VG enn frekar
30.6.2009 | 20:50
Já, það er sko undarleg tík þessi pólitík.
Ég er búinn að vera á fjöllum undanfarna daga og er reyndar enn, en núna í netsambandi um stund. Byrjaði strax af slæmum vana að skoða allar helstu fréttir undanfarið og fann strax fyrir óþægindum og óhamingju, því miður. Búið að vera dásamlegt að vera nánast fréttalaus undanfarna daga og flestir ættu að hugsa til þess að taka sér reglulega gott frí frá fréttaamstri. Þetta virðast mest vera vondar fréttir enn sem komið er, það er að segja sem komið er frá hruni.
En hvað um það. Hér er enn ein frétt um umræður um Icesave á Alþingi þar sem að drullað er yfir lýðræðið og hreint alveg ótrúlegt hvað það virðist gjarnan koma úr herbúðum VG, sem einmitt voru með lýðræði sem kosningamál fyrir nýliðnar kosningar. Augljóslega lítið að marka þær yfirlýsingar.
Í þetta skiptið er það Álfheiður Ingadóttir sem stígur fram og tilkynnir okkur að Icesave sé ekki stóra málið í dag og að þjóðin hafi kosið umIcesave, ásamt öðrum málum í apríl. Ég spyr, hversu firrt er slík yfirlýsing?
Hér eru niðurstöður kosninga í apríl síðastliðnum:
Landið allt
Þingmenn | |||||
B | Framsóknarflokkur | 27699 | 14,80% | 9 | |
D | Sjálfstæðisflokkur | 44369 | 23,70% | 16 | |
F | Frjálslyndi flokkurinn | 4148 | 2,22% | 0 | |
O | Borgarahreyfingin | 13519 | 7,22% | 4 | |
P | Lýðræðishreyfingin | 1107 | 0,59% | 0 | |
S | Samfylkingin | 55758 | 29,79% | 20 | |
V | Vinstrihreyfingin - grænt framboð | 40580 | 21,68% | 14 |
Þeir sem voru yfirlýst ósammála því að greiða Icesave án sönnunar þess að okkur bæri svo að lögum voru B, O og V listar. P listi svaraði því til að þjóðin ætti að kjósa beint um það, sem og önnur þingmál.
B, O og V eru samtals 43,7% atkvæða. Að auki er augljóst af umræðunni að fjöldi D kjósenda eru einnig á móti því að borga bara möglunarlaust
Þetta fyrir mér er bara einfaldlega of tæpt til þess að þjóðin eigi ekki að taka sérstaklega atkvæðagreiðslu um málið. Þetta er RISA mál og mun meira undir en aðeins fjárhagslegir hagsmunir.
En burtséð frá því hvað þjóðin kaus um í apríl, hvað varð um sannfæringu VG? Hvaða skilaboð er verið að senda þeim kjósendum VG sem kusu í góðri trú framboð sem boðaði lýðræðisumbætur, afnám stjórnunar AGS á ríkismálum á Íslandi og andstöðu gegn ESB?
Er nema von að fólk eigi erfitt almennt með að treysta gömlum refum í pólitík?
Þjóðin kaus um Icesave í apríl | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |