Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Takk Bjarni fyrir slaginn - hann varð styttri en til stóð en það er við mikinn lýðræðishalla að etja
3.4.2009 | 23:26
Já og er enn fyrir okkur í Borgarahreyfingunni.
Það eru nokkrir þröskuldar sem þarf að yfirstíga til þess að geta boðið fram á Íslandi. Þröskuldar sem voru upp settir af fjórflokknum til þess að virðist að koma í veg fyrir að ný lítil framboð næðu fram að ganga.
Við erum að tala um hluti eins og að til þurfi 2520 undirskriftir í eiginhandarritun þeirra sem mæla með að framboðið fái fram að ganga, hluti eins og 5% þröskuldinn sem svo mikið hefur verið um rætt. Það er gríðarleg vinna í því fólgin að stilla upp alls 126 einstaklingum í framboð til þess að geta boðið fram í öllum kjördæmum og þurfa svo að fá 30-40 sinnum þann fjölda sem meðmælendur með framboðinu.
Hvers vegna þarf svona miklar kröfur? Fjórflokkurinn segir að það sé til þess að koma í veg fyrir einhver grínframboð. En bíddu, má það ekki líka í lýðræðisríki?
Er ekki staðreyndin sú að þeim líður orðið svo vel með sínar hátt í 400 milljónir í ríkisstyrki til að auglýsa sjálfa sig í framboði að þeir vilja einfaldlega tryggja að þeir sitji einir að kjötkötlunum. Já, það eru um 380 milljónir sem að flokkarnir úthluta sér til þess að heyja kosningabaráttu á kostnað kjósenda, kjósenda sem svo jafnvel hafa lítinn áhuga á þeim og ætla sér að kjósa eitthvað annað.
Borgarahreyfingin - þjóðin á þing er þrátt fyrir þessa þröskulda á fljúgandi ferð og við erum afar bjartsýn á gott gengi í komandi kosningum. Við byggjum á mjög góðri lýðræðislega saminni stefnuskrá og mörgum afar góðum frambjóðendum. Frambjóðendum sem að hafa staðið vaktina frá því í byrjun október í mótmælum og aðgerðum, fólki sem hefur sýnt fram á að það er tilbúið til þess að berjast sannarlega fyrir heimilin í landinu og eru ekki bundin af tengslum við sérhagsmunahópa um allt samfélagið. Frambjóðendum sem eru um það sammála að ráða eigi síðan sérfræðinga til þess að stýra ráðuneytunum, bæði ráðuneytisstjórunum og ráðherrum. Það er lágmarkskrafa að málaflokkum sé stýrt af fólki sem hefur til þess bæra menntun og reynslu.
X við O er að taka afstöðu með heimilunum í landinu.
Hættir við þingframboð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnlagaþing – lýðræði eða alræði?
3.4.2009 | 13:40
Grein sem ég ætlaði að birta í prentmiðli en misfórst.
Stjórnlagaþing - lýðræði eða alræði?
Undanfarið höfum við fylgst með baráttu Sjálfstæðisflokksins gegn lýðræðinu á Alþingi og í fjölmiðlum. Sjálfstæðisflokkurinn er steingervingur á tímum breytinga og vill standa gegn nauðsynlegum lýðræðisbreytingum, sem hér verða að fara fram. Þeir segjast styðja umbætur en ekki strax. Hvað þýðir það í raun? Flokksfélagar virðast margir hverjir alfarið hafa misst af því að hér varð kerfishrun og traust þjóðarinnar til Alþingis er vart mælanlegt, eða aðeins um 13%, samt hafa frændurnir Bjarni Benediktsson og Björn Bjarnason haldið því fram að það að fela stjórnarskrárbreytingar stjórnlagaþingi, græfi undan virðingu Alþingis. Hvaða virðingu? Virðingu þessara 13%?Kostnaður við stjórnlagaþing
Það er að virðist dagsskipun frá toppnum að nú skuli þeir gagnrýna öðru fremur kostnað við slíka framkvæmd. Ég tek undir að hugmyndir Framsóknarflokks eru við fyrstu sýn ekki í anda hugmynda Borgarahreyfingarinnar, en eru þó skref í rétta átt. Hvað má lýðræði kosta? Erum við ekki tilbúin til að kosta einhverju til að hér ríki réttlæti, jöfnuður og siðferði? Að allir þurfi að spila eftir sömu leikreglum? Það eru afskrifaðir 3.000 milljarðar í skuldum atvinnulífsins í bönkunum, má ekki setja nokkur hundruð milljónir í að endurreisa hér lýðveldið. Er þetta sami Sjálfstæðisflokkur og þykist vilja berjast fyrir stétt með stétt? Mér er spurn.Hvað vill Borgarahreyfingin?
Samkvæmt stefnu okkar á stjórnlagaþing ekki að vera endurspeglun af Alþingi, þar sem útbrunnir pólitíkusar fá að láta dauft ljós sitt skína að nýju. Stjórnlagaþing verður að vera þverskurður af þjóðinni og á það á að velja með slembiúrtaki en ekki kosningu. Endurskoðun stjórnarskrárinnar og þeirra grunngilda sem við viljum byggja samfélagið okkar á verður að fara fram á grunni þjóðarinnar en ekki atvinnustjórnmálamanna. Löglegt en siðlaust hefur verið lífstíll of margra of lengi á Íslandi.Þessu munum við í Borgarahreyfingunni breyta. X við O í kosningunum er réttlætismál. http://xo.is eða http://borgarahreyfingin.is Höfundur er í framboði fyrir Borgarahreyfinguna í Reykjavík suður.Harðar deilur á Alþingi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Nýr Forstjóri FME - ætli nú verði gerð almennileg gangskör í því að refsa fjölmiðlunum enn frekar?
3.4.2009 | 10:36
Þetta mál er í alla staði stórmerkilegt. Á sama tíma og verið er að fela hundruði milljarða erlendis, á sama tíma og fjármunir og rekjanleiki eru að hverfa hér heima, eru starfsmenn Fjármálaeftirlitsins að einbeita sér að fjölmiðlafólkinu sem er að berjast við að upplýsa þjóðina um ástandið.
Hvað hefur þetta fólk að fela??
Bæði Lára Hanna ofurbloggari og Henrþy Þór taka á málinu.
Sjá hér: http://larahanna.blog.is/blog/larahanna/entry/844272/ og hér: http://pressan.is/Gulapressan/Mynd/icelands-most-wanted
Ég vona það heitt og innilega að Vilhjálmur Bjarnason verði ofan á í ráðningu forstjóra. Ég treysti honum til þess að setja fókusinn þangað sem máli skiptir. Fyrir utan það augljósa er alveg ljóst að þessi hagsmunatengsl hérna þarf að rannsaka sérstaklega. Bæði frá sjónarhóli Glitnis sem og þjóðarinnar.
Nýr forstjóri fyrir hádegi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Jóhanna Sigurðardóttir sagði við það tækifæri þegar hún fékk 1. sæti á lista, að persónukjör skyldi verða þrátt fyrir að Samfylkingin væri langt komin með prófkjör.
Nú er ljóst að Samfylkingin virðist ætla að halda dauðahaldi í þá afar vafasömu túlkun lögmanns Alþingis að samþykki tveggja þriðju hluta alþingismanna þurfi til, til þess að breytingarnar gætu náð fram að ganga.
Borgarahreyfingin - þjóðin á þing hefur leitað álits virtra fræðimanna á sviði laga og telja þeir allir að svo víð túlkun eða lögskýring á þessum ákvæðum sé mjög vafasöm og í raun röng.
Við skorum því á þig Jóhanna að halda til streitu frumvarpinu um persónukjör. Ef ekki annað, þá eigum við að minnsta kosti skilið að fá að vita hverjir kjósa á móti því við atkvæðagreiðslu.
Hættið þessu helvítis væli" | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fylgi Borgarahreyfingarinnar breytist lítið milli vikna - stefnum á stóra stökkið næst vonandi
2.4.2009 | 21:11
Já, merkilegt nokk virðast landsfundir Sjálfstæðisflokks og Samylkingar um helgina lítil áhrif hafa haft á fylgi flokkanna. Kannski ekki skrítið þar sem ekkert kom í raun fram á þessum landsfundum annað en staðfesting á ætluðum nýjum leiðtogum flokkanna.
Jóhönnu sem vildi það alls ekki en neiddist til þess að taka við kaleiknum og svo Bjarna Ben sem fékk væntanlega titillinn í fermingargjöf nánast og er búinn að vera að undirbúa sig fyrir hlutverkið síðan. Verst hvað það hefur verið leiðingjarn undirbúningur, gaurinn er svo litlaus að hann svarar ekki einni einustu spurningu sem fyrir hann er lögð hreint út. Sumir vilja meina að það sé flott hjá stjórnmálamanni, mér finnst það leiðingjarnt og orðið voða 2007.
Borgarahreyfingin - þjóðin á þing mælist nú með 3% en var í síðustu viku með 3,4%. Þetta er kannski ekki mikill munur og við höldum í raun sjó ef miðað er við skekkjumörk könnunarinnar, en að sjálfsögðu er ég svekktur yfir því að hafa ekki farið frekar í hina áttina. Var vongóður um að við yrðum komin yfir 5% markið í þessari viku.
Nú er bara að leggjast saman á árarnar og koma Borgarahreyfingunni á framfæri sem víðast. Það er grundvallar réttlætismál að kynna XO.is sem víðast. Fólk verður að fá að vita af okkur, okkur sem getum hjólað í verkin af fullri hörku. Okkar sem erum ekki bundin af hagsmunum einhverra sérhagsmuna hópa eða fjármagnseigenda.
X við O í komandi kosningum er staðfesting á því að þú viljir láta rannsaka bankahrunið(þjófnaðinn) sem sakamál.
Samfylking áfram stærst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Það virðist því miður vera svo að raunverulegar lausnir fyrir heimilin á að geyma núna fram yfir kosningar til þess eins að þær geti verið kosningaloforð núverandi stjórnarflokka í komandi kosningum.
Samfylkingin og VG hafa lagt fram ýmsar tillögur varðandi bráðavanda heimilanna, hvers vegna er ekki verið að leysa hann núna? Eru ekki hagsmunir þjóðarinnar framar hagsmunum flokkanna? Er þetta sama sagan og hagsmunir (Ó)Sjálfstæðisflokksins?
Ég vill trúa því að ráðamenn vilji vel, en endilega skýrið fyrir okkur hvers vegna þessi mál eiga að bíða kosninga?
Sér fyrir endann á hrunsferli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Í Sniglunum gekk ég undir nafninu Tálbeitan
1.4.2009 | 23:39
Til hamingju með daginn kæru Sniglar og bestu þakkir fyrir baráttu ykkar fyrir bættu umferðaröryggi og auknum skilningi almennings gagnvart akstri bifhjóla í umferðinni.
Ég gekk í Sniglana 1993 og fékk þá viðurnefnið "Tálbeitan". Þetta æxlaðist þannig að ég var tekinn fyrir of hraðan akstur (já, átti það því miður til á yngri árum) á bifhjóli og var beðinn um að koma niður á stöð í skýrslutöku og vegna þess að þarna missti ég prófið í fyrsta og eina skiptið. Var tekinn á 112 km. hraða í Ártúnsbrekkunni, var þá líklega enn 60 km. hámarkshraði þar á klukkustund.
Nema hvað að meðan að ég var að gefa skýrsluna hringdi einhver aðili frá Sniglunum í því skyni að leyta eftir samstarfi við Lögregluna og fá fyrir því samþykki að bifhjólafólk fengi að leggja inni á Ingólfstorginu. Lögregluvarðstjórinn tók vel í það og lagði svo á. Í beinu framhaldi fékk ég um það fyrirlestur hvers lags ágætisfólk þessir Sniglar væru nú og hvers lags aumingjar og glæpalýður við bifhjólamenn værum sem værum ekki í þeim samtökum.
Ég fór beinustu leið og gekk í Sniglana eftir þetta samtal, að sjálfsögðu í þeirri von að ég fengi þá frekar frið í umferðinni af laganna vörðum. Gekk sem sagt í Sniglana fyrir tilstuðlan Lögreglunnar að heita má og þaðan kom því viðurnefnið.
Er þakklátur fyrir það í dag að hafa þroskast í umferðinni með aldrinum, þessi ár, sérstaklega hjá strákum, frá 17-25 ára eru einfaldlega mjög mjög lífshættuleg.
Til hamingju með daginn Sniglar!
Sniglarnir 25 ára | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Það þykir fréttnæmt að 4000 manns mótmæli í London
1.4.2009 | 23:15
Á Íslandi hins vegar þar sem búa ríflega 300 þúsund manns, á móti ríflega 60 milljóna manna í Bretlandi, þykir það ekkert tiltökumál og jafnvel ítrekað gert bara lítið úr því að þar mótmæli þúsund manns eða meira.
Merkilegt?
Einn látinn í London | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Auðlindirnar verður að stjórnarskrárbinda - verður að liggja klárt fyrir áður en aðildarviðræður eru skoðaðar
1.4.2009 | 15:47
Samkvæmt mínum heimildum var það Samfylkingin sem lagðist gegn því við vinnslu frumvarpsins að auðlindir þjóðarinnar yrðu bundnar sem þjóðareign í stjórnarskrá. Þetta gerði Samfylkingin án vafa vegna þess að þau grunar að aðilda að ESB muni standa eða falla með þessu ákvæði.
Samfylkingin er þar með að segja okkur að þau vilji ganga í Evrópusambandið á hvaða verði sem er. Jafnvel þó að það kosti landann þær auðlindir sem nú eftir standa. Skammist ykkar. Án auðlindanna er Ísland ekkert annað en kaldur klettur í ballarhafi og ekkert hingað að sækja. Á hverju á þjóðin þá að draga fram lífið?
Borgarahreyfingin tekur alveg skýrt á þessu máli í stefnu sinni. En þar segir í 2. kafla í lið 10:
Allar náttúruauðlindir verði í þjóðareigu og óheimilt að framselja þær nema tímabundið og þá aðeins með viðurkenndum gagnsæjum aðferðum þar sem fyllsta jafnræðis og arðs er gætt
Við viljum fá að skoða kosti og galla samninga við ESB með aðildarviðræðum, en það er alveg skýrt að fyrst verður að tryggja eignarrétt þjóðarinnar og bann við framsali þeirra réttinda yfir auðlindum landsmanna. Annað er algert glapræði.
Nálgast Sjálfstæðisflokkinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ólög um greiðsluaðlögun samþykkt á Alþingi í gær - búa ráðamenn við varanlega afneitun á vandann?
31.3.2009 | 14:33
Ráðamenn þjóðarinnar sjá fyrir sér að 100-200 manns þurfi aðstoð vegna greiðsluerfiðleika? Hversu veruleikafirrt getur þetta fólk verið? Búa þau í glerkassa án alls sambands við þjóðina?
Það eru tugþúsundir manna að minnsta kosti sem þurfa bráðaaðstoð, upphæðirnar kannski ekki alltaf stórar í viðmiði við heildina, en fólki engu að síður afar erfiðar. Ríkisstjórnin er jafn vanhæf í dag og hún var fyrir áramót. Það verður að vakna til lífsins í hvelli, við þurfum ráðamenn sem þora að horfast í augun við raunveruleikann. Ég minni enn og aftur á Borgarahreyfinguna. Við þorum og getum og erum laus við öll hagsmunatengsl við þá hópa sem sterkast standa gegn öllum breytingum.
Hægt og rólega, já stundum reyndar afar hratt, erum við að fá að sjá betur og betur hverslags bull við höfum lifað við hérna heima. Skráð verðmæti eigna langstærsta hluta íslenskra félaga er verulega ofmetið og vandamálapakkinn sem við er að etja er þar með svo miklu miklu stærri en ráðamenn landsins eru að reikna með. Samt er þar á bæ enn verið að slökkva sinueldanna meðan að húsin okkar brenna.
Hagsmunasamtök heimlanna hafa verið afar dugleg undanfarið við að kynna sína baráttu og ég mæli eindregið með því að fólk kynni sér starfsemi þeirra til dæmis hér: http://www.heimilin.is/varnarthing/index.php
Á blaðamannafundi Borgarahreyfingarinnar í gær fengum við spurningu frá Hagsmunasamtökunum um það hvað við ætluðum okkur að gera í sambandi við vanda heimilanna. Við svöruðum þar skýrt með tilvísun í stefnumálin okkar sem má finna hér: http://www.borgarahreyfingin.is/stefnan/
En þar segir um aðgerðir í efnahagsvanda heimilanna:
Gripið verði þegar í stað til neyðarráðstafana í þágu heimila og fyrirtækja
1. Alvarleg skuldastaða heimilanna verði tafarlaust lagfærð með því að færa vísitölu verðtryggingar fram fyrir hrun hagkerfisins (til janúar 2008). Höfuðstóll og afborganir húsnæðislána lækki til samræmis við það. Raunvextir á verðtryggðum lánum verði að hámarki 23% og afborgunum af húsnæðislánum megi fresta um tvö ár með lengingu lána. Skuldabyrði heimila vegna gengistryggðra íbúðalána verði lagfærð í samræmi við verðtryggð íbúðalán. Í framhaldinu verði gert samkomulag við eigendur verðtryggðra húsnæðislána um að breyta þeim í skuldabréf með föstum vöxtum og verðtryggingarákvæði í lánasamningum verði afnumin.
2. Leitað verði leiða út úr myntvanda Íslands með myntbandalagi við aðrar þjóðir eða, ef þess þarf, einhliða upptöku annars gjaldmiðils.
3. Boðin verði víðtæk aðstoð við atvinnulausa um allt land með það að markmiði að aðstoða þá í að nýta atvinnuleysið sem tækifæri.
4. Skuldsett fyrirtæki verði boðin til sölu og tilboðum aðeins tekið ef ásættanlegt verð fæst. Annars verði starfsfólkinu leyft að taka yfir fyrirtæki. Skuldir eigenda verði ekki felldar niður sjálfkrafa en veita má hagstæð lán eða breyta skuldum lífvænlegra fyrirtækja í hlutafé í eigu ríkisins frekar en að afskrifa skuldir.
5. Halla á ríkissjóði verði mætt með endurskoðun skattkerfisins, m.a. með fjölgun skattþrepa, hátekjuskatti og breytingum á virðisaukaskatti, frekar en niðurskurði í heilbrigðis- og velferðarþjónustu. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fái ekki að taka yfir stjórn á landinu.
6. Strax verði hafist handa við að meta heildarskuldir þjóðarbúsins og að því loknu gert upp við lánardrottna eftir bestu getu. ICESAVE-reikningar Landsbankans og aðrar skuldir bankanna erlendis verði ekki greiddar fyrr en álit óháðra sérfræðinga liggur fyrir um skyldur Íslands, m.t.t. þess að sennilega hafi verið um svikamyllu að ræða en ekki eðlilega bankastarfsemi. Rannsakað verði hvað varð um allar færslur á reikningum bankanna erlendis sem og lánveitingar þeirra til tengdra aðila, fjármunirnir sóttir og þeim skilað til eigenda. Stjórnendur og eigendur bankanna verði gerðir ábyrgir fyrir því sem upp á vantar. Samið verður við grannþjóðirnar um það sem út af stendur m.t.t. neyðarástands efnahagsmála á Íslandi og reynt að fá þær skuldir niðurfelldar. Samhliða því verði gefið loforð um að 2% af VLF Íslands renni til þróunaraðstoðar á ári í tíu ár til að sýna góðan vilja Íslendinga til að verða ábyrg þjóð meðal þjóða
Einnig svöruðum við því skýrt að við munum þegar í stað, fáum við til þess nægan stuðning þjóðarinnar, setja af stað aðgerðir sem miða að því að afnema verðtrygginguna á um 2 árum. Og það er ekki með neinum loðnum fyrirvörum eins og Steingrímur J. og Bjarni Ben. hafa viðhaft í sínum ummælum um verðtrygginguna.
Verðtrygginguna verður einfaldlega að afnema og það án meðvirkni gagnvart fjármagnseigendum.
Fjöldinn sem þarf greiðsluaðlögun vanmetinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |