Í DAG HEFÐI ÁTT AÐ HANDTAKA MIG VÆNTANLEGA

Ef ég hefði bara komist til að taka þátt í mótmælunum á Austurvelli. Er því miður fastur vegna vinnu, úti á landi næstu dagana. En get lofað því að ég hefði án vafa setið þarna með henni Heiðu B., hetjunni minni og mótmælamömmu (er það ekki flottur titill Heiða?) og öðrum baráttujöxlum, ef ég hefði átt möguleika á því að mæta í dag.

Hvað stendur lögreglunni til með þessu? Það er von að maður spyrji sig.

Við sem höfum verið að mótmæla undanfarna viku erum sama fólkið og tók mjög virkan þátt í að dreifa appelsínugulum borðum í janúar mótmælunum og taka stöðu gegn því að reiðin myndi bitna á lögreglumönnunum sem þarf þurftu að vera. Sumir þeirra reyndar hefðu svo sem alveg átt skilið að fá að finna vel fyrir því, en almennt voru lögregluþjónarnir þarna að standa sig vel við erfiðar aðstæður og við vorum æði mörg sem tókum þá afstöðu að gæta þeirra, enda snerust mótmælin ekki um lögregluna eða þá einstaklinga sem þarna voru á hennar vegum, heldur um algerlega vanhæfa og fyllilega óheiðarlega ríkisstjórn. Sorglegt til þess að hugsa að sú lýsing eigi að miklu leyti við núverandi ríkisstjórn líka.

En hvað nú? Varla ætlast lögreglan til þess að við tökum þátt í því að verja hana þegar að hún tekur upp á því að handtaka okkur fyrir 100% friðsamleg mótmæli, eða hvað?

Stefán lögreglustjóri þarf að íhuga þetta alvarlega. Ég tel algerlega víst að mótmælin í haust muni verða ansi mikið alvarlegri en í janúar ef koma á líka í veg fyrir friðsamleg mótmæli venjulegra borgara sem einfaldlega geta ekki meir. Borgara sem hafa fundið hjá sér nægt óþol til þess að stíga fram og berjast fyrir landið sitt.

Hversu langt þarf að ganga?


mbl.is Rætt um Icesave á Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll.

Því miður virðast þessir 30.000 aðilar sem hafa skráð sig á móti Icesave samningnum vera búin að missa alla trú á að getað haft nokkur áhrif á stjórnvöld og þingheim til að forða þeim frá landráðinu. Hugsanlega er það offramboð af fréttum af glæpahyskinu, spilltum embættismönnum og myrkraverkum þeirra sem hefur skollið yfir þjóðin látlaust seinustu vikurnar sem lamar fólk og fyllir það vonleysi og framtaksleysi? Búin að gefast upp?

Stundum virðist eins og fjölmiðlar gangi sérstaklega erinda þeirra sem hafað skammtað þeim nýjum “skúbbum” til að draga athyglina frá ruglinu í þeim sjálfum.

Því miður var mætingin á Austurvöll ekki góð. Samt var nokkuð harður hópur sem settist á götuna fyrir framan Alþingishúsið og lögreglan fjarlægði þau með valdi og væntalega upp á lögreglustöð.  Umferðin var engin.  Einnig segja fréttir útvarps að einhverju hafi verið hent í Alþingishúsið.  Einhverjir unglingar hentu nokkrum vatnsblöðrum eins og börn nota til leikja.  Aðgerðir yfirvalda voru fullkomlega óþarfar að mínu viti, og einungis til þess fallnar að hleypa mótmælunum í óþarfa hörku og þá ekki síður af mótmælendunum frekar en yfirvalda.

Mætingin á morgun er um kl. 16.30, og það er hæpið að við sem höfum mætt á hverjum degi getum mótmælt fyrir ykkur og fjölskyldurnar ykkar sem og ófædda afkomendur. Við erum öll að vilja gerð, en því miður dugar þessi litli hópur varla. Betur má ef duga skal.

Guðmundur Gunnarsson (IP-tala skráð) 15.6.2009 kl. 19:15

2 Smámynd: Baldvin Jónsson

Þetta er alveg glatað Guðmundur og ég fastur á landsbyggðinni fram á fimmtudagskvöldið.

Tek undir með þér heilshugar, það gerir þetta enginn fyrir okkur. Við verðum að standa upp og gera þetta sjálf.

Fæ ekki skilið hvað stóð lögfreglunni til að vera að handtaka Heiðu og Co þarna, ekki nema mögulega að ná inn smá tekjum á móti vaktaálagi, en þeir rukka hvern og einn handtekinn um 10.000 kall fyrir viðvikið.

Baldvin Jónsson, 15.6.2009 kl. 19:22

3 Smámynd: Óskar Þorkelsson

.. það styttist sem betur fer í brottför mína frá þessu landi.

Óskar Þorkelsson, 15.6.2009 kl. 19:47

4 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Jamm, maður spyr sig, fer ekki að koma nóg?

Arinbjörn Kúld, 15.6.2009 kl. 20:17

5 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég skil ekki ennþá hversvegna fólk mætir ekki á mótmælin, við vorum ekki mörg í dag.  Ég óttast að fólk sé að sætta sig við það að borga bara allt í topp, og láta svíðingana sleppa. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 15.6.2009 kl. 20:24

6 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

svo ég tali bara fyrir mig þá kemur tímasetning mótmælanna í veg fyrir þáttöku mína, þar eð ég er í vinnu á þessum tíma.

ekki get ég dæmt um réttmæti lögreglunnar gagnvart skessunni okkar og annarra.

hinsvegar verð ég að hrósa lögreglumönnunum sem herra klikkhaus, nágranni minn, sigaði á mig um helgina eftir að mér „varð á“ að kvarta við hann yfir hundinum hans, sem hann heldur í óþökk nágranna sinna í stigahúsinu. hann útbjó tilhæfulausa hávaðakvörtun. lögreglan mætti, eins og þeim bar skylda til, í tvígang, þar eð hann lagðist í símann. þeir sýndu þó af sér staka kurteisi og komu vel fram í alla staði.

vitanlega hafði ég í frammi mótmæli en líklega vegna þess að ég sló hvorki potta, pönnur, né önnur áhöld, slapp ég við handtöku.

Brjánn Guðjónsson, 15.6.2009 kl. 20:43

7 Smámynd: Baldvin Björgvinsson

Ég veit því miður eiginlega ekkert hvað er í gangi eða að gerast, þar sem ég er í sumarfríi. Komst í tölvusamband hérna á tjaldstæði. Ég mæti og mótmæli þegar ég kem í bæinn.

Baldvin Björgvinsson, 15.6.2009 kl. 20:59

8 Smámynd: Baldvin Jónsson

Ertu farinn að blogga úr tjaldi nafni?

Baldvin Jónsson, 15.6.2009 kl. 21:14

9 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Hehe.....jú flottur titill Baldvin :)

En ég ætla að vera aftur til "vandræða og ama" í dag og vona að það mæti sem flestir

Heiða B. Heiðars, 16.6.2009 kl. 11:00

10 identicon

Ég hef greinilega verið að miskilja út á hvað mótmæli ganga, ég í minni fávisku hélt að það væri væri verið að mótmæla icesave samningum en ekki að reyna að ögra lögreglu og láta handtaka sig, það er ekkert annað hægt en að handtaka fólk sem situr á umferðagötu og stoppar umferð eða fólk  sem veldur skemmdum á eignum, stend með ykkur í mótmælum á þessum icesave samningum og hvet ykkur að færa ykkur næst á gangstéttina fyrir framan alþingishúsið og minni á að lögreglan er bara fólk eins og við og er örugglega að borga af sömu lánum og við og er ekki sökudólgurinn í hvernig allt er farið fjandans til i þessu blessaða landi okkar.

Sævar Matthíasson (IP-tala skráð) 16.6.2009 kl. 16:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband