Viðtal við Evu Joly í Silfri Egils - hreinn innblástur í umræðuna um rannsókn á svikum fjárglæframanna
8.3.2009 | 15:01
Mitt í öllu vonleysinu er svo gott að hlusta á rökfasta yfirvegaða manneskju eins og Evu, manneskju sem hefur gríðarlega reynslu af því að ráðast í svona mál og ljúka þeim farsællega, manneskju sem veit nákvæmlega hvað hún er að tala um og hvernig er hægt að endurheimta peningana.
Það fyrsta eins og oft hefur komið hér fram hjá mér og hún kemur skýrt inn á í viðtalinu, er að hefja rannsókn og frysta eigur grunaðra. Þetta endalausa hjal um endalaust frelsi á bara einfaldlega ekki við lengur. Það er ekki verið að tala um að frysta eigur allra sem ríkið vill, það þarf að liggja fyrir staðfestur grunur. Sá grunur liggur hins vegar skýrt fyrir í nokkrum tilfellum og það er mér algerlega óskiljanlegt að ekki sé búið að ganga af stað af röggsemi í þau mál.
Ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur fái ég og Borgarahreyfingin þitt umboð í komandi kosningum, til þess að ráða Evu Joly sem sérstakan ráðgjafa rannsóknarinnar. Helst sem stjórnanda, en hún gefur það út hér í viðtalinu að hún gefi ekki kost á sér í það.
Nú verðum við að setja þá ráðamenn sem stýrðu okkur í strand til hliðar. Þeir virðast hafa hagsmuna að gæta sem þeir vilja verja með kjafti og klóm. Borgarahreyfingin er það afl sem treystandi er til verksins. Afl sem hefur enga hagsmuni nokkursstaðar aðra en venjulegar fjölskyldur íslendinga. Við erum blönk og sættum okkur ekki við að borga fyrir þjófnað fjárglæframanna í beinni útsendingu.
Settu X við O í komandi kosningu - sýndu hugrekki og tökumst á við spillinguna.
Úr stefnuskrá Borgarahreyfingarinnar:
Tafarlaust verði sett í gang opinber rannsókn undir stjórn erlendra sérfræðinga á hruni íslenska efnahagskerfisins. Samhliða því verða sett afturvirk lög sem leyfa ógildingu allra fjármálagerninga undanfarinna tveggja ára þ.m.t. gerninga skilanefnda bankanna, og í undantekningartilfellum lengra aftur í tíma ef sýnt er að um óeðlilega gjörninga hafi verið að ræða þar sem félag og/eða eigendur þess hafi verið með þeim hætti leitt af sér skaða fyrir íslenskt efnahagslíf. Í þeim tilfellum verður ákvæði hlutafélagalaga um takmarkaða ábyrgð eigenda fellt niður.
Meira á borgarahreyfingin.is
Joly: Leita þarf til erlendra sérfræðinga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:11 | Facebook
Athugasemdir
Eva Joly hefur líka einn afar sjaldséðan kost, sem efnahasmála-speglulant, hún er svo óhemju mannleg eitthvað. Æ skilurðu hvað ég á við. Bara hreinlega kærleiksbolti, eins og ég kýs að kalla það. Og þetta er nauðsynlegur kostur í þeim harmleik sem við erum stödd í. Við blátt áfram verðum að fá hjálp þessarar konu og þyggja allt sem hún hefur að bjóða.
Maður er bara allur annar á andlegu hliðinni, eftir Silfur dagsins...
Baráttukveðjur
Aðalheiður Ámundadóttir, 8.3.2009 kl. 15:17
Það þarf enga sérfræðinga að utan til að flétta ofan af þessari svikamyllu sem varð íslenska hagkerfinu að falli. Hér kemur eitt dæmið sem lék stórt hlutverk í hruninu mikla á Íslandi og það vekur mér furðu hvað stjórnmálamenn hafa hægt um sig þegar kemur að sjávarútvegsmálunum um þessar mundir.
Hvernig gat það gengið án afskifta stjórnmálamanna og eftirlitskerfisins að hægt væri að lána vegna kvótabrasksins hundruði milljara króna án þess að rekstragrundvöllur væri til staðar?
Þessi flétta er ein sú stærsta sem kom bankahruninu af stað því það má áætla að skuldir útgerðarinar vegna þessa séu um 1000 til 1200 milljarðar íslenskar krónur sem fjármagnað var með erlendum lánum.
Þegar erlendu peningarnir voru komnir yfir hafið til Íslands til að dekka braskið bókhaldslega í bankakerfinu fluttu hinir fáu útvöldu (útrásamennirnir) erlenda gjaldeyrinn til baka þegar þeir voru búnir borga fyrir hann í íslenskum krónum fyrir þá mjög lítið því gengið var haldið mjög lágt meðan braskið stóð sem hæst og sjálfsögðu stýrt af sömu mönnum líka að svo var .
Þessar íslensku krónur sem þeir höfðu til þess að borga fyrir gjaldeyrinn var framleiddur með hlutabréfabraski á milli fyrirtækja sem dæmi það hækkaði verðið á bréfunum hjá þessum aðilum sem fengu að spila í þessari svikamyllu
Hvað ætla stjórnmálamenn á Íslandi að gera í sjávarútvegsmálunum eftir næstu kosningar? Er kannski búið að ákveða það í samkomulaginu við alþjóðagjaldeyrissjóðinn að settja hann upp í skuldir til erlendra aðila?
Ef það gerðist færi 70% af útflutningstekjum Íslendinga úr landi. Hvað gætu þá margir búið á Fróni?
Baldvin Nielsen Reykjanesbæ
P.S. Án sjávarútvegs með raunhæfa rekstraáætlun erum við ekkert og verðum ekkert í hagsamfélagi þjóðanna í framtíðinni.
B.N. (IP-tala skráð) 8.3.2009 kl. 15:42
Ég er hér einfaldlega algerlega ósammála þér nafni. Það þarf öðru fremur erlenda sérfræðinga til rannsóknar á málinu. Allir aðrir hafa einhver hagsmunatengsl við það að virðist.
Það sparar okkur líka mikinn tíma og líklega tug eða hundruði milljarða að fá fólk í málið sem veit hvað það er að gera.
Baldvin Jónsson, 8.3.2009 kl. 16:08
Sýnum hugrekki nafni og upprætum spillinguna sjálfir annað er ótækt. Það þarf enga erlenda aðila til þess heldur bara íslenskt fólk sem er heiðarlegt og þorir.
Hvernig fólk ætlar Borgarahreyfingin annars að notast við til að manna listanna sína?
Baldvin Nielsen Reykjanesbæ
B.N. (IP-tala skráð) 8.3.2009 kl. 17:14
Það er stundum stutt milli hugrekkis og forheimsku. Að hafna aðstoð reynslubolta í einhverju undarlegu þjóðernisstolti er í besta falli kjánalegt.
Listar framboðsins munu eðlilega ekki innihalda erlenda sérfræðinga, þar munum við nota allt það góða fólk sem býður sig fram í nafni breytinga og réttlætis. Borgarahreyfingin er að mannast fólki sem líkar við stefnumálin og vill vinna að þeim hörðum höndum.
Baldvin Jónsson, 8.3.2009 kl. 17:38
Nú veit ég hvar skilin eru á milli forheimsku og hugrekkis. Gangi þér allt í haginn félagi.
Baldvin Nielsen, Reykjanesbæ
B.N. (IP-tala skráð) 8.3.2009 kl. 17:49
Kæri nafni, takk fyrir kaldhæðnina :) Það er alltaf gott að geta brosað í þessu pólitíska drama. En við þurfum engu að síður hæfilega blöndu af hvort tveggja hugrekki og auðmýkt.
Takk, gangi þér vel sömuleiðis. Vonandi finnurðu þig í Samfylkingunni.
Baldvin Jónsson, 8.3.2009 kl. 18:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.