Ráðaleysi atvinnumissis - ásakanir í stað þess að taka ábyrgð

Það er eðlilegt að verða reiður þegar að maður missir vinnu - það er enn eðlilegra að verða reiður, jafnvel brjálaður nánast þegar að það er vegna þess að ráðamenn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar gerðu ekkert í ítrekuðum varúðarorðum frá markaðinum (sem Sjálfstæðismönnum hefur verið kennt að elska) og afleiðingin varð ekki bara bankahrun heldur efnahagshrun.

Það er algjörlega ömurlegt að missa vinnuna sína vegna vanhæfrar ríkisstjórnar, en það bætir ekki ástandið að ráðast af grimmd gegn fyrrum samstarfsmönnum.

Við atvinnumissi fær maður tækifæri til að staldra við og endurmeta stöðuna og jafnvel líf sitt.
Hver er ég?
Hvert vil ég fara?
Er þessi stefna sem ég hef lifað eftir hingað til sú stefna sem ég vil fylgja áfram?

Ég þurfti að spyrja mig þessara spurninga fyrir tæpum 2 árum síðan þegar að ég hafði klúðrað fjármálum lítils reksturs sem ég var með, og mínum eigin á sama tíma, vegna eigin stjórnleysis og rangra ákvarðana. Ég seildist of langt miðað við umfang rekstursins og afleiðingin var sú að reksturinn fór í þrot. Ömurleg reynsla en eftir á varð það mér afar sterk lífsreynsla og jákvæð.

Ég varð á þeim tímamótum að taka líf mitt til endurskoðunar. Ég þurfti að spyrja mig ofangreindra spurninga. Ég tók þá ákvörðun að líf mitt væri ekki í þeim farvegi sem ég helst vildi, ekki að öllu leyti. Mitt persónulega líf var og er yndislegt ævintýri með konunni sem ég elska og börnunum mínum, fjölskyldu og afar góðum vinum, en atvinnulíf mitt var ekki í fasa sem mér hugnaðist að það yrði eftir 5 eða 10 ár. Mig hafði alltaf langað að koma mér í skóla aftur og við þetta hrun á litla rekstrinum mínum má segja að það hafi skyndilega opnast sá gluggi fyrir mig. Ég hafði skyndilega engu að tapa og skráði mig til náms við Háskólann á Bifröst.

Að fara í háskólanám hefur breytt lífi mínu meira en mig hefði getað órað fyrir á afar skömmum tíma. Það er afar þroskandi reynsla, reynsla sem að minnsta kosti í mínu tilfelli, hefur breytt gagngert því hvernig ég hugsa um hlutina og nálgast þá. Ég mæli einlæglega með námi sem möguleika í stöðunni fyrir þá sem hafa misst vinnu. Atvinnuleysi er eitt það almest mannskemmandi ástand sem hægt er að lifa við, námið er alger andstaða þess.

Ég ákvað á þessum tímamótum í lífi mínu að það væri mitt og fjölskyldu minnar að bera ábyrgð á okkar eigin lífi. Að það væri ekki einhver eða eitthvað annað sem myndi taka ábyrgð á okkur. Það væri enginn dulúðleg vera á leiðinni að uppgötva mig eða til þess að færa mér billjón frá látnum ættingja sem ég vissi ekki af. Ég tók þá ákvörðun að bera ábyrgð á eigin lífi.  Þetta hljómar voða kjánalega, sérstaklega svona á prenti, en staðreyndin er að afar stór hluti þess fólks sem ég hef kynnst á lífsleiðinni er einmitt fólk eins og ég, fólk sem undir niðri er vonar oft undir niðri að eitthvað muni gerast sem muni breyta öllu. Að eitthvað eða einhver muni taka ábyrgðina fyrir okkur.

Það er ekki að fara að gerast kæri lesandi. Ábyrgðin er þín.

Við eigum ekki að kjósa yfir okkur fólk sem vill fá að stjórna okkur. Við eigum að kjósa fólk sem vill fá að þjóna okkur. Við eigum að stíga fram og gangast við þeirri ábyrgð sem því fylgir að vera manneskja, að vera fullorðinn, að vera faðir eða móðir. Við þurfum að stíga fram og segja "ég er ábyrg/ur fyrir eigin lífi".

Að taka ábyrgð á eigin lífi er stór hluti ástæðu þess að ég er kominn með sterkt óþol gegn hugtökum eins og "valdhöfum", "ráðamönnum" og "spilltum auðmönnum". Ég þoli ekki lengur við og verð að gera það sem í mínu valdi stendur til þess að breyta ástandinu. Að breyta kerfinu sem ég bý í. Ég þurfti að spyrja mig þessarar einföldu spurningar:

"Ætla ég að sitja hjá og vona að einhver bjargi mér eða ætla ég að stíga fram og verja líf mitt og þjóð?"

Spurningin sem hafði síðan enn meiri áhrif á mig var spurningin: "Hvað ætla ég að segja við börnin mín þegar þau spyrja mig eftir 20 ár, pabbi hvað gerðir þú þegar þjóðin var bundin í þrældóm?"  Ætla ég þá að horfa í augun á þeim niðurlútur og segja:

"Ég kaus áfram það gamla yfir mig, óbreytt ástand?" eða "Ég treysti atvinnupólitíkusunum í blindni?"

Hvað ætlar þú að segja þínum börnum?

Við verðum að taka ábyrgð á eigin lífi, það er það eina sem getur talist eðlilegt, það eina sem við getum öll talið sanngjarnt. En við verðum að gera það saman. Við verðum að búa saman til samfélag þar sem að allir geta þrifist og búið við einhver lágmarks lífsgæði. Samfélag þar sem að löggjafinn leyfir ekki stórfyrirtækjum að arðræna okkur gjörsamlega án nokkurrar refsingar. Ástandið hér í dag er ekki ósvipað því sem var í "hagkerfi" Enron fyrir ekki mörgum árum síðan. Fyrrum stjórnendur Enron sitja nú allir af sér langa fangelsisdóma. Hér lítur ekki út fyrir að neinn muni þurfa að bera ábyrgð, að neinum verði refsað. Hér er þetta í besta falli bara "óheppilegt" að virðist. Er ekki augljóst að leikreglunum þarf að breyta?

Hvað ætlar þú að gera í því?

Ég kaus að taka ábyrgð á eigin lífi og á mér þá ósk heitasta að þú ætlir þér slíkt hið sama. Komdu með, breytum saman kerfinu. Það er stærsta réttlætismál síðustu og næstu hundrað ára.

Endurheimtum lýðræðið frá flokksræðinu - burt með alræði Ráðherrana. Tökum aftur valdið.

Ég hef tekið þátt undanfarna mánuði í starfi grasrótarhópa við að endurskoða hug okkar til lýðræðisins og kerfisins. Ég hef verið virkur þáttakandi í vinnu Lýðveldisbyltingarinnar og fleiri hópa.

Nú höfum við, stór hópur fólks úr fjölmörgum grasrótarhópum, ákveðið að gera alvöru úr málinu og bjóða þessar hugmyndir fram til Alþingis. Hugmyndir sem miða að því að þjóðin fái aftur ábyrgðina í sínar hendur. Hugmyndir sem hreinlega verða að fá brautargengi.

Komdu með okkur - þetta er barátta en ég efast ekki um að leiðin og leiðarlok, muni veita okkur mikla sælu og gleði. Hamingjuna sem er í því fólgin að vera gerandi í eigin lífi. Að bera ábyrgð.

Við erum Borgarahreyfingin og þú ert velkomin/n með í ævintýrið.


mbl.is Reiðin brýst út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Frábær pistill og þörf áminning um ábyrgð okkar allra. Við þurfum að hafa kjarkinn til að breyta og sleppa því sem við þekkjum en er úr sér gengið. Stundum rígheldur fólk í það gamla þó það sé ekki að þjóna því á neinn hátt því hið óþekkta hræðir.Og fyrir suma eru óvæntar breytingar sem eru neyddar upp á viðkomandi oft til góðs þegar upp er staðið.

Vona að Borgarahreyfingin fá mikið og gott fylgi!! Til hamingju! 

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 25.2.2009 kl. 16:07

2 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Góður, einlægur og ærlegur pistill. Ég hef spurt mig sömu spurninga og þú telur upp hér að ofan. Ég ætla eki að segja við mín barnabörn að ég hefi ekki gert neitt. Ég upplifði það sama og þú á Bifröst, nám breytir manni.

Arinbjörn Kúld, 25.2.2009 kl. 19:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband