Misbeiting á fé aldraðra - hversu mikið gætu þau sparað sér á því að fylkja fremur liði í eitthvað af þessum hundruðum íbúða sem standa auðar í dag?

Það er ekkert sem mér misbauð eins gríðarlega við störf mín sem sölumaður fasteigna en aðferðarfræðin sem beitt er á gamla fólkið í væntanlega þeirra síðustu fasteignaviðskiptum á ævinni.

Þessi þjónustuíbúða hugmynd sem búið er að koma inn hjá gamla fólkinu er einfaldlega misnotkun og mætti segja að jaðri við þjófnað. Fyrir það að búa í samfélagi með fólki af svipuðu reki er verið að rukka svona almennt 25-50% hærra verð fyrir íbúðir en almennt myndi vera. Alltaf er talað um þjónustuíbúðir, en staðreyndin er sú að það er nákvæmlega ENGIN þjónusta innifalin í íbúðarverðinu heldur þarf að greiða fyrir hana alla fullu verði kjósi fólk að nýta sér hana. Þetta lyktar óþyrmilega af því að vera einfaldlega síðasti sénsinn til þess að hafa af öldruðum, öfum okkar og ömmum, síðustu aurana.

Vissulega eru efalaust margir í þessu af "hugsjón", en sé svo langar mig að benda ykkur á aðra leið sem myndi koma sér betur fyrir gamla fólkið. Mun betur.

Ég legg til að í stað þess að byggja nýtt hús núna sem er algerlega fáránleg hugmynd, að leita fremur eftir íbúðarhúsnæði sem er tilbúið og stendur autt. Gæti í því tilfelli til dæmis bent á glænýjar íbúðir sem standa auðar í galtómum (að undanskilinni einni íbúð að mér skilst) fjölbýlishúsum við Mörkina í Reykjavík.

Hugmyndin væri þar að taka sig saman um að kaupa það húsnæði í heild sinni (eða annað sambærilegt) á miklum afslætti, taka strax frá fyrstu hæðina í að minnsta kosti einu húsanna til þess að koma upp mötuneyti og félagsaðstöðu. Afslátturinn sem ætti að fást af húsunum ætti fyllilega að dekka kostnaðinn af því að nýta fyrstu hæð eins eða fleiri húsanna og breyta henni til almennra nota.

Með þessu væri verið að skapa verulegt hagræði þar sem að tekjurnar af íbúðarsölunni kæmu þá inn strax, kaupendurinir gætu strax farið að koma sér fyrir í nýja húsnæðinu sínu sem að þau keyptu á eðlilegu markaðsverði og umsjónaraðilar verksins þurfa ekki að taka neina áhættu við að byggja húsin.

Einhverjir munu spyrja hvers vegna það verð sem gamla fólkið er tilbúið til að borga í dag sé ekki eðlilegt markaðsverð. Fyrir mér er það einfalt, það er einfaldlega búið að stilla þeim upp við vegg. Það er þrýst á þau að flytja eitthvert þar sem að þeim sé sinnt (sem er síðan ekki almenna reglan) vegna meðal annars áhyggna ættingja af þeim á meðan að þeir sjálfir hafa ekki tíma til þess að sinna þeim. Það er búið að búa til hugmyndina hjá þeim um að "allir" flytji í svona íbúð og að allt verði mikið betra þar. Að síðustu er síðan beitt miklum þrýstingi í mörgum tilfellum á þau til þess að sýna þeim að um allar slíkar íbúðir sé setið og þess vegna sé verðið eðlilegt.

Mér finnst þetta afar óeðlileg viðskipti - viðskipti sem þarfnast án vafa nánari skoðunar. Þó ekki sé annað en bara vegna þess að það er mikið óhagræði fyrir samfélagið allt að þurfa að borga svona mikið meira fyrir hlutina en raunverulega er þörf á.

Búum öldruðum áhyggjulaust ævikvöld - á sanngjörnu verði.


mbl.is Reisa blokk í Fossvogi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Offari

‹Klórar sér í höfðinu›

Offari, 22.2.2009 kl. 12:06

2 Smámynd: Margrét Sigurðardóttir

Þetta snýst allt um það að búa til "skuldavöndla". Nógu mörg þinglýst bréf svo allir haldi áfram að greiða til bankanna og íbúðalánasjóðs. Ef gamla fólkið á skuldlausar eignir þá er ekki hægt að verða áskrifandi að mánaðarlegum greiðslum frá þeim.

Margrét Sigurðardóttir, 22.2.2009 kl. 12:55

3 Smámynd: Sigurjón

Heyr heyr!

Sigurjón, 22.2.2009 kl. 13:28

4 identicon

Þetta er frábær hugmynd hjá þér og tímabær þó fyrr hefði verið.  Öll höfum við talað um það á undanförnum árum og áratugum hvað okrað sé rosalega á eldra fólki, en ekkert gert í því.  Nú er kominn tími á að hætta að hugsa og gera eitthvað.  Það sem þú ert að segja hér er vel framkvæmanlegt, þú ættir að kynna þessar hugmyndir þínar og e.t.v. stofna félag í kringum þær, með eldra fólki t.d. á Reykjavíkursvæðinu.  Þau gætu rekið húsin sín sjálf.  Mikið væri gaman ef af þessu yrði, það er t.d. fullt af lausu húsnæði í Hafnarfirði, Kópavogi og eldra fólkð ætti að geta fengið heilu blokkirnar með verulegum afslætti núna, frekar en á okurverði eins og hingað til hefur tíðkast. 

Þetta er verulega flott hugmynd hjá þér og ég skora á þig að framkvæma hana.

Guðný Þ. Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 22.2.2009 kl. 14:57

5 Smámynd: Ómar Ingi

Nú erum við sammála Baddi minn

Ómar Ingi, 22.2.2009 kl. 15:34

6 Smámynd: Einhver Ágúst

Og höfuðstöðvar Glitnis/Íslandsbanka við Kirkjusand sem fangelsi fyrir fjárglæframenn, svo er hægt að nota gamla strætósvæðið sem viðhaldsstöð fyrir borgina og setja þetta lið í vinnu, spara, spara, spara, er ekki hvort sem er sami arkitekt og Litla Hraun?

Einhver Ágúst, 23.2.2009 kl. 02:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband