Álver eða ekki álver - það er spurningin ....

..... sem nú brennur á ýmsum. Þetta er búið að vera furðulega misvísandi fréttaflutningur í dag.

Hagur Hafnfirðinga er að mínu mati mun minni en Húsvíkinga og af tvennu illu myndi ég mun frekar vilja sjá stóriðju rísa fyrir norðan. Það eru augljóslega mun fleiri tækifæri til atvinnu hér á sv-horninu en eru í boði á na-horninu.

Ég myndi vilja leggja mikið á mig fái ég tækifæri til, til að búa því í haginn að frekari uppbygging verði á na-horni landsins. Við ókum þarna um í sumar fjölskyldan og satt best að segja fannst okkur ýmislegt þar orðið svo eyðilegt að við hreinlega undruðumst af hverju fólk héldi enn til á sumum þessara staða. Ég tek skýrt fram að ég ber fulla virðingu fyrir því fólki, þetta er fólk sem flest kaus annað hvort að berjast áfram fyrir sínu eða í sumum tilfellum treystir sér ekki til flutnings.

Stóri vandi landsbyggðarinnar verður hins vegar ekki leystur með einni reddingu, a.m.k. ekki í stóriðju. Stóri vandinn er sá að þegar að yngra fólkið er búið að fara annað til náms, oftast í höfuðborgina eða til Akureyrar, er svo lítið fyrir þau til að snúa aftur að. Fá tækifæri þar sem þörf er á menntun þeirra. Þá er þjónustan mun meiri þar sem fleiri búa saman, það er einfaldlega hagkvæmast þannig.

Af hverju ekki að opna tillögu banka fyrir nýsköpunar hugmyndir á na-horninu? Nú er aldeilis tækifærið til þess að láta í sér heyra, hefur sjaldan heyrst hærra í þeim sem leggja eitthvað jákvætt í umræðuna.

Ég myndi vilja horfa til dönsku aðferðarinnar við uppbyggingu utan þéttbýliskjarnanna. Ég mun taka það mál fyrir hjá Íslandshreyfingunni


mbl.is Engin ákvörðun um að fresta álveri á Bakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Suðvesturhornið hefur í raun mun meiri þörf fyrir atvinnuuppbyggingu en Húsavík í dag. Húsvíkingar kunna að vinna sig út úr samdrætti meðan Hafnfirðingar þekkja minna þetta vandamál. Það er í raun mun minni samdráttur á Húsavík þótt eflaust einhver sé. Ég vona svo sannarlega að eitthvað komi til Húsvíkur sem færir kraft í bæjarfélagið. Álver á Bakka væri mikil búbót en ástandið í dag er mun verra á suðvesturhorninu.

Offari (IP-tala skráð) 15.12.2008 kl. 20:23

2 Smámynd: Ómar Ingi

Deyjandi iðnaður ?

Ómar Ingi, 15.12.2008 kl. 20:25

3 identicon

Baldvin.  Ég þekki ágætlega til uppbyggingarinnar á Austurlandi og áhrifum álversins á Reyðarfirði á byggðarlagið.  Bara til að kommenta á punktinn um að fólk sem sækir nám frá þessum byggðarlögum á mölina og á ekki tækifæri að snúa aftur.  Það eru nokkrir tugir sérfræðistarfa við Fjarðaál.  Það eru einnig nokkrir tugir af fólki sem ólst upp á svæðinu og fékk þarna tækifæri að snúa aftur til síns heima og nýta menntun sína.  Við skulum ekki gleyma því að stóriðjufyrirtæki eru einnig þekkingarfyrirtæki.

Einar Áskelsson (IP-tala skráð) 15.12.2008 kl. 23:13

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég hygg gott til glóðarinnar að skoða mál með þér, Baldvin.

Ekki verður fram hjá því litið að yfirgnæfandi meirihluti starfa í álverinu er í stíl við auglýsingar þess eftir starfsfólki: "Engrar sérstakrar menntunar er krafist."

Ég kom til stóriðjubæjarins Rjukan í Noregi 1998 þar sem einnig er stór vatnsaflsvirkjun. Þá voru þar fyrirsagnir í bæjarblaðinu um hnignun mannlífs og fækkandi fólk í bænum vegna þess að unga fólkið flytti í burtu þangað sem þjóðlíf og menning voru fjölbreyttari.

Langt fram eftir síðustu öld hafði verið blómleg ferðamannaþjónustu í bænum vegna áhuga ferðamanna á verksmiðjunni, sem bandamenn höfðu ráðist á í frægum leiðangri á stríðsárunum til að hamla gegn því að Þjóðverjar gætu eignast þungt vatn til framleiðslu á kjarnorkuvopnum.

En nú höfðu áherslur ferðafólks breyst og það vildi frekar skoða það af norskri náttúru, sem var ósnortið og öðruvísi en verksmiðjubyggðir Evrópu.

Þessi blaðaumfjöllun um vanda Rjukans var í tengslum við ráðstefnu, sem þarna var haldin um vanda svona verksmiðjubæja.

Fimm árum síðar komum við hjónin aftur til bæjarins og þá hafði ástandið batnað vegna þess að bæjarbúar höfðu uppgötvað möguleika til ferðamennsku allt árið.

Hæsta fjall Suður-Noregst, Gausta, 1882 metra hátt, sést frá Rjukan og þar var búið að leggja mikið fé í aðstöðu fyrir ferðamenn til gönguferða á sumring og skíðaiðkunar á veturna.

Áhersla var lögð á stórbrotna náttúru sumar sem vetur og norska menningu. Fólkið sem við þetta vann þurfti flest að vera vel menntað á mörgum sviðum og vel að sér í tungumálum og samskiptum við útlendinga.

Norðmenn hafa hafnað þeirri olíuhreinsistöðva- og stórverksmiðjupólitík sem Íslendingar eru svo hrifnir af.

Gro Harlem Brundtland harmar í endurminningum sínum þau mistök sín að hafa leyft Alta-virkjunina í Norður-Noregi.

Uppbyggingin í Tromsö í Norður-Noregi byggist á því að virkja hugvit og menntun fólksins.

Það skapar fjölbreytt og aðlaðandi samfélag og mun fleiri störf miðað við fjárfestingu en dýrar risaverksmiðjur.

Ómar Ragnarsson, 15.12.2008 kl. 23:49

5 Smámynd: Baldvin Jónsson

Danska leiðin Gísli er upprifjun hjá mér á eldri færslu: http://baldvinj.blog.is/blog/baldvinj/entry/167470/  Í stuttu máli þá s.s. bjóða Danir mjög hagkvæm lán til stuðnings við nýsköpun utan þéttbýliskjarnanna.  Mjög hvetjandi og árangurstengt.

Ómar, ég slæ á þráðinn til þín á morgun (í dag).

Baldvin Jónsson, 16.12.2008 kl. 03:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband