Kæri Davíð Oddsson, ég biðst afsökunar á því að hafa ekki hlustað

... en staðreyndin er að málflutningur þinn hefði verið svo miklu trúverðugri ef þú hefðir ekki jafnframt verið faðir nýfrjálshyggjunnar á Íslandi.

Ég velti því líka fyrir mér hvers vegna, ef þér leist raunverulega svona á alvarleika ástandsins, jafn valdamikill maður og þú ert komst ekki skilaboðunum betur á framfæri?  Hvers vegna bara að senda ábendingu á ráðherra sem voru allir í alsælu yfir skattheimtunni af þessari starfsemi?  Hvers vegna ekki að blása málið upp opinberlega? Ég held að staðreyndin sé nefnilega kæri Davíð að þú hafir ekki, frekar en aðrir, gert þér minnstu hugmynd um hversu alvarleg þessi katastrófía yrði. Þig grunaði eitthvað, en það gerði marga. Engan hér heima grunaði að fallið yrði svo hátt.

Að fallið hefði svo gríðarlegar afleiðingar fyrir venjulegt fólk sem tók nánast ENGAN þátt í þessu. Sýnt hefur verið fram á að sukk þjóðarinnar árið 2007 var ekki nema 3,6% af heildarútlánum bankanna. 3,6%!!!  59% útlána var til erlendra aðila sem að stærstum hluta voru íslensk fyrirtæki í innrás erlendis. (Já, það var víst bara kallað útrás hérna heima).

Þá langar mig líka að vita hvers vegna þessi gríðarlega langvinna gremja?? Er ekki mögulegt að ákveðin 12 spora stefna gæti hjálpað þér eins og svo mörgum sem raunverulega hafa fylgt henni?

Þú ert sár yfir því að þjóðin setji þig sem blóraböggul. Ég biðst aftur velvirðingar á því kæri Davíð, en ástæða mín fyrir því er aðallega byggð á því hvernig þú væntanlega stórmagnaðir afleiðingarnar með skyndilegri yfirtöku Glitnis og í framhaldi yfirlýsingum sem kláruðu endanlega bankana erlendis. Það er reikningurinn sem við erum að fá núna á okkur, þú veist, þjóðin. Reikningar vegna sukks bankanna hefðu ekki lent á okkur, þeir hefðu farið með gjaldþrotabúum. Allt sem bar með sér ríkisábyrgðir hins vegar er að lenda á mér og mínum, allt. Það gæti mögulega skýrt hluta af óánægju okkar. Það og líka "aðeins" það sem ég nefndi hér í byrjun, já þú ert jú pabbi þessa kerfis.

Og ein að lokum Davíð, hversu sæmandi finnst þér það vera manni í þinni stöðu að koma ekki fram opinberlega án þess að hóta einhverju í leiðinni??  Er það ekki frekar mikið svona út?

Eða er þetta ekki annars örugglega hótun þegar þú segir: „Þá hyggst ég hætta af sjálfsdáðum með sama hætti og ég gerði þegar ég lét af starfi forsætisráðherra. Verði ég hins vegar þvingaður úr starfi horfir málið allt öðruvísi við. Þá mun ég snúa aftur í stjórnmálin,“ ??

Og annað, ég var enn ungur maður þegar að elskuleg amma mín benti mér á að það er ekkert til sem heitir "hrein samviska", aðeins slæmt minni. Gallinn fyrir þig er að núna á tíma upplýsingatækni aldarinnar, gleymast hlutirnir afar seint.

Þá nefnirðu þarna í lokin að allt hefði verið betra hefðum við haft frjálsa fjölmiðla. Ég spyr á móti hvað er það??  Ef við höfum einhvern tímann komist nálægt því að hafa frjálsa fjölmiðla er það án vafa á síðustu árum og þeir eru augljóslega bara hreint ekki frjálsir. Vorum við ekki bara frjálsari meðan að flokkarnir réðu blöðunum og við vissum þá að minnsta kosti með hvaða gagnrýni í huga bæri að lesa þær fréttir?Með það í huga brestur skyndilega gríðarlega í frjálshyggju draumum mínum,...

...er kannski ekkert frelsi í frjálshyggjunni??

Verðum við ekki alltaf á endanum þrælar eigin fjár og auðmanna í þessu kerfi?

Peningastefnan sem fylgt hefur verið í vestrænum heimi síðan í upphafi 20. aldarinnar er nefnilega svo undarleg að í henni er EKKI HÆGT að græða án þess að til verði skuldir á móti annarsstaðar í kerfinu. Ég endurtek, EKKI HÆGT AÐ SKAPA FÉ ÁN ÞESS AÐ SKAPA SKULDIR.

Er ekki augljóst að það er eitthvað verulega athugavert við það? Er það ekki augljós ástæða gríðarlegrar misskiptingar í heiminum?

Ég veit Davíð, þetta eru ansi margar spurningar og erfitt fyrir þig líklega að halda samhengi hér svo fullur af gremju sem þú virðist vera. En ef þú finnur hjá þér auðmýkt til þess að aumka þig yfir mig hérna og svara þessum spurningum skal ég lofa þér því að álit mitt á þér mun stórlagast.

Ég hef þó nákvæmlega enga trú á því að þjóðin sé svo gjörsamlega fyrrt að hún mundi raunverulega ljá þér atkvæði sitt í pólitík, sértu í alvöru að velta fyrir þér endurkomu.

Svo svona til þess að reyna að enda þetta á léttari nótum set ég hérna inn lagstúf til hlustunar, þú finnur lagið í tónlistarspilaranum hérna til vinstri á síðunni. Davíð hlustaðu endilega vel á textann. Hann er bara nokkuð beittur verð ég að segja. Ég smelli honum inn með svona til þess að hjálpa okkur að skilja hann.

 

ÞAÐ KOMA VONANDI JÓL

Allflestar útgönguspár
eru á eina lund;
þetta var skelfilegt ár.
Hér út við heimskautsins baug
hnípin þjóð – þráðbeint á höfuðið flaug.

Allt þetta útrásarpakk
át á sig gat
svo loftbólan sprakk.
Nú eru lífskjörin skert, mannorðið svert,
Hvað hafið þið gert?

Það koma vonandi jól
með hækkandi sól.
Við skellum könnu upp á stól
og Sollu í kjól.
Þrátt fyrir allt
þrátt fyrir verðbólguskot
– þjóðargjaldþrot.

Við áttum íbúð og bens
og orlofshús.
Allt meikaði sens.
Góðgerðir gáfum og blóð
greiddum í – dulítinn séreignasjóð.

En nú er allt þetta breytt og eftir er
nákvæmlega ekki neitt.
Já nú er útlitið dökkt
ljósið er slökkt
og við erum fökkt.

Það koma vonandi jól
með hækkandi sól.
Þó vanti möndlu í graut
og amerískt skraut.
Þrátt fyrir allt
þrátt fyrir háðung og smán
– myntkörfulán.

Það koma vonandi jól
með hækkandi sól.
Við étum á okkur gat
af innlendan mat.
Og þrátt fyrir allt
misnotum sykur og salt.

Það koma vonandi jól
með hækkandi sól.
Við krössum afmælið hans
– heimslausnarans.
Því að þrátt fyrir allt
drekkum við mysu í malt.

 


mbl.is Davíð: „Þá mun ég snúa aftur"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Gæti ekki verið meira sammála. Hann þarf að skoða tólf spora kerfið!

Sumarliði Einar Daðason, 4.12.2008 kl. 10:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband