Fasteignasalar eðlilega svekktir yfir samdrætti

Eiginlega alveg ótrúlegt, eftir að hafa sjálfur tekið þátt í þessari sveiflu sem sölumaður fasteigna, að sjá hversu afar fáir fasteignasalar virðast hafa lagt eitthvað til hliðar af þessum ofsa tekjum sem þeir eru búnir að hafa frá seinni parti ársins 2003 til ársloka 2007. Maður hefði nú ætlað að á fjórum árum "í Paradís" hefði safnast eitthvað í hlöðurnar.

En nei, ekki frekar en hjá stærstum hluta þjóðarinnar. Það er nefnilega þannig að fasteignasalar eru eins og við öll hin. Mannlegir og trúðu að þetta ástand myndi vara lengur. Fasteignasalar eru ítrekað gagnrýndir fyrir að vera í viðskiptum til að græða peninga. Uhh, en ekki hvað??

Sorglegt samt til þess að vita að með enga varasjóði eiga þeir litla möguleika á því að halda í staffið sitt. Á flestum sölum er samt staðreyndin sú að það varð gríðarleg aukning starfsfólks inn í stéttina á þessum uppgangs árum, rétt eins og gerðist í stuttu bólunni þarna um 2001-2002, og eðlilegt að gangi nokkuð til baka þar. Reyndar bara alveg eins og það er eðlilegt að fasteignaverð á Íslandi leiðrétti sig. Það vissu allir að verðið var orðið of hátt, það varð samt ekki til þess að fólk hægði á.

Það og bara það er skýrasta dæmi þess hve fáránlega stjórnlaus þessi þjóð er. Við tökum lán, á nánast hvaða kjörum sem er, svo lengi sem að bankinn segir já.

Áður en að þessi skyndilegi uppgangur hófst var talið að hátt hlutfall fasteignasalna á Íslandi væri á leiðina í þrot með sinn rekstur, að miklu leyti til vegna þess að þeir voru þá þegar orðnir allt of margir fyrir meðal-árferði í fasteignasölu. Undanfarin ár snerist þetta hressilega við og enn fleiri sölur urðu til til þess að mæta þessari gríðarlegu eftirspurn. Nú sígur hins vegar aftur í eðlilegt horf líklega á næstu 2-3 árum. En eðlilegt horf er innan við 50% af sölu síðustu 3-4 ára. Því má halda því fram að augljóslega verði að verða gríðarleg fækkun í fasteignasölum á Íslandi.

En Grétar nefnir hér nokkra punkta sem að ég vil staldra aðeins við sérstaklega.

Grétar segir að ástandið sé alvarlegra og svartara en það hafi nokkru sinni verið frá upphafi fasteignasölu á Íslandi. Það sé sorglegt að sjá hæft, vel menntað og öflugt fólk á þessu sviði í algerri óvissu hvað verði um það.

Þetta ástand Grétar á við um stærstan hluta þjóðarinnar. Kemur bara hraðar niður á fasteignasölum nú, eins og það skilaði sér hraðar í kassann hjá þeim við upphaf uppsveiflunnar.

Hann segir að taki fasteignamarkaðurinn, sem sé lífæð margra atvinnugreina, ekki við sér á næstu mánuðum muni það leiða til algers hruns fasteignasalastéttarinnar.

Hvað í ósköpunum hefur maðurinn fyrir sér í þessu??  Hrunið hefur þegar orðið, 80% fækkun í starfsfólki er algert hrun. En í hvaða atvinnugreinum (öðrum en fasteignasölu) er fasteignasala lífæð greinarinnar?? Veðlánum? Þetta er enn eitt dæmið um afar kjánalegar yfirlýsingar stéttarinnar í fjölmiðlum.

Grétar segir að ef fasteignamarkaðurinn verði mikið lengur frosinn muni verðmæti fólks í fasteignum þeirra skaðast enn meira en þegar sé orðið og fjöldi fólks muni sitja í yfirveðsettum fasteignum, og ekki  gert mögulegt að selja. 

Þetta vitum við Grétar. Finnum öll fyrir því og hefur verið stöðugt í fréttum frá því í október byrjun, já og reyndar nokkuð mikið í fréttum fyrir þann tíma. Er hér verið að endurtaka frasann til þess að reyna að leggja áherslu á að fasteignasalar séu merkilegir? Ég hef reynsluna frá báðum hliðum, fasteignasalar eru einfaldlega sölumenn með sérhæfingu.

Þið verðið að fyrirgefa mér ef hroki minn skýn hér í gegn lesendur góðir. Ástandið er vissulega grafalvarlegt, en að mínu mati einnig til þess fallið að slíkar yfirlýsingar muni aukast á næstunni. Yfirlýsingar sem eru pólitísk tæki til þess að reyna með einhverju móti að ota að sinni köku.

Félag fasteignasala er ekkert annað en baráttusamtök þeirra, svipað og VR er starfsfólkinu, og ber því að lesa allar yfirlýsingar þaðan með þeim gagnrýnu gleraugum.


mbl.is Um 80% hafa misst vinnuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góður og þarfur pistill til að varpa ljósinu á fleiri hliðar þessa máls.

Linda (IP-tala skráð) 3.12.2008 kl. 13:05

2 identicon

Góður pistill.

Ég hef lagt það í vana að taka allt sem ég les í fjölmiðlum með smá klípu af salti,  Aldrei að trúa neinu í blindni og þá sérstaklega frá aðilum sem eru ekki hlutlausir og ef eitthvað málefni snertir mann meira en annað, að kryfja það í kjölinn sjálfur.

Jóhannes H. Laxdal (IP-tala skráð) 3.12.2008 kl. 22:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband