Hver er raunverulega meining orðanna "varúð" og "náttúru umhyggja" hjá hæstvirtum Iðnaðarráðherra
3.9.2008 | 16:05
Hæstvirtur Iðnaðarráðherra, Össur Skarphéðinsson, talaði fyrir því á Alþingi í dag að ríkisstjórnin styðji álver á Bakka. Hann nefndi ekkert stefnu Samfylkingarinnar um Fagra Ísland og svaraði engu fyrirspurnum þingmanna VG þar um. Hann sagði hins vegar í ræðu sinni: "að ríkisstjórnin myndi halda áfram að byggja upp íslenskt atvinnulíf með því að nýta auðlindir Íslands af varúð og um leið umhyggju gagnvart náttúrunni sjálfri."
Mér leikur forvitni á að vita, hvað þýðir þetta Össur? Þetta eru fögur orð, gildishlaðin en þýða þó í raun nákvæmlega ekkert. Er stefna ríkisstjórnarinnar að nýta núna á skömmum tíma stærstan hluta orku auðlinda þjóðarinnar fyrir iðnað sem skilar okkur með allra lægstu tekjum mögulegum per Mw?
Kjartan Ólafsson, þingmaður Sjálfstæðiflokks í suðurkjördæmi, talaði um að umræðan hér fæli frá. Tekur líka sem dæmi Búrfells virkjun og mótmæli þá og að við værum öll bara að vinna við niðursuðu á fiski í dósir í dag, ef að ekki hefði verið virkjað þá. Ég spyr þig Kjartan Ólafsson, telur þú raunverulega að aðstæður á Íslandi í dag séu á einhvern hátt sambærilegar við ástandið hér fyrir 30, 40 eða 50 árum síðan?? Ef svo er ráðlegg ég þér eindregið að koma út úr moldarkofanum fyrir austan og stíga inn í 21. öldina með okkur hinum.
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks í suðvestur kjördæmi, sveiflaði sér í tölfræði og vill meina að íslendingar séu náttúruverndar þjóð vegna þess að aðeins um 2% af landinu fari undir virkjanir og framkvæmdir þeim tengdum meðan að um 20% lands sé friðland og þjóðgarðar. Þetta hljómar afar fallega Jón, en er blekkingar leikur engu að síður. Í rekstri þarf að skoða hvað skilar rekstrinum bestum árangri og þá framlegð. Tölfræðin sem hér skiptir megin máli er sú, að gangi núverandi virkjana og álvers plön eftir, í skjóli smávægilegs samdráttar, verða um 85% af nýtanlegri orku þjóðarinnar framseld til erlendra fyrirtækja. Fyrirtækja sem skila okkur afar litlum arði af orkunni í samanburði við hvað flest annað myndi gera.
Ég hef nefnt þessar tölur við fjöldann allan af erlendum gestum sem ég hef verið með á ferð hér um landið, þar á meðal mikið af Bandaríkjamönnum sem eru flestir afar stóriðju þenkjandi. Gestunum finnst undantekningarlaust hreinlega fásinna að svo stór hluti af auðlindum þjóðar sé eða eigi að verða framseld til erlendra aðila.
Önnur hugleiðing er líka, ef að álið er málið hérna, af hverju erum við þá bara að framleiða hráefni en ekki með stór framleiðslu á vörum úr áli?
Af hverju er alltaf talað um gufuafl sem endurnýjanlega orku? Þó að sú orka vissulega muni LÍKLEGA endurnýjast á löngum tíma eftir að virkjun á svæðinu er HÆTT, er það ný skilgreining á endurnýjanlega hugtakinu? Er ekki í raun virkjun straumvatna, þar sem ekki fyllast lónin af aur á afar skömmum tíma, mun frekar endurnýjanleg orka, eða öllu heldur sjálfbær? Að minnsta kosti svo lengi sem að hnatthlýnun þurrkar ekki landið okkar þeim mun meira. Meðan að rignir og snjóar hérna eitthvað nálægt því sem hefur verið í meðal ári hingað til að þá eru straumvötn líklegri til langframa, til að vera sjálfbær orkugjafi.
En hver er megin ástæða þess að ég fann hjá mér þörf til að skrifa um þessar umræður á Alþingi í dag? Jú, megin ástæðan er sú að ég á alveg óskaplega erfitt með að skilja hvernig það leysir núverandi efnahagsvanda að skapa meiri þenslu.
Við erum núna að upplifa þynnkuna sem af því hlýst að hafa gengið of langt undanfarin ár. Hagkerfið okkar þandist allt of hratt á mjög skömmum tíma og slíkum tímum fylgir óhjákvæmilega niðurtúr. Ef nú á að framlengja partíið í nokkrar vikur/mánuði/ár í viðbót með frekari ofneyslu, hvernig á þá að bregðast við næst?
Er lausnin við óhófi afréttari?
Ég myndi heldur mæla með því að jafna sig eftir sukkið með því að jarðtengja sig aðeins aftur. Stíga út úr kassanum og fara aðeins út fyrir og njóta þess besta sem Ísland hefur fram að færa. Hefurðu t.d. komið nýlega eða yfir höfuð einhvern tímann að Langasjó? (Haukur Snorrason tók þessa mynd sem að ég fékk af vef Landverndar). Kíktu við, þú finnur hvernig orkan þar nýtist á nánast yfirnáttúrulegan hátt til að endurhlaða þín batterí.
Má ekki skilja eitthvað eftir fyrir komandi kynslóðir? Eitthvað annað en örfoka mela sem meðal annars hafa orðið til við miklar virkjana framkvæmdir á hálendinu. Örfoka mela og auðnir sem eru orðin afar stór hluti af af landinu okkar, sem Jón Gunnarsson þingmaður tók af einhverjum ástæðum ekki fram í ræðu sinni þrátt fyrir að hann hafi augljóslega verið að skoða nýtingu landsins tölfræðilega.
Ef þú kæri lesandi, lýtur inn á við og spyrð þig einlæglega. Trúir þú því þá í raun að partíið verði að halda áfram með þessu óhófi?
Stjórnin styður álver á Bakka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ertu svona Grænn Baddi
Ómar Ingi, 3.9.2008 kl. 16:21
Hvað er að vera "svona Grænn" Ómar og er það slæmt eða gott?
Er það með eða á móti? Eða er það fáránlegur málflutningur? Er það með náttúrunni eða á móti að nýta hana afar illa?
Baldvin Jónsson, 3.9.2008 kl. 16:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.