Ályktun landsfundar D frá 2005 um umhverfis- og skipulagsmál....

Er einhver sem getur lesið út úr þessu að þeir hafi ætlað að raunverulega gera eitthvað??

Afritað af vef Sjálfstæðisflokksins:

Landsfundur 2005: Ályktun um umhverfis- og skipulagsmál

Sjálfstæðisflokkurinn leggur nú sem endranær áherslu á hinar sérstæðu aðstæður Íslands í umhverfis­mál­um og mótar stefnu sína með tilliti til þeirra. Mikilvægt er að Íslendingum sé veitt svigrúm til að meta hvort löggjöf evrópska efnahagssvæðisins falli að íslenskum aðstæðum á þessu sviði.

Sjálfstæðisflokkurinn minnir á það megininntak Ríó-yfirlýsingarinnar frá 1992 um umhverfi og þróun þess að sjálfbær þróun snúist um manninn og möguleika hans. Stjórnvöld gegna mikilvægu hlutverki við mótun almennrar stefnu í umhverfismálum en ekkert er þó jafn mikilvægt og ábyrgð einstaklingsins. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að umhverfismál séu skoðuð í samhengi, þ.e. að tekið sé tillit til sjónarmiða um efnahagsvöxt, félagslega velferð og jöfnuð og vernd náttúrunnar. Málaflokkurinn er í eðli sínu langtímamál en ekki dægurmál. Mikilvægt er að skiptar skoðanir á undanförnum árum í tengslum við stórframkvæmdir leiði af sér ábyrga og málefnalega umræðu um umhverfismál. Þar skipta efnistök fjölmiðla miklu máli.

Íslendingar eiga að taka frumkvæði í einstökum þáttum umhverfismála og skipa sér framarlega á bekk í alþjóðlegum umræðum um umhverfisvernd. Landsfundur telur að setja eigi markmið svo Ísland verði sjálfbært á sem flestum sviðum og verði í fararbroddi meðal annarra þjóða. Efla þarf grunnrannsóknir í þessu skyni.

Íslensk stjórnvöld beiti sér áfram gegn mengun lofts, láðs og lagar vegna losunar gróðurhúsalofttegunda, úrgangs, þrávirkra líf­rænna efna og geislavirkra efna. Hagsmunir Íslendinga eru augljósir með hliðsjón af markaðsstöðu sjávar­afurða og framleiðslu annarra matvæla. Við endurnýjun skipa og annarra atvinnutækja skal leggja áherslu á endurvinnslumöguleika.

Landsfundur telur að veiðar landsmanna á villtum dýrum til matar eigi rétt á sér, enda verði tekið mið af veiðiþoli viðkomandi dýrastofna. Mikilvægt er að öflugar rannsóknir fari fram á stærð og hegðun allra villtra dýrastofna í íslenskri náttúru.

Stöðvun gróður- og jarðvegseyðingar á áfram að vera eitt helsta baráttumál íslenskra umhverfismála. Með virkri þátttöku bænda, sveitarfélaga og áhugafólks í landgræðslu og skógrækt er bæði unnt að efla byggðir landsins og auka árangur í þessu mikilvæga umhverfismáli Íslands. Landsfundur telur því upp­græðslu landsins og skógrækt nauðsynlega. Ræktaðir skógar á Íslandi skulu eins og kostur er verða sjálfbærir og metnir sem auðlind ásamt almennri uppgræðslu til kol­efnis­búskapar heimsins. Bindikvóti gæti orðið hluti þessarar auðlindar. Við land­græðslu og skógrækt skal gæta varúðar gagnvart sérstakri náttúru landsins og menningar­verðmætum. Leggja þarf sérstaka áherslu á að efla og vernda náttúrlega birki­skóga.

Hálendi Íslands er auðlind, sem nýta ber á sjálfbæran hátt. Landsfundur fagnar áformum um stækkun og fjölgun þjóðgarða. Þá hvetur fundurinn til þess að hafist verði handa við frekari útfærslu á tillögum ráðherraskipaðrar nefndar um stofnun þjóðgarðs og verndarsvæða norðan Vatnajökuls í sátt og náinni samvinnu við landeigendur, fyrirtæki og sveitarfélög á svæðinu.

Landsfundur telur mikilvægt að sveitarfélög fylgi eftir verkefninu Staðardagskrá 21 og að þau leitist við að virkja almenning og atvinnulífið til þátttöku. Nýta þarf hagræna hvata og hvetja til notkunar á grænu bókhaldi. Ávinningur af virkri umhverfisstjórnun á að vera betri nýting hráefna, minni sóun og stöðugt betri árangur. Móta þarf stefnu sem varðar erfða­breytt matvæli og neytendur.

Umferð um helstu ferðamannastaði Íslands hefur aukist svo að álag á náttúru landsins vegna þess leynir sér ekki. Með  bættu aðgengi að þeim og betri samgöngum sem og markvissri fræðslu um nauðsyn þess að ganga vel um landið fjölgar vinsælum stöðum og umferð dreifist á fleiri staði.

Fræðsla um umhverfismál er vandmeðfarin. Viðhorf til umhverfismála breytast mjög ört, enda eru þau mörkuð óvissu vegna takmarkaðrar þekkingar á vistkerfi jarðar. Umhverfismál eru jafnframt háð efna­hagslegum álitaefnum. Af því leiðir að þau eru oft og tíðum pólitísk átakamál. Góð almenn þekking í undirstöðugreinum er því mikilvæg, svo efla megi skilning á umhverfismálum og gera þannig hverjum og einum fært að leggja sjálfstætt mat á þau úrlausnarefni sem við blasa.

Skipulag er stefna eða framkvæmdarammi um þróun byggðar og annars manngerðs umhverfis. Mikilvægt er að skipulag sé skýrt og innihaldsríkt og þjóni þannig þörfum íbúa. Til að ná því marki er ítarleg kynning  og vönduð meðferð athugasemda nauðsynleg. Í skipulagi birtist framtíðarsýn um það í hvernig samfélagi við viljum búa. Þannig á skipulag að þjóna íbúum. Með góðu skipulagi er unnt að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða, varðveislu náttúru- og menningarverðmæta og koma í veg fyrir umhverfis­spjöll og ofnýtingu með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.

Hallast að því að ályktun þýði bara einfaldlega eitthvað svipað og yfirbreiðsla, frestun eða framkvæmdaleysi....  hvað heldur þú?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband