Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Glatað PR stunt eða siðblinda hjá Bakkavarar bræðrum?

Ég hef ekki mikið um þetta mál að segja svo sem. Ég vona innilega að þeir ríkisstarfsmenn sem munu sjá um rekstur félagsins eftir ríkisvæðinguna, muni hafa þá yfirsýn að félagið geti reist hér verksmiðju sem skapar allt að 750 störf við framleiðslu.

Ég mun hins vegar ekki finna hjá mér sátt í sálinni fyrr en að búið er að gera upptækar allar eigur þessara manna á Íslandi. Þeir eru ekki stærstu gerendurnir mögulega í Kaupþings viðskiptunum, en engu að síður stærstu eigendur og þar með bera þeir mikla ábyrgð á því hvernig hér fór.

Ef þér finnst ég of harður í afstöðu minni vil ég benda á þessa kaldhæðnisfærslu Egils Helgasonar: http://eyjan.is/silfuregils/2009/08/27/thakkarbref/


mbl.is Bakkavör skoðar enn að reisa hér verksmiðju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

KJOSA.IS - Hvers vegna ætti Icesave frumvarpið að fara fyrir þjóðaratkvæði?

Ég, eins og eflaust margir, hef snúist í nokkra hringi gagnvart þessu frumvarpi. Eins og það lítur út í dag er ég persónulega orðinn bara nokkuð sáttur við það - ef tryggt er að fyrirvararnir haldi.

Nei, ég er að sjálfsögðu ekki ánægður með að þurfa að borga fyrir geðsýkisleg partý og offjárfestingar fjárglæframanna - alls ekki. En ég held að það sé rétt eins og komið er, að það séu fáir aðrir kostir til lausnar aðrir en að greiða okkar hluta.

Kalt mat er það að það verði okkur ódýrara á endanum, ég endurtek - EF þessir fyrirvarar örugglega halda.

Ég er í svipaðri stöðu og Þór Saari bloggar um gagnvart málinu, ég hefði líklega setið hjá í kosningu um ábyrgðina sjálfa en stutt fyrirvarana. Ég held að þegar að þjóðarstolt, sem og mitt eigið stolt, er lagt til hliðar sé þetta mögulega illskásta lausnin í stöðunni.

En af hverju er ég þá að mæla með hópnum í http://kjosa.is ? Jú, vegna þess að mér finnst alveg sjálfsögð og eðlileg krafa að svo stór mál sem þetta er, fari fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Það mun aldrei lægja öldurnar í þessu máli í samfélaginu, ef ekki liggur skýrt fyrir, eftir kosningu almennings þar um, hver afstaða þjóðarinnar er til málsins.

Ert þú búin/n að skrifa undir á kjosa.is ??


mbl.is Skora á forsetann að synja staðfestingu Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hannes Hólmsteinn er ekki fréttir dagsins!!

Eyðum ekki tíma okkar eða orku í þetta hirðfífl kvóta- og bankakerfisins. Ef ykkur leiðist getið þið einfaldlega YouTube'að hann og fengið upp þá svörtu kómedíu sem þessi drottningarviðtöl voru við gaurinn meðan að allt var voða 2007.

Eins og ég er nú almennt ánægður með fréttamennsku Þóru Kristínar að þá er ég á því að fréttamat hennar hafi feilað illilega í dag. Það er allt í lagi að minnast á það að mótmælendur hafi ekki verið ánægðir með mætinguna hans í dag, en hvað er málið með þetta drottningarviðtal??

Fréttir dagins eru góð mæting á mótmæli sem voru haldin að undirlagi Frosta nokkurs. Afar góð hugmynd þar sem hvatt var til hávaða í 20 mínútur.

Það er næsta víst að ráðamenn landsins gera sér sterka grein fyrir afstöðu okkar sem mættum í dag. Þeir vita hins vegar væntanlega afar lítið um hvað þið hin viljið.


mbl.is Aðsúgur að Hannesi Hólmsteini
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ekki kominn tími á að setja þingmönnum skýrar siðareglur í samskiptum við viðskiptalífið?

Ég nenni ekki að tala um drykkjuna. Mér finnst einfaldlega sjálfsagt að geta ætlast til þess að þeir sem standi í brúnni fyrir samfélagið sem börnin mín eiga að búa í, stundi störf sín allsgáðir.

En mikið finnst mér að það sé kominn tími á að tengsl við viðskiptalífið og svokallaðar "boðsferðir" og bitlingar séu upprætt með öllu.

Það er um það rætt að Sigmundi Erni hafi ekki verið boðið með þingmanni, heldur sem einstaklingi. Hvaða bull er það? Sigmundur Ernir ER þingmaður. Þegar að hann tókst á hendur það hlutverk fylgdi því mikil ábyrgð. Maður hættir ekki að vera þingmaður á einhverjum ákveðnum tíma sólarhringsins.

Auðvitað eiga allir rétt á einkalífi, þingmenn líka. Það verða þó að vera þar á takmarkanir og enginn þarf að láta svo einfeldningslega að ætla að halda því fram að bitlingar til þingmanna hafi ekki að einhverju leyti áhrif á störf þeirra.

Það er alveg sama hvort að um sé að ræða "sérstök lán" eins og þingmanna lánin voru kölluð, eða bara fallega jólagjöf - þingmenn munu muna gjörninginn ef og þegar þeir síðar meir standa frammi fyrir því að þurfa að fjalla um málefni tiltekins viðskiptaaðila.


mbl.is Fékk sér léttvín með mat
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins fundin lausn á Icesave málinu !!

Nei, það er víst ekki alveg þannig því miður. En ég er orðinn svo langþreyttur á því að lesa stöðugt um að enn einn fundurinn um málið sé kominn af stað eða sé í vændum.

Mitt fólk í Borgarahreyfingunni er að standa sig alveg gríðarlega vel í baráttunni og Þór Saari er algert heljarmenni þarna inni í fjárlaganefnd. Hann er vakinn og sofinn yfir þessu og er búinn að virkilega standa vaktina fyrir íslenska þjóð þarna.

Þá liggur nú fyrir frumvarp sem Lilja Mósesdóttir lagði fram ásamt nokkrum VG liðum, Borgarahreyfingunni og nokkrum þingmönnum Framsóknarflokksins þar sem eru lagðar til breytingar á lögum um samningsveð. Lagabreytingin snýr að því að fjármálastofnanir eigi ekki að geta gengið að í eignir skuldara fram yfir fasteignina sem sett er að veði, þegar að um húsnæðislán er að ræða.

Frábært framtak hjá Lilju og co. og það er frumvarpinu til hróss að fjárglæfrafólkið og fjármagnseigendur skuli strax stiginn fram til þess að gagnrýna hugmyndina. Sjá til dæmis hér: http://www.visir.is/article/20090824/FRETTIR01/626593687

Samtök Kúlulánaþega, nei fyrirgefið. Samtök Fjármálafyrirtækja gagnrýna frumvarpið harðlega og segja meðal annars í umsögn: "Tekið er fram að samtökin telji afturvirk lög veikja traust á réttarskipaninni meðan festa í löggjöf tryggir öryggi í viðskiptum."

Ég er sammála því að almennt séð eru afturvirk lög afar vafasöm og veikja stoðir og traust í samfélaginu. Í dag hinsvegar eru fjármálafyrirtækin búin að einfaldlega rífa þær stoðir í tætlur með framferði sínu og gjörðum eigendanna.

Það verður því að dæmast sem ömurlegur en kaldhæðinn brandari að SFF skuli stíga fram með gagnrýni á að þetta veiki öryggi í viðskiptum. Forsvarsmenn fjármálafyrirtækja ættu einfaldlega að skammast sín, halda sig til hlés, já og borga blessuð kúlulánin sín. Finnst þessu fólki það vera til votts um "örugg viðskipti" að ætla almenningi að borga lánin sín?

Mitt fólk, ásamt Lilju og nokkrum frömmurum, eru að standa sig gríðarlega vel þarna.


mbl.is Funda um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju hentar það mbl.is að fela þessa frétt af ummælum Sigurðar G.?

Þessi frétt er undir viðskiptafréttum og er sett inn klukkan 5:30 að morgni. Ekkert um málið á forsíðu mbl.is?

Merkilegt nokk, hvern er mbl.is að verja með þessu?

Fyrir mér er það stórfrétt fyrir allar yfirveðsettar fjölskyldur landsins að fram skuli stíga hæstarréttar lgmaður og lýsa því yfir að skuldarar ættu ekki að greiða fram yfir upphaflega greiðsluáætlun.

Stórfrétt.


mbl.is Greiðið aðeins samkvæmt upphaflegri áætlun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alo Alo þegar að maður nennir ekki að glápa á imbann á þessu menningarkvöldi

Sit hér heima við með dótturinni sem er sofandi. Frúin og drengurinn úti að njóta flugeldanna.

Nennti ekki að glápa á imbann en leitaði uppi eitthvað skemmtilegt á YouTube í staðinn. Þessir þættir voru hreint frábærir.

 


Voru örugglega allir ódrukknir við Icesave umræðuna á Alþingi? - Ágætis myndband hér á ferðinni með húmor vinkilinn

Rakst á þetta á Facebook og langaði að smella því hér inn. Það er ljóst að þau eru ekki til þess að auka hjá mér traust til sitjandi stjórnar, tilsvörin hjá Sigmundi Erni. Var hann ekki örugglega ódrukkinn? Er nema von að maður spyrji sig?

Reyndar fannst mér líka góður húmor í því að fela þarna alltaf andlit GÞÞ. Sá sem klippti þetta til heldur því fram þarna að það sé vegna skammar D manna. Dæmi hver fyrir sig.



Vona að þetta valdi ykkur ekki vonbrigðum, fann mig knúinn til þess að hafa ekki örlítið minna alvörugefið hérna inni á þessum ágæta laugardegi.

 


mbl.is Funda um Icesave um helgina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru þetta eitthvað í anda þessarar ráðgjafar sem Össur og kollegar eru að fylgja?

Man að þetta var valinn brandari ársins í netkosningum fyrir einhverjum árum síðan. Hér er hann greinilega kominn í leikinni útgáfu.

 


Stjórnlaus vegagerð á hálendi Íslands? - Eða er kannski um að ræða miðstýrt kerfi sem vill breytingar án þess að bera það undir hagsmunaaðila?

Ég er einn þeirra sem hef verið á ferð um hálendi Íslands um langt árabil og hef fengið að njóta þess frá ýmsum ferðamátum. Gangandi, ríðandi og á ýmsum vélknúnum ökutækjum. Eitt af þeim svæðum sem ég hef meðal annars ferðast þó nokkuð um, reyndar nánast eingöngu að vetri til, er svæðið í kringum Hofsjökul, og er það reyndar í eina skiptið sem að ég hef ekið um Þjórsárvera svæðið frá Blautukvísl, Nautöldu, um Arnarfellsmúla og austur að Þjórsárlóni eins og leiðin á meðfylgjandi mynd sýnir og er sami slóði og Kolbrún Halldórsdóttir er að vísa til í sínum skrifum.

Ég vil reyndar byrja á því að taka fram áður en lengra er haldið, að persónulega er ég að hluta til sammála Kolbrúnu með akstur um Þjórsárvera svæðið. Akstur þar um yfir sumartímann ætti að vera alfarið takmarkaður við umferð sauðfjárbænda, þeirra sömu og væntanlega bjuggu til slóðann um svæðið til að byrja með. Stærsti hluti þessara slóða á hálendinu er þannig til kominn. Það er að segja varð til við það að bændur fóru um afréttinn í leit að haga eða fé.

Þjórsárvera svæðið er algerlega einstakt svæði og verður að fá að njóta þeirrar virðingar, þetta er svæði sem þjóðin þarf að fá að kynnast og taka höndum saman um að verja og vernda. Fáir hafa þó kynnst svæðinu því miður, og þá væntanlega aðallega vegna þess að þarna er einungis leiðsagt um svæðið í gönguferðum. Það er þó eðlilega eina leiðin til þess að halda svæðinu óspilltu í því horfi sem það er í dag.

Þjórsárvera svæðið er eins og ég segi, algerlega einstakt. Þetta er stór en viðkvæm gróðurþekja í votlendi, stærsta náttúrulega votlendi sem eftir er á Íslandi ef ég man rétt. Griðland fyrir fjölmargar fuglategundir og plöntur sem eru orðnar sjaldséðar.

Þeir sem áhuga hafa geta lesið sér nánar til um svæðið hér: http://www.ust.is/Frodleikur/Fridlystsvaedi/nr/1283

En þá kem ég loks að ástæðu þess að ég er að skrifa þetta en það er spurningin um hvernig skipulagi hálendisins og slóða um það skuli vera háttað.

Kolbrún Halldórsdóttir bendir á það í grein í blaðinu í dag, samkvæmt viðhengdri frétt, að þarna sé um að ræða slóða inni á kortagrunni frá söluaðila, sem að sé ekki merktur slóði inni á kortum frá Landmælingum. Verð reyndar að benda Kolbrúnu á að væntanlega fer það alfarið eftir útgáfuári kortsins sem að hún er með frá Landmælingum en það er einmitt kjarni málsins fyrir fjölmarga þá aðila sem ferðast mikið um hálendið.

Er það bara svo að þegar að Landmælingar Íslands velja ekki slóða inn á kortagrunninn sinn að þá eigi slóðinn þar með ekki að vera til? Slóði og slóðar, sem verið hafa til um áratugaskeið og jafnvel nokkuð fjölfarnir?

Undanfarin tvö sumur hef ég verið að trússa fyrir gönguhóp á þessu svæði á vegum Hálendisferða Óskar Vilhjálms (sem ég mæli eindregið með að þið nýtið þjónustuna hjá) og varð þarna í fyrra sumar meðal annars þeirrar ánægju aðnjótandi, að kynnast aðeins Þórunni Sveinbjarnardóttur, sem var þáverandi umhverfisráðherra. Á þeim tíma, og vonandi ennþá, var á vegum ráðuneytisins starfandi slóðanefnd þar sem í áttu sæti meðal annars ýmsir hagsmunaaðilar, þar á meðal ferðaklúbburinn 4x4. Nánar má fræðast um hann hér: http://f4x4.is

Ferðaklúbburinn 4x4 hefur verið ötull kynningaraðili fyrir ferðamennsku á jeppum á hálendinu og eins tekið mjög virkan þátt í forvarnarstarfi gegn utanvegaakstri á svæðinu. Innan ferðaklúbbsins er orðin uppsöfnuð gríðarleg þekking á leiðum og slóðum um hálendið og því hið besta mál að fá þeirra aðkomu að vinnunni í slóðanefnd.

Hlutverk slóðanefndar er að safna saman upplýsingum um alla slóða á hálendinu og meta þörfina á þeim, samkvæmt því sem að Þórunn sagði mér í fyrrasumar. Það já felur vissulega í sér að væntanlega mun einhverjum slóðum verða lokað og þar reynt að græða upp og skal ég ekki síta það ef um verður að ræða, eins og Þórunn sagði mér, slóða á svæðum þar sem fyrir eru aðrir slóðar og því ekki heft aðgengi að svæðum með lokun slóðanna.

Með slíku starfi og aðkomu hagsmunaaðila að málum tel ég vera rétt að verki staðið og ættum við því að leyfa slóðanefndinni, sem Kolbrún Halldórsdóttir þekkir án vafa vel til líka, að ljúka störfum sínum áður en teknar eru ákvarðanir um lokanir á tilteknum svæðum.

Ég styð R. Sigmundsson í því að vera áfram með inni í sínum grunni alla merkta slóða á landinu, eða þar til að fram koma skipanir um að svo skuli ekki vera. Það er ekki á vegum Landmælinga Íslands að stýra því hvar megi eða megi ekki aka.


mbl.is Jeppaslóði í friðland Þjórsárvera
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband