Skýrsla stjórnar Borgarahreyfingarinnar flutt á landsfundi hreyfingarinnar í morgun

Flutt fyrir hönd stjórnar Borgarahreyfingarinnar í upphafi fundar í morgun.

Kæru fundarmenn, fyrir hönd stjórnar Borgarahreyfingarinnar langar mig að bjóða ykkur innilega velkomin á þennan fyrsta landsfund hreyfingarinnar. Það er okkur mikils virði að sjá hvað er góðmennt hérna í dag. Í hreyfingunni býr mikill dýnamískur kraftur og þið eruð öll svo sannarlega hluti af þeim krafti og birtingarform hans.

Á þeim stutta tíma sem liðinn er frá því að glæsilegur árangur náðist í kosningunum síðastliðið vor, hefur mikið gerst og gengið á. Við fluttum úr Borgartúninu og höfum komið okkur fyrir í ágætu lítillátu húsnæði að Tryggvagötu 17 í Reykjavík og þó lítið sé, hefur starfsemin rúmast þar ágætlega fram að þessu. Það húsnæði varð fyrir valinu bæði vegna góðrar staðsetningar sem og hóflegs leigugjalds og við leigðum það fram að komandi áramótum, til að byrja með.

Við héldum aukaaðalfund þar sem kosin var ný stjórn hreyfingarinnar, en fjölmargir úr upprunalegri stjórn höfðu horfið frá og kosningabaráttan keyrð áfram af framkvæmdastjórn sem skipuð var bæði frambjóðendum og öðru kraftmiklu baráttufólki. Allt þetta fólk á miklar þakkir skyldar og ljóst er að án alls þessa stórglæsilega hóps hefðum við aldrei náð þessum frábæra árangri sem við gerðum. Það er of langt mál að ætla að telja allt þetta fólk upp hér, þau skipta tugum, en mér finnst rétt að við stöldrum hér við og þökkum þeim hér öllum sérstaklega fyrir með lófataki.

En já, það var kosið og skyndilega stóðum við uppi sem hreyfing með umboð tæplega 14.000 kjósenda til þess að láta til okkar taka. Okkur var í snarhasti fleygt beint í djúpu laugina með gömlum pólitískum refum, til þess að takast á við tvö af stærstu málum sem komið hafa inn á Alþingi Íslendinga í sögu lýðveldisins okkar. ESB og ICESAVE. Þessi mál áttu að rúlla í gegn í flýti til þess að aumingja þingmennirnir og starfsmenn Alþingis kæmust nú fljótt í langþráð sumarfrí. En fyrir mikla elju og baráttu, meðal annars þingmannanna okkar og svokallaðrar andspyrnuhreyfingu VG, fengu þessi mál mikla kynningu og umtal og mikið af upplýsingum komst út til þjóðarinnar, sem að hugmyndin var að halda í þagnarhjúpi. ICESAVE málið átti, að virtist, helst að reyna að afgreiða bara hljóðlega í gegnum fjárlög í nóvember án mikils umtals og halda þar með þjóðinni utan við það. Hún hefði hvort eð er lítið vit á málinu.

Við erum ung hreyfing, í rauninni aðeins værðarvoðungur enn í pólitík, og hefur það sést á fjölmörgum mistökum sem gerð hafa verið frá því að frábærum árangri var náð í kosningabaráttunni. Mistökum sem ég vil leyfa mér að nefna byrjendamistök, mistökum sem að ég er sannfærður um að við höfum lært mikið af og munu verða til þess að tukta okkur til og styrkja í pólitísku baráttunni sem framundan er.

Framundan er haustþing þar sem markmið okkar er að leggja fram frumvörp til stuðnings okkar helstu stefnumála. Þar verðum við að vinna sem ein kraftmikil heild ef við ætlum okkur að ná því að vera afl til góðs í samfélaginu. Afl sem getur raunverulega tekist á við áratuga gamlar valdaklíkur og viðskiptablokkir, sem hér öllu stjórna og hafa gert um langa hríð.

Við erum að berjast við blokkir sem vilja einkavæða auðlindirnar okkar alfarið og eru við það að ljúka fyrsta hluta ferlisins, þar sem að til stendur að afhenda Magma Energy núna á þriðjudaginn komandi, hlut Orkuveitu Reykjavíkur í HS Orku. Og það á kjörum sem eru algerlega ósamþykkjandi og láta máltækið „lítið út og restin eftir minni“ hljóma sem skynsamlega viðskiptahætti.

Við verðum að berjast gegn því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn stýri hér áfram öllum hnútum í efnahagsmálum þjóðarinnar. Við, ásamt fjölda annarra, börðumst saman, og komum algerlega vanhæfri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar frá völdum.

Við valdasprotanum tók ríkisstjórn sem gaf sig út fyrir félagshyggju, en hefur í litlu sem engu breytt út frá stefnu þeirrar ríkisstjórnar sem á undan sat. Núverandi ríkisstjórn hefur sýnt að hún er algerlega jafn vanhæf þeirri fyrri þegar kemur að lausnum á vanda heimilanna, enda ekki skrítið. Hún tók einfaldlega við tilskipunum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þeim aðgerðarpakka sem að hann hafði þegar lagt fram og samþykkti að framfylgja honum að öllu leyti að virðist, erlendum auðhringjum til mikillar ánægju vænti ég.

Vandi hreyfingarinnar undanfarna mánuði hefur að miklu leyti til legið í algerum skorti á innra skipulagi starfsins. Við tókum kosningabaráttuna með krafti í spretthlaupi en gleymdum í látunum að setjast niður og skilgreina ítarlega hvernig við viljum að hreyfingin starfi. Það er því á okkar ábyrgð að þessi landsfundur gangi í að klára það mál og gera hreyfingunni fært að láta til sín taka með kröftugum hætti.

Fyrir landsfundinum liggja tvær lagabreytingartillögur.

Tillaga A gerir ráð fyrir því að stefnuskráin sé lifandi plagg sem megi breyta og bæta við með samþykki félagsmanna, til dæmis að breyta markmiðum hreyfingarinnar og bjóða fram til sveitarstjórnarkosninga sé áhugi fyrir því,  meðan að tillaga B gerir ráð fyrir að við höldum okkur við það sem í upphafi var ákveðið.
Það er, að vera Hit ´n Run framboð og leggja svo hreyfinguna niður þegar að yfirlýstum markmiðum upphaflegu stefnuskrárinnar er náð eða verður augljóslega ekki náð.

Umræðan um mögulegt framboð til sveitarstjórnarkosninga er augljóslega vangaveltur sem hreyfingin þarf að taka afstöðu til og þá hvort að félagar vilji að boðið sé fram undir merkjum Borgarahreyfingarinnar eða hvort að boðið er fram í gegnum minni grasrótarhópum á hverju svæði fyrir sig.

Þessum tillögum hefur verið stillt upp sums staðar sem baráttumálum mismunandi fylkinga, en ég vil biðja ykkur kæru fundarmenn að horfa fram hjá því. Það liggur einfaldlega fyrir okkur hér, að ákveða hvert við viljum sjá hreyfinguna stefna. Hvaða áherslur við viljum setja fókusinn á.

Að lokum langar mig til að nota tækifærið og þakka Ingu Rögnu og Björgu sérstaklega fyrir þeirra aðkomu að undirbúningi fundarins. Þær tóku framkvæmd fundarins í sínar hendur að mestu og eiga hrós skilið fyrir að klára verkið vel. Við skulum gefa þeim gott klapp.

Kæru félagar, það liggur á okkur mikil ábyrgð. Tæplega 14.000 kjósendur treysta á okkur til þess að rífa okkur upp úr þessum hjólförum kergju og þræta. Allir landsmenn þurfa á því að halda að við stígum fram sem kraftmikil heild og tökumst á hendur það verkefni sem við buðum okkur fram í. Það er undir okkur komið að taka nú höndum saman og vekja aftur hjá þjóðinni von um að það sé raunverulega hægt að koma hér á breytingum. Að hægt sé að bjóða þjóðinni upp á eitthvað annað en bara sama óhæfa draslið áfram. Ef við trúum því ekki sjálf að það sé hægt, hvernig er þá hægt að ætlast til þess að aðrir trúi því?

Ef við viljum vera afl til góðs í samfélaginu, þurfum við að trúa því að við getum það.

Trúið þið því?

Við verðum að stíga fram í þeirri trú og láta til okkar taka.

Viljið þið taka þátt í því?

 


mbl.is Læra af mistökunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Þú ert þrjóskur og þrautseigur Baddi það máttu eiga

Ómar Ingi, 12.9.2009 kl. 13:38

2 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Þetta er sterk, einlæg og falleg ræða. Hún snart við mér á fundinum. Takk fyrir að hefja þig ofar þessu persónulega og einbeita þér að stefnumálunum og þeim stóru verkefnum sem framundan eru fyrir land og þjóð.

Birgitta Jónsdóttir, 13.9.2009 kl. 21:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband