Stjórnlaus vegagerð á hálendi Íslands? - Eða er kannski um að ræða miðstýrt kerfi sem vill breytingar án þess að bera það undir hagsmunaaðila?
22.8.2009 | 10:18
Ég er einn þeirra sem hef verið á ferð um hálendi Íslands um langt árabil og hef fengið að njóta þess frá ýmsum ferðamátum. Gangandi, ríðandi og á ýmsum vélknúnum ökutækjum. Eitt af þeim svæðum sem ég hef meðal annars ferðast þó nokkuð um, reyndar nánast eingöngu að vetri til, er svæðið í kringum Hofsjökul, og er það reyndar í eina skiptið sem að ég hef ekið um Þjórsárvera svæðið frá Blautukvísl, Nautöldu, um Arnarfellsmúla og austur að Þjórsárlóni eins og leiðin á meðfylgjandi mynd sýnir og er sami slóði og Kolbrún Halldórsdóttir er að vísa til í sínum skrifum.
Ég vil reyndar byrja á því að taka fram áður en lengra er haldið, að persónulega er ég að hluta til sammála Kolbrúnu með akstur um Þjórsárvera svæðið. Akstur þar um yfir sumartímann ætti að vera alfarið takmarkaður við umferð sauðfjárbænda, þeirra sömu og væntanlega bjuggu til slóðann um svæðið til að byrja með. Stærsti hluti þessara slóða á hálendinu er þannig til kominn. Það er að segja varð til við það að bændur fóru um afréttinn í leit að haga eða fé.
Þjórsárvera svæðið er algerlega einstakt svæði og verður að fá að njóta þeirrar virðingar, þetta er svæði sem þjóðin þarf að fá að kynnast og taka höndum saman um að verja og vernda. Fáir hafa þó kynnst svæðinu því miður, og þá væntanlega aðallega vegna þess að þarna er einungis leiðsagt um svæðið í gönguferðum. Það er þó eðlilega eina leiðin til þess að halda svæðinu óspilltu í því horfi sem það er í dag.
Þjórsárvera svæðið er eins og ég segi, algerlega einstakt. Þetta er stór en viðkvæm gróðurþekja í votlendi, stærsta náttúrulega votlendi sem eftir er á Íslandi ef ég man rétt. Griðland fyrir fjölmargar fuglategundir og plöntur sem eru orðnar sjaldséðar.
Þeir sem áhuga hafa geta lesið sér nánar til um svæðið hér: http://www.ust.is/Frodleikur/Fridlystsvaedi/nr/1283
En þá kem ég loks að ástæðu þess að ég er að skrifa þetta en það er spurningin um hvernig skipulagi hálendisins og slóða um það skuli vera háttað.
Kolbrún Halldórsdóttir bendir á það í grein í blaðinu í dag, samkvæmt viðhengdri frétt, að þarna sé um að ræða slóða inni á kortagrunni frá söluaðila, sem að sé ekki merktur slóði inni á kortum frá Landmælingum. Verð reyndar að benda Kolbrúnu á að væntanlega fer það alfarið eftir útgáfuári kortsins sem að hún er með frá Landmælingum en það er einmitt kjarni málsins fyrir fjölmarga þá aðila sem ferðast mikið um hálendið.
Er það bara svo að þegar að Landmælingar Íslands velja ekki slóða inn á kortagrunninn sinn að þá eigi slóðinn þar með ekki að vera til? Slóði og slóðar, sem verið hafa til um áratugaskeið og jafnvel nokkuð fjölfarnir?
Undanfarin tvö sumur hef ég verið að trússa fyrir gönguhóp á þessu svæði á vegum Hálendisferða Óskar Vilhjálms (sem ég mæli eindregið með að þið nýtið þjónustuna hjá) og varð þarna í fyrra sumar meðal annars þeirrar ánægju aðnjótandi, að kynnast aðeins Þórunni Sveinbjarnardóttur, sem var þáverandi umhverfisráðherra. Á þeim tíma, og vonandi ennþá, var á vegum ráðuneytisins starfandi slóðanefnd þar sem í áttu sæti meðal annars ýmsir hagsmunaaðilar, þar á meðal ferðaklúbburinn 4x4. Nánar má fræðast um hann hér: http://f4x4.is
Ferðaklúbburinn 4x4 hefur verið ötull kynningaraðili fyrir ferðamennsku á jeppum á hálendinu og eins tekið mjög virkan þátt í forvarnarstarfi gegn utanvegaakstri á svæðinu. Innan ferðaklúbbsins er orðin uppsöfnuð gríðarleg þekking á leiðum og slóðum um hálendið og því hið besta mál að fá þeirra aðkomu að vinnunni í slóðanefnd.
Hlutverk slóðanefndar er að safna saman upplýsingum um alla slóða á hálendinu og meta þörfina á þeim, samkvæmt því sem að Þórunn sagði mér í fyrrasumar. Það já felur vissulega í sér að væntanlega mun einhverjum slóðum verða lokað og þar reynt að græða upp og skal ég ekki síta það ef um verður að ræða, eins og Þórunn sagði mér, slóða á svæðum þar sem fyrir eru aðrir slóðar og því ekki heft aðgengi að svæðum með lokun slóðanna.
Með slíku starfi og aðkomu hagsmunaaðila að málum tel ég vera rétt að verki staðið og ættum við því að leyfa slóðanefndinni, sem Kolbrún Halldórsdóttir þekkir án vafa vel til líka, að ljúka störfum sínum áður en teknar eru ákvarðanir um lokanir á tilteknum svæðum.
Ég styð R. Sigmundsson í því að vera áfram með inni í sínum grunni alla merkta slóða á landinu, eða þar til að fram koma skipanir um að svo skuli ekki vera. Það er ekki á vegum Landmælinga Íslands að stýra því hvar megi eða megi ekki aka.
Jeppaslóði í friðland Þjórsárvera | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:33 | Facebook
Athugasemdir
Vil taka undir með Kristni.
Hálendið á ekki að vera einkaferðamannnastaður ungs, fullfrísks, barnslauss fólks sem hefur tíma, tækifæri og líkamlega burði til þess að setja bakpokann á bakið og arka dögum saman um óbyggðir.
Er ekki betra að útbúa ,,slóða" með þeim hætti að þeir skemmi ekki gróður eða náttúruperlur ? Þetta myndi opna hálendið fyrir mjög stórum hópi fólks sem ekki hefði tækifæri annars til að ferðast um það og hugsanlega jafnvel koma í veg fyrir að utanvegaslóðar myndist.
Magnús Birgisson (IP-tala skráð) 22.8.2009 kl. 11:23
Sæll Kristinn, tek undir þín sjónarmið að stærstu hluta. En það er í dag mjög góður slóði alveg að Blautukvíslinni suðvestan megin frá og slóði upp að Tjarnarveri suðaustan megin frá. Þarf nokkuð að leggja upphækkaðan veg alla leið? Er ekki allt í lagi þó að maður þurfi einstaka sinnum að ganga í eins og klukkustund til að fá að njóta óspilltrar náttúru?
Mér finnst það. Hérna er einungis verið að ræða um þann hluta slóðans sem liggur í gegnum svæðið undir Hofsjökli. Það er einfaldlega stundum alveg ólýsanlega góð tilfinning að sitja einhversstaðar í náttúrunni þar sem þú sérð nákvæmlega engin ummerki um mannaferðir og okkar verk.
Svo er það önnur spurning sem ég hef velt fyrir mér. Mætti ekki gefa út kort líka þar sem slóðar sem þessi eru sérmerktir vetrarslóðar? Það er mikið þarfaverk að til sé grunnur af vetrarleiðum þar sem hægt er að fara um án þess að fara sér að voða. En það er væntanlega engin sem myndi vilja bera ábyrgð á því, því það er jú hægt að fara sér að voða við "öruggustu" aðstæður að vetri til á hálendinu.
Baldvin Jónsson, 22.8.2009 kl. 11:38
Smá viðbót: Það er engin leið að gera þarna góðan veg Kristinn án þess að hreinlega brúa Blautukvíslina, hún er mjög hverfult jökulfljót með sand- og leirbotni sem afar fá ökutæki komast klakklaust yfir.
Baldvin Jónsson, 22.8.2009 kl. 11:39
Mér finnst þetta orð í tíma töluð hjá ykkur báðum
Pétur Hans R Sigurðsson, 22.8.2009 kl. 12:06
Magnús, eins og ég sagði í fyrra svari mínu til Kristins að þá er ég sammála þessu sjónarmiði að hluta til, en finnst alveg sjálfsagt að skilja eftir einhverja kílómetra hér og þar, þar sem að maður þarf aðeins að leggja á sig til þess að fá að njóta einverunnar. Það er að mínu mati líka hverjum manni hollt og nauðsynlegt stöku sinnum.
Baldvin Jónsson, 22.8.2009 kl. 12:09
En endilega lesið ykkur til um svæðið hér, þá skiljiði betur hvers vegna svo mikil þörf er á því að raska því ekki:
http://www.ust.is/Frodleikur/Fridlystsvaedi/nr/1283
Baldvin Jónsson, 22.8.2009 kl. 12:33
Sæll vertu Baddi
Ágæt þessi skrif hjá þér; er sammála þeim að mjög miklu leyti þótt alltaf sé eitthvað hægt að rökræða.
Hér þykir mér helst ástæða til að leggja orð í belg hvað slóða á hinum og þessum kortagrunnum varðar. Það er rétt að starfandi er á vegum Umhverfisráðuneytisins og Landmælinga nefnd til að vinna úr þeim slóðum sem liggja um hálendið. Sú vinna hefur reyndar tekið mjög langan tíma, en er að þokast í rétta átt (samvinna við sveitarstjórnir o.fl. stendur yfir).
Ákveðnir aðilar voru fengnir til að "trakka" slóða í verktöku. Sumir þeirra virðast vera smeykir um að of mörgum slóðum, fyrir þeirra smekk, verði lokað og hafa komið gögnunum til kortafyrirtækja. Þetta hefur leitt af sér að bæði á GPS-kortum og eins sumum prentuðum kortum eru slóðar sem fráleitt er að aka á auðu landi. Umræddur slóði í Þjórsárverum getur verið dæmi um þetta; fleiri sem má nefna eru t.d. um Ófærudal í Hólmsárbotna (Strútslaug; lokað fyrir fjölda ára) og eftir fjöruborði Langasjávar öllu. Ótal fleiri má tína til.
Það hlýtur að teljast óforsvaranlegt að koma upplýsingum, sem mönnum er greitt fyrir að afla og á eftir að vinna úr, frá sér á þennan hátt. Af þessuhafa hlotist slys, bæði á náttúru og fólki. Væri því ráð að skora á kortaútgefendur alla að spara slóðamerkingarnar þar til vinnu nefndarinnar er lokið (!!)
Bestu kveðjur - Íbí
Ingibjörg Eiríksdóttir (IP-tala skráð) 22.8.2009 kl. 12:45
Hæ Íbí, gaman að sjá þig hér.
Þjórsárvera slóðinn að mér vitandi er ekki dæmi um slíka slóða. Að minnsta kosti held ég að um sé að ræða raunverulegan "bóndaslóða" fram undir Nautölduna að minnsta kosti.
Verktakana þekki ég marga og veit að þeir hafa að minnsta kosti geymt upplýsingarnar líka á eigin svæðum. Þekki ekki hvort að þeir hafi komist til R.Sigmundssonar, efast reyndar stórlega um það. Þróunin hefur verið mikið fremur í hina áttina, það er að við hverja nýja útgáfu af kortum frá þeim eru mun færri slóðar inni en í eldri útgáfum.
Tek hins vegar heilshugar undir með þér varðandi til dæmis slóðann sem merktur er inn í Strútslaug. Algerlega fáránlegt að enn sé merktur slóði upp Skófluklif, sem fyrir þá sem ekki þekkja til, er afar brött hlíð sem þarf að fara upp í byrjun þessa slóða. Ég var að koma úr Strútslaug fyrir örfáum dögum síðan og þá voru því miður nýleg för niður Skófluklif, sem lágu einmitt fram hjá "Allur akstur bannaður" skiltinu sem þar er. Þegar komið er inn í Hólmsárbotna og gengið að Strútslaug sést enn betur hversu fáránlegur sá slóði er, því að hann kemur þar beint niður gróðursæla hlíð sem liggur þar með undir stórskemmdum.
Það þarf augljóslega að flýta störfum þessarar nefndar, en í góðu samstarfi við alla hagsmunahópa.
Baldvin Jónsson, 22.8.2009 kl. 12:55
Sæll aftur - gaman að sjá þig sömuleiðis, kallinn!
Jamm, hvort sem slóðar eru upphaflega til komnir sem smalaslóðar, eins og ég held t.d. að Strútslaugarslóðinn sé (og er sá enn ver útleikinn í Ófærudalnum en í Hólmsárbotnum og Skófluklifi) eða ekki, þá þarf að ljúka þessari vinnu eins fljótt og auðið er, án þess að það komi niður á vinnubrögðunum.
Það að nýrri kort séu fátækari af slóðum get ég ekki tekið undir, þótt eitthvað hafi verið dregið til baka eftir athugasemdir t.d. landvarða. Ótal margt bendir til þess að þau séu byggð á þeim gögnum sem ég nefndi hér að framan. Þetta er ekki aðeins umhverfismál, heldur hættulegt líka. Nógu marga erlenda ferðamenn hef ég hitt sem hafa verið að leita uppi slóða á borð við þessa (jafnvel merkta sem aðalvegi), án þess að hafa þekkingu eða reynslu til að meta aðstæður á borð við vatnsföll og veðraskipti. En vissulega er það miklu viðameira mál; fræðslu t.d. ábótavant.
En umræðan er góð - og leiðir okkur vonandi öll á réttar slóðir :o)
Bkv. Íbí
Ingibjörg Eiríksdóttir (IP-tala skráð) 22.8.2009 kl. 13:18
Engin gögn frá Landmælingum hafa farið inn á Garmingrunnin ( Mapsource ).
Í mælingunum mælum við alla slóða innan miðhálendislínunnar. Í haust verðum við búin með ca 95% af miðhálendinu. Þessi vinna er unnin í samstarfi Landmælinga íslands og Ferðaklúbbsins 4x4. Aðrir hafa ekki komið að þessu máli á nokkurn hátt. Nema sveitarstjórnarmenn Hrunamannahrepps.
Þar sem þið fjallið um nokkra viðkvæma slóða í pistlum ykkar, þá vill ég benda á að t,d Strútslóðin, Arnafellsvegur og nokkrar fleiri höfum við ekki vilja mæla, því við eigum gömul g.p.s göng af þessum leiðum þar sem einungis eru um 1.5 metra skekkjumörk.
Formaður ferlaráðs Ferðaklúbbsins 4x4
Jón G Snæland (IP-tala skráð) 22.8.2009 kl. 13:46
Takk fyrir innlitið Jón Snæland og fyrst að ég hef til þess tækifæri hérna, takk kærlega fyrir mikið óeigingjarnt starf í ferlaverkefninu.
Íbí nefnir hér að ofan að menn hafi fengið greitt fyrir sína vinnu, en það er rétt að taka fram að fyrir utan að það ætti að sjálfsögðu að vera meira en eðlilegt að þá hafa menn fengið afar lítið greitt. Í raun bara útlagðan kostnað að mér skilst.
Baldvin Jónsson, 22.8.2009 kl. 14:37
Takk fyrir þetta Baldvin
Það er nú alltaf spurning hvað er útlagður kostnaður og hvað er vel eða illa greitt.
Átök á menn og bíla eru mikil í þessum ferðum. Þar sem við erum að mæla alla slóða.
Og ekki er tækifæri til þess að snúa við þó það sé grýtt, mýrar eða bratti eða djúpar ár.
Ökumennirnir hafa því staðið sig vel ásamt Landmælingamönnunum.
Jepparnir eyða þó frekar litlu á lulli um hálendið, þar sem ferðahraðinn er þetta 5-max 40 km/ á kl. En það hafa orðið tjón, festur og slit. Svo allar ferðir eru ekki til fjár. Það má því eiginlega segja að þetta sé hálfgert hugsjónastarf hjá okkur. Ef þetta væri hreinræktuð verktakastarfsemi þá þyrfti að hækka taxtann þrefalt, það þekki ég þar, sem ég er verktaki sjálfur að atvinnu.
Jón G Snæland (IP-tala skráð) 22.8.2009 kl. 15:20
Kannast ágætlega við jeppaútgerð. Í akstri með ferðamenn eru menn að selja sig út á 60.000 á dag og heilt yfir árið dugar það illa fyrir kostnaði hjá flestum sem að því koma.
Baldvin Jónsson, 22.8.2009 kl. 15:24
Langar einnig að benda á umræðu um málið hér: http://www.f4x4.is/index.php?option=com_jfusion&Itemid=228&jfile=viewtopic.php&f=15&t=14803&start=0
Baldvin Jónsson, 22.8.2009 kl. 15:52
Ég vil ítreka það sem Jón G. Snæland segir hér að ofan, gagnagrunnur Samsýn er ekki unninn uppúr gögnum frá slóðamælingum LMÍ og ferðaklúbbsins 4x4. Það er ekki hagur Ferlaráðs eða LMÍ að vetrarleiðir séu settar inn á kort Samsýnar.
Samsýn notar, eftir því að mér best skilst, loftmyndir í bland við mæld kortagögn frá LMÍ ásamt því að mæla eitthvað sjálfir. Hve mikið hefur verið unnið af því veit ég ekki. Sjálfsagt má vel að vera að notuð séu mæld gögn frá "jón útí bæ" í litlu mæli, en frekar þykir mér líklegra að þessi slóði hafi álpast þarna inn fyrir mistök, eða sé á einhverjum eldri kortum frá LMÍ.
Eftir því sem mér skilst, hefur þessi leið þó verið ekin.
Gallinn við kort er sú að oft kemur ekki fram ástand vega eða gerð þeirra. Það er bara "malbik" "malarvegur" og "slóði". Nú hef ég ekið þónokkuð mikið um hálendið vítt og breitt og veit fyrir víst að sumir slóðar eru einfaldlega ekki ætlaðir nýju fínu slyddurunum! Persónulega, þykir það mér ákveðinn sjarmi að ekki sé verið að gera alla vegi nánast eins og malbik eða uppbyggða og rosa fína (sem eru reyndar oftar en ekki dauðagildrur þarna uppá hálendinu sökum hæðar sinnar og umferðarhraða...)
Ég ætla svosem ekki að tjá mig mikið um greiðslurnar sem þessir menn hafa fengið, en ég get sagt að slóðaverkefnið er "sjálfboðavinna" og þeir væru ekki að þessu nema sökum hugsjónar og eilífrar ástríðu gagnvart hálendi og náttúru Íslands.
Það væri skemmtilegt að geta verið með menn í fullri vinnu við þetta. Þá myndi þetta sjálfsagt ganga örlítið hraðar.
En varðandi gömul kort í samanburði við nýrri kort. Ég hef verið að skoða kort sem gerð voru á tímabilinu 1950-197. Þar eru ógrynni af slóðum sem ekki hafa ratað inná nýjustu kort þó þarna sé um að ræða fullfæra slóða sem ég myndi sakna sárann að fá ekki að aka.
Mér þykir þessi ummæli Kolbrúnar vísa til vanþekkingar hennar á málefnum hálendisins, og algjörlega óþarfi.
Bestu kveðjur, Samúel Úlfr
Samúel Úlfur Þór, 22.8.2009 kl. 15:57
Varðandi það að akstur um Þjórsárverasvæðið eigi að vera takmarkaður við umferð sauðfjárbænda yfir sumartímann vil ég benda á það að sem íbúi í Skeiða-og Gnúpverjahrepp, sem á afrétt að svæðinu, hef ég aldrei heyrt um að sauðfjárbændur fari akandi inn í Þjórsárver. Í leitum í september fer trússinn lengst akandi inn í Tjarnarver (sem sést á kortinu) en einungis er farið á hestum alla leið inn í Þjórsárver.
Það að leggja eigi vegi inn á votlendissvæði eins og Þjórsárver þar sem það séu sjálfsögð mannréttindi að fá að sjá þau er afar óábyrg umræða, bæði með tilliti til náttúrunnar og öryggis fólks. Um þetta svæði gildir ekki það sama og um mosaþembur eða meli á hálendinu sem Landsvirkjun hefur vissulega lagt vegi um. Svæðið er votlendi, sem þýðir að það er afar viðkvæmt fyrir umferð og um leið er það viðsjárvert. Jökulkvíslar geta til að mynda auðveldlega breytt um farveg og ekki þarf mikið til að fólk lendi í aurbleytu. Því er best að fara ekki um verin nema í fylgd með kunnugum.
Á Íslandi er til nóg af náttúruperlum sem skoða má út um bílglugga til að það endist manni út ævina. Því þurfa eldri borgarar ekki að örvænta þó þeir skoði Þjórsárverin einungis á mynd.
kv.
Helga Tryggvadóttir (IP-tala skráð) 22.8.2009 kl. 22:27
Það er gott að heyra Helga, það er þá nákvæmlega engin ástæða til þess að leyfa akstur þarna um svæðið að sumri.
Ég tek líka undir með þér, eins og ég nefni reyndar hér ofar líka, það er nákvæmlega engin ástæða til þess að leggja slóða neitt lengra en er í dag. Það er að Blautukvísl og inn í Tjarnarver.
Baldvin Jónsson, 22.8.2009 kl. 22:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.