Hnökrarnir eru túlkun flokksbundinna einstaklinga í kjörstjórnum - Borgarahreyfingin skilaði öllu réttu samkvæmt laganna hljóðan

Við búum viði svo merkilega mikinn lýðræðishalla á Íslandi að það er farið að nálgast það að hljóta að eiga heima í heimildarmynd um Lýbíu.

Þegar að ný framboð skila inn sínum listum samkvæmt kosningalögum þá tekur þar á móti þeim svo kölluð kjörnefnd sem er ætlað það hlutverk að fara yfir að allt sé samkvæmt lögunum. Kjörnefnd þessi er skipuð AF ÞINGFLOKKUM Á ALÞINGI og þó ætlað að gæta jafnræðis milli allra framboða. Það að kjörnefnd skuli skipuð af fjórflokknum er svo gríðarlegur lýðræðishalli að ÖSE nefndin sem stödd er hér á landi til þess að fylgjast hér með kosningunum (sem oft er gert í þriðja heims löndum) átti bara ekki orð til að lýsa undrun sinni á ástandinu.

Borgarahreyfingin sem sagt skilaði inn öllum skjölum sem til var ætlast í gær og vorum við að vonum afar hamingjusöm með árangurinn. Hnökrarnir sem vísað er til voru þeir að körnefndir SV og RS kjördæma vildu meina að á listum með staðfestingar undirskriftum frambjóðenda yrði að koma fram í hvaða kjördæmi nákvæmlega þeir væru að bjóða fram. Þetta kemur hvergi fram í lögunum og reyndar vorum við líka áður en skilað var inn, búin að fá á því staðfestingu frá Hjalti Zóphóníassyni skrifstofustjóra að þess væri ekki þörf, enda kæmi ekkert fram um það í lögunum.

Kjörstjórnin ber fyrir sig að þetta sé hefðin. Ég hef ekkert bindandi séð um hefð í lagatúlkun að réttarvenjum undanskildum. Þá þarf hins vegar að hafa fallið dómur í máli til þess að hefðin skapist.

Hér erum við einfaldlega að eiga við varðhunda flokksræðisins - ekki lýðræðisins.

Mikið er ég þakklátur fyrir að brátt munum við fá að takast á hendur það verkefni að breyta þessu kerfi, þessari flokksbundnu stjórnsýslu hér á landi, til betri vegar.

Hér verður að fá að ríkja jafnræði til handa ÖLLUM þegnum þessa lands!

Borgarahreyfingin - þjóðin SJÁLF á þing  (Takk Hlédís fyrir flotta viðbót við slagorðið Smile)


mbl.is Einhverjir hnökrar á framboðslistum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Sigurður

"Kjörnefnd þessi er skipuð AF ÞINGFLOKKUM Á ALÞINGI og þó ætlað að gæta jafnræðis milli allra framboða. Það að kjörnefnd skuli skipuð af fjórflokknum er svo gríðarlegur lýðræðishalli..."

Þessi setning er dálítið einkennandi fyrir málflutning Borgarahreyfingarinnar. Orðið "fjórflokkur er nú blótsyrði sem hægt er að nota hægri vinstri. Það eitt að segja þetta orð verður til þess öll mál eru vafasöm. 

Það háttaleg að kjörnefndir eru skipaðar af öllum þingflokkum á að koma í veg fyrir lýðræðishalla. Þannig koma þær í veg fyrir að hallað sé einn flokk framar öðrum. Þetta er það lýðræðislegasta í stöðunni. Varla viltu að dómsmálaráðherra á hverjum tíma skipi í þessar nefndir fólk sem hann telur vera það hæfasta?

Er líka möguleiki á að þú leggir fram einhverjar sannanir fyrir þessari staðhæfingu þinni? "...ÖSE nefndin sem stödd er hér á landi til þess að fylgjast hér með kosningunum (sem oft er gert í þriðja heims löndum) átti bara ekki orð til að lýsa undrun sinni á ástandinu."

Jón Sigurður, 15.4.2009 kl. 13:49

2 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Kemur enn einn VG-arinn að væla yfir notkun hugtaksins "Fjórflokkur"! (égbóka þig frá VG, engir aðrir kvarta yfir þessu).

Jón; Baldvin þarf ekki að sanna sína upplifun. Hann er að segja frá hvernig hann upplifði viðbrögð. 

Getur þú sannað að afstaða VG hafi verið öðruvísi innan kjörnefndarinnar en afstaða fulltrúa hinna?

Friðrik Þór Guðmundsson, 15.4.2009 kl. 14:07

3 Smámynd: Jón Sigurður

Eina vandamál mitt við notkun ykkar á orðinu "fjórflokkur" er að segja það orð virðist firra ykkur ábyrgð á að benda á einhver önnur atriði.

Baldvin segir beinum orðum að fólk á vegum ÖSE hafi verið undrandi á þessu vinnubrögðum eins og það sé opinber skoðun stofnunarinnar. Ef þetta var hans persónulega upplifun af viðbrögðum þá eru þau varla tæk til að nota í þessu samhengi. Sá hann einhver hrista hausinn eða heyrðu hann fulltrúa ÖSE segja að þetta væru undarleg vinnubrögð?

Auðvitað get ég ekki sannað neitt um afstöðu eins né neins flokks í kjörnefndum, enda gaf ég aldrei í skyn að ég vissi neitt um það. Baldvin sagðist hins vegar vita hvernig ÖSE lítur á þetta mál.

Er til of mikils mælst að hann útskýri hvernig hann komst að þeirri niðurstöðu? Hann er nú einu sinni frambjóðandi til Alþingis.

Jón Sigurður, 15.4.2009 kl. 14:27

4 Smámynd: Baldvin Jónsson

Jón Sigurður, ég get ekki lagt fram sannanir þess efnis að fulltrúi ÖSE hafi verið nánast orðlaus, ekki nema að sá fulltrúi gefi það út sérstaklega.

Þór Saari hringdi fyrir okkar hönd í fulltrúa ÖSE þegar að lá fyrir vafasamt mat kjörnefndar á undirskriftalistum frambjóðenda. Í þeirra samtali kom fram hjá Þór að svona væri skipað í kjörnefndina og brást þá fulltrúi ÖSE svona við því. Þér er í sjálfsvald sett hvernig þú kýst að túlka það, en greinilegt var af viðbrögðunum að honum fannst þetta afar óeðlilegt.

Ég biðst hins vegar velvirðinga á því að hafa vísað hér í nefndina alla, það var að sjálfsögðu ekki rétt. Þetta var aðeins einn fulltrúi nefndarinnar sem gaf okkur þetta álit sitt. Nefndin sem heild mun hins vegar taka málið fyrir ásamt öllum öðrum athugasemdum sem þeim nú berast í stríðum straumum að mér skilst, og mikið af þeim frá P lista.

Baldvin Jónsson, 15.4.2009 kl. 14:56

5 Smámynd: Jón Sigurður

Baldvin, takk fyrir þetta. Það að Þór Saari hafi hringt í ÖSE er einmitt það sem ég var að fiska eftir. Þ.e. að vita hvaðan þetta kom enda vakti það forvitni mína. 

Ég er ekki að reyna að vera hælbítur ykkar og kannast ekki við að vera með væl, eins og Friðik virðist halda, heldur frekar að fá ykkur til að skerpa málflutninginn. Með því að stilla málum sífellt upp með tveimur pólum, "fjórflokknum" sem er vondur og þið sem eruð góð, þá verður málflutningur ykkar að mínu mati einfeldningslegur og Ástþórslegur. Sem er væntantanlega það síðasta sem þið viljið.

Jón Sigurður, 15.4.2009 kl. 15:08

6 identicon

Það er fagnaðarefni að fulltrúar ÖSE verði viðstaddir þessar kosningar. Það viðhorf, að það sé sérstakur álitshnekkir fyrir lönd að þangað mæti erlendir kosningaeftirlitsmenn, er stórskaðlegt. (Mér finnst reyndar frekar óviðurkvæmilegt að síðueigandi noti hugtakið "þriðja heims lönd" að því er virðist í niðrandi merkingu.)

Einmitt til að uppræta þetta sjónarmið hefur ÖSE tekið upp þá stefnu að bjóða fram eftirlitsmenn við framkvæmd kosninga í öllum aðildarríkjum sínum - líka þar sem framkvæmd lýðræðisins er talin standa nokkuð föstum fótum. Þetta er skynsamlegt, enda tryggja menn ekki eftir á í þessum efnum.

Mér finnst hins vegar áhugavert að heyra að fulltrúar ÖSE "hafi ekki átt orð" yfir að kjörstjórn væri kjörin af þinginu. Þetta eru talsverð tíðindi og ég myndi gjarnan vilja fá frekari upplýsingar um þetta mál. Hvaðan eru þessar upplýsingar? Hafa þær birst í fjölmiðlum? Eru þær úr einkasamtölum? Og hvers vegna hefur ÖSE þá ekki gert athugasemd við þessa tilhögun mála í skýrslum sínum um kosningaframkvæmd á Íslandi áður?

Ég treysti mér ekki til að fullyrða um það hvernig kjörstjórnir eru almennt skipaðar í aðildarlöndum ÖSE, en lausleg leit á Google bendir nú til að þær séu í flestum tilvikum skipaðar af þinginu. Varla myndum við vilja að þær væru skipaðar af framkvæmdavaldinu - eða hvað?

Bíð spenntur eftir frekari upplýsingum um hvernig ÖSE telur rétt að kjörstjórnir séu valdar og hvernig íslenska fyrirkomulagið sker sig frá því sem gerist í löndunum í kringum okkur.

Stefán Pálsson (IP-tala skráð) 15.4.2009 kl. 15:24

7 Smámynd: Baldvin Jónsson

Bestu þakkir bara Jón, það er alltaf gott að hafa hlutina skýra.

Baldvin Jónsson, 15.4.2009 kl. 15:36

8 Smámynd: Baldvin Jónsson

Já Stefán, við hin bíðum spennt sömuleiðis. Verður okkur öllum án vafa góð hugleiðing að lesa niðurstöðu þeirra, hver sem hún verður.

Baldvin Jónsson, 15.4.2009 kl. 15:38

9 identicon

Sæll Baldvin.

Endar þetta ekki með því að frambjóðendur verða að skrifa aftur undir samþykki sitt, í þessum tveim kjördæmum? Hvaða tíma fáið þið til að leiðrétta þetta og er hann nægur? Leyfðu okkur endilega að fylgjast með málinu. 

Addý (IP-tala skráð) 15.4.2009 kl. 16:36

10 Smámynd: Baldvin Jónsson

Hæ Addý, málinu var reddað snarlega. Við vildum bara engu að síður láta ÖSE fylgjast með framvindunni.

Á allt að vera klappað og klárt núna skilst mér.

Takk Kreppukall, þetta snýst ekki um að halda friðinn heldur að halda okkur öllum vakandi

Baldvin Jónsson, 15.4.2009 kl. 17:34

12 identicon

Takk fyrir þetta..ánægjulegt að allt fór vel 

Ég var á fundi þegar ég fékk sms um að málinu hefði verið bjargað og var mikið fegin. Þó við séum ekki í sama flokki, þá sýnist mér nú að málefnalega sé ekki langt á milli okkar 

Addý (IP-tala skráð) 15.4.2009 kl. 22:12

13 identicon

„Hvar er linkurinn á Lýðræðishreyfinguna?“

mynd
Ástþór Magnússon

Ástþór Magnússon frambjóðandi fyrir Lýðræðishreyfinguna í komandi alþingiskosningum var í viðtali hjá Frey Eyjólfssyni í Síðdegisútvarpi Rásar 2 í dag. Þar fór hann mikinn og sakaði Rúv um að vera ritskoðaður fjölmiðill. Meðal annars spurði hann útvarpsmanninn hversvegna ekki væri linkur á framboð Lýðræðishreyfingarinnar á kosningavef Ríkisútvarpsins.

„Hversvegna er ekki linkur á Lýðræðishreyfinguna á kosningavef Ríkisútvarpsins? Við erum búnir að kæra ykkur til lögregla útaf þessu og vekja athygli á þessu margoft. Við höfum sent mörg erindi til útvarpsstjóra og fréttastofu vegna þessa. Afhverju er þetta ekki lagað?," spurði Ástþór sem var nokkuð æstur.

Ástþór sagðist hafa þurft að setja á svið leiksýningar til þess að komast að hjá Ríkisútvarpinu.

„Ég hef þurft að koma með bíl og risastórt uppsagnarbréf til þess að komast að í Kastljósi. Afhverju hef ég verið útilokaður? Afhverju má ég ekki koma í Silfur Egils? Afhverju fæ ég bara að koma í pakkaða kassa þar sem eru fyrirfram ákveðnar spurningar?,"

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni hér.''

Þessa frétt fann ég á Vísir.is hér fyrir ofan, dagsetta 15. apr. 2009 22:32 Þetta er frábært viðtal við baráttumanninn Ástþór Magnússon 

Það er greinilegt að lýðræðið á undir högg að sækja víðar en hjá kjörstjórnum þetta virðist líka eiga við ruv.is þar sem er ríkisfyrirtæki þar virðast vera öfl sem leggja sig sig í líma við að skilja sum ný framboð út undan þó ekki Borgararhreyfingunna  Er það ekki íslenskt??

Baldvin Nielsen, Reykjanesbæ

Veit en ekki hvern ég ætla að kjósa.

Áfram með lýðræðið handa öllum í þjóðfélaginu!! 


B.N. (IP-tala skráð) 15.4.2009 kl. 23:27

14 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Án þess að það komi málinu við hvaða flokk ég hyggst styðja í komandi kosningum, þá vil ég taka undir orð Baldvins um að lýðræðishallinn er ótrúlegur hér á landi.  Bara það, að núverandi þingflokkum skuli detta í hug að úthluta skattpeningum okkur til sín í hlutfalli við fjölda þingmanna hvers flokks er ótrúlega hrokafullt.  Hvaða snillingi datt þetta í hug?  Eina réttlætið er að framboð til þings fái úr sameiginlegum sjóðum í samræmi við fjölda lista sem boðnir eru fram.  Um leið og einn flokkur fær hlutfallslega meira úr sameiginlegum sjóðum í krafti stærðar sinnar, þá er verið að segja að stuðla eigi að því að hann haldi áfram stöðu sinni sem stærsta stjórnmálaaflið.  Þetta er svo vitlaust að ég efast um að annað en algjör bananalýðveldi viðhafi svona fyrirkomulag og síðan einræðisríki.

Annað er að fjölmiðlar geti ákveðið að eitt stjórnmálaafl eigi að fá minni athygli og umfjöllun vegna þess að forsvarsmaður þess  láti illa af stjórn.  Ég mun ekki kjósa Ástþór, en hann og hans hreyfing á sama rétt á að koma sinni skoðun ókeypis á framfæri í fjölmiðlum og allar aðrar stjórnmálahreyfingar.  Þetta snýst ekki um hvort fjölmiðlamönnum líki eða ekki við einstaklinginn.  Þetta snýst um að það er lýðræðisleg kvöð á fjölmiðla að gæta jafnréttis.  Sérstaklega á þetta við fjölmiðla sem eru í ríkiseign.  Það er t.d. í besta falli barnalegt, að ritstjóri vefs RÚV hafi ákveðið að ekki ætti að vera tengill inn á vefsvæði Lýðræðishreyfingarinnar.  Hver ákvað þessa vitleysu?

Varðandi skipan kjörstjórna, þá er mun nær að hæstiréttur tilnefni menn í kjörstjórnir vegna þingkosninga og forsetinn sjái síðan um að skipa menn, en að flokkarnir skipi sína gæðinga eða varðhunda í þessar stöður.  Ég hef tekið eftir því að menn túlka þessa ákvæði, sem Baldvin er að vísa til, misjafnlega.  Sumir vilja fá upplýsingar um kjördæmið inn í undirritaða yfirlýsingu, meðan öðrum er sama.  Sumir vilja fá lista raðaða í númeraröð, meðan öðrum er sama.

Ég verð að viðurkenna að stundum misbjóða ráðandi afla hér á landi réttlætiskennd minni.  Í dag kom upp slíkt atvik.  Það er viðbjóður, að menn ætli að nota ímynduð formsatriði til að koma í veg fyrir samkeppni.  Það er alveg sami viðbjóður og þjóðin varð vitni að í síðustu viku, þegar stærstu flokkarnir viðurkenndu að hafa tekið við allt að 30 milljón kr. framlögum frá einum aðila.  Réttlætiskennd minni er stórlega misboðið!

Marinó G. Njálsson, 15.4.2009 kl. 23:56

15 Smámynd: Baldvin Jónsson

Ég tek að sjálfsögðu heilshugar undir með þér Marinó.

Hef einmitt vakið athygli á þessum fjárveitingum flokkanna víða, fjárveitingum sem mismuna gríðarlega og eru einhvers konar endurspeglun af kappleik. Sá sem fær flest sæti fær mestan pening?!?  Stórfurðuleg hugmynd og algerlega gegn lýðræðinu.

En eftir að hafa farið núna tvisvar sinnum í gegnum þetta ferli að stofna nýtt framboð og bjóða fram í öllum kjördæmum finnst mér sæta furðu að bara svona einfaldir hlutir eins og stöðluð form skuli ekki vera til, nýjum framboðum og öðrum til hagræðingar.

Baldvin Jónsson, 16.4.2009 kl. 00:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband