Flokksræðið, styrkir og hagsmunatengsl

Þetta á vel við dagsetninguna þykir mér. Á föstudaginn langa er vel við hæfi að setjast niður, horfa í eigin barm og endurskoða heiðarlega það í eigin fari sem þarfnast skoðunar við. Það er hverri sálu nauðsynlegt með mjög reglulegu millibili, í mínu tilfelli til að mynda þarfnast ég þess mun oftar en aðeins einu sinni á ári.

Var að ræða við góðan félaga fyrr í kvöld niður í Laugardagshöll þar sem að árlega er haldin afmælisfundur AA samtakanna og er hann opinn öllum sem vilja þangað koma, hvort sem að þeir eru alkóhólistar, aðstandendur eða einfaldlega áhugamanneskjur um starf samtakanna. En hvað um það.

Þessi félagi minn, sem er mikill dugnaðarforkur og ötull félagsmaður innan Fálkaflokksins, vildi líkja flokknum sínum við alkann fyrst eftir meðferð. Alkinn er svona farinn að gera sér grein fyrir því að það er ýmislegt sem þarf að takast á við, en gerir sér þó langt í frá skýra grein fyrir því hversu umfangsmikið verkið er framundan.

Ég tók undir með honum, en þó aðeins að því leyti til að Sjálfstæðisflokkurinn er svolítið meira eins og alkinn sem er nýkominn af snúrunni og trúir því að núna sé allt í lagi. Að þetta hafi verið ömurlegt og afar óheppilegt fyrir meðferðina, en nú sé allt í himnalagi. Undir niðri gerir alkinn sér grein fyrir því að það er kannski eitthvað eftir í skúmaskotum sem þarf að taka á, en út á við vill hann líta vel út.

Sjálfstæðisflokkurinn er í miðri kosningabaráttu og reynir því sem hann getur að líta sem best út út á við. Það tel ég að myndi reynast flokknum mun meiri styrkur að horfast bara ískalt í augu við staðreyndir málsins, axla á þeim ábyrgð og biðjast fyrirgefningar. Slík framkoma myndi án efa skila þeim aftur fyrir kosningar einhverjum af þeim hundruðum sem mér skilst að hafi sagt sig úr flokknum í dag, bæði formlega og óformlega.

Borgarahreyfingin er í dag raunverulegur valkostur fyrir þá sem komnir eru með nóg af Valhöll í bili. Borgarahreyfingin eins og marg oft hefur komið fram er ekki flokkur í hefðbundnum skilningi þess orðs, heldur breytingaafl sem ætlar sér að koma hér á eðlilegu lýðræði aftur, lýðræði í stað flokksræðis.

Við erum flest sammála um það að nú er Sjálfstæðisflokknum hollast að fá góða hvíld frá stjórnarsetu til upstokkunar, tiltektar og endurreisnar. Til að tryggja flokknum það uppgjör og þá auðmýkt sem slík vinna krefst þarftu að kjósa eitthvað annað að þessu sinni.

Borgarahreyfingin er að berjast fyrir þig í því að færa þér aftur réttborið vald þitt sem þátttakandi í lýðræðissamfélagi og þarf þinn stuðning til verksins.  http://xo.is fyrir nánari upplýsingar.


mbl.is Framhaldið í höndum formannsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hilmar Dúi Björgvinsson

sæll Baldvin

ef þið munduð komast í oddastöðu eftir kosningar(þá geri ég ráð fyrir því að ránfuglinn útrýmist nánast alveg en fái sín 7-9% sem ég tel vera eðlileg % FL-okksins) hvernig mundu þið spila úr stöðunni? vinstri stjórn, hægri eða vera opinn í báða enda?

Hilmar Dúi Björgvinsson, 11.4.2009 kl. 09:10

2 Smámynd: Baldvin Jónsson

Sæll Hilmar Dúi, það eina sem við höfum gefið skýrt út er að við munum ekki starfa með Sjálfstæðisflokknum í stjórn.  Borgarahreyfingin tekur ekki afstöðu til hægri eða vinstri og okkur finnst það vera úrelt hugtök í pólitík hjá örþjóð. Við erum öll í þessu saman og verðum að hugsa það svoleiðis.

En við viljum félagshyggjustjórn. Að sjálfsögðu þarf þó að skoða það vel hvað í samstarfi með einhverjum felst, við værum í erfiðri stöðu sem oddaaðili þar sem að málefnin okkar eru fá og einföld og ekki mikið þar sem að við gætum málamiðlað með.

Vinstri Grænir eru þó að okkar mati besti mögulegi samstarfsflokkurinn, ekki vegna stefnu þeirra í raun, heldur vegna þess að þar hefur ekki þrifist spilling eins og hjá hinum flokkunum, þó að vissulega sé ýmislegt hjá þeim sem að við höfum gert athugasemdir við. Persónulega hef ég þá trú að vel flestir innan VG séu einlægt hugsjónarfólk sem vill af eindrægni taka þátt í því að skapa hér aftur samfélag þar sem venjulegt fólk, en ekki bara fáránlega ríkt fólk, getur þrifist saman í samhyggð og búi við jöfn tækifæri.

Vil þó ítreka enn einu sinni að Borgarahreyfingin er breytingaafl, en ekki flokkur í þeim hefðbundna skilningi. Það eru lýðræðismálin sem að við snúumst um og við höfum ekki tekið afstöðu til annarra mála að bráðaaðgerðum undanskildum vegna þess að enginn getur hlaupist undan ábyrgð við að taka á aðstæðum heimilanna sem nú býður fram krafta sína.

Baldvin Jónsson, 11.4.2009 kl. 11:44

3 Smámynd: Hilmar Dúi Björgvinsson

takk fyrir þessa útskýringu. Miðað við hana þá mundi ég flokka ykkur frekar til hægri heldur en vinstri sem ég get ekki sætt mig við. Varðandi listann ykkar hér í norðausturkjördæmi þá sakna ég fólks úr minni sveit!!!

Hilmar Dúi Björgvinsson, 11.4.2009 kl. 13:16

4 identicon

Það kom mér verulega á óvart að lesa það í Morgunblaðinu í gær að Borgarahreyfingin hafi enga stefnu hvað skal gera með kvótabraskið sem var grunnurinn að spillingunni sem leiddi þjóðina fram af ystu brún efnahagslega þannig að það er vand séð hvort við höldum sjálfstæðinu sem lýðveldi. Það er engin vafi á að Samfylkingin er viss um að við getum ekki stjórnað okkur sjálf framar hún vil með okkur inn í ESB sem fyrst og þar með afsala okkur fullveldinu í leiðinni.

Baldvin Nielsen Reykjanesbæ

B.N. (IP-tala skráð) 11.4.2009 kl. 18:26

5 Smámynd: Baldvin Jónsson

Sæll aftur Hilmar Dúi, getirðu flokkað svar mitt sem eitthvað til hægri tel ég þig hljóta að búa yfir einhverjum greiningar hæfileikum sem flokkast frekar undir yfirnáttúrulega hæfileika og er það bara hið besta mál. Við sjálf skilgreinum okkur ekki og erum fólk úr öllum flokkum og þá meina ég öllum.

Viljirðu hins vegar sérstaklega kjósa til vinstri mæli ég eindregið með VG. Þeir væru augljóslega góður kostur fyrir þig í því samhengi, enda ertu starfandi félagi þar í dag. Varðandi það að sakna fólks úr þinni sveit að þá veit ég ekki nákvæmlega hvar þú býrð en listann skipar fjöldi fólks sem er að norðan og austan.

Herbert er fæddur og uppalinn á Akureyri. Björk sem skipar annað sæti er frá Egilsstöðum og býr þar í dag, en menntaði sig á Akureyri. Hjálmar Hjálmarsson leikar sem skipar þriðja sætið er frá Dalvík.

Kæri nafni Nielsen, við höfum alveg ákveðna stefnu varðandi allar auðlindir þjóðarinnar - kvótinn þar með talinn. Auðlindir þjóðarinnar skulu bundnar sem þjóðareign í stjórnarskrá.

Í dag er ríflega helmingur kvótans þegar kominn aftur í eigu ríkisins í gegnum bankana þar sem sá hluti var margveðsettur. Það væri lag núna til dæmis að taka þann hluta kvótans og dreifa einhverjum hluta hans á byggðarlögin og fastbinda hann þar og taka annan hluta og auka kvóta á litla báta til atvinnusköpunar og einnig til þess að auka gæði hráefnis upp úr sjó og þar með hækka andvirði vörunnar í sölu.

Borgarahreyfingin snýst þó öðru fremur um lýðræðismálin eins og hér hefur komið fram.

Baldvin Jónsson, 11.4.2009 kl. 19:27

6 identicon

Um eignarhaldsrétt útgerðarfélaga á kvóta eins og lögin eru í dag. 
 

Lög nr. 38 1990 1. gr. “Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.”

Það er ekki hægt að hafa lögin betri en þau eru í dag til að sjá hver á og hver með með valdið yfir auðlindinni í hafinu. Vilji laganna er skýr þó að kvótabraskránskerfið sem hangir þarna á bak við hafi fengið að þrífast í skjóli spillingarinar sem er svo mikill að hún er búin að setja okkur í sögubækur mannkynssögunar að við séum þjóð sem borgar ekki skuldir sínar. Veðsetningar á óveiddum fiski(kvóta) á milli manna er kannski ekki það sem við þurftum að öfundast yfir því öllum er frjálst að eiga viðskifti sín á milli hins vegar kemur okkur það mikið við afhverju bankarnir voru að veðsetja þessar heimildir án þess að það væri glóra í því reksralega séð þar átti Fjármálaeftirlitið að segja stopp fyir löngu síðan og það að þeir gerðu það ekki er stórt rannsóknarefni eitt og sér í allri þessari geðveiki sem við köllum sumir okkar a.m.k ,,Bankahrunið mikla '' 

Staðan í dag er svo alvarleg  hjá þjóðinni að það er ekki nóg að tala um að það eigi að setja lýðræðismálin á oddinn númer eitt, tvo og þrjú það málefni verður næsta ríkisstjórn að tækla samhliða því að koma atvinnumálunum á flot og hjálpa heimilinum í landinu í örugga höfn. Takist þetta ekki verður mikið fárviðri í landinu.

Baldvin Nielsen Reykjanesbæ 


 

B.N. (IP-tala skráð) 11.4.2009 kl. 20:57

7 Smámynd: Baldvin Jónsson

Nákvæmlega nafni, þarf að fara saman lýðræðisumbætur og bráðaaðgerðir til bjargar heimilunum eins og ég sagði.

Þess vegna sagði ég meðal annars hér að ofan: "Það væri lag núna til dæmis að taka þann hluta kvótans og dreifa einhverjum hluta hans á byggðarlögin og fastbinda hann þar og taka annan hluta og auka kvóta á litla báta til atvinnusköpunar og einnig til þess að auka gæði hráefnis upp úr sjó og þar með hækka andvirði vörunnar í sölu."

Baldvin Jónsson, 11.4.2009 kl. 21:45

8 identicon

Ert þú þá að segja nafni  og félagi að Borgarahreyfingin vilji kvótakerfi bara aðra útfærslu þ.a.s fá braskið í hverja heimabyggð fyrir sig? Ætlið þið þá að leigja kvótann fyrir fram hæstbjóðanda áður en haldið er út til veiða frá viðkomandi sveitarfélagi eða hvernig hafið þið hugsað þetta í Borgarahreyfingunni?  

Baldvin Nielsen, Reykjanesbæ 

B.N. (IP-tala skráð) 11.4.2009 kl. 22:17

9 Smámynd: Baldvin Jónsson

Borgarahreyfingin hefur ekki tekið afstöðu til kvótakerfisins í stefnu sinni.

Þetta eru aðeins mínar vangaveltur, vangaveltur um hvernig sé hægt að tryggja atvinnu í plássunum þar sem að fólk á staðnum er ekki undir náð og miskunn kvótaeiganda komið.

Baldvin Jónsson, 11.4.2009 kl. 23:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband