Sama blanda og þjóðinni var að miklu leyti boðið upp á í kosningasjónvarpi RÚV í gærkvöldi

Mér fannst Þór Saarí standa sig afar vel sem endranær. Fólki fannst hann ganga heldur langt sumum þegar að hann talaði um íslensku krónuna sem ónýtan gjaldmiðil og líkti henni við sumarbústaðalóð í Chernobyl. En hvað er gjaldmiðill annað en ónýtur þegar að enginn vill koma nálægt honum í alþjóðaviðskiptum, ekki einu sinni Íslendingar, samanber ný plásturslög sem verið var að samþykkja ofan á lögin um gjaldeyrishöftin.

Bjarni Ben fannst mér koma afspyrnu illa út í þessum þætti og virtist skína af honum sú tilfinning að hann hefði sjálfur nákvæmlega enga trú á málefninu sem að hann var þarna að verja. Hann var óöruggur, líkamsstaðan afkáraleg og stíf og yfirlýsingar hans um að ætla að skapa allt að 20.000 ný störf hreinlega afkáralegar, í raun bara fals. Það er nákvæmlega engin hætta á því að hér verði stórkostleg uppbygging á stóriðju á komandi árum, það eru engir fjármunir í boði til þeirrar upbyggingar, mikill samdráttur á heimsmarkaði á áleftirspurn og verðið í nýjum lægðum. Heyrast jafnvel af því sögur núna að Rio Tinto riði til falls og sé á leið í þrot.

Ég fann á vef RÚV yfirlit yfir helstu svör talsmanna framboðanna úr þættinum og birti hér að neðan. Lestu þetta endilega með eftirfarandi spurningu í huga: Hvað eru þau raunverulega að segja?

Aðgerðir til bjargar skuldsettum heimilum:

Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri grænna:
Hann benti á skuldir hverfi ekki og tók illa í afturfærslu vísitölu til janúar 2008. Slíkt kosti 3-500 milljarða. Stærsti hluti íbúðaskulda sé hjá íbúðalánasjóði eða 600 milljarðar, kostnaðurinn við slíkt myndi lenda á fólkinu sjálfu og þá þyrfti að skerða lífeyri. Aðgerðir verði að vera hnitmiðaðar og miðaðar við þá sem þurfi hjálp. Einnig í samræmi til getu þjóðarbúsins. Hann segir stjórnina þegar búna að gera margt og minnir á að næsta mál á dagskrá sé stórhækkun vaxtabóta og að 20 þúsund manns hafi sótt um útgreiðslu á séreignasparnaði.

Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar:
Hún benti á að þegar hafi margt verið gert. Þar nefndi hún greiðslujöfnun, greiðsluaðlögun, hækkun vaxtabóta og frestun á nauðungarsölum. Hún hafnar flötum lausnum. Mörg heimili með jákvæða eignastöðu myndu þá fá afskriftir sem þau þurfi ekki. Hún vill frekar gera meira fyrir þá sem þurfa meira.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins:
Hann benti að ríkissjóði sé ekki reiknaður neinn kostnaður vegna hugmyndar flokksins um 20% niðurfellingu skulda. Aðgerðin hafi þann kost að hún sé heildstæð og róttæk. Hún byggi á því að afskrifir sem þegar eigi sér stað séu látnar ganga áfram til þeirra sem skulda. Aðferðin myndi koma hagkerfinu í gang. Stórhættulegt sé að láta fólk sýna fram á að það sé illa statt til að það fái niðurfellingu; slíkt hvetji fólk ekki áfram.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins:
Hann bendir á að þær aðgerðir sem farið hafi verið í hafi einnig verið lagðar til af fyrri ríkisstjórn. Flokkurinn hefur samþykkt að hugað verði að lækkun höfuðstóls lána. Áður þurfi að leggjast vel yfir útreikninga. Þjóðhaglega hagkvæmara geti verið að fara þá leið heldur en að fólk gefist upp.

Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins:
Hann segir að frjálslyndir leggi til að aðeins verði borguð verðtrygging og vextir upp að 10%. Það sem sé umfram það fari á biðreikning. Þegar verðbólgan sé komin niður fyrir 5% verði hætt að setja inn á reikninginn. Þá sé hægt að reikna dæmið út. Líta á samspil hækkana lána, kaupverðs og raunverðs íbúða. Þá sé hægt að finna lausnir fyrir ólíka hópa. Ákveða þyrfti hvað heimilin ættu að bera stóran hluta af tapinu. Hann telur að það gæti orðið 30-40% en lánveitendur myndu taka á sig afganginn.

Ástþór Magnússon, forsvarsmaður Lýðræðishreyfingarinnar:
Hann sagði að sér liði eins og á sjúkrastofu þar sem hjúkrunarkonurnar rífist um hvaða plástur passi á sárið. Ekki sé hægt að koma með pakkalausn fyrir næstu 4 árin enda breytist aðstæður hratt. Vinna þurfi málin inni á rafrænu þingi en lýðræðishreyfingin vill beint lýðræði. Endurskoða þurfi aðgerðir á 3 mánaða fresti. Hann vill ráða ríkisstjórn á faglegum forsendum. Heimsþekktur hagfræðingur hafi sagt að betra sé að velja þingmenn af handahófi úr símaskránni heldur en hafa þá þingmenn sem nú sitji. Fólk eigi að fá að kjósa sig sjálft inn á þing.

Þór Saari frá Borgarahreyfingunni:
Vill að vísitalan verð færð aftur til janúar 2008. Höfuðstóll myndi lækka um 19%. Kostnaðurinn lendi á eigendum skuldanna. Það sé ekki ósanngjarnt að fjármagnseigendur taki á sig hluta af þeim efnahagsskell sem gangi yfir þjóðina.

Afnám verðtryggingar

Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri grænna:
Segir að við þurfum að losna út úr verðtryggingunni. Það hafi verið mistök að afnema hana ekki á sínum tíma. Vill að óverðtryggð lán verði valkostur.

Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar:
Hún sagði að aðild að ESB yrði leið út úr verðtryggingunni. Bendir á að verðbólgan hafi lækkað.  Vill að boðið verði upp á 15-20 ára óverðtryggð lán.  

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins:
Hann vill vinda ofan af verðtryggingunni á einhverjum tíma.  

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins:
Vill markað með óverðtryggð lán. Slíkur markaður þyrfti að þrífast við hliðina á verðtryggðum lánum.

Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins:
Vill afnema verðtryggingu en byrja á að setja á hana þak. Benti á að verðtrygging valdi verðbólgu. Menn ættu að geta samið um fasta eða breytilega vexti.

Ástþór Magnússon, forsvarsmaður Lýðræðishreyfingarinnar:
Hann vill ekki að atvinnupólitíkusar fari með fjármál ríkisins.

Þór Saari frá Borgarahreyfingunni
Vill afnema verðtrygginguna.

Skattar og niðurskurður

Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri grænna:
Hann segir flokk sinn hafa boðað skattahækkun og hátekjuskatt. Við blasi 120-150 milljarða halli á ríkissjóði. Menn þurfi að spara og ná niður kostnaði en líka að afla tekna. Sama sé hvaða flokkar verði í stjórn; menn þurfi að afla tekna. Þeir sem hafi fulla vinnu og góðar tekjur ættu að geta lagt meira af mörkum. Fjármagnstekjuskattur mæti hækka úr 10% í 14%.

Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar:
Hún segir að mikill niðurskurður blasi við til að ná niður hallanum. Breyta þurfi forgangsröðun og verja grunngildin í velferðarkerfinu. Aldrei hafi verið meiri þörf á sanngirni og jöfnuði. Hún vill koma í veg fyrir skattaundanskot í skattaskjól og skoða hátekjufólk sem skattar hafi verið lækkaðir á í góðærinu.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins:
Hann segist ekki hafa fundið skatt sem hægt verði að hækka við þessar aðstæður. Óttast að hækkun fjármagnstekjuskatta hækki vexti.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins:
Hann segir að vinstrimenn horfi framhjá því að einhverjir verði að vera til staðar til að greiða skatta. Skapa verði skilyrði til að atvinnulífið geti ráðið fólk. Vandinn leysist ekki með nýjum sköttum. Þó sé óumflýjanlegt að hækka skatta eitthvað. Hann vill meiri tekjutengingar.

Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins:
Hann segir að flokkurinn vilji hækka skattleysismörkin. Verja þurfi tekjur láglaunafólks.

Ástþór Magnússon, forsvarsmaður Lýðræðishreyfingarinnar:
Hann svaraði því til að hann vildi byggja upp meiri atvinnu í landinu og sagði að hingað þurfi að fá færa hagfræðinga. Sjávarafurðir séu fluttar hálfunnar úr landinu og nær allt ál sé flutt út óunnið. Hann vill koma á beinu lýðræði. Eftir kosningar fari Alþingi í að ráða ríkisstjórn. Fólkið fái að taka þátt í rafrænu Alþingi, fái að leggja fram frumvörp og forgangsraða.

Þór Saari frá Borgarahreyfingunni
Hann vill fjölga skattþrepum og hafnar miklum niðurskurði.

Álver í Helguvík og atvinnuuppbygging
Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri grænna:
Segir rangt að við blasi 20% atvinnuleysi; allar spár geri ráð fyrir 10% atvinnuleysi. 15 -18 þúsund störf þurfi að verða til. Hann bendir á að hvert starf í stóriðju kosti mörg hundruð milljónir. Starf í ferðaþjónustu kosti lítið; kannski 5 milljónir. Stórhættulegt sé að einblína á stóriðju. Aðstæður í heiminum bjóði ekki upp á slíkt. Þá eigi Landsvirkjun erfitt með að taka lán til að reisa nýjar virkjanir. Álverð sé á niðurleið og eftirspurn minnkandi. Ólíklegt sé að ný álversverkefni verði að raunveruleika á Vesturlöndum á næstunni. Hann nefnir aðra möguleika. Ullar- og skinnaiðnað. Gagnaver og kísilflöguiðnað.

Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar:
Segir að lækka þurfi stýrivexti hratt, afnema gjaldeyrishöftin, endurskipuleggja bankana og gera gjaldmiðilinn stöðugan með því að taka upp evru. Fara þurfi í stórfelld viðhaldsverkefni meðal annars á félagslegum íbúðum.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins:
Hann segir að Framsókn hafi sýnt öðrum flokkum hvernig verðmæti verði til. Stöðva þurfi gjaldþrotahrinuna. Ríkið verði að vera í aðstöðu til að skapa vinnu með mannaflsfrekum framkvæmdum. Við verðum að taka þá áhættu að nota landsfé í að skapa störf. Við eigum að taka við erlendri fjárfestingu í álverum og áherslan verði að vera á nýsköpun.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins:
Vill að samningur um Helguvíkurálver verði afgreiddur frá Alþingi strax. Hann gagnrýnir að málið sé fast í nefnd vegna þess að ríkisstjórnarflokkarnir séu ósammála. Vill að við notum auðlindir okkar og fallvötnin. Sjálfstæðismenn vilji skapa 20 þúsund störf.

Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins:
Hann vill uppbyggingu álvera en einnig auka fiskveiðar og veiða meiri þorsk. Af því yrðu mikil margfeldisáhrif. Við þyrftum ekki að leggja í mikinn kostnað til þess. Þá vill hann að aflinn verði unninn meira hér heim. Hann vill einnig afla meiri orku, meðal annars á Vestfjörðum. Einnig skoða möguleika á ylrækt og kornrækt og auka ferðamannaiðnað.

Ástþór Magnússon, forsvarsmaður Lýðræðishreyfingarinnar:
Vill fá friðargæslu Sameinuðu þjóðanna til Keflavíkurflugvallar. Hann spyr hvort einhverjir séu á ferðinni erlendis, banki upp á fyrirtækjaeigendum og bendi á hversu gott sé að vera með fyrirtæki hér. Hann telur að í þessu sambandi myndi gagnast okkur ef menn grunaðir um brot fyrir bankahrunið yrði settir í steininn. Slíkt myndi auka trúverðugleika okkar erlendis.

Þór Saari frá Borgarahreyfingunni
Segir undarlegt að stóriðjuplatan rúlli áfram. Bendir á að á Austurlandi sé mikið af auðu húsnæði þó að álver hafi verið byggt á Reyðarfirði. Fáránlegt sé að dingla álverum framan í kjósendur. Engin eftirspurn sé eftir álverum. Bráðavandinn í dag sé að 20 þúsund séu atvinnulausir og verði það í 1-2 ár í viðbót. Fyrst og fremst þurfi að aðstoða þetta fólk í atvinnuleysinu. Passa að fólkið missi ekki tengsl við atvinnulífið. Skynsamlegt væri að láta atvinnulausa hafa pening og segja þeim að búa til sín eigin störf.

Evran og Evrópusambandið

Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri grænna:
Hann segir það ekki þjóna heildarhagsmunum landsins að ganga í ESB; krónan verði okkar gjaldmiðill næstu árin. Ekki eigi að tala um hana eins og hún sé ónýt; það hjálpi henni ekki. Við þurfum að ná stöðuleika í gengismálum. Krónan gæti gagnast okkur sem tæki til að ná okkur út úr vandanum. Hann bendir á að góðar bókanir í ferðaþjónustu séu vegna hagstæðs gengis. Við þurfum að koma öðrum hlutum í lag.

Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar:
Segir að það eitt að sækja um aðild geti skapað stöðugleika. ESB fylgi lægri vextir.Við verðum að sjá hvað sé í boði í Evrópusambandinu með aðildarviðræðum. Hún gagnrýnir fullyrðingar um að öruggt sé að við afsölum okkur auðlindum með inngöngu.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins:
Hann vill aðildarviðræður við ESB með afmörkuðum skilyrðum. Ljóst sé að við sitjum uppi með krónuna í einhvern tíma. Framsókn hafi ekki slegið út af borðinu einhliða upptöku. Eins og staðan sé núna sé það hinsvegar mjög erfitt á meðan traust á bankakerfinu sé ekki neitt.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins:
Hann segir að við verðum að vinna okkur út úr vandanum með krónunni; við eigum engan annan kost. Hagsmunum okkar sé betur borgið utan ESB. Núna þurfum við lausnir til að hjálpa okkur að fást við skammtímavandann.

Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins:
Hann vill ekki að við göngum í ESB vegna hættu á að við missum yfirrráð yfir auðlindunum. Hann telur að við þurfum að búa við krónuna næstu 4-5 árin.

Ástþór Magnússon, forsvarsmaður Lýðræðishreyfingarinnar:
Hann segir umræðuna um krónuna á villigötum. Krónan sé ekki vandamálið heldur afleiðing annarra vandamála. Hún sé eins og einkunnabók; ekki dugi að henda henni vegna lélegra einkunna. Þjóðin taki ákvörðun um hvort við göngum í ESB.

Þór Saari frá Borgarahreyfingunni:
Hann vill að krónunni verði skipt út og að við tökum einhliða upp annan gjaldmiðil. Í því sambandi nefnir hann norska krónu, Bandaríkjadollar og evru. Sýnt hafi verið fram á að það sé tæknilega hægt. Of langt sé að bíða eftir inngöngu í ESB
Væri gaman að fá líflega umræðu um ofangreint hér í athugasemdunum. Verið ófeimin, rökræður eru skemmtileg list.

mbl.is Fengum hroka en ekki svör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Í gær fékk ég endanlega staðfestingu á því að Borgarahreifingin er ekki í samblandi við raunveruleikann. Hættur við að kjósa ykkur því þið eruð á láu plani og hafið ekki neinar lausnir nema töfralausnir.

Grímur H. Kolbeinsson (IP-tala skráð) 4.4.2009 kl. 13:42

2 Smámynd: Baldvin Jónsson

Kæri Grímur, Borgarahreyfingin hefur einmitt lagt fram vandlega hugsaðar hugmyndir að aðgerðum og þar eru engar töfralausnir innan um. Eitt af markmiðum okkar við stefnuna var einmitt að vera ekki að þvaðra um eitthvað sem við gætum ekki skýrt eða staðið við. Endilega nefndu dæmi máli þínu til staðfestingar, annars ertu einfaldlega hjákátlegt hjóm sem væntanlega er aðeins að verja hagsmuni einhvers sem fyrir var og stóð ekki vaktina.

Miðað við athugasemdir þínar hingað til er megin ástæða þess að þér líkar ekki við okkur það að við séum ekki sérstakir vinir Vinstri Grænna. Sé það krafan þín finnst mér í raun merkilegt að þú sért ekki bara að einbeita þér að þeim. Við erum hins vegar að standa í þessum slag vegna þess að við trúum því einlæglega og sjáum fyrirliggjandi staðfestingu á því að hér verður að koma fram eitthvað nýtt, óspillt og afl laust við hagsmunatengsl. Annars verður allt áfram bara alveg eins, umræðan í sjónvarpinu í gær staðfesti það kröftulega.

Baldvin Jónsson, 4.4.2009 kl. 14:00

3 identicon

Því miður þá var það tilfinningin sem ég fékk  úr þessu. Batt miklar vonir við að það kæmu upp ný sterk framboð, en það bara er ekki að gerast sýnist mér. Kannski var tíminn bara og stuttur til þess að það verði af veruleika.

Hvað á maður sem er ósammála VG, vill ekki Evrópusambandið, vill að XD  fái hvíld, og treystir ekki Frjálslyndum, að kjósa? Stefnir í autt atkvæði hér.

Bjarni (IP-tala skráð) 4.4.2009 kl. 14:08

4 identicon

Sammála þeim Grím og Bjarna. Aflegging verðtrigginar með þeim aðferðum sem Þór talaði um myndi setja þjóðina á hausinn og er lélegt töfralausn. Þór hafði eitt mál rétt sem var stóriðjuframvæmdarruglið. En það er í góðum höndum Vinstri/Grænir. Best var samt hversu Þór og Ástþór voru samála í mörgu og einnig slagorðinu ÞJÓÐIN Á ÞING.

Þórunn Jóhanna (IP-tala skráð) 4.4.2009 kl. 14:47

5 Smámynd: Baldvin Jónsson

Það sér greinilega hver svona þátt með eigin gleraugum, ánægðastur er ég með þann fjölda fólks frá D lista sem er búin að hafa samband við eitthvert okkar í dag og lýsa því yfir að þau ætli að kjósa okkur eftir þáttinn í gær. Einmitt vegna þess að því fannst Þór vera sá eini þarna sem raunverulega svaraði spurningunum og lagði til aðgerðir. 

Bjarni, Borgarahreyfingin er þá augljós kostur. Við tökum reyndar ekki afstöðu gagnvart Evrópusambandinu aðra en þá að vilja treysta þjóðinni fyrir þeirri ákvörðun.

Þórunn, endilega skýrðu hvað þú átt við með því að afnám verðtryggingarinnar myndi setja þjóðina á hausinn? Ertu að tala sem fjármagnseigandi eða bara að trúa því sem þér er sagt af hagsmunasamtökum? Leiðrétting vísitölu verðtryggingarinnar skerðir ekki raunverulegar eignir fjármagnseiganda, heldur aðeins þá gríðarlegu ofskráningu gengis eigna þeirra sem orðið hefur frá upphafi árs 2008 vegna þeirra hamfara sem yfir þjóðina hafa gengið.

Finnst þér réttlætanlegt að þjóðin þurfi að greiða afborganir, vexti og verðbætur af allt að 25% hækkun sem orðið hefur á skuldum þeirra á rúmu ári vegna mannanna verka?

Baldvin Jónsson, 4.4.2009 kl. 15:16

6 identicon

Hagfræðingurinn Þór Saari bar af í þættinum. Hugmyndir Borgarahreyfingarinnar um bráðaaðgerðir í húsnæðismálum eru þær langbestu sem eg hef heyrt til þessar. Fullkomlega raunhæfar. Líkt og Þór sagði verður að taka með í dæmið hvað það kostar að gera ekki neitt eða of lítið.

Það er tóm della að ekki sé hægt að afnema verðtrygginguna, en það verður auðvitað að standa rétt að því.

Menn ættu að lesa greinar eftir Einar Árnason, hagfræðing BSRB, um verðtrygginguna. Til dæmis þessa:

http://www.heimilin.is/varnarthing/index.php?option=com_content&view=article&id=116:vafasoem-veretrygging&catid=39:visitoelutrygge-ibuealan 

Rómverji (IP-tala skráð) 4.4.2009 kl. 16:12

7 Smámynd: Jóhannes Reykdal

Margir kjósendur virðast velja sér flokka eftir því hver lýgur best af þeim.

 Þeir kunna því ekki að meta "heiðarlega" flokka sem ljúga þá ekki fulla. 

Kannski verður það Borgarahreyfingunni að falli að þeir ljúga minna/ekki að kjósendum.

Jóhannes Reykdal, 4.4.2009 kl. 16:47

8 Smámynd: Jónína Sólborg Þórisdóttir

Það þarf að afnema verðtrygginguna já - en það þarf að tala um það í stærra samhengi - eins og því hvernig fjármálakerfið hér þarf að líta út og hvernig hægt er að vernda lífeyri landsmanna í leiðinni. Þessi tvö sem stjórnuðu umræðunum í gær hafa ekki skilning á þessu og vilja auðvitað ekki gefa frambjóðendum eins og Þór tíma til að svara almennilega.

Jónína Sólborg Þórisdóttir, 4.4.2009 kl. 18:04

9 identicon

Ég get ekki kosið Vinstri/Grænir Baldvin því ég er ekki vinstri maður. Ekki ætla ég heldur að láta fólk sem veit ekkert í sinn haus eins og þið í Borgarahreifingunni virðist vera gabba mig í að kjósa ykkur. Nægi margir eruð þegar falnir fyrir ligum ykkar. Ég hætti alveg við að kjósa ykkur í gær og mun að öllum lýkindum kjósa Samfylkinguna.

Grímur H. Kolbeinsson (IP-tala skráð) 4.4.2009 kl. 18:12

10 Smámynd: Jónína Sólborg Þórisdóttir

Grímur: ég mana þig til að horfa á Silfur Egils á morgun. Michael Hudson veit hvað hann syngur og ég get lofað þér því að við í Borgarahreyfingunni sjáum hlutina nokkurn veginn eins og hann. Ef þú telur það vera lygar þá veit ég ekki hvað þú meinar og á hvaða forsendum þú ert að tjá þig um meintar lygar.

Þú getur byrjað á að lesa þetta: http://www.visir.is/article/20090404/SKODANIR03/961273430

Jónína Sólborg Þórisdóttir, 4.4.2009 kl. 18:19

11 Smámynd: Baldvin Jónsson

Grímur rökstyddu mál þitt, annars mun ég einfaldlega eyða þessum dylgjum. Það getur hvaða smábarn sem er komið hér inn á vefinn og lýst einhverri þvælu yfir án nokkurs rökstuðnings. Þú ert hér tvisvar sinnum búinn að koma með grófar yfirlýsingar án nokkurs rökstuðnings.

Er það planið sem þú vilt að umræðan sé á?

Baldvin Jónsson, 4.4.2009 kl. 19:02

12 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Ég upplifði forsvarsmann Borgarahreyfingarinn mjög jarðtengdann?...Baldvin takk fyrir þetta fína yfirlit!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 4.4.2009 kl. 19:07

13 Smámynd: Þór Jóhannesson

Sæll gamli félagi.

Sá linkinn frá þér á facebook og að þú biður um heimsóknir frá fólki sem getur raunverulega rökstutt mál sitt. Ekki ætla ég að fara út í hvað mér fannst um frammistöðu Þórs í Kastljósinu í gær.

En eftir að hafa lesið yfir öll ósköpin fæ ég ekki séð að Grímur hér eða aðrir séu á eitthvað öðrum röksemdargrundvelli en þú sjálfur - sem beitir fyrir þér mér finnst rökum eins og þeir í gegnum alla færsluna þína. Það ætti einfaldlega ekki að koma neinum á óvart að þér hafi fundist Þór koma best út úr spjallþættinum.

Lifðu heill, og lifi byltingin (þó okkur deili á um hvar hún fái lifað sem lengst).

Þór Jóhannesson, 4.4.2009 kl. 19:33

14 Smámynd: Þór Jóhannesson

Verð að bæta við að það hryggir mig þó að Grímur ætli að kjósa Samfylkinguna þó vissulega sé það skárra en að hann skili auðu eða kjósi Framsókn eða Sjálfstæðisflokk.

Þór Jóhannesson, 4.4.2009 kl. 19:35

15 Smámynd: Baldvin Jónsson

Endilega bentu mér á það sem þú skilur ekki hjá mér hérna Þór eða finnst þarfnast frekari skýringa. Þessi færsla er að stærstum hluta bara svör talsmannanna tekin af vef RÚV.

Baldvin Jónsson, 4.4.2009 kl. 19:47

16 Smámynd: Þór Jóhannesson

Ef þú ætlar að svara með spurningur geri ég það líka. Endilega bentu mér á hvar þeir Grímur, Bjarni og Þórunn er svo ómálefnalega að þú sérð ástæðu til að henda þeim út vegna grófar yfirlýsina sem þér greinilega líkar ekki sem gild svör?

Þór Jóhannesson, 4.4.2009 kl. 20:38

17 identicon

Grímur

Ég er forvitinn. Mig langar að varpa nokkrum spurningum á þig.

Hvað er það sem lætur þig missa trú á Borgarahreyfingunni á einum degi?

Heldurðu að Þór Saari hafi sagt eitthvað annað en það sem kemur fram í stefnuskrá Borgarahreyfingarinnar?

Hefurðu opin hug gagnvart því að það gæti verið til fólk sem er komið með ógeð af ástandinu og er tilbúið að gera eitthvað?

Geturðu látið það framhjá þér fara að styrkja það fólk?

Hvað finnst þér um skoðanir Þórs Jóhannessonar um það að atkvæði séu dauð nema Vinstri Grænir fái þau? (skemmtileg aukaspurning)

Ég hvet þig jafn framt að ræða við fólk á kosningaskrifstofunni á Laugarvegi 40 ef þér finnst eitthvað ekki ganga upp sem er í stefnuskrá borgarahreyfingarinnar.

Jóhann Gunnar (IP-tala skráð) 4.4.2009 kl. 22:06

18 Smámynd: Baldvin Jónsson

Bjarna og Þórunni er ekki hótað hér brottrekstri, en Þórunni spyr ég hins vegar nánar út í efni svars hennar.

Grímur hins vegar fullyrðir hér fyrst að Borgarahreyfingin sé ekki í sambandi við raunveruleikann, að við séum á lágu plani og að við séum að leggja fram einhverjar töfralausnir. Næst segir hann að við vitum ekkert í okkar haus.

Í báðum athugasemdum sínum er Grímur með gífuryrði og fullyrðingar sem ég er alveg tilbúinn til þess að láta standa hérna geti hann rökstutt meiningu sína. Geti hann það ekki finnst mér þetta afar ljótt níð.

Spurningu minni til þín Þór er þó enn ósvarað, hvaða hluti færslu minnar þarfnaðist nánari skýringar að þínu mati?

Baldvin Jónsson, 4.4.2009 kl. 22:07

19 Smámynd: Þór Jóhannesson

Jóhann Gunnar - þú hlýtur að vera einhver besti and-áróður sem hægt er að hugsa sér gegn Borgarahreyfingunni - komandi fram með svona forheimksulegar ályktanir (láttu nú Birgittu kenna þér eitthvað um "Lífsreglurnar fjórar" áður en þú gerir þig að fífli endanlega með svona ályktunardrætti úr í bláinn) um að öll atkvæði séu dauð nema greidd séu vinstri grænum. Svona skortur á dómgreind hlýtur að teljast til einsdæmis fyrir stuðningsmenn Borgarahreyfingar Framsóknarmannskins Þráins Bertelssonar. Þú ert greinilega jafn kjánalegur og stefna hreyfingarinnar sem er þykist vera byltingarframboð þó enginn talsmaður byltingarinnar vilji láta sjá sig í kílómetra fjarlægð frá ykkur.  (sorry Baddi - var búinn að ákveða að láta ekki þessar skoðanir mínar í ljós en þegar svona dindilskapur mætir mér eins og frá Jóhanni Gunnari þá get ég ekki annað en svarað).

Baddi - mér þykir of hlýtt til þín að fara ofan í sandkassan  með þér ef þetta er röksemdafærslan sem þú notar til að endurvarpa spurningunni - aftur! En lítið og einfalt svar felst m.a. í þessum orðum þínum "Mér fannst Þór Saari standa sig afar vel ... og ... samanber ný plásturslög (eru það sömu plástrar og Ástþór var að tala um?) sem verið var að samþykkja ofan á lögin um gjaldeyrishöftin.

En þessi nýju lög um gjaldeyrishöftin eru knúin fram vegna siðleysis bankamanna í viðskiptum - er Borgarahreyfingin í alvöru ekki meðvituð um það? Það er skelfilegt til þess að hugsa að þið séuð svo græn (þó þið séuð Framsóknargræn).

Viltu meira?

Þór Jóhannesson, 5.4.2009 kl. 00:17

20 Smámynd: Baldvin Jónsson

Nei Þór, ég vil ekki meira af þessu Framsóknar áróðurs bulli. Mér býður við því að taka þátt í þessum samskiptum.

Fannst þér Þór í alvöru ekki standa sig vel?

Er andúð þín á Þránni Bertelssyni svo sterk að þú dæmir okkur öll aumingja? Hefurðu rætt þessi mál við Hörð Torfason? Þorvald Gylfason? Einar Má?  Ég get bara svarað því til fyrir þá sem ég hef heyrt á götunni, en það er að Hörður Torfason tók þá ákvörðun að vera ekki pólitískur og þar með ekki frambjóðandi. Þorvaldur Gylfason er eftir því sem ég best veit Samfylkingarmaður og er einnig að sækja um starf Seðlabankastjóra og Einar Már er í framboði fyrir VG. En ég man nú ekki betur en að ég hafi verið búinn að benda þér á þetta áður, þú bara kýst að hunsa það sem hentar ekki rægjingarherferð þinni gegn Borgarahreyfingunni.

Við gerum okkur skýra grein fyrir því hvers vegna þessi nýju lög eru sett til viðbótar höftunum sem voru fyrir. Þar er ekki aðeins um að kenna siðleysi bankamanna heldur einnig ýmissa útgerðarmanna sem fóru að taka þátt í þessum svarta markaði með krónuna og settu þar með í raun af stað keðjuverkunarferli sem varð að stöðva áður en að allt færi hér endanlega í þrot. Lögin voru því sett til að verja okkur í bili gagnvart vafasömum viðskiptaháttum. Þetta þyrfti ekki ef krónan væri ekki rúin öllu trausti og skýrir það þessa nálgun mína að efninu.

Ég er þó líklega bara of blindur til þess að sjá í hverju rökleysi mitt liggur. Ég endurtek því að hér er ekkert sett fram af mér sem ekki er ágætlega rökstutt eða útskýrt og þú svarar ekki enn spurningu minni um það þrátt fyrir að hafa nú ítrekað gefið það í skyn.

Baldvin Jónsson, 5.4.2009 kl. 01:24

21 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Þór er orðinn einn besti talsmaður Borgarahreyfingarinnar. Hann gerir sér greinilega ekki grein fyrir þvi... en það er allt í lagi :)

Þór Saari kom mjög vel út í þessum umræðum. Enda talar hann sannleikanum samkvæmt á meðan hinir hagræða sannleikanum eins og þeim hentar best í valdagræðgisblindu sinni
"Það má vel vera að það séu einhverjar íbúði til sölu á þessu svæði"...really? Var þetta besta sem Sjálfstæðispuntudúkkann gat sagt við því að það væru tæplega 400 ibúðir til sölu á hinu "mikla" uppbyggingarsvæði Kárahnjúkavirkjunnar??

Hinir, líka hið "græna" framboð höfðu ekkert um þetta að segja.

Heiða B. Heiðars, 5.4.2009 kl. 11:40

22 Smámynd: Þór Jóhannesson

Meiriháttar hvað Bloggarahreyfingin er farin að tóna með Sjálfstæðisflokknum í samsæriskenningum sínum mig!!!

Þór Jóhannesson, 5.4.2009 kl. 11:57

23 Smámynd: Hilmar Dúi Björgvinsson

Ég hef aldrei verið hlynntur því Baldvin að menn séu að tala krónuna niður eins og Þór gerði í þættinum. Við eigum frekar að tala hana upp ef eitthvað er. Þessi gjaldmiðill verður okkar gjaldmiðill þangað til annað kemur í ljós. Við erum ekki að fara að skipta um gjaldmiðil 26.apríl.

Hilmar Dúi Björgvinsson, 5.4.2009 kl. 14:25

24 identicon

Þetta rugl um að menn séu að tala upp eða niður þetta og hitt er það sem kom okkur í þetta. Bankamenn og ráðamenn stingandi skýrslum um slæma ástandið hér ofan í skúffu. Þetta ÞARF að fara upp á borðið. Tala hreint og beint. Það er það sem þjóðin þarf. Ekki að hafa áhyggjur af því að tala krónuna niður. Lýsir það líka ekki hversu slæmt og viðkvæmt ástand krónan er í að þú ert að lýsa áhyggjum þínum yfir því að menn séu að tala hana niður?

Það að tala niður eitthvað hefur verið þrýst inn í heilann á okkur. Maður á bara segja hlutina eins og þeir eru. Vera heiðarlegur. Við erum ekki að fara eyðileggja krónuna með að tala um staðreyndirnar. Að hún sé búin að vera (nánast í minum huga amk) er staðreynd. Það er búið að eyðileggja hana samt var aldrei verið að tala hana niður, það var nánast bannað. Pældu í því.

Jóhann Gunnar (IP-tala skráð) 5.4.2009 kl. 22:02

25 Smámynd: Baldvin Jónsson

Hilmar Dúi, það er mjög raunhæfur möguleiki að hægt væri að skipta út krónunni á afar skömmum tíma eftir kosningar. Mjög raunhæfur möguleiki. Það er hins vegar um að gera að tala um hlutina eins og þeir eru og vera ekki að reyna að fegra þá eitthvað. Segjum bara fólki satt. Krónan er jafn eftirsótt í dag á alþjóðamarkaði og Clariol fótanuddtæki.

Baldvin Jónsson, 5.4.2009 kl. 22:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband