Mun Lýðveldisbyltingin bjóða fram? - Fyrirspurn til allra þingflokka um stjórnlagaþing

Við félagar í Lýðveldisbyltingunni viljum berjast fyrir lýðræðisbreytingum í samfélaginu með öllum tiltækum ráðum.

Lýðveldisbyltingin er hreyfing sem berst fyrir lýðræðinu, opnu og gagnsæu samfélagi, og berst um leið gegn flokksræðinu. Hreyfingin hefur unnið sleitulaust undanfarnar vikur að því að móta stefnu sem miðar að því að opna samfélagið, auka gagnsæi, réttlæti og jafnrétti og tryggja áhrif almennings á stjórn landsins.

Í henni felst m.a. að; innleiða persónukjör i kosningum og þjóðaratkvæðagreiðslur um mikilvæg málefni, afnema hina illræmdu 5% reglu sem útilokar ný framboð, tryggja upplýsingaskyldu stjórnmálamanna um eignir í fyrirtækjum og stjórnarsetu, afnema hin óréttlátu eftirlaunalög og setja þingmenn i lífeyrissjóð opinberra starfsmanna, lækka verulega styrki til stjórnmálaflokka og jafna þá milli flokka og banna ráðherrum að sitja samtímis sem þingmenn svo fátt eitt sé nefnt.

Ein leið til að koma þessum stefnumálum í framkvæmd er stjórnlagaþing. Nú er einstakt tækifæri til að koma því á og tryggja breytingar í lýðræðisátt til framtíðar. En stjórnmálaelítan reynir nú að leggja stein í götu þessarar hugmyndar. Kostnaður er sögð aðalástæðan en það er auðvitað bara fyrirsláttur enda hugnast þeim ekki að almenningur, fólkið í landinu, geti í alvöru haft áhrif á ákvarðanir þeirra. Lýðveldisbyltingin hefur m.a. hugmyndir um að hægt sé að stofna til stjórnlagaþings á mun hagkvæmari hátt en núverandi áætlanir gefa tilefni til.

Því hefur Lýðveldisbyltingin sent fyrirspurn á alla þingflokka, þingmenn og fjölmiðla og óskar eftir svörum stjórnmálaflokkanna við einföldum, en skýrum spurningum.

------------

Fyrirspurn til þingflokka stjórnmálaflokkanna um stjórnlagaþing:

Lýðveldisbyltingin fagnar hugmyndum stjórnmálaflokkanna um stjórnlagaþing en krefst þess að fá skýr svör við eftirfarandi spurningum til að geta metið hvort flokkunum sé alvara. Einnig hvort slíkt þing hefði ótvírætt umboð til að gera tillögur að nauðsynlegum breytingum sem lagðar yrðu í dóm almennings með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Lýðveldisbyltingin krefst skýrra svara frá stjórnmálaflokkunum um eftirfarandi:

1. Verður frumvarp til laga um stjórnlagaþing lagt fram af flokknum eða mun það hljóta stuðning flokksins fyrir þorraþræl, þann 21. febrúar 2009?
2. Hvernig vill flokkurinn að staðið verði að vali fulltrúa á stjórnlagaþing?
3. Vill flokkurinn að tillögur stjórnlagaþings um breytingar á stjórnarskrá verði lagðar undir dóm almennings með þjóðaratkvæðagreiðslu?
4. Vill flokkurinn að lög um stjórnlagaþing verði samþykkt fyrir kosningar 25. apríl 2009?
5. Fá lögin um stjórnlagaþing einróma stuðning flokksins eftir kosningar 25. apríl 2009?
6. Hvaða dag áætlar flokkurinn að stjórnlagaþing hefjist?
7. Hversu lengi áætlar flokkurinn að stjórnlagaþing standi yfir?
8. Vill flokkurinn að hreyfingum á borð við Lýðveldisbyltinguna verði gert kleift að hafa áhrif á lagafrumvarp um fyrirkomulag stjórnlagaþings?

Ríkisstjórnarflokkarnir ákváðu kjördag þann 25. apríl, sem er óvenju stuttur fyrirvari. Það er því lýðræðisleg skylda stjórnmálaflokkanna að svara þessum grundvallarspurningum til að hindra ekki almenning í að nýta lýðræðislegan rétt sinn til að hafa áhrif í kosningum.

Lýðveldisbyltingin óskar svara við þessum mikilvægu spurningum og að svörin verði send á netfangið lydveldi@lydveldisbyltingin.is eigi síðar en 18. febrúar 2009.

Framboð til Alþingis

Geti flokkarnir ekki veitt skýr svör um afstöðu sína til stjórnlagaþings er aðeins ein leið fær fyrir Lýðveldisbyltinguna til að koma á þeim lýðræðisbreytingum sem almenningur kallar eftir. Sú leið er að bjóða fram til Alþingis undir eigin nafni og koma á breytingum í lýðræðisátt, m.a. með breytingum á stjórnarskrá og kosningalögum. Að því loknu yrði hreyfingin lögð niður.

Um Lýðveldisbyltinguna

Lýðveldisbyltingin er öflug hreyfing venjulegra Íslendinga og opin fyrir alla Íslendinga um allan heim. Markmið hennar er að koma á breytingum sem bæta samfélag okkar með því að endurskilgreina ábyrgð, auka gagnsæi, réttlæti og jafnrétti og koma þannig á lýðræðisbreytingum á stjórnskipan íslenska lýðveldisins. Meginbreytingarnar felast í því að koma á betra jafnvægi í aðgreiningu löggjafarvalds, framkvæmdarvalds og dómsvalds og styrkja þannig undirstöður lýðræðisins með þrískiptingu valdsins. Undanfarnar vikur hefur Lýðveldisbyltingin unnið sleitulaust að því að móta hugmyndir að breyttri stjórnskipan íslenska lýðveldisins og hefur á að skipa áhugasömum einstaklingum sem eru tilbúnir til að leggja á sig þrotlausa vinnu við að endurreisa lýðræðið á Íslandi með þátttöku á stjórnlagaþingi, opinberum og opnum vettvangi.


Lýðveldisbyltingin
- endurreisn lýðræðis
http://www.lydveldisbyltingin.is


Afrit sent til:
Alþingismanna
Fjölmiðla
Almennings


mbl.is Samfylkingin stærst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta líst mér vel á. Spurning hvað flokkarnir segi við þessu? Mig rennir nú í grun að þetta fái ekki hljómgrunn hjá flokkunum, og sennilega er framboð eina lausnin.

david (IP-tala skráð) 17.2.2009 kl. 04:10

2 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Fagna allri umræðu um breytingar á okkar stjórnskipan og styð heilshugar hugmyndina um að efna til Stjórnlagaþings. Heildarendurskoðun á stjórnarskrá og kosningareglum, er að mínu mati og margra annarra, eina raunhæfa leiðin til að skapa hér nýtt lýðveldi. Lýðveldisbyltingin er að vinna mikið þarfaverk og ég bíð spennt eftir svörum stjórnmálaflokkanna. Hópurinn sem ég tilheyri og kallar sig Nýtt lýðveldi, vinnur að því að skapa þrýsting á stjórnvöld með undirskriftasöfnun á netinu, sama markmið, önnur aðferð.

Efnum til Stjórnlagaþings til að gera heildarendurskoðun á stjórnarskrá og kosningareglun fyrir Ísland. Þið sem eruð sammála mér, farið inn á www.nyttlydveldi.is  Það gefst kostur á að skrifa undir áskorum til stjórnvalda. Sköpum þrýsting - skrifum undir.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 17.2.2009 kl. 05:25

3 identicon

Lýðveldi þarf "viðhald" eins og allt annað í lífinu.

Við verðum að átta okkur á þeirri einföldu staðreynd að Ísland er gjörbreytt.

Ef fjórflokkarnir eru á móti stjórnlagaþingi er það mjög alvarlegt mál.

Ég mæli með góðri og tímabærri lesningu bókinni "Endalok Ameríku" eftir Naomi Wolf. Fæst hér m.a.

Eða ætla Íslendingar að sofna aftur á verðinum ?

Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 17.2.2009 kl. 09:07

4 Smámynd: Valan

Frábært framtak hjá ykkur í Lýðveldisbyltingunni. Stjórnarskráin er endanlega búin að undirstrika stöðu sína sem skúffuskraut og stjórnlagaþing er eina leiðin til þess að lögmæt lýðveldisleg stjórn komist aftur á í landinu. Þangað til munum við búa við spillingu.

Valan, 17.2.2009 kl. 12:42

5 Smámynd: Villi Asgeirsson

Líst vel á þetta.

"...tryggja upplýsingaskyldu stjórnmálamanna um eignir í fyrirtækjum og stjórnarsetu..." Ef fólk veit um tengingar stjórnmálamanna við atvinnulífið, vil ég biðja það að kíkja á www.nyjaisland.is og hjálpa mér að fylla Ættartréð.

Villi Asgeirsson, 17.2.2009 kl. 13:42

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Já, við sofum iðulega á verðinum og sennilega Lýðveldisbyltingin líka!

Þið (o.fl. smá samtök) eruð, sýnist mér, að missa af lestinni. Þessi frestur fyrir gömlu Alþingiseigendaflokkana að svara verður sennilega ekki til þess að nein svör fáist. Þar að auki eru spurningarnar of ýtarlegar, á meðan aðalatriðið samt gleymist! Hafðu samband við mig, Baldvin, eða svaraðu hér, og þú færð skýringarnar um hæl.

Jón Valur Jensson, 17.2.2009 kl. 16:37

7 Smámynd: Baldvin Jónsson

Sæll Jón Valur, endilega skelltu skýringum inn hér. Ég er mikill stuðningsmaður opinnar umræðu um alla hluti.

Baldvin Jónsson, 17.2.2009 kl. 16:45

8 Smámynd: Villi Asgeirsson

Jón Valur. Kannski lestin bíði eftir okkur, ef eitthvað er að marka nýtt frumvarp um persónukosningar. Nú er bara að sjá hvort Sjallar og Framsókn geri nokkur vesen úr því.

Villi Asgeirsson, 17.2.2009 kl. 16:49

9 Smámynd: Jón Valur Jensson

Frumatriði er að breyta kosningalögunum án tafar. Það á ekki að láta minnihlutastjórnina komast upp með að breyta því einu að taka upp persónukosningar samhliða hinu kerfinu. Það á að einbeita sér að örfáu í byrjun, það verður ekki miklu breytt á næstu tveimur mánuðum, það er bara ekki tími til þess né til að ná samstöðu á þingi um það með hægðinni, eins og mér sýnast simir búast við. Gerið ráð fyrir bæði tregðu og tímatöfum og harðri andstöðu flokkseigendafélaganna við þær helztu breytingar sem þörf er á. En þær eru þessar:

  1. Að gera Reykjavík aftur að einu kjördæmi. Þá er hægt að ná þar inn þingsæti út á um 4–5% atkvæða, í stað þess að nú þarf um 7,5%–10% til.
  2. Að fella niður 5% þröskuldinn til að fá uppbótar-þingsæti. En athugið, að enginn fær uppbótarþingsæti án þess að fá a.m.k. einn kjördæmakjörinn.

Nýjar stjórnmálahreyfingar missa algerlega af lestinni, ef þær átta sig ekki á þessu og ef þær eru ekki með þeim mun geysilegra fjöldafylgi. En þær eru í raun margskiptar (ég geymi nmeð mér athugasemd um það!) og koma naumast fram á skoðanakönnunum! Þær þurfa að átta sig á því, að það þarf meira til en það, sem þær eru að gera, til að velta því hlassi, sem þarna er við að eiga.

Fyrir utan þessi framtöldu meginatriði, sem baráttan þarf að standa um, er einnig um aðra erfiða tálma að ræða, sem ættu að sýna mönnum – ekki, að baráttan sé vonlaus, heldur að fleiri ástæður gera það knýjandi, að sú barátta fái að standa um aðalatriðin tvö (hér ofar), því að ella er mjög hætt við, að engin þessara nýju framboða nái inn þingmönnum (enda hefðu skoðanakannanir, sem sýna myndu, að naumast nokkur þeirra næði inn í tvískiptri Reykjavík, óhjákvæmilega þau áhrif, að menn þori ekki að kasta á þau atkvæðum sínum). En þessir aukatálmar eru:

  1. Fimmflokkurinn fær hátt í 400 milljónir kr. (nýlega hækkuð fjárhæð!) í styrk úr vasa almennings, á meðan ný framboð fá EKKERT (nema eftir á, ef þær ná tilteknu lágmarksfylgi).
  2. 63 þingmenn Fimmflokksins eru hálaunaðir (jafnvel með um 130.000 kr. meira en opinberlega er talað um á mán.), atvinnumenn í fullri vinnu við pólitíska baráttu. Þetta eykur enn á forskot Fimmflokksins!
  3. 1890 til 2520 meðmælendur þarf með 63 þingmmennskuframbjóðendum og 63 varamönnum, sem hver listi býður fram á landsvísu. Þetta er mikill fjöldi manna, en skammur tími til stefnu að skila framboðum (fyrir 10. apríl). Þarna hefur Fimmflokkurinn einnig forskot, er sennilega með nál. 80 þúsundir meðlima á flokksskrám og netföng stórs hluta þeirra.
  4. Gömlu flokkarnir eiga stórar flokksskrifstofur, jafnvel hallir, til fundarhalda, meðan aðrir eru að byrja frá grunni með örstuttum fyrirvara.

Þess vegna þarf bæði snör viðbrögð og snjalla strategíu, ef takast á að brjóta þá vanabindandi flokksmúra og vígstöðu Fimmflokksins sem heldur nýrri lýðræðisvakningu í skefjum. Ræddu við mig um það, Baldvin, ég hef þá strategíu tilbúna.

Jón Valur Jensson, 17.2.2009 kl. 17:55

10 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það er algert frumskilyrði í allri þessari baráttu að gera Reykjavík aftur að einu kjördæmi. Menn verða að átta sig á algeru mikilvægi þess og beita sér í samræmi við það, ella getur allt ykkar erfiði orðið til einskis. Um þetta hef ég rætt í Útvarpi Sögu; sjá einnig um það atriði og fleiri ekki sízt þessa grein mína:

Misnotkun fjórflokksins á ríkisfé og kosningalögum til valdaeinokunar.

Jón Valur Jensson, 17.2.2009 kl. 18:07

11 Smámynd: Baldvin Jónsson

Takk fyrir þetta Jón Valur, mikilsverðir punktar og ég mun strax taka þetta upp í umræðunni hjá grasrótinni.

Baldvin Jónsson, 17.2.2009 kl. 19:32

12 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

frábært að fá þetta innlegg Jón Valur - alveg hárrétt athugað hjá þér.

Birgitta Jónsdóttir, 17.2.2009 kl. 22:49

13 Smámynd: Jón Þór Ólafsson

Já, Jón Valur, fimmflokkurinn er vel staðsettur innan virkismúra kosningalaganna og hefur bæði meira fé, fleiri fylgismenn og betur smurðar kosningavélar en Lýðveldisbyltingin, en ég veit að við getum snúið á þá ef strategían er góð og viljinn mikill. Ég er einnig að vinna að þeirri strategíu og hefði mikinn áhuga á að bera saman bækur.

Jón Þór Ólafsson, 18.2.2009 kl. 00:16

14 Smámynd: Jón Þór Ólafsson

Hér er linkur fyrir alla sem hafa áhuga á að skapa hér lýðræðislegra samfélag. Linkurinn er á bók um hvernig skuli vinna pólitísk völd og vilja sér í vil: "The Game of Politics - Game Manual"

Jón Þór Ólafsson, 18.2.2009 kl. 00:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband