Kaldhæðnin er sú að það er ofríki og spilling "Sjálfstæðis"flokksins sem nú ýtir þjóðinni í átt að afsali sjálfstæðis
12.2.2009 | 09:35
Eftir að Sjálfstæðisflokkurinn, eins kaldhæðið og það nafn nú virðist, hefur ríkt í 18 ár án hlés og að mestu frá 1929 er nú svo komið að þjóðin stendur frammi fyrir því að vera að velja um hvort að hún eigi að afsala sér sjálfstæði sínu algerlega eður ei. Við erum þegar búin að missa fjárræðið í hendur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, eins og augljóst varð þegar Steingrímur J. snarþagnaði og gleymdi öllum sínum yfirlýsingum um leið og hann settist í sæti fjármálaráðherra. AGS einfaldlega ræður hér peningastefnunni næstu áratugina og er það óskandi að það verði okkur til góðs - reynslan af stórtækum inngripum AGS í fjármál annarra landa hefur verið afar mistæk og yfirleitt valdið mun meiri skiptingu auðs en fyrir var.
Þjóðin er hins vegar í alvöru að íhuga afsal sjálfstæðis vegna þess að ástandið hér er orðið svo svart að fólk telur sig betur komið með því að afsala sér sjálfræðinu en að lifa áfram við núverandi aðstæður. Eftir áratuga spillingu og yfirtöku lýðræðsins frá fólkinu eru kostirnir fyrir fólki orðnir þetta dramatískir.
Það er þó annar kostur í stöðunni sem mér persónulega hugnast mun betur. Sá kostur er að stíga fram og taka ábyrgð á eigin lífi og velja að endurheimta lýðræðið frá flokksræðinu. Að velja að taka umboð okkar til baka, að velja að atkvæði mínu skuli ekki varið til þess að fóðra frekar flokksræðið og spillinguna sem því fylgir.
Þetta á til jafns við um alla þá flokka sem sitja á þingi í dag.
Þú getur stigið fram og valið að vera gerandi en ekki þolandi í þínu lífi. Undanfarnar vikur hefur vaskur hópur fólks unnið að uppbyggingu nýrrar hreyfingar fyrir opnum tjöldum undir heitinu Lýðveldisbyltingin.
Við í Lýðveldisbyltingunni eigum okkur þá ósk heitasta og það markmið að leggja af flokksræðið í þeirri mynd sem það ríkir yfir okkur öllum í dag. Það eru einfaldar leiðir færar til þess, en til þess að svo megi verða verðum við að taka okkur saman, öll þjóðin, um það að hætta að kjósa yfir okkur endalaust sama fólkið í mismunandi flokkum og fötum, en sem stefna öll að sama marki. Að tryggja sér völd.
Fljótlegasta leiðin að mínu mati til þess að leggja af núverandi flokksræði er að taka upp persónukjör. Ekki hugmyndina um það persónukjör sem að flokkarnir í dag hafa tekið upp hjá okkur í umræðunni og skrumskælt illilega. Við viljum persónukjör þar sem að það er raunverulega málið. Persónukjör þar sem að við getum kosið okkur þá einstaklinga sem að við viljum sjá á Alþingi þvert á flokka. Að ég geti kosið einhverja einstaklinga af listum stjórnmálaflokkanna og að á sama tíma sé til listi óháðra þaðan sem að ég get einnig kosið þá einstaklinga sem að mér líkar við.
Með því að taka upp þessa leið erum við að styrkjja það að hugsjónir komist aftur inn á Alþingi. Að hugsjónafólk geti boðið fram, hvort sem er óháð eða á lista flokka, með eigin hugsjónir og markmið í stað þess að endurspegla bara heildarstefnu flokksins. Með því að geta kosið persónur en ekki bara flokka get ég valið að kjósa það fólk sem að mér hugnast málefnin hjá.
Þegar ég kýs flokka í dag, er ég um leið að neyðast til þess að kjósa alla málefna skrá þeirra og það er einfaldlega málamiðlun sem er orðin úrelt og óþörf.
Persónukjör þar sem við getum raunverulega kosið persónur, en ekki bara fengið að raða upp fólki innan eins lista eins og er í kosningalögunum í dag, er raunveruleg endurheimt hluta lýðræðisins og það á kostnað flokksræðisins sem að að mínu mati ætti að leggjast af hið fyrsta. Stjórnmálasamtök eiga að mínu mati að vera kraftmiklar grasrótarhreyfingar þar sem hugsjónir og málefna vinna blómstra. Ekki uppeldisstöðvar einstaklinga sem hafa á endanum öll sömu stefnu þegar þau loks koma sér á framfæri.
Hérna geturðu séð nánari upplýsingar um stefnumál Lýðveldisbyltingarinnar og haft áhrif á þau.
Yfirflokkar stefnumálanna eru þessir:
Stefnumálin okkar - í vinnslu (þú getur haft áhrif hér á)
- Vald til þjóðarinnar og framsal valdheimilda - sjá nánar
- Jafnræði í alþingiskosningum - sjá nánar
- Ráðningatími og launakjör ráðamanna - sjá nánar
- Skipting valds - sjá nánar
- Opin og gagnsæ stjórnsýsla - sjá nánar
- Grundvallar mannréttindi tryggð - sjá nánar
Ég tel að það sé öruggt að uppbygging hreyfingar eins og Lýðveldisbyltingarinnar, þar sem öll vinnan fer fram opinberlega á netinu algerlega fyrir opnum tjöldum, sé algerlega einstök í sögunni. Hér er á ferðinni sönnun þess að lýðræðið getur virkað án stöðugrar miðstýringar - að fólkinu í landinu er svo sannarlega treystandi sjálfu til þess að hafa áhrif og koma skoðunum sínum á framfæri.
Þetta er byltingarkennd hugmynd en nú eru líka tímar þar sem þörf er á byltingu hugans úr viðjum gamals hugarfars. Það er fátt að óttast í dag nema að ekkert breytist og að þetta hrun endurtaki sig.
Vertu með - þú getur haft raunveruleg áhrif á líf þitt og þinna.
Lýðræðishallinn heimafyrir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:37 | Facebook
Athugasemdir
Spurning um að fara leita hjálpar til geðlæknis Baddi minn
Ómar Ingi, 12.2.2009 kl. 09:59
Þú ert óðfluga að nálgast fertugt Ómar minn, ertu alltaf svona röklaus? Er það rappið?
Baldvin Jónsson, 12.2.2009 kl. 10:23
já við klikkuðum. við vorum svo vitlaus að hlusta á gaulið um ágæti EES. ég viðurkenni það fúslega að við sjálfstæðismenn klikkuðum á þessum og núverandi hörmungar er því að kenna að við stóðum ekki vaktina. enda má rekja allar okkar hörmungar til handónýtra laga sem koma frá kontoristum í Brussel í gegnum EES samningin. án EES hefði aldrei orðið neitt til sem heitir Icesave eða að íslenskir bankar gætu opnað útibú á erlendri grundu.
Fannar frá Rifi, 12.2.2009 kl. 10:31
Lýst vel á þetta framtak Baldvin, væri samt til í að sjá eitthvað söluvænt hjá þér
td. eitthvað fyrir börnin, einstæðu mæðurnar, ef þú skilur hvað ég á við.
Þá geturðu tekið eitthvað af atkvæðum frá V-g og samfó.
Lýst nefnilega vel á X-D og framsókn í vor
Annars er ekkert að því að fara til geðlæknis
einar (IP-tala skráð) 12.2.2009 kl. 17:50
alltaf hef ég talið Fannar frá Rifi vera framsóknarmann.. en þessi yfirlýsing er öllu verri frá honum Já íslenskir sjálfstektarmenn eru gerspilltir, grunnhyggnir og siðblindir.. allir sem einn !!
Óskar Þorkelsson, 12.2.2009 kl. 18:11
EES kostar okkur í dag 5 milljarða evra vegna Icesave og þá getur eitthvað meira komið til. auk þess kostar það okkur um 300 til 600 milljarða í endurfjármögnun á íslensku bönkunum.
þannig að þetta er svona í besta falli skuldir upp á 1000 milljarða króna ef allt fer á besta veg og við fáum eitthvað fyrir eignir í Bretlandi.
Fannar frá Rifi, 12.2.2009 kl. 20:31
Ekki kenna krossD um allt... framsókn, samfylking og bara allir stjórnmálamenn sem og stjórnsýslan klikkuðu.
Og svo náttlega elítan.
DoctorE (IP-tala skráð) 13.2.2009 kl. 08:39
Þetta klikkaði allt.
Ætlar íslenska þjóðin að klikka líka.. eða ætlum við að rísa upp og krefja þetta fólk um vönduð vinnubrögð?
http://www.lydveldisbyltingin.is
anna (IP-tala skráð) 13.2.2009 kl. 08:56
"EES kostar okkur í dag 5 milljarða evra vegna Icesave", ekkert annað en útúrsnúningur þeirra sem eru að leita að hálmstráum, lætur í veðri vaka að íslenskir stjórnmálamenn kunni ekki að lesa samninga, nenni því ekki eða skilji ekki það sem þeir voru að lesa.
Ég efast um að það sé svo þó að mér líki ekki við íslenska stjórnmálamenn sem virðast aðalega uppteknir við að skemmta sér í morfískeppnum á alþingi.
Vanhæfi þeirra væri hinsvegar algert ef EES samningurinn var ofar þeirra skilningi.
Atli (IP-tala skráð) 13.2.2009 kl. 12:26
Sæll Baldvin
Flott. Má ég kópera þetta yfir á mína síðu og nota sem bloggfærslu þar?
Ég mun fljótlega koma með mína útgáfu sem gengur út á samanburð........
Guðni Karl Harðarson, 13.2.2009 kl. 14:14
Sæll Guðni, þér er velkomið að nýta þetta eitthvað í þínum skrifum að sjálfsögðu. Endilega bara geta um uppruna þar sem þú notar beinar tilvitnanir. Efnið frá Lýðveldisbyltingunni er síðan að sjálfsögðu öllum opið og aðgengilegt og eigum við okkur þá ósk heitasta að sem flestir vilji "stela" því og nota í sinni málefna vinnu.
Baldvin Jónsson, 13.2.2009 kl. 14:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.