Hvers vegna á Davíð Oddsson umsvifalaust að segja af sér?

Ég er búinn að renna snöggt í gegnum nokkrar síður í kvöld þar sem víðsvegar er verið að taka saman áhugaverðar staðreyndir um Davíð og aðgerðir hans og hegðun fram að þessu.

Ákvað að taka þetta sem mest saman hérna í upptalningu, upptalningin er ekki í neinni áhrifaröð. Dæmi nú hver fyrir sig.

Hvers vegna Davíð Oddsson ætti umsvifalaust að segja af sér sem Seðlabankastjóri:

Af eyjan.is:
1. Seðlabankinn er gjaldþrota. Stjórnendur hans töpuðu 150 milljörðum í óvarlegri lánastarfsemi til svokallaðra „óreiðumanna” í því sem kallað var ástarbréfaviðskipti. Þetta jafngildir hálfri milljón króna á hvert mannsbarn í landinu.
2. Seðlabankinn nýtti ekki góðu dagana til að byggja upp gjaldeyrisvaraforða í samræmi við vöxt fjármálakerfisins, þrátt fyrir ábendingar um nauðsyn þess, m.a. frá Þorvaldi Gylfasyni. Viðbúnaður bankans við fjármálakreppu var því í skötulíki.
3. Jafnvel í vor synjaði bankinn láni frá J.P. Morgan sem bauðst á góðum kjörum og nam hærri fjárhæð en aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins nú. Lýsir það ótrúlegu vanmati á viðbúnaðarþörf.
4. Bankinn áttar sig ekki á hlutverki sínu í fjármálastöðugleika og beitti ekki stjórntækjum sínum til að hemja vöxt bankanna, heldur lækkaði þvert á móti bindiskyldu sem var mjög misráðið.
5. Seðlabankinn hefur nær aldrei náð verðbólgumarkmiði sínu frá því honum var sett það í upphafi aldarinnar.
6. Bankinn vanmat augljóslega áhrif of sterks gengis á neyslu og fjárfestingagleði og þar með þenslu.
7. Að geyma gjaldeyrisforða þjóðarinnar á Englandi eftir að Icesave-vandinn var ljós og hætta á frystingu hans, er líkt því að vera í sjóorrustu hjá skipstjóra sem gleymdi púðrinu í landi. Yfirsjónin ætti að varða við þjóðaröryggi.
8. Óviðunandi er að stjórnendur Seðlabankans hafi frétt það í London í febrúar sl. að íslensku bankarnir væru í alvarlegum vanda. Ætlast verður til þess vegna stöðu og hlutverks bankans að hann hefði átt að uppgötva það sjálfur og fyrr.
9. Óskiljanlegar eru ívilnanir hinn 15. apríl í tengslum við bindiskyldu vegna útibúa erlendis eftir þær upplýsingar sem Seðlabankinn hafði fengið í London.
10. Hafi Seðlabankinn fengið svo greinargóðar upplýsingar um stöðu bankanna í London er skýrsla bankans um fjármálalegan stöðugleika frá maí sl. beinlínis villandi upplýsingagjöf.
11. Ófaglegt er að engin viðbragðsáætlun hafi verið til í bankanum vegna fjármálakreppu.
12. Lækkun og hækkun vaxta á víxl jók ekki trúverðugleika.
13. Óheppilegt var og trúlega viðvaningsháttur að Seðlabankinn keppti við viðskiptabankana um fjármagn, m.a. með skuldabréfaútgáfu og í lánalínum.
14. Viðvaningsháttur var að bankinn þagði þegar fréttir bárust af því að hann væri ekki með í samningum norrænu seðlabankana við þann bandaríska. Að bankinn skyldi ekki ná samningum við þann bandaríska var nógu slæmt en þögnin jók á ótta og óvissu og gróf enn frekar undan trúverðugleika á ögurstundu.
15. Ákvörðun um ríkisvæðingu Glitnis var stórslys. Svo röng var hún að stjórnvöld vonuðust fljótlega eftir þroti bankans svo ekki þyrfti að efna samninga! Hve illa er þá komið fyrir trúverðugleika Seðlabankans?
16. Fum og fát í gengismálum dró enn frekar úr trúverðugleika og fagmennsku í Seðlabanka Íslands. Ákvörðun um að festa gengið við 175 stig verður lengi kennd sem hrapaleg mistök, enda lifði „staðfesta” bankans í gengismálum aðeins í tvo daga, því oftrúin á krónuna var svo víðs fjarri veruleikanum á gjaldeyrismarkaði. Hún hefur síðan fallið um tugi prósenta.
17. Kastljósviðtal við formann bankastjórnar hjálpaði ekki til við að verja stærsta fyrirtæki landsins, Kaupþing, falli.
18. Þyngra er en tárum taki ótímabær yfirlýsing Seðlabankans um svokallað Rússalán. Bæði spillti það mjög þeim lánasamningum sem Geir Haarde hafði átt frumkvæði að og einnig orðspori okkar á alþjóðavettvangi.
19. Fyrrnefnt Kastljósviðtal, sem m.a. var birt í Wall Street Journal, dró nokkuð úr trúverðugleika íslensks fjármálakerfis á viðkvæmu augnabliki. Einkum þau ummæli sem voru þýdd svo:…Iceland is „not going to pay the banks’ foreign debts”.
20. Óheppilegt var að seðlabankastjóri skyldi hóta stjórnarformanni stærsta fyrirtækis landsins knésetningu.
21. Óheppilegt er að seðlabankastjóri dylgi um viðskipti einstaklinga við bankakerfið og ástæður beitingar hryðjuverkalaga.
22. Óheppilegt er að seðlabankastjóri aflétti einhliða trúnaði af fundum sínum með forystumönnum ríkisstjórnarinnar og samningum við IMF.
23. Óheppilegt er að seðlabankastjóri veiti seðlabankastjórum annarra ríkja tilsögn í mannasiðum.

Af yddarinn.blog.is :

1) Davíð er aðalpostuli frjálshyggjustefnunnar hér á Íslandi og hefur verið það í mjög mörg ár.

2) Davíð skipaði sjálfan sig Seðlabankastjóra.

3) Davíð hefur ítrekað haft afskipti af pólitík eftir að hann varð Seðlabankastjóri, þrátt fyrir að sem opinber embættismaður eigi hann ekki að gera það.

4) Davíð tók fullan þátt í útrásarsöngnum en reyndi svo að þræta fyrir það.

5) Davíð tilkynnti um mörg hundruð milljarða Rússalán sem ekki var fótur fyrir (slík mistök þykja svona í alvarlegri kantinum, a.m.k. miðað við viðbrögð fag- og fjölmiðlafólks erlendis frá).

6) Davíð festi gengi krónunnar í hálfan dag upp á eigin spýtur, framhjá hagfræðideild Seðlabankans, og það er almennt talið hafa kostað þjóðina fúlgur.

7) Davíð hefur, sem stjórnmálamaður og embættismaður, sýnt þjóð sinni valdhroka í ýmsu formi í gegnum tíðina.

8) Og síðast en ekki síst: Davíð nýtur ekki trausts eða virðingar hjá a) almenningi, b) stjórnmálamönnum, c) eigin flokksmönnum (nema að litlum hluta til), d) verkalýðsfélögum, e) embættismönnum innan stjórnsýslunnar, f) aðilum á viðskipta- og bankamarkaði, g) erlendum bankastofnunum, h) seðlabönkum annarra þjóða og i) þjóðhöfðingjum annarra þjóða.

Svona aukreitis væri hægt að tína til einhliða stuðninginn við Íraksstríðið, játninguna um fólkið í röðinni hjá Mæðrastyrksnefnd („fólk safnast alltaf saman þar sem eitthvað er ókeypis“) og játninguna um hvernig hann hefur farið að því að kljást við andstæðinga og fjölmiðlafólk í gegnum tíðina (Smjörklípuaðferðin).

Hann er vanhæfur. Hann er rúinn trausti, hér heima og erlendis. Og ef hann ber ekki persónulega ábyrgð á bankahruninu ... þá hefur hann a.m.k. verið svo mikill lykilleikmaður í uppgangi bankanna að staða hans sé í besta falli vafasöm

Af marinogn.blog.is :

Ástæðan fyrir því að bankastjórn Seðlabankans á að víkja

Burt séð frá öllu öðru, þá tel ég vera eina ástæðu fyrir því að bankastjórn og stjórn Seðlabankans hefðu átt að víkja til hliðar í einu lagi strax um miðjan október:

  • Bankastjórn Seðlabankans, með Davíð Oddsson innanborðs, og stjórn Seðlabankans settu Seðlabankann á hausinn á sinni vakt

Það virðist enginn átta sig á þeirri staðreynd.  Ég veit ekki um neinn bankastjóra eða stjórnarmann seðlabanka á Vesturlöndum sem hefur sett bankann sinn á hausinn. Hvað þá að viðkomandi sitji sem fastast þrátt fyrir þann gjörning.

Seðlabankastjórar geta ekki skýlt sér bak við það, að bankarnir hafi hrunið.  Það er nefnilega sama skýring og eigendur Stoða, Milestone, Samson og Exista hafa ekki fengið að nota.  Þau fyrirtæki, alveg eins og Seðlabankinn, stóðu ágætlega alveg þar til eignir þeirra í bönkunum urðu að engu á þremur svörtum dögum í október. 

Seðlabankastjórarnir settu bankann á hausinn, en eigandi bankans borguðu hann út úr klípunni með því að kaupa af honum verðlitla pappíra.  Það er nefnilega allt í lagi að stjórnvöld skipti sér að bankanum, þegar allt komið í óefni, en þau mega setja fram þá kröfu, að mennirnir sem settu bankann á hausinn stígi til hliðar.

Nú spyr ég bara hæstvirtan fjármálaráðherra:  Er búið að greiða 270 milljarðana inn í Seðlabankann?  Ef ekki, þá er bara að neita að borga nema að bankastjórar og stjórn bankans víki.  Einfaldara getur það ekki verið.  Ríkisstjórnin telur núverandi stjórnarherra í Seðlabankanum vera vanhæfa til að halda verkinu áfram og því er eðlilegt að svona krafa sé sett fram.

Bendið mér á einhver eiganda fyrirtækis, sem hefur leyft framkvæmdarstjóranum að halda starfinu sínu, eftir að hann tapaði á einu bretti 345 milljörðum.  Ég veit ekki um neinn.  Auk þess held ég, að ekki sjái fyrir endann á þessum afskriftum.

Þannig að burt séð frá skoðun fólks á Davíð og hvort hann hafi varað við fallinu eða ekki, þá fór Seðlabankinn í þrot á hans vakt.  Það er næg ástæða fyrir því að hann, Ingimundur, Eiríkur, Halldór Blöndal, Hannes Hólmsteinn og aðrir stjórnarmenn eiga að segja af sér.  Þetta kemur ekkert því við hvaða menntun menn hafa, í hvaða stjórnmálaflokki menn eru, hvort menn standist hæfisreglur eða hvað það er nú annað sem fólk hefur borið fyrir sig.  Þetta eru bara hreinar og beinar staðreyndir um að þeim tókst hrapalega til og eiga þess vegna að víkja.

Eins og ég segi, dæmi nú hver fyrir sig en væri maðurinn yfirmaður yfir rekstri sem að ég ætti persónulega væri ég fyrir lifandis löngu búinn að segja honum upp.


mbl.is „Hann gefur í og bakkar á mig“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Við erum að segja DO upp í vinnunni, svo einfalt er það. Búin að vera þeirrar skoðunar mjög lengi að slíkt ætti að gera.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 10.2.2009 kl. 10:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband