Allt litróf tilfinninganna á góðum Borgarafundi
9.1.2009 | 16:01
Fór á Borgarafundinn í gærkvöldi og átti góða ferð. Fundurinn stóð vel undir væntingum mínum, og komu framsögumenn og flestir fundargestir máli sínu skýrt fram. Skyggði aðeins á fundinn þegar að birtist þar afar athyglissjúkur jólasveinn sem var vísað frá. Skapaðist mikil tilfinningasveifla í húsinu fyrst á eftir, það er að segja þangað til að fundargestir gerðu sér grein fyrir því hver var í hlutverki jólasveinsins. Þar var á ferðinni maður sem fyrir löngu síðan missti af sínu "cue'i", vísbendingu um að slaka á og gera eitthvað annað. Vísbendingu um að almenningur í landinu treystir honum ekki til nokkurs verks frekar en mörgum núverandi ráðamönnum þjóðarinnar. Það sorglegasta við þessa uppákomu er líklega að svona upphlaup skemma bara fyrir og draga athyglina frá alvarleika málsins.
Jólasveinninn virðist víða halda því fram að innan hópsins um borgarafundina ríki spilling. Ég get ekki svarað fyrir hópinn, en finnst þó áríðandi að benda á að það er ekki endilega spilling þó að allir vilji ekki "vera memm". Stundum er það bara einfaldlega vegna þess að maður hefur sjálfur rúið sig öllum trúverðugleika.
En aftur að fundinum.
Hörður Torfason olli mér í upphafi nokkrum vonbrigðum, það er að segja hann sagði harla fátt í upphaflegu erindi sínu. Hann átti hins vegar gríðar sterka innkomu á fundinum eftir að tilfinngaríkur fundarstjóri hafði misst stjórn á honum. Innkomu þar sem að hann klökkur kallaði yfir salinn í nánast uppgjafartóni að það væri nákvæmlega þetta, svona samstöðuleysi, sem að væri að sundra okkur öðru fremur. Ég verð að taka undir með honum þar heilshugar, ég hef einmitt skrifað um það nýlega hvað það sem ég kalla "Bjartur í Sumarhúsum" heilkennið, eyðileggur gríðarlega fyrir okkur. Allar verða að ráða, allir verða að eiga hugmyndina. Annarra manna hugmyndir hljóta sjaldan stuðning vegna þess að hroki okkar er gjarnan svo mikill að við getum ekki fylgt einhverju nema að a) við höfum átt hugmyndina eða b) við erum þess fullviss og þar með örugg um almenningsálitið að hugmyndin muni hljóta almennt fylgi. Þetta er fötlun.
Eva Hauksdóttir hélt ágætis erindi um þróun mótmæla víðsvegar í heiminum, heldur mikil langloka, en kraftmikil framsögn. Ég get verið sammála hennar afstöðu upp að vissu marki, en mér finnst þó enn að þegar að borgaraleg óhlýðni er farin að valda líkamlegum skaða að þá hefur hún stigbreyst í eitthvað sem er nær stríðsástandi en hefðbundinni óhlýðni. Margir á fundinum vitnuðu í Gandhi. En þegar Gandhi vísaði til þess að oft væri uppreisn eina lausnin, var hann að mér virðist að vísa til uppreisnar í formi friðsamlegra mótmæla og borgaralegrar óhlýðni þar sem að enginn meiddist nema mögulega maður sjálfur (þegar lögregla eða önnur yfirvöld, bera mann á brott). Gandhi var til dæmis afar hrifinn af borgaralegri óhlýðni eins og fram fór í Seðlabankanum okkar. Óhlýðni þar sem mikið af fólki safnast saman og hefur mikil truflandi áhrif á umhverfi sitt, en gera samt kannski ekki neitt annað. Eru bara einfaldlega mikið fyrir.
"Grímur" nefndi sig grímuklæddur framsögumaður sem talaði þarna fyrir sína hönd sem aðgerðarsinni (gott íslenskt orð fyrir activism). Grími nefndum lá að sjálfsögðu mikið niðri fyrir eins og ungu fólki er tamt og tók stórt upp í sig fannst mér á köflum, en hafði margt gott fram að færa líka.
Hugmynd Gríms um að fulltrúa lýðræðið sé svo ósanngjarnt fannst mér þó nokkuð skammsýn. Honum finnst kerfi þar sem að minnihlutinn verður alltaf óánægður með ákvarðanir óréttlátt. Mér er þó spurn, er líklegt að minnihlutinn verði eitthvað minna óánægður við beint lýðræði??
Ég er ekki endilega á því að fulltrúa lýðræði sé svarið, en það er þó kerfið sem ég bý við í dag og ég tel því liggja beinast við að nota það kerfi til þess að koma á nauðsynlegum breytingum.
Stefán lögreglustjóri ásamt Geir Jóni voru þarna mættir fyrir hönd lögreglunnar og fannst mér þeir komast afburða vel frá sínu á fundinum. Eiga að auki að mínu mati mikið hrós skilið fyrir að mæta og skýra frá sinni hlið mála. Það er eitthvað annað en dusilmennið hann Björn Bjarnason, honum hefur ekki fundist þessir fundir nægjanlega merkilegir hingað til að hafa nennt að mæta. (Innskot: Var rétt í þessu að sjá frétt á Vísi um að Björn Bjarnason hygðist ekki gegna starfi ráðherra mikið lengur, sjá hér)
Stefán skýrði meðal annars vel frá hlutverki lögreglu í að styðja við mótmæli, aðstoða við að þau færu slysalaust fram og svo framvegis. Helst fannst mér skyggja á ítrekuð frammíköll aðgerðarsinnanna þar sem að þeim fannst ósanngjarnt að við aðgerðum þeirra væri brugðist. Ég hef bara eitt við því að segja og það er sletta: "If you can't do the time - don't do the crime".
Aðgerðir aðgerðarsinna hafa margar hverjar verið afar sterk skilaboð, en að verða undrandi við því að við lögbrotum sé brugðist er að sjálfsögðu mikil skammsýni. Gandhi títtnefndur var til að mynda ítrekað fangelsaður og vissi að það yrðu oft afleiðingarnar. Það er einfaldlega ein afleiðing þess að berjast gegn kerfinu, hversu óréttlátt sem það hljómar.
Sigurlaug, sem kom fram sem talsmaður Nýrra Tíma, lýsti stefnuskrá hreyfingarinnar. Ég er sammála langstærstum hluta þeirrar stefnu, ég er bara afar ósammála því að "þeir" eigi að gera þetta og hitt. Við verðum að taka ábyrgð gott fólk og gera okkur grein fyrir því að "þeir" eru bara "við"!! Ef ég vill breytingar er það á mína ábyrgð, en ekki "þeirra" að koma þeim á. Viljið þið breytingar á það sama að sjálfsögðu við um ykkur. "Þeir" munu alltaf bara gera áfram það sem þeim kemur best. Ætlum við að halda áfram að kjósa "það" yfir okkur???
Þá kom afar áhugaverð spurning úr sal á fundinum til lögreglustjóra, þar sem að hann var spurður að því hvort að ekki væri undarlegt að fjölga í sérsveit á tímum sem þessum en á sama tíma að FÆKKA í efnahagsbrotadeildinni. Hann hafði að sjálfsögðu ekki svör við því enda nokkuð pólitískur en mér finnst þetta afar mikilvæg hugleiðing fyrir okkur öll.
Þeir sem ráða eru að auka við EIGIN varnir á sama tíma og þeir spara í deildum sem eiga að rannsaka málið?!?
Það var einnig spurning úr sal um hvers vegna lögregla ákæri ekki ráðamenn, gerendurnar í bankahruninu. Lögreglan svaraði því til að allar ákærur væru að sjálfsögðu skoðaðar, það væri hins vegar ekki lögreglan sem ákærir. Efnahagsbrotadeild (sem var einmitt verið að fækka í) sæi um að rannsaka málin.
Það vöknuðu nokkrar spurningar hjá mér á fundinum, en mér tókst ekki að koma þeim að þar. Set þær fram hér til hugleiðingar.
Mér er spurn, má hver sem er kæra grunaða valda bankahrunsins og yrðu þær kærur teknar fyrir?
Hefur Hörður Torfa hug á að hleypa að á mælendaskrá mótmæla fundanna talsmönnum pólitískra afla sem eru ný eða ekki við völd, sem vilja breytingar?
Og aðgerðarsinna, almenna mótmælendur og ykkur öll hin spyr ég: Ef kerfið þarfnast gagngerra breytinga, fulltrúa lýðræði eður ei, er það þá ekki okkar að koma á þeim breytingum?? Eigum við þá ekki heldur að eyða kröftum okkar í að sameinast um að koma þeim breytingum á??
Lá við að fundurinn leystist upp | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:22 | Facebook
Athugasemdir
Jú, við eigum einmitt að gera það. Verðum að fara að einbeitta okkur að sameiginlegum markmiðum okkar og hætta sjálfbirningsættinum sem þú réttilega bendir á - ef ég á ekki hugmyndina þá er ég ekki með!
Góður pistill.
Þór Jóhannesson, 9.1.2009 kl. 19:44
'er líklegt að minnihlutinn verði eitthvað minna óánægður við beint lýðræði??'
Þegar beint lýðræði er ástundað einkennist samfélagið ekki af meirihluta og minnihluta, heldur er umræðunni haldið áfram þar til komist er að niðurstöðu sem allir geta lifað með. Þetta er tímafrek aðferð sem gengur aðeins upp í litlum stjórneiningum. Jafnvel þótt við göngum ekki lengra en að skipta fulltrúalýðræðinu út fyrir samfélag þar sem flestir eru virkir og upplýstir og geta haft áhrif á allar mikilvægar ákvarðanir (t.d. með þjóðaratkvæðagreinðslu), hlýtur fólk að vera ánægðara með það en leynimakkið og flokksræðið sem við búum við í dag.
Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 9.1.2009 kl. 20:26
Nákvæmlega Þór.
Eva, ég skil hugmyndina. Það breytir því ekki að það verða eftir sem áður alltaf bæði meiri- og minnihlutar. Minnihlutinn eftir rökræður kannski sættir sig við, en hann gerir það nú oftast í núverandi kerfi líka.
En við erum flest afar sammála um nauðsyn þess að brjóta upp núverandi kerfi leynimakks, flokkræðis og spillingar sem sprottin er öðru fremur af því að nákvæmlega sömu öflin hafa ráðið hér öllu nánast óslitið frá upphafi iðnbyltingar hér á landi.
En nú er tíminn Eva og allir hinir, tökum höndum saman. Hittumst og sköpum það sem við viljum. Það er leiðin að mínu mati, sköpum og leggjum svo fyrir dóm þjóðarinnar við næstu kosningar.
Baldvin Jónsson, 9.1.2009 kl. 20:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.