Pólitík vs. lærdómur ... Álgerður vs. skynsemi...
15.9.2008 | 14:25
Sit hérna á Þjóðarbókhlöðunni og er að læra um svokallaðan Hlunk í Excel sem er ágætt, en meðan að ég sat og var að bíða eftir nettengingu hérna rak ég augun í greinar, bæði í Morgunblaðinu frá því í gær, sunnudag, og í Fréttablaðinu í dag, sem að ég stenst ekki mátið að skrifa aðeins um hérna.
Fyrst rak ég augun í afar vel skrifaða grein Ragnars Önundarsonar á bls. 40-41 í sunnudagsblaði Morgunblaðsins frá því í gær þann 14.09.08 undir heitinu: "Um bókstafstrú og hagstjórnarmistök".
Í grein sinni tiltekur Ragnar að mínu mati á yfirvegaðan máta hvernig núverandi efnahagsástand er að stærstum hluta hagstjórnarmistök síðustu ríkisstjórnar en ekki núverandi. Að núverandi ástand sé afleiðing gjörða síðustu ríkisstjórnar, sem að flestir muna efalaust vel að var að helmingi drifinn áfram af afskaplega stóriðjusinnuðum framkvæmdaglöðum Framsóknarflokki. Framsóknarflokki sem nú situr í stjórnarandstöðu og kennir núverandi ríkisstjórn um ástandið. Ástand sem að hefur skapast fyrst og fremst vegna allt of mikilla framkvæmda á stuttum tíma fyrir okkar litla hagkerfi. Framkvæmda sem að nánast allir hagfræðingar landsins, sem voru ekki annað hvort leiguþýði Sjálfstæðisflokks eða Framsóknar, sögðu óráð og að þetta mikilli þenslu myndi fylgja gríðarleg verðbólga og harður samdráttur.
Eftir að hafa lesið þessa vel skrifuðu og jarðbundnu grein Ragnars og reyndar líka grein á sömu síðum eftir Þröst Ólafsson hagfræðing um blekkingu stóriðjustefnunnar, að þá fannst mér afar skemmtileg, já jafnvel fyndið, að reka augun í grein Valgerðar Sverrisdóttur fyrrum ráðherra og núverandi varaformanns Framsóknarflokksins, þar sem að hún hefur álvers framkvæmdirnar til skýjanna og segir "Ég get ekki hugsað það til enda hver staðan væri ef ekki hefði verið ráðist í stórframkvæmdirnar á sínum tíma", og nefnir hún það meðal annars í samhengi við kvótaniðurskurðinn.
Valgerður, það vill svo til að fjölmargir fræðingar hafa hugsað og reiknað þá hugsun til enda. Bæði fyrir og eftir. Meirihluti þeirra reyndi góðfúslega að vara þig og þína við en á þá var ekki hlustað, meðal annars vegna mikils samviskubits ykkar sem héldu um stjórnartaumana vegna kvótabrasks sem að þið misstuð algerlega stjórn á strax í upphafi kvótakerfisins, eða því sem næst.
Við getum ekki haldið áfram að plástra míkró hagkerfi tiltekinna sveitarfélaga með óðaverðbólgu á alla landsmenn. Það hljóta allir landsmenn að vera því sammála.
Af hverju ættum við til dæmis að byggja álver á Bakka fyrir Húsvíkinga til að bæta þar atvinnuástand? Eru ekki samtals innan 50 manns án atvinnu á Húsavík sem að fá ekki vinnu ef þeir vilja? Er réttlætanlegt að öll þjóðin þurfi að ganga aftur í gegnum óða verðbólu og verðbólgu til þess að fjölga Húsvíkingum? Er að vísu gott fyrir genapottinn þar efalaust að fjölga innflytjendum, en er það það sem að verið er að sækjast eftir? Tek skýrt fram að hjá mér er enginn ami í garð Húsvíkinga og þeirra fallega bæjar, sé bara ekki réttlætið fyrir þjóðina í þessari mögulegu framkvæmd.
Valgerður og þið hin sem eruð með álið á heilanum. Er ekki kominn tími á að draga úr neyslunni? Er ráðlegt að laga alltaf þynnkuna með meiri neyslu?
Ég segi nei! Náum áttum áður en af stað er rokið. Skipuleggjum nú með heildarmati á landinu öllu næstu skref. Ekki hlaupa bara af stað með nokkurra daga vistir á næsta neyslu fyllerí. Plönum þetta almennilega og höfum þetta frekar almennilega veislu okkur og framtíðar kynslóðum til handa.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það er greinilegt að þú veist ekki út á hvað hagfræði gengur:-) Ef þú ætlar að kenna því um að Alcoa hafi byggt álver fyrir austan (þeir komu með eigið fé inn í landið og fengu ekkert að láni hjá íslensku bönkunum), Kárahnjúkavirkjun var ekki ríkið sem slíkt heldur Landsvirkjun sem fjármagnaðið hana. Þú ættir að athuga með öll óseldu húsin og steinsteypuna þar, og hverjir lánuðu til þeirra framkvæmda, og síðan skaltu líta til Reykjanesbæjar og athuga hvað hefur verið að gerast þar, og hverjir lánuðu? Nánast ekkert eigið fé í þær framkvæmdir... eða hvað? Ef ekkert atvinnuleysi er á Húsavík og þar er viðvarandi fólksfækkun...... hvað segir það þér? Fólkið flytur í burtu þegar það missir vinnuna, því það hefur verið nóg að gera í þenslunni á suðvesturhorninu.... Þess vegna eru fáir hausar atvinnulausir á Húsavík og nágrenni... hlýtur að vera.. er það ekki? Af hverju heldurðu að þetta sé svona hjá okkur á Íslandi? Af því að það stjórnmálamenn samþykktu að setja upp fyrirtæki úti á landi, öðrum stað en á suðvesturhornið.... Nei, þú verður að gera betur en þetta kallinn:-)
Góðar kveðjur til þín:-=
SH (IP-tala skráð) 15.9.2008 kl. 14:46
Það er nú ekki ætlunin SH að slá mig til einhvers Hagfræði riddara hérna á þessari síðu, en ég tel mig þó skilja ýmislegt varðandi megin tölur í samfélaginu. Það að farið er út í stórframkæmdir, hvort sem er að erlendum aðilum eða innlendum (erlent innstreymi skapar reyndar frekar verðbólgu), leyðir af sér mikið af afleiddu fjármagni sem að við innstreymi í þjóðfélagið skapar verðbólgu. Þegar hlutfallslega mikið fjármagn streymir skyndilega inn í þjóðarbúið verður hraður vöxtur hagvaxtar sem leyðir til verðbólgu þegar að hagstjórnin bregst ekki við í tíma.
Það var hins vegar alls ekki tilgangur þessarar færslu að stinga eitthvað í Húsvíkinga sérstaklega, tók Bakka aðeins sem dæmi af því að það liggur í umræðunni í dag.
Tilgangur þessarar færslu er að benda á það enn og aftur að það er veruleg þörf á heildstæðu skipulagi á nýtingu auðlinda Íslendinga.
Baldvin Jónsson, 15.9.2008 kl. 15:49
Það er semsagt í lagi að fara í stórframkvæmdir á suðvesturhorninu en ekki annarsstaðar á landinu? Það er það sem ég les út úr þessu hjá þér. Nei, þú ert svosem ekki að stinga neitt sérstaklega í Húsvíkinga held ég, en það verður að vera hægt að setja niður stórfyrirtæki annarsstaðar á landinu ekki bara í einn landshluta og orkuverin um allt land til þess að stórfyrirtækin blómstri á sv-horninu. Ég vil allavega getað keyrt um landið og sjá þar blómlegar byggðir, ekki húka bara í Reykjavík... en það sem mér finnst er að allt ætli um koll að keyra ef það fólk sem býr úti á landi vill nýta sér orku sem er að finna þar, fyrir sjálfan sig og sín byggðarlög. En það er rétt hjá þér, það þarf að gera þetta skipulega og ekki slá lán fyrir öllu sem framkvæmt er í landinu.
Hafðu það gott
SH (IP-tala skráð) 15.9.2008 kl. 19:34
Hættur að selja íbúðir á Völlunum og byrjaður að læra ?
Ómar Ingi, 15.9.2008 kl. 19:52
Baddi er fjölhæfur maður ...
Gísli Hjálmar , 16.9.2008 kl. 17:28
Hætti að selja fasteignir síðasta sumar þegar að ég var búinn að eignast dóttur og ákvað að fara í full time nám líka.
Best að geta einbeitt sér að fjölskyldunni og náminu. Tek svo túr og túr með sem verktaki í jeppaferðum með túrhesta.
Hvað ert þú annars að bardúsa Ómar?
Baldvin Jónsson, 17.9.2008 kl. 13:10
SH: Það er engin tilvísun í framkvæmdir á SV horninu sérstaklega í þessum skrifum mínum heldur.
Það að mestar framkvæmdir hafi verið á SV horninu undanfarin 15 ár er væntanlega afleiðing þess að um eða yfir 70% landsmanna búa þar.
En færslan mín snýr ekki að framkvæmdum á SV horninu heldur. Það þarf að sjálfsögðu að slaka á með framkvæmdir þar eins og annarsstaðar. Það skiptir engu máli í okkar litla hagkerfi hvar of þenslan kemur inn, þenslan hefur alltaf áhrif á þjóðina alla í einhverju formi.
Baldvin Jónsson, 17.9.2008 kl. 13:13
Þá hlýtur röðin að vera komin að öðrum landshlutum, fyrst þú segir að sl 15 ár hafi þenslan verið á SV-horninu? Ekki vildu austfirðingar láta SV-hornið hafa sínar auðlindir í formi rafmagns, hvað þá Þingeyingar að láta sínar auðlindir allar til þess landshluta. Það er til fólk sem vill búa annarsstaðar en á þensluhorninu og það ber að virða það. Ég sé að félagar þínir eru á skjóta á þig varðandi steypubransann:-) Því spyr ég, hvað á að gera við allar tómu íbúðirnar (4.000 skilst mér) sem eru á lausu? Hvað kostar allt sem verið er að gera í þessum landshluta, tónlistarhús, verslunarhúsnæðin, íbúðirnar, opinberu byggingarnar.... allt sem verið er að gera þarna? Þú ert annaðhvort fæddur á landsbyggðinni og neyddist til að flytja eða þú þekkir leiðina að Hvalfjarðargöngum og ekki lengra.
SH (IP-tala skráð) 17.9.2008 kl. 17:39
Gaman að skrifast á við þig hérna SH og lesa að virðist fordóma þína gagnvart borgarbúa :)
Það er einmitt þetta stig/plan umræðunnar sem að geri hana ítrekað innantóma og gagnslausa.
"2 lið" sem að fullyrða í sitthvora áttina og ekkert gerist því engin tekur mark á því.
Nei ég er ekki fæddur á landsbyggðinni, bjó reyndar nokkur ár sem barn í Kópavogi og hef þá skv. þinni skilgreiningu "neyðst" til að flytja til til Reykjavíkur.
Ég er einn fárra sem að strax fyrir 3 árum var farinn að tala um að verktakar þyrftu að reikna aðeins fram í tímann hver raunveruleg þörf væri á húsnæði, en þeir í sinni "eðlilegu" gróðahyggju vildu hvergi á slaka. Það vill aldrei neinn vera fyrstur og allir ætla að róa svo lengi sem hann gefur.
En skilningsleysi þitt á frjálsum markaði skín hér í gegn því að það hefur lítið með stórframkvæmdir ríkisins að gera hversu mikið er umframboð af eignum á markaði í dag, ekki nema að því leyti sem að ég er búinn að minnast á hérna áður að verðbóla og verðbólga sem mynduðust við of framkvæmdir á öllum sviðum og þar spilar að sjálfsögðu framkvæmdin fyrir austan stærstan hlut ef við nefnum einstök verkefni. Sökin er þó að sjálfsögðu allra sem að máli komu, líka okkar einstaklinganna sem að vel flest erum búin að gleyma okkur í neysluhyggjunni undanfarin ár.
En af hverju er röðin "komin að einhverjum"? Ef þarf að slaka á til að ná jafnvægi, má það þá ekki fyrr en ALLIR eru búnir að detta í það og þjóðarskútan endanlega komin í strand?
Er ekki eðlilegra að hægja á og láta þá landsbyggðina ganga að einhverju leyti fyrir í framtíðar framkvæmdum? Ofþensla bitnar á öllum.
Og varðandi landfræðilegan skilning minn á landinu okkar að þá hef ég alveg frá blautu barnsbeini ferðast afar mikið um landið og líklega meirihlutanum kunnari um landið okkar. Sem unglingur eyddi ég 7 sumrum að störfum í sveit og kynntist þar miklu varðandi landbúnað og aðbúnað og aðstæður í minni kaupstöðum.
Þekki því bara ágætlega til að flestra mati og tel mig fullfæran um að skoða hlutina sem upplýstur maður.
Enn hér er væntanlega eitt mál sem að við erum algjörlega ósammála um að mér sýnist á málflutningi þínum. Það eru byggðamálin. Mér finnst eðlilegt að framkvæmdir í heimabyggðum séu kostaðar af heimafólki. Ástæður þess að það eru meiri framkvæmdir á SV horninu ráðast af fólksfjölda og einfalda markaðslögmálinu um framboð og eftirspurn.
Ef ungingarnir fást ekki til að flytja aftur "heim" eftir háskólanám á hbsv. hvernig mun þá verkamanna staða í stóriðju mögulega breyta því?
Þessi stórborga þróun á sér stað um allan vesturheim. Mér finnst að við eigum að leyfa fólki að ráða hvar það býr. Ef að við viljum byggja samfélög á landsbyggðinni til að keppa við hbsv. er ég þess algerlega viss að þau þurfa að bjóða fólki upp á eitthvað meira "sexý" í pakkanum en láglaunastörf, verkamannastörf, fiskvinnslustörf og þjónustustörf. Þessi að virðist hrokafulla upptalning mín er væntanlega þó megin ástæða þess að sífellt fækkar Íslendingum á landsbyggðinni, a.m.k. þeim sem eru bornir og barnfæddir þar.
En er ekki líka hollt að flytja sig aðeins um set og kynnast öðru? Gamla máltækið segir jú að heimskur sé heimakær. Ef að fólk ferðast og kemst að því að "hitt" sé raunverulega betri kostur þarf þá ekki að bæta eitthvað í heimahögunum? Það tel ég næsta víst. Meðan að við búum í landi með frjálst markaðskerfi mun fólk áfram flytja þangað sem að almennur aðbúnaður og þjónusta er best.
Til þess að síðan kóróna þessa köldu markaðsnálgun mína að umræðuefninu að þá er gaman að geta þess að í Bandaríkjunum hefur alltaf verið talað um að Bandaríkin hafi byggst á miðstéttinni, að það hafi verið miðstéttin sem að gerði Bandaríkin að (á þeim tíma) hagsælasta landi í heiminum. Í samanburði má segja að það hafi verið iðnaðarmennirnir og rekstraraðilar í framleiðslu sem að sköpuðu mestan vöxt á Íslandi, með og án afskipta ríkisins. Köld staðreynd málsins er að í gegnum tíðina hafa þessir aðilar skapað hér mestan hagvöxt og flest störf, bæði beint og afleidd störf. Undanfarið höfum við hins vegar horfið frá þessu í að vera "rekin" af fáum stórlöxum sem hafa að sjálfsögðu eigin hag frekar fyrir brjósti en hag heildarinnar. Alveg eins reyndar og smærri aðilar, en margir smáir skila bara meiru til baka hlutfallslega en fáir risa stórir, sérstaklega þegar að því er virðist, þessir fáu stóru voru aðallega að taka til sín eins mikil verðmæti og mögulegt var á skömmum tíma og skilja svo fyrirtækin eftir mergsogin.
Undanfarin ár höfum við (eins og Bandaríkin og stór hluti vestur Evrópu) gleymt okkur í gróðahyggju sem að snerist ekki um raunveruleg verðmæti og framleiðslu, heldur metin verðmæti eigna, sem að nú virðast skyndilega lítils eða einskis virði.
Þurfum við ekki að fara að endurskoða framferði okkar? Er ekki þörf á nýju plani SH?
Það verða alltaf einhverjir eftir sem að finnst að nú sé komið að þeim, en það er heildarinnar að ákvarða hvað þarf að gera.
Baldvin Jónsson, 17.9.2008 kl. 20:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.