Takk fyrir mig Hreinn Loftsson

Var mér til mikillar undrunar að lesa bara hreinlega virkilega vel skrifaða grein í helgarblaði DV frá 22. ágúst síðastliðnum. Gáði ekki að því hver væri höfundur fyrr en eftir á, og í fordómum mínum átti ég satt best að segja bara alls ekki von á svo góðum skrifum í DV.

Greinin:
Hreinn Loftsson (2008, 22. ágúst), Stuðningur íslenskra stjórnvalda við Íraksstríðið. DV, bls. 22-23.

Við vitum jú flest að í samskiptum við Davíd Oddsson eru fáir hlutlausir og Hreinn Loftsson telst seint einn af þeim, en engu að síður finnst mér hann skila frá sér þarna virkilega greinargóðri lesningu og fyrir mig afskaplega upplýsandi.  Mæli eindregið með að þú lesir greinina ef að t.d. lög og stjórnsýsla vekja áhuga þinn. Gott í greininni að sjá m.a. vitnað til þess að á bakvið greinar stjórnarskrárinnar okkar liggur mikil reynsla sem síðan birtist þar í lögum.  Eða eins og Hreinn Loftsson kemst að orði í greininni:

Í stjórnarskránni segir í 21. grein, að íslensk stjórnvöld geti ekki gert
samninga við önnur ríki ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi
eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins, nema samþykki
Alþingis komi til. Hér er sleginn sá varnagli að æðstu embættismenn þjóðarinnar, ráðherrarnir, sem hver um sig fara með æðsta stjórnvald á
sínu sviði, geta ekki án heimildar Alþingis skuldbundið íslenska ríkið með samningum við önnur ríki, ef um er að ræða meiriháttar mál á borð við skerðingu á frelsi og fullrétti þóðarinnar. Þetta stafar af þingræðisreglunni,
sem hér gægist fram í nefndu ákvði stjórnarskrárinnar, en í henni felst að ráðherrar starfa í skjóli og með tilstyrk Alþingis. Þingræðisreglunni er ætlað
að tryggja Alþingi sterka stöðu til áhrifa á stefnu og framkvæmd verka ráðherranna og þá ekki hvað síst í utanríkismálum. Þetta er ekki spurning
um form heldur efni. Mikil saga er að baki reglunni; gjörvöll sjálfstæðisbarátta þjóðarinnar á 19. og fram á 20. öld snerist að stórum hluta um stöðu Alþingis sem æðstu valdastofnunar íslensku þjóðarinnar (leturbreyting mín).

Fyrir fólk eins og mig, sem að er óðum að gleyma því af hverju það skilgreindi sig sem Sjálfstæðismenn að þá hóf Hreinn Loftsson skrif sín á tilvitnun í Bjarna heitinn Benediktsson, sem ég bara hreinlega verð að láta fylgja hér með líka. Þessi tilvitnun finnst mér kristalla svo skýrt hugarfarið sem ríkti eitt sinn í Sjálfstæðisflokknum og varð til þess að þessir miklu baráttujaxlar sem áður störfuðu fyrir flokkinn, náðu eins langt og raun ber vitni með þjóðina alla. Á í rauninni örskömmum tíma var þjóðin dregin út úr moldarkofum og landbúnaðarsamfélagi sem var nánast algerlega staðnað inn í það að vera tæknivætt samfélag rekið með arði.

Þessi auðmýkt sem þá ríkti er því miður illa sjáanleg í störfum forsvarsmanna Sjálfstæðisflokksins í dag og í mínu tilfelli þyrftu að koma til verulegar breytingar á bæði hugarfari og framkomu forystumanna í flokknum til þess að ég gæti hugsað mér að leggja þeim lið.

Ætla að ljúka þessari langloku með því að birta hérna tilvitnunina í Bjarna Benediktsson:

Þeir eru allt of margir, ekki sízt á opinberum vettvangi, sem hafa
tamið sér það að tala svo um andstæðinga sína sem þeir væru
samblönduð hjörð fábjána og misindismanna ... slík baráttuað-
ferð er átakanlegt vitni þröngsýni og víðsýnisskorts. Hún er merki
sjálfbirgingshrokans, sem telur sig einan vita allt, þykist sjálfum
sér nógur og upp yfir það hafinn að læra af öðrum ... Í fyrstu byrja
sumir sjálfsagt þennan leik í hálfkæringi og alvöruleysi. Enda er
það auðveldasta aðferðin í deilum um alvarleg mál að svara með
getsökum og aðdróttunum. Áður en varir eru svo þeir, sem slíkt
hafa um hönd, farnir að trúa sjálfum sér og verða þar með þröng-
sýnni með hverri stund er líður. Og verra en það. Sá, sem trúir því,
að andstæðingi sínum gangi illt eitt til og hann kjósi fremur rangt
en rétt, lendir áður en varir í þeirri hættu að hverfa frá baráttuað-
ferðum lýðræðisins. Það er býsna almenn trú, að illt skuli með illu
út reka. Ef menn telja því við óþokka eina að eiga, þá er viðbúið,
að ekki verði þokkabrögðum einum beitt til að koma þeim fyrir
kattarnef.

Þykir miður að klikkja út þessi skrif með leiðindum eftir þennan innblástur frá Bjarna heitnum, en ég verð bara að koma því hér að að mér þykja þessi skrif Bjarna lýsa Davíð Oddssyni bara svo ótrúlega vel. Þar var á ferðinni stjórnmálamaður sem færðist frá því að, mínu mati, að vera frábær leiðtogi og stjórnmálamaður í það að vera maður hefnda og ofsóknarkenndar. Leiðtogi sem var á endanum svo viss um eigið ágæti að hann taldi sig almennt ekki þurfa að bera ákvarðanir sínar undir hvorki kóng né prest. Hvorki Alþingi né nefndir þess.

Það sem verst er að að virðist hefur hann kennt stórum hluta flokksmanna þessa framkomu. Geir H. Haarde gæti verið sá maður sem leiðir Sjálfstæðiflokkinn frá þessari stefnu, en Geir verður þá að taka af skarið og GERA eitthvað.

Það sagði mér góður maður að ef að maður gerir ekki neitt, gerist ekki neitt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hagbarður

Virkilega góð grein hjá þér! Takk fyrir.

Hagbarður, 27.8.2008 kl. 11:47

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Takk fyrir þennan fína pistil. Er hægt að komast í eldri blöð DV á netinu?

Lára Hanna Einarsdóttir, 27.8.2008 kl. 13:27

3 Smámynd: Baldvin Jónsson

Takk fyrir það.

Þekki það ekki Lára hvort að DV sé með eldri blöð fáanleg, en þau eru a.m.k. örugglega til í PDF hjá þeim.  Ég var svo "gamaldags" í þessu tilfelli að ég las bara blaðið sjálft :)

Baldvin Jónsson, 27.8.2008 kl. 13:57

4 identicon

Orð Bjarna alveg mögnuð, ná feiknaflugi; eru rituð af þeim sem reynsluna, skynsemina og umframallt auðmýktina hefur.  Efnishyggja nútímans rekur auðmýktina á brott og hæðast að henni.  Okkar þjóðfélag í dag þjáist af auðmýktarfátækt og meðlimir þess með.

Hallgrímur Óskarsson (IP-tala skráð) 27.8.2008 kl. 16:29

5 Smámynd: Baldvin Jónsson

Tek undir með þér Hallgrímur heilshugar.

Held í þá von sem sagan sýnir okkur, að mannskepnan fái alltaf á endanum upp í kok af tilgangsleysinu og græðginni og fari að leyta aftur í gildin sín. Ég fíla alveg peninga en þeir geta seint orðið tilgangurinn.

Baldvin Jónsson, 27.8.2008 kl. 16:37

6 Smámynd: Ómar Ingi

Þú ert að koma sterkur inn Baddi

Ómar Ingi, 27.8.2008 kl. 17:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband