Meira um virkjanir, raforkuverð og framtíðarmöguleika.....
13.11.2007 | 15:32
Spunnust margar skemmtilegar athugasemdir inni á blogginu mínu um Bitruvirkjun hér um daginn.
Snorri góðvinur minn sem býr í New York kom með nokkrar ágætar hugleiðingar, þ.m.a. hugleiðinguna um af hverju við "kjósum þetta alltaf yfir okkur aftur". Ég hef líka ítrekað velt því fyrir mér í gegnum árin Snorri, og þar virðist helsta vandamálið vera að þau sem við kjósum vegna ferskra vinda sem þau bjóða og nýja strauma, verða einhvern veginn alltaf á aðeins örfáum vikum alveg eins og "þeir" sem setið hafa í monopoly'inu áratugum saman.
Mín trú er því sú að við kjósum þetta EKKI yfir okkur aftur og aftur. Ég hef kosið ítrekað nýjan ferskan kraft, síðast komst sá kraftur ekki að en ítrekað þar áður varð það sem ég kaus alveg eins og allt hitt örfáum vikum eftir að á þing var komið. Þar virðast allar ferskar hugmyndir falar fyrir nefndarstörf og aura.
En skólafélagi minn af Bifröst hann Karl Jóhann setti þarna inn mjög góða hugleiðingu um raforkuverð og garðyrkju sem að mér finnst bara of góð til að tileinka henni ekki sérstaka færslu. Læt hana koma hér í heilu lagi fyrir neðan. Kalli er þarna að svara félaga mínum honum Einari sem kom með nokkrar athugasemdir inni í fyrrnefndu bloggi mínu frá því um daginn.
Kalli skrifar:
--------------------------------------------------------------------------------------------------------------
Einar: "Jú það er mjög praktískt að byggja gróðurhús en reyndar var enginn fjárfestir sem vildi leggja fé í byggingu gróðurhúss á Íslandi, það virðist frekar langsótt."
Gaman þætti mér að vita hvaðan þessi heimild fékkst.
Það er svo merkilegt til þess að vita að á þeim tíma sem umræðan um álversbyggingu fyrir austan stóð sem hæst þá fengu önnur sjónarmið aldrei að njóta sín. Sjónarmið á borð við að við ættum líklega að verðmeta landið okkar út frá fleiri möguleikum en að virkja það til raforkufraleiðslu, og fleira sem ég get talið upp. Talsmaður Landsvirkjunar sagði á sínum tíma að það væri ekki hlutverk hennar að verðmeta landið út frá öðru en til raforkuframleiðslu, það væri á annarra hendi að gera það.
Nú spyr ég hvort þú vitir til þess að þess umræða hafi átt sér stað?
Var garðyrkjubændum/ylræktendum boðið að smaningaborðinu þegar verið var að ákveða hvert átti að selja raforkuna sem framleidd er í dag?
Austfirðingum var boðinn einnkostur og var í raun troðið upp á þá með pólitísku valdi á sínum tíma. Ég veit að álverið á Reyðarfirði er mikil lyftistöng fyrir áhrifasvæði þess og er mjög ánægður með að það þó hafi verið reist þar. Spurningin er og verður alltaf, stóð almenningi annað til boða en álver?
Út frá þessu er ágætt að spyrja, værum við að eyða peningum í vitleysu ef ríkið myndi verðmeta landsvæði út frá hagsmunum ferðaþjónustunnar og verja í það álíka fé og gert er til virkjunarrannsókna?
Væri fé ekki ágætlega varið í rannsóknir á því hvort ylræktendur, bæði erlendir og innlendir, sæju sér hag í að reisa hér stórar garðyrkjustöðvar og hefa útflutning á grænmeti, ef þeir fengju orkuna á sama verði og álverin?
Væri ekki ágæt hugmynd að kortleggja markaðinn fyrir annan iðnað en frumframleiðslu sem krefst minni orku en álver og laða hann til landsins?
Þróunin hér á Suðurlandi í garðyrkjunni er sú í megindráttum að garðyrkjubændur flytja framleiðslu sína þangað sem orkan er ódýr og hefur töluvert af henni flust til Flúða, sem getur boðið þeim orku á lægri verðum. Hvergerðingar gerðu ákveðin mistök fyrir nokkru þegar þeir seldu Orkuveitu Reykjavíkur, Hitaveitu Hveragerðis, en með því missti Hveragerðisbær frábært tækifæri til þess að styðja við og efla garðyrkjuna í bænum.
Nú horfum við (Hvergerðingar) til annarra tækifæra og meðal annars er ferðaþjónustan að taka góða kipp og eykst með hverju árinu. Ef virkja á hvern einasta hólma hér í nágrenninu verður erfitt fyrir okkur að "selja" ferðamönnum þá upplifun sem þeir sækjast lagflestir eftir þegar þeir sækja landið okkar heim. Þessar fullyrðingar mínar sæki ég í tölfræðibækling Ferðamálastofu "Ferðaþjónusta á Íslandi í tölum". Bæklingurinn er unninn upp úr viðamikilli könnun meðal ferðamanna og ferðaþjónustuaðila ár hvert. Magnað rit og ætti að vera skyldulesning í skólum. http://ferdamalastofa.is/upload/files/Ferðaþjónusta á Íslandi í tölum.pdf
Mengunin sem fylgir jarðvarmaorkuverum er töluverð og þarf líklega ekki að tíunda hér fyrir þeim sem leið eiga um Hengilssvæðið, Hellisheiði eða búa í nágrenni við þessa staði. Hvað þessi brennisteinsefni heita nú öll sem blásið er yfir okkur hér hefur aukist gríðarlega síðan Hellisheiðarvirkjun tók til starfa, eftir á að koma í ljós hve mikil áhrif það hefur á lífsskilyrði fólks á svæðinu.
Ég er fylgjandi jarðvarmaorkuverum og kýs þau umfram vatnsorkuverin því mun minna jarðrask fylgir jarðvarmaorkuverunum. Við verðum þó að leggja mun meiri vinnu og fé í rannsóknir á svæðum sem virkja skal og skoða þetta í sem víðustu samhengi. Landið er ekki stórt og þegar er farið að þrengja að okkur sem búum hér. Við þurfum ekki að keyra langt út fyrir fjallasllóða (innskot BJ: Karl meinar án vafa langt út fyrir stoðvegi og inn á fjallaslóða) og vegi til þess að rekast á einhver mannanna verk á borð við rafmagnslínur, stíflur, fjarskiptamöstur og fleira.
Ósnortin náttúra er hugtak sem fólki er tamt að nota en til þess að við getum búið hér þurfum við að nýta landið, en það er hreinlega ekki sama hvernig það er gert. Það verður að halda náttúrunni ósnortinni ef við ætlum að nýta landið á einhvern hátt. Til einskis er að varðveita landið ef ekkert má gera við það, hvorki nýta almenningi til hagsbóta eða til rannsókna. Rannsóknir lands krefjast umferðar um það og þá þarf grunngerð að vera til staðar (göngustígar, vegir og önnur samgöngumannvirki) þá er landið alls ekki ósnortið.
Landvernd er langt í frá tryggð með boðum og bönnum og lokun landsvæða fyrir umferð fólks og dýra. Landvernd verður tryggð með skynsamlegri nýtingu lands, hvort sem um ræðir virkjanir, landbúnað, ferðaþjónustu eða hvað annað sem okkur dettur í hug að taka okkur fyrir hendur.
Ef við tökum sem dæmi landsvæði sem fara undir miðlunarlón vatnsorkuver, sérstaklega þeirra sem staðsett eru í jökulám, þá er augljóst að það land verður seint og jafnvel aldrei nýtt til annarra hluta en að þjóna sem botn miðlunarlónsins. Inn í landvernd fléttast lóf okkar mannanna meðal annars á þann hátt að ef við pössum ekki upp á hvernig við nýtum náttúruna þá á endanum gerum við okkur erfiðara að lifa í og á landinu.
Já, ég vil vernda Hengilssvæðið. Ég vil reyndar vernda önnur landsvæði líka en það er ekki þar með sagt að ég vilji ekki virkjanir, vegi, húsbyggingar, ræktun eða hverskonar nýtingu þess lands. Það þarf einfaldlega að framkvæma á skynsaman og ábyrgan hátt.
Kv. Karl Jóhann.
---------------------------------------------------------------------------------------------------------------
Þessar eru hugleiðingar Kalla (bloggið er hkarl.blog.is)
Ég er ekki 100% sammála honum með alla hluti þarna. Aðallega þá að ég trúi því að sumsstaðar eigi 100% friðun lands fyrir raski fyllilega við. Þ.e.a.s. að landið sé friðað fyrir öllum framkvæmdum, en megi þó ferðast um það fótgangandi (og akandi á vetrum þegar jörð er frosin og þakin snjó).
En mér finnst aftur afar margt þarna sem ég er algerlega sammála. Umhverfisvernd fer jafn oft í öfga sem og sá ás sem vill gjörnýta allt til his ítrasta.
Ég vil finna yfirvegaðan milliveg okkur OG náttúrunni til hagsællar framtíðar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Liklega er vel við hæfi að ég verði fyrstur til að ríða á vaðið með athugasemdir við þessar umfangsmestu ritsmíðar sem birst á vefsetri Baldvins.
1. Málið snýst væntanlega meira um hvaða fjárfestir var tilbúinn til að byggja gróðurhús á Austurlandi sem myndi greiða fyrir 690 MW orku?
Ætla ekki skrifa doktorsritgerð um þetta. :)
Einar Ben Þorsteinsson, 13.11.2007 kl. 21:20
:) Reyndar nær þetta því nú ekki að vera umfangsmestu ritsmíðarnar mínar held ég, sérstaklega ekki þar sem stærstur hlutinn er nú fenginn frá honum Kalla kallinum. En góðar pælingar samt.
Er ekki lausnin bara að stofna til einhversskonar sambands samvinnu ylræktenda (hljómar óþægilega mikið í átt við Framsókn reyndar) og kaupa inn raforku í gegnum eitt innkaupasamlag?
Baldvin Jónsson, 13.11.2007 kl. 23:53
Þetta hljómar vel hjá þér Baddi. Reyndar smá Kaupfélagslykt af þessu - en af hverju ekki?
Einar Ben Þorsteinsson, 14.11.2007 kl. 12:13
Baldvin, elsku karlinn. Við erum alveg hjartanlega sammála um verndun/friðun lands.
Þegar ég tala landvernd þá er ég að tala um skynsama nýtingu þess. Einmitt eins og þú talar um að 100% friðun eigi rétt á sér í mörgum tilfellum, er ég sama sinnis.
Hvað þýðir 100% friðun? Í mínum huga þýðir það algjör friðun og því engin umferð leyfð enam í undantekningarilfellum. Surtsey er eitt slíkra landsvæða í heiminum.
Ég er algjörlega sammála þér um að viss landsvæði ber að friða/vernda en leyfa göngu um svæðin og akstur á snjóum þegar aðstæður leyfa. Einnig mætti taka til greina að leyfa flug og lendingar þyrla á þessum svæðum þar sem þær raska ekki umhverfinu á neinn hátt nema að því leyti að þeim fylgir örlítil hljóðmengun rétt á meðan þær fljúga yfir. Þetta þýðir samt að svæðin verða fyrir raski. Ágangur gangandi vegfarenda getur verið mjög mikill og nægir þar að nefna gönguleiðina upp að Svartafossi i Skaftafelli.
Ef við viljum vernda land en leyfa almennan aðgang að því, verðum við að fara út í framkvæmdir á þeim svæðum. Þar er ég að tala um smávægilegar framkvæmdir á borð við göngustígagerð en ég geri ráð fyrir að þú sért að tala um stærri framkvæmdir en það.
Ég veit að ég er með smámunasemi þarna en vil bara að þetta komi fram svo við séum að tala um sömu hlutina.
Fyrir þremur árum var ég svo lukkulegur að verða þess heiðurs aðnjótandi að búa og starfa í Þjóðgarðinum Skaftafelli. Þar kynntist ég mörgu áhugaverðu fólki og margskonar hugmyndum um náttúruvernd. Þar kynntist ég má segja öllu litrófinu í skoðunum á landvernd og landnýtingu og það var mjög góður skóli. Mættust þar öfgarnir í báðar áttir sem og allt þar á milli.
Talandi um Bitruvirkjun og Hverahlíðarvirkjun þá langar mig að benda á þá staðreynd að árleg losun nátturunnar á brennisteinsvetni nemur um 180 tonnum en losun sama vetnis í umræddum virkjunum verður um 11.000 tonn á ári! Það er ekki lítið og langar mig að benda fólki á að lesa aðeins um áhrif brennisteinsvetnis á mannslíkamann á eftirfarandi vefslóð: http://www.visindavefur.hi.is/search.php?q=brennisteinsvetni Athyglisverðust er efsta greinin á vefnum.
Ég bý í næsta nágrenni við þessar virkjanir og hef orðið mjög var við loftlagsbreytingar eftir að Hellisheiðarvirkjun tók til starfa og styðja mælingar Umhverfisstonunar þá tilfinningu mína og má lesa aðeins um þær hér: http://www.ust.is/Mengunarvarnir/Loftgaedi/Brennisteinsvetni/
Og svo til að skjóta aðeins til Einars þá tel ég kaupfélags hugmyndafræðina mjög góða en þar eins með hana og önnur mannanna verk að það þarf að fara varlega með hana í framkvæmd.
Lifið heil,
Kalli Guðmundss.
Karl Jóhann Guðmundsson (IP-tala skráð) 15.11.2007 kl. 16:15
Baddi
Ég er þér algerlega sammála í samb. við stjórnmálamennina, þegar þeir eru komnir inn á þing þá breytast þeir samstundis í sömu kerfis-kalla og -konur og allir aðrir, þetta gerist alls staðar í heiminum, pólitík er heimur sem lýtur sínum eigin lögmálum virðist vera og þarf ekkert að taka neitt of mikið mark á því sem almúganum finnst, enda hefur hann ekkert vit á pólitík.
Nú verð ég að gæta orða minna auðvitað þar sem systir mín er nýlega orðin pólitíkus ;-) í borgarstjórn fyrir samfylkinguna, sjáum hvað setur.
En ég hætti sjálfur að kjósa fyrir langa löngu þar sem ég hef einfaldlega aldrei trúað því sem stjórnmálamenn segja.
Go Liverpool.
snorri sturluson (IP-tala skráð) 19.11.2007 kl. 04:12
Bendi á athyglisverða bakþanka Þráins Bertelssonar í Fréttablaðinu í morgun......
Sigríður Jósefsdóttir, 26.11.2007 kl. 18:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.