Vilt þú verja Hengilssvæðið og Ölkelduháls??

Sendu þá vinsamlegast tölvupóst á Skipulagsstofnun skipulag@skipulag.is og á Ölfushrepp á olfus@olfus.is og leggðu inn athugasemdir.  Athugasemda frestur er til 9. nóvember.

Sendu endilega cc. á Umhverfisráðherra á tsv@althingi.is

Vanti þig efni í bréfið er hér mjög gott bréf af síðunni hengill.nu, vinsamlega passaðu að setja undir bréfið fullt nafn, kennitölu og heimilisfang:

Skipulagsstofnun
Laugavegi 166
150 Reykjavík

og

Sveitarfélagið Ölfus
Hafnarbergi 1
815 Þorlákshöfn

21. október 2007

Efni: Athugasemd við fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir - Bitruvirkjun, allt að 135 MW jarðvarmavirkjun
í Sveitarfélaginu Ölfusi og Grímsnes- og Grafningshreppi.

Ég undirritaður/undirrituð mótmæli fyrirhuguðum virkjunarframkvæmdum Orkuveitu Reykjavíkur
á svokölluðu Hengilssvæði með eftirfarandi atriði í huga:

  1. Hengilssvæðið og dalirnir austan, vestan og sunnan þess hafa lengi verið ein helsta útivistarparadís
    íbúa höfuðborgarsvæðisins og er skilgreint sem útivistarsvæði, staðfest af umhverfisráðherra í janúar
    2005. Nú, þegar verið er að þétta byggð á höfuðborgarsvæðinu svo gríðarlega sem raun ber vitni,
    byggja á öllum auðum blettum og fækka útivistarsvæðum í þéttbýli, er brýnna en nokkru sinni að íbúar
    höfuðborgarsvæðisins eigi kost á að njóta óspilltrar náttúru í hæfilegri dagsferðarfjarlægð frá heimilum
    sínum. Þetta svæði er eitt örfárra í nágrenni höfuðborgarsvæðisins þar sem hægt er að ganga um í
    friði og ró, njóta ótrúlega fjölbreyttrar náttúrufegurðar fjarri amstri dagsins og síaukinni bílaumferð á
    höfuðborgarsvæðinu.

    Ég mótmæli því harðlega að stórfyrirtæki verði heimilað að svipta íbúa höfuðborgarsvæðisins og
    afkomendur þeirra þessum lífsgæðum til þess eins að þjóna hagsmunum erlendra auðhringa í áliðnaði
    eða annarri stóriðju. Þar af leiðandi mótmæli ég einnig að hluta svæðisins verði breytt í iðnaðarsvæði
    skv. fyrirhugaðri breytingu á aðalskipulagi Ölfuss.

  2. Ein helsta tekjulind íslensku þjóðarinnar nú er ferðaþjónusta. Erlendir ferðamenn koma fyrst og fremst
    til Íslands til að njóta þeirrar náttúrufegurðar sem landið hefur upp á að bjóða. Við auglýsum landið
    sem óspillta náttúruperlu og á þeim svæðum sem það loforð stenst standa ferðamenn á öndinni yfir
    þeirri fegurð sem við þeim blasir. Hengilssvæðið er einn þessara staða og vinsælt að fara þangað í
    dagsferðir með erlenda ferðamenn, ýmist gangandi eða á hestbaki. Margir ferðamenn gera stuttan
    stans á landinu og þá er nauðsynlegt að geta sýnt þeim óspillta náttúru sem næst
    höfuðborgarsvæðinu.

    Ég mótmæli því harðlega að stórfyrirtæki verði heimilað að svipta ferðaþjónustuna tækifæri til að sýna
    erlendum ferðamönnum óspillta náttúru í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og legg til að svæðið verði
    friðað til frambúðar.

  3. Framkvæmdaraðili virkjana á Hengilssvæðinu er Orkuveita Reykjavíkur, en hún er einnig sá aðili sem
    lét gera umhverfismat og ber kostnað af því.  Þetta eru ámælisverð vinnubrögð þar sem stór
    hagsmunaaðili erí raun dómari í eigin máli. Ég mótmæli slíkum vinnubrögðum harðlega og geri þá kröfu
    að óvilhallir aðilar sjái alfarið um mat á umhverfisáhrifum og íslenska ríkið beri kostnaðinn.
    Umhverfismat sem framkvæmt er og kostað af hagsmunaaðila framkvæmdar getur aldrei verið marktækt.

  4. Einnig geri ég alvarlega athugasemd við kynningu og tímalengd hennar þegar svo stórar framkvæmdir
    eru annars vegar sem snerta nánasta umhverfi og lífsgæði ríflega helmings íslensku þjóðarinnar.
    Sex vikna frestur til athugasemda er allt of skammur og allt kynningarferlið til þess gert að sem fæstir
    veiti málinu athygli og hafi skoðanir á því.

Með von um árangur,


_________________________

Nafn, kt.
Heimilisfang


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Ben Þorsteinsson

"Nú, þegar verið er að þétta byggð á höfuðborgarsvæðinu svo gríðarlega sem raun ber vitni,
byggja á öllum auðum blettum og fækka útivistarsvæðum í þéttbýli, er brýnna en nokkru sinni að íbúar
höfuðborgarsvæðisins eigi kost á að njóta óspilltrar náttúru í hæfilegri dagsferðarfjarlægð frá heimilum
sínum."

Þessi setning vekur spurningar um hvort landið eigi að vera eitthvað eyðisker til þess að fólk frá höfuðborgarsvæðinu geti séð fegurðina......

Einar Ben Þorsteinsson, 30.10.2007 kl. 21:48

2 Smámynd: Baldvin Jónsson

Alls ekki Einar. Það eru einmitt að stórum hluta Hvergerðingar t.d. sem að vilja fá að halda sínu útivistarsvæði þarna í friði.  Þetta svæði er frábært fyrir alla útivist.

Af hverju ekki að virkja þá frekar þar sem skaðinn er minni?

Baldvin Jónsson, 30.10.2007 kl. 23:48

3 Smámynd: Gísli Bergsveinn Ívarsson

Vegna hvers er Baldvin á móti þessu?

Gísli Bergsveinn Ívarsson, 30.10.2007 kl. 23:48

4 Smámynd: Baldvin Jónsson

Ég Gísli er á móti þessu af því að:
1: Ég fer oft þarna um mér og ferðamönnum til skemmtunar og þetta er gullfallegt svæði.  Ekki mikið síðra en t.d. Landmannalaugar, bara minna í sniðum en afar stutt frá borginni.
2: Af hverju ætti að virkja þarna?  Samfélagið er algerlega á suðupunkti í verðbólgu og þenslu. Af hverju að bæta við það strax?
3: Er ekki alfarið á móti virkjunum, en vil að það sé grandskoðað en ekki framkvæmt í hreppapólitík og bitlinga hugsun. Vill að við búum okkur til framtíðar skipulag um orkunýtingu landans. Er ekki endalaus uppspretta og fáránlegt að úthluta allri orkunni okkar til álvera.

Baldvin Jónsson, 31.10.2007 kl. 00:41

5 identicon

OK: Go up to the area around Ölkelduháls. Won´t take you more than 20 minutes if you are in Reykjavík. Enjoy the silence and the peaceful atmosphere, the absolutely stunning views, the colours... have a soak in the Reykjadalur river... relax and have a good time. And all the time remember how close you in fact are to Reykjavík. Then imagine an ugly, VERY loud and noisy Bitruvirkjun there. NOT something you would want!  Or...??? Also remember that Bitruvirkjun is going to be even bigger than Hellisheiðarvirkjun, that you see on your drive there. You can go visit some of the already drilled test-holes up there if you want to get a hint of HOW noisy it is going to be.If you like to try to make a difference, please send your athugasemd to Skipulagsstofnun and Sveitarfélagið Ölfus ASAP. Visit http://www.hengill.nu if you want to learn more about this, or http://photo.blog.is/blog/photo/entry/351625/Baráttukveðjur,Katti(Who speaks Icelandic but is really slow in writing, so I go for English when I´m in a hurry...)

Katti (IP-tala skráð) 31.10.2007 kl. 15:42

6 identicon

Ég vil taka undir þessu - við erum "bara" að biðja um að horfið verður frá einni af FIMM virkjunum á Hengilssvæðinu og að svæðið fyrir austan Hengil / fryir norðan þjóðveginn verði friðað til frambúðar. En virkjunarframkvæmdir haldist fyrir sunnan þjóðveginn, það er að segja EF niðurstöður skyldu leiða í ljós að þörf sé fyrir þessa orku og það er í samræmi við aðra þætti málsins, þ.e.a.s mengun, línulagnir o.fl. Mér finnst oft vera byrjað á röngum enda - af hverju er umhverfismatið ekki framkvæmt áður en farið er að leggja pening í vegagerð, tilraunaborholur o.þ.h? Af hverju liggur ekki ákvörðun um álver fyrir áður en byrjað verður að afla orku fyrir það?

Svo finnst mér þetta svæði alls ekki síðra en Landmannalaugar þar til mun fjölbreyttara og aðgengilegra en það er sjálfsagt smekksatriði.

Petra Mazetti (IP-tala skráð) 1.11.2007 kl. 10:46

7 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Rányrkja á Hellisheiði
Skrifað af Framtíðarlandinu 30. okt. 07

Í tilefni af frummatsskýrslu um virkjanir OR á Hellsheiði vill Framtíðarlandið vekja máls á eftirfarandi:

Það er sláandi að í frummatsskýrslunni kemur fram að orkuvinnslan sé „ágeng“, eins og það er kallað. Á mannamáli heitir það að vinnslan stendur ekki undir sér til lengri tíma, heldur mun hitastig og vatnsborð fara stöðugt lækkandi. Í Bitruvirkjun er enda gert ráð fyrir að bora fyrst 27 vinnsluholur en síðan nýja holu á um það bil 3 ára fresti til að mæta minnkandi framleiðslugetu. Sambærileg vinnsla er einnig fyrirhuguð í Hverahlíðarvirkjun. Ef auðlindin sem um ræðir væri fiskur í sjónum væri þetta kallað rányrkja.

Þó er í skýrslunum staðhæft að um sjálfbæra vinnslu sé að ræða. Því er haldið fram að kynslóðir framtíðarinnar muni hafa aðgang að þróaðri tækni sem geri þeim kleift að sækja sjálfar orku í iður jarðar á þessum svæðum, þó svo að þessi tiltekna nýting éti sjálfa sig upp á einhverjum áratugum.

Á öðrum vettvangi hefur komið fram að þessi nýtingaraðferð – að nýta jarðvarma eingöngu til raforkuvinnslu – þýðir að um 88% orkunnar sem kemur upp er hent í formi varma út í umhverfið. Fari svo fram sem heldur verður Íslendingum æ erfiðara að rökstyðja að orkuvinnsla þeirra sé „sjálfbær“, en gagnrýnisraddir heyrast nú æ oftar um að þetta hugtak sé gróflega misnotað hér á landi, einkum í kynningarskini gagnvart hugsanlegum erlendum orkukaupendum.

Það má draga í efa að það sé almennt viðurkennd staðreynd í huga almennings að fyrirhugað sé að nýta jarðhitasvæði landsins þannig að mokað sé upp úr þeim eins og námu í 3-5 áratugi, 88% auðlindarinnar verði hent vegna aðstæðna, og að afgangnum sé ráðstafað í orkusölu til fáeinna álvera.

Góð ímynd Íslands er auðlind, en sé hún notuð án innistæðu verður hún fljótt uppurin, rétt eins og borholurnar á Hellisheiði.

Frummatsskýrslunar eru til skoðunar hér:
http://www.skipulag.is/focal/webguard.nsf/key2/frummatsskyrsla.html

Af vef Framtíðarlandsins: http://framtidarlandid.is/ranyrkja



Lára Hanna Einarsdóttir, 1.11.2007 kl. 11:49

8 Smámynd: Einar Ben Þorsteinsson

Hvar finnst þér að næsti stóri virkjunarkostur sé Baldvin?

Einar Ben Þorsteinsson, 2.11.2007 kl. 18:08

9 Smámynd: Baldvin Jónsson

Einar, ég veit að þetta hljómar mögulega sem fáviska í þínum eyrum. En af hverju þurfum við meiri orku strax?  Það er bullandi ofvöxtur í hagkerfinu, fljúgandi verðbólga og gríðarlegir okurvextir sem virðast ekkert ná að slá á ástandið.  Viljum við í alvöru auka við?

En þegar að því kemur að mögulega þarf meira væri gaman að skoða ýmsa kosti.  Mér þætti áhugaverðast að skoða túrbínur í t.d. Jökulsá á Fjöllum.  Þar er vatnsstreymið svo mikið og stöðugt að þar ætti að vera hægt að "virkja" án uppistöðulóns og ná samt þó nokkuð mikilli orku.

Þá mætti skoða ýmis önnur svæði fyrir jarðhita, en á að sjálfsögðu að vera lágmarkskrafa að nýtingin sé meiri en um 15% á orkunni sem gefst eins og í tilfelli Hellisheiðarvirkjunar.

Mörg svæði sem geta komið til greina, ekki byrja á fallegustu svæðunum. Bitruvirkjun er áætlað að reisa á mjög fjölförnu og vinsælu ferðamannasvæði.

Baldvin Jónsson, 3.11.2007 kl. 00:38

10 Smámynd: Ómar Ingi

Virkja þetta allt saman , Baldvin vertu bara heima hjá þér

Ómar Ingi, 3.11.2007 kl. 15:03

11 Smámynd: Einar Ben Þorsteinsson

Reyndar inniheldur Jökulsá á Fjöllum vatnsmesta foss í Evrópu, sjálfan Dettifoss. Rök þín um að mögulega þurfum við ekki meiri orku strax, eru góð og gild á sinn hátt. Þótt hlé verði á virkjanaframkvæmdum - þá þarf nú samt að halda áfram innan fimm ára, ekki síst vegna aukningar á orkunotkunar á höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna er nú líklega réttast að virkja nærri höfuðborginni og þá með jarðhita sem veldur minna jarð- og náttúruraski heldur en vatnsvirkjanir.

Neyðin mun þó alltaf kenna naktri konu að spinna - og spái ég því að þið finnið heppilegan kost þarna suður frá......þið að minnsta kosti getið varla hafnað þeim öllum eða hvað? Baddi?

Einar Ben Þorsteinsson, 3.11.2007 kl. 17:46

12 Smámynd: Baldvin Jónsson

Punkturinn minn með Dettifoss er einmitt sá að vatnsmagnið þar er þvílíkt að mögulega væri hægt að virkja þar án mikilla verksumerkja.

En jú Einar, þörfin vex stöðugt og nýja kosti þarf að finna.  En þörfin er ekki meiri en í dag eftir 5 ár ef við nr. 1 nýtum margfalt betur þá orku sem verið er að leysa úr læðingi á Hellisheiði í dag og nr. 2 drögum úr áherslu á álver og förum að fókusera á annan iðnað, t.d. iðnað sem gæfi landanum raunverulega góðar tekjur miðað við orkuþörf. Álið er án alls vafa ekki sá kostur þó að það hafi nýst vel til að skjóta lífi í byggð á Reyðarfirði.  Staðreyndin er sú að ef að við hefðum frekar byggt á Reyðarfirði t.d. gróðurhús á jafnmörgum fermetrum og álverið þekur í dag að þá myndi sú framleiðsla þurfa minni orku en álverið kallar eftir í dag og skapa rúmlega 200% fleiri störf og um 400% meiri tekjur skilst mér.

Er það bara að vera á móti eða hljómar það ekki í raun afar praktískt?

Baldvin Jónsson, 4.11.2007 kl. 00:11

13 Smámynd: Einar Ben Þorsteinsson

Jú það er mjög praktíst að byggja gróðurhús en reyndar var enginn fjárfestir sem vildi leggja fé í byggingu gróðurhúss á Íslandi, það virðist frekar langsótt.

Vissir þú að útflutningsverðmæti Íslendinga aukast um 20% með álveri "Reyðfirðinga"? Það er að skjóta lífi í allt Ísland, en ekki Reyðarfjörð.

Munu rafmagnsbílarnir ykkar í Reykjavík ekki þurfa aukna orku? Hvað dugar Hellisheiði lengi eiginlega?

Annars er þessi kenning um gróðurhúsið góð pæling - gaman að vita hvort þetta hefur verið reiknað út með "íslenskt paprikuverð" í huga eða af einhverri alvöru. Gaman að vita hvort þetta var reiknað út á bjórkvöldi hjá Grænu Byltingunni eða af fagmanni? :)

sól í Hvalfirði!

Einar Ben Þorsteinsson, 4.11.2007 kl. 14:38

14 identicon

Æ æ æ æ, mér verður illt í höfðinu af því að hlusta (lesa) rökræður um stóriðju á Íslandi. Þetta er svo frámunalega heimskulegt, Ísland er ekki stóriðjuland, það eru lönd með mikið ódýrt vinnuafl og miklar nátúruauðlindir sem eru stóriðjulönd, lönd eins og Bandaríkin, Rússland, Brasilía, olíuríkin í miðaustrinu osfrv. sem eru stóriðjulönd. Ekki litíl veiðmannasamfélög á hjara veraldar. Hvað verður næst, að bræða jöklana í ferskvatn til að selja í Ameríku.

Það verður rosalegt fyrir okkur að horfa í augun á afkomendum okkar eftir 30 ár þegar þeir hrista höfuðið og spyrja: "Hvað voruð þið að pæla?"

Staðreyndin er að íslenska þjóðin er búin að tapa sér algerlega í botnlausu peninga fylleríi, það verða allir að græða, meira í dag en í gær. Annar hver maður er í fasteigna og fjármálabraski og meðan hagvöxtur er á upleið spyrja menn ekki hvaðan hann kemur, fólk er einfaldlega blindað af gróðahyggjunni.

Það er mikð til í því sem Einar Ben er að segja að Reykjavík er mekka ólifnaðarins á Íslandi, og það er verið að fórna ansi miklu til að halda uppi lífsgæðum sem eru ekki raunveruleg fyrir höfuðborgarbúa vegna þess að það er þangað sem þetta fjármagn fer á endanum (það sem eftir verður). Lítum bara á hvernig ástandið verður á Reyðarfirði eftir nokkur ár. Það eru einhverjir nokkrir stórlaxar í litlum polli sem hafa makað feitan krókinn á þessum umsvifum og síðan verður herskari útlenskra farandverkamanna (því Íslendingar hafa ekki áhuga á að vinna í verksmiðju, við erum ekki stóriðjuþjóð) með öllum þeim dásemdum sem því fylgir.

Það besta er samt eftir, þetta er ekkert nýtt fyrir okkur, við erum búin að (með sömu græðginni) rústa veiðimiðum okkar, "sameign þjóðarinnar" sem var seld bissnessmönnum (alveg eins og virkjunarrétturinn) er að verða horfin og eftir sitja nokkrir vellauðugir einstaklingar og fyrirtæki. Meðan á þessu stóð var mestallur kvóti sendur suður, fiskurin hvarf úr byggðarlögum, frystihúsum lokaði og enga vinnu að fá.

Eru þetta ekki sömu byggðarlögin sem eru að væla eftir stóriðju núna, Reyðarfjörður, Húsavík . . . osfrv.

Hvað gerist þegar álverksmiðjunni á Reyðarfirði verður lokað?

Hvað verður þá um virkjunina?

Það er aumingjaskapur af stoltri, sjálfstæðri þjóð að láta erlend og innlend stórfyrirtæki taka sig svona aftan frá, skammarlegt.

En þetta kjósið þið yfir ykkur aftur og aftur.

Hana nú.

snorri sturluson

snorri (IP-tala skráð) 4.11.2007 kl. 21:57

15 Smámynd: Baldvin Jónsson

Gaman að fá þetta innlegg frá þér Snorri, er þér heilshugar sammála nema með það að ég hafi kosið þetta yfir mig ;)   Veit að meirihlutinn kaus þetta ekki heldur síðast. Meirihlutinn kaus breyttar áherslur, en Samfylkingin virðist hafa týnt einhvern veginn hugmyndunum sem hún var kosin fyrir, þ.e. Fagra Ísland.

Virkjun er orðin ansi hreint vel útlítandi kostur skyndilega hjá þeim og það frá mörgum hliðum.

Leyfið mér næst að kjósa fólk, ekki flokka.  Það myndi hrista ærlega upp í þessu.

Einar minn kæri, það að útflutningsverðmæti þjóðarinnar aukist hefur nákvæmlega ekkert að segja eða a.m.k. afar lítið.  Meðan að tekjurnar af útflutningnum lenda ekki hér heima að þá er þessi tölfræði markleysa. Marg búið að reikna út og sýna fram á að tekjurnar til þjóðarbúsins af álinu á Reyðarfirði eru ekki nema um 28.000.- á hvert tonn.  Heildarverðmæti útflutningsins skilar sér ekki til okkar heldur í vasa þeirra sem að eiga reksturinn og þeir eru ekki hluti af þjóðartekjum okkar, því miður.

Baldvin Jónsson, 5.11.2007 kl. 15:44

16 identicon

Einmitt Baddi, en það sem ég á við með að við kjósum þetta yfir okkur aftur og aftur er að stjórnmálaflokkunum á Íslandi er einfaldlega ekki treystandi, sérstaklega ekki Framsókn og Sjálfstæðisflokki, þeir eru algerlega siðblindir, sama hverju þeir lofa, eins og sýnt hefur sig.

Framsókn virðist hafa ættleitt slagorð Gulu Pressunar sálugu: "Hafa skal það sem betur hljómar" og svo gera þeir bara það sem þeim er sagt að gera hverju sinni (venjulega eru það Sjálfstæðismenn sem segja þeim hvað þeir eiga að gera). Sjálfstæðisflokkurinn hefur auðvitað alltaf gert bara nákvemlega það sem hentar vinum forystumannana best, skilar mestu í kassan þeirra.

Ég skil ekki hvað okkar kynslóð sem er farin að læðast inn á þing er að hugsa, stuttbuxnastrákarnir sem ólust upp undir væng feðra sinna vilja selja allan ríkisrekstur til að allt verði eins og í Ameríku (lesist: "ónýtt heilbrigðis og mennta kerfi") og tala fjálglega um frjálsan markað, blandað hagkerfi osfrv. meðan þeir vita ekkert hvaða afleiðingar hugmyndir þeirra hafa til lengri tíma litið. 

Þegar Bandaríkjamenn fá upplýsingar um hvernig íslenska velferðarríkið er byggt upp, jafnrétti til heilbrigðismála, menntunar osfrv. þá verða þeir öfundsjúkir og þeir mynd gefa mikið til að hafa það sama í sínu landi. Sjálfur borga ég um $700 á mánuði til að tryggja að ég fái góða heilbrigðisþjónustu þegar mig vantar hana fyrir mig og mína fjölskyldu, og það er vel, mjög vel, sloppið. Er þetta það sem Íslendingar vilja? Skv. mörgum "Ný Frjálshyggjumönnum" já, þetta er hið eina sanna frelsi.

Það er virkilega verið að höggva nærri því sem íslenska þjóðin hefur byggt upp og barist fyrir undanfarin 100 ár og ef við förum ekki að snúa þessum neo-kapítalista leik við á Íslandi þá verður sagan um fyrirmyndar ríkið ísland frekar endaslepp og við verðum í besta falli ný saga í dæmisögum Esóps sem víti til varnaðar þeim sem láta gróðahyggjuna blinda sig og selja fötin utan af sér fyrir glingur sem glóir á.

Það versta við þetta er að sökudólgarnir eru innanhúss. It´s an inside job. 

snorri (IP-tala skráð) 10.11.2007 kl. 23:19

17 identicon

Einar „Jú það er mjög praktíst að byggja gróðurhús en reyndar var enginn fjárfestir sem vildi leggja fé í byggingu gróðurhúss á Íslandi, það virðist frekar langsótt."Gaman þætti mér að vita hvaðan þessi heimild fékkst.Það er svo merkilegt til þess að vita að á þeim tíma sem umræðan um álversbyggingu fyrir austan stóð sem hæst þá fengu önnur sjónarmið aldrei að njóta sín. Sjónarmið á borð við að við ættum líklega að verðmeta landið okkar út frá fleiri möguleikum en að virkja það til raforkuframleiðslu, og fleira sem ég get talið upp. Talsmaður Landsvirkjunar sagði á sínum tíma að það væri ekki hlutverk hennar að verðmeta landið út frá öðru en til raforkuframleiðslu, það væri á annarra hendi að gera það.Nú spyr ég þig hvort þú vitir til þess að þessi umræða hafi átt sér stað? Var garðyrkjubændum/ylræktendum boðið að samningaborðinu þegar verið var að ákveða hvert átti að selja raforkuna sem framleidd er í dag?Austfirðingum var boðinn einn kostur og var í raun troðið upp á þá með pólitísku valdi á sínum tíma. Ég veit að álverið í Reyðarfirði er mikil lyftistöng fyrir áhrifasvæði þess og er mjög ánægður með að þó það hafi verið reyst þar. Spurningin er og verður alltaf, stóð almenningi annað til boða en að „fá“ álver?Út frá þessu er ágætt að spyrja, værum við að eyða peningum í vitleysu ef ríkið myndi verðmet landsvæði út frá hagsmunum ferðaþjónustunnar og verja í það álíka fé og gert er til virkjunarrannsókna? Væri fé ekki ágætlega varið í rannsóknir á því hvort ylræktendur, bæði erlendir og helst innlendir, sæju sér hag í að reisa hér stórar garðyrkjustöðvar og hefja útflutning á grænmeti, ef þeir fengju orkuna á sama verði og álverin?Væri ekki ágæt hugmynd að kortleggja markaðinn fyrir annan iðnað en frumframleiðslu sem krefst minni orku en álver og laða hann til landsins??Þróunin hér á Suðurlandi í garðyrkjunni er sú í megindráttum að garðyrkjubændur flytja framleiðslu sína þangað sem orkan er ódýr og hefur töluvert af henni flust til Flúða, sem getur boðið þeim orku á lægri verðum. Hvergerðingar gerðu ákveðin mistök fyrir nokkru þegar þeir seldu Orkuveitur Reykjavíkur, Hitaveitu Hveragerðis en með því missti Hveragerðisbær frábært tækifæri til þess að styðja við og efla garðyrkjuna í bænum betur en gert er í dag, með fullri virðingu fyrir því starfi sem er nú í gangi innan sveitarfélagsins.Nú horfum við (Hvergerðingar) til annarra tækifæra og meðal annars er ferðaþjónustan að taka góðan kipp og eykst með hverju árinu. Ef virkja á hvern einasta hólma hér í nágrenninu verður erfitt fyrir okkur að „selja" ferðamönnum þá upplifun sem þeir sækjast langflestir eftir þegar þeir sækja landið okkar heim. Þessa fullyrðingu mína sæki ég í tölfræðibækling Ferðamálastofu "Ferðaþjónusta á Íslandi í tölum" Bæklingurinn er unnin upp úr viðamikilli könnun meðal ferðamanna og ferðaþjónustuaðila ár hvert. Magnað rit og ætti að vera skyldulesning í skólum. http://ferdamalastofa.is/upload/files/Ferðaþjónusta%20á%20Íslandi%20í%20tölum.pdfMengunina sem fylgir jarðvarmaorkuverum er töluverð og þarf líklega ekki að tíunda hér fyrir þeim sem leið eiga um Hengilssvæðið, Hellisheiði eða búa í nágrenni við þessa staði. Hvað þessi brennisteinsefni heita nú öll sem blásið er yfir okkur hér hefur aukist gríðarlega síðan Hellisheiðarvirkjun tók til starfa, eftir á að koma í ljós hve mikil áhrif það hefur á lífsskilyrði fólks á svæðinu. Ég er fylgjandi jarðvarmaorkuverum og kýs þau umfram vatnsorkuverin því mun minna jarðrask fylgir jarðvarmaorkuverunum. Við verðum þó að leggja mun meiri vinnu og fé í rannsóknir á svæðum sem nota virkja skal og skoða þetta í sem víðustu samhengi. Landið er ekki stórt og nú þegar er farið þrengja að okkur sem búum hér. Við þurfum ekki að keyra langt út fyrir fjallaslóða og vegi til þess að rekast á einhver mannanna verk á borð við rafmagnslínur, stíflur, fjarskiptamöstur og fleira.Ósnortin náttúra er hugtak sem fólki er tamt að nota en til þess að við getum búið hér þurfum við að nýta landið, það er hreinlega ekki sama hvernig það er gert. Það verður erfitt að halda náttúrunni ósnortinni ef við ætlum að nýta landið á einhvern hátt. Til einskis er að verðveita landsvæði ef ekkert má gera við það, hvorki nýta almenningi til hagsbóta eða til rannsókna. Rannsóknir lands krefjast umferðar um þau og þá þarf grunngerð að vera til staðar (göngustígar, vegir og önnur samgöngumannvirki) þá er landið alls ekki ósnortið.Landvernd er langt í frá tryggð með boðum og bönnum og lokun landsvæða fyrir umferð fólks og dýra. Landvernd verður tryggð með skynsamlegri nýtingu lands, hvort sem um ræðir virkjanir, landbúnað, ferðaþjónustu eða hvað annað sem okkur dettur í hug að taka okkur fyrir hendur.Ef við tökum sem dæmi svæði sem fara undir miðlunarlón vatnsorkuvera, sérstaklega þeirra sem staðsett eru í jökulám, þá er augljóst að það land verður seint og jafnvel aldrei nýtt til annar hluta en að þjóna sem botn miðlunarlónsins. Inn í landvernd fléttast líf okkar mannanna meðal annars á þann hátt að ef við pössum ekki upp á hvernig við nýtum náttúruna þá á endanum gerum við okkur erfiðara að lifa í og á landinu.

Já, ég vil vernda Hengilssvæðið. Ég vil reyndar vernda önnur landsvæði líka en það er ekki þar með sagt að ég vilji ekki virkjanir, vegi, húsbyggingar, ræktun eða hverskonar nýtingu þess lands. Það þarf einfaldlega að framkvæma á skynsaman og ábyrgan hátt.

Kveðja,

Karl J. Guðmundsson

Karl Jóhann Guðmundsson (IP-tala skráð) 13.11.2007 kl. 12:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband