Hver er staðan á kosningavori?
16.3.2007 | 10:29
Rakst á þessa mjög svo áhugaverðu greiningu Hreins á stöðunni fyrir komandi kosningar. Mjög skemmtileg lesning Hreinn.
Ekki svo mjög lituð greining á stöðunni eins og hún birtist okkur núna.
Það er svo merkilegt að flokkur eins og XD skuli ekki ná að byggja upp trúverðugleika aftur eftir skandala fyrrum formanns í opinberum persónulegum skoðunum á mönnum og málefnum. Maður hefði jú haldið að þeir hefðu reynsluna og kraftinn til þess? En nei, það virðist ekki vera. Geir er virkilega trúverðugur kandídat, en hver sem er yngri en 65 ára er ekki orðinn leiður á Birni??
Algerlega sammála þér með XS, ef flokkurinn fer ekki að venja sig á að koma fram út á við sem heild þá mun fylgið aðeins halda áfram að minnka. XS hefur verið verulega ótrúverðugur undanfarið og m.a.s. þrátt fyrir að flokkurinn hafi lagt fram virkilega flottan pakka fyrir kosningarnar þá minnkar fylgið samt?? Er nokkuð viss um að flokksmenn hafi nú átt fremur von á því að fara yfir 40% en undir 20%.
XV fá mikið fylgi út á trúverðugleika trúi ég, og það þrátt fyrir að fólk sé í flestum málum ósammála þeim, a.m.k. þegar kemur að peningastefnu flokksins.
XF eyði ég nú ekki mörgum orðum á, en ljóst að fylgi þeirra mun að stærstum hluta koma frá landsbyggðinni.
Allar líkur á að framboð aldraðra sundrist aftur fyrir kosningar, er algerlega sannfærður um að málefnin hefðu fengið mun meira fylgi og náð árangri á þingi ef aldraðir og öryrkjar hefðu stillt upp sterkum leiðtogum innan hinna flokkanna.
Eini óvissuþátturinn er að mínu mati XI (eða verður það ekki stafurinn þeirra?). Það á alveg eftir að koma í ljós hvort að Ómari og Co takist að byggja upp fylgi fyrir komandi kosningar. Þ.e.a.s. það er alveg ljóst að margir grænir sem hafa kosið VG hingað til "gegn sannfæringu" sinni ef svo má að orði komast taka væntanlega framboði Ómars fegins hendi, en það er samt ekki sjálfgefið.
Trúverðugleiki virðist algjörlega vera málið fyrir þessar kosningar, það er a.m.k augljóst að þeir flokkar sem hafa gefið út ákveðna stefnu og varið hana frekar en að gera stefnuna bara loðnari í umræðum, þeir flokkar sýna stöðugleika milli kannana.
Þú spyrð þig kannski: "Hefur trúverðugleiki ekki alltaf verið aðalmálið?". Og svarið er jú, en ég held að þetta sinnið séum við bara ekki lengur tilbúin til að trúa "korter í" yfirlýsingum rétt fyrir kosningar. Ég trúi því að þjóðin sé orðin nógu þroskuð til þess að meta alla þætti, fortíð, loforð og framtíð fyrir þessar kosningar.
Það er a.m.k. mín heitasta ósk núna, að við kjósum með hjartanu og rökhyggju í bland. Ekki kjósa bara það sama og síðast af því bara. Taktu þér nú tíma og skoðaðu málið vel.
Kýstu af því bara eða kýstu það sem samviska þín bíður þér miðað við núverandi stöðu??
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.