AÐGERÐIR GEGN BÖNKUM OG LÁNASTOFNUNUM - GREIÐSLUVERKFALL HAGSMUNASAMTAKA HEIMILANNA

Tek mér það bessaleyfi að birta hér færslu frá honum Marinó sem er hér: http://marinogn.blog.is/blog/marinogn/entry/958310/ Koma hér fram hjá honum afar góðar upplýsingar fyrir þá sem eru í greiðsluverkfalli.  Sjá einnig nánari upplýsingar hér: http://www.heimilin.is/varnarthing/spurtsvaradgreidsluverkfall

 

Nú er fyrsti dagur greiðsluverkfalls að kvöldi kominn. Ég veit ekki betur en að hann hafi gengið mjög vel, en einhverjar fregnir hef ég haft af undarlegu háttalagi bankanna.

• Nokkur dæmi eru um að einstaklingar í greiðsluþjónustu hafi kvartað yfir því að greiðslur, sem átti að taka út 1. október, hafi verið skuldfærðar daginn áður. Hafa menn furðað sig á þessu og velt því fyrir sér hvort bankinn sé ekki að brjóta reglur og samninga. Séu viðskiptavinir í greiðsluþjónustu, þá eru gerðir samningar um fyrirkomulag og tímasetningu skuldfærslu. Það þýðir að viðskiptavinurinn heimilar skuldfærsluna á fyrirfram ákveðnum dögum og að skuldfærslan eigi sér stað áður en sá dagur rennur upp hlýtur því að vera óleyfileg skuldfærsla.

• Annað sem hefur borið á, er að bankar hafa sett takmarkanir á úttektir eða viðskiptavinir beðnir um að koma seinna. Þetta sýnir annað hvort að bankarnir hafa ekki verið undirbúnir fyrir vel auglýstar aðgerðir eða að þátttakan í aðgerðunum hefur verið meiri en bankarnir gerðu ráð fyrir. Nema þetta sé brella til að hafa áhrif á verkfallsfólk.

• Þriðja sem ég hef heyrt af, er að bankastarfsmenn hafa reynt að telja fólk af því að taka þátt í aðgerðunum. Fólk hefur verið spurt alls konar spurninga, hvort ekki væri rétt að taka minna út eða hvort það sé alveg visst um að það ætli að segja upp kortunum sínum eða greiðsluþjónustunni.

• Loks er það hreinlega dónaleg framkoma starfsmanna gagnvart kúnnanum og óvarkárni. Dæmi eru um að þegar peningar eru taldir, þá heyrist það hátt og skýrt í bankanum, seðlabunkum er liggur við hent í kúnnann og sjálfsögð háttvísi og kurteisi látinn lönd og leið.
Ég veit ekki hvort bankafólk sé að ná sér niðri á fólki vegna útúrsnúnings DV á fréttatilkynningu samtakanna á miðvikudag eða hvort það telji þessum aðgerðum beint gegn þeim persónulega. Hver svo sem ástæðan er, þá dæmir svona framkoma sig sjálf.

Ég held að bankafólk eigi að hafa í huga, að dýrmætustu eignir bankans eru viðskiptavinirnir, orðspor og viðskiptavild. Það vorum ekki við viðskiptavinirnir sem rústuðum traustinu á fjármálafyrirtækjunum. Það voru þau sjálf og haldi fólk að með því að skipta um nafn og kennitölu, þá ávinni það traustið aftur, þá fer það villu vegar. Traustið kemur vonandi hægt og sígandi, þegar fjármálafyrirtækin af unnið til þess. Satt best að segja virðist mér þau lítið gera til þess. Það hefur þurft að draga afsakanir með töngum út úr stjórnendum fyrirtækjanna. Auðmýkt og lítillæti virðist ekki þekkjast hjá þeim (þ.e. stjórnendunum). Þó það sé komið nýtt fólk í brúnna, sem var hugsanlega ekki í starfi hjá fyrirtækjunum fyrir hrunið, þá er það gott fyrsta skref að viðurkenna klúðrið og hvernig brotið var á rétti viðskiptavinanna. Næsta skref er að koma því til skila í allar deildir fyrirtækjanna að sýna eigi viðskiptavinum virðingu, sanngirni og kurteisi. Nokkuð sem skortir mjög víða í flestum, ef ekki öllum fjármálafyrirtækjunum.

Höfum það hugfast að Hagsmunasamtök heimilanna hafa í 8 mánuði leitað eftir samstarfi við fjármálafyrirtæki og stjórnvöld um lausn á stöðu heimilanna. Já, samstarfi, ekki kynningarfundum. Í 8 mánuði höfum við verið hunsuð og samt erum við einu samtök neytenda sem höfum þetta sem okka megin stefnumál. Hverju hefur þessi skortur á samstarfi skilað okkur? Greiðsluverkfalli. Hvernig væri að fara að vakna af þyrnirósarsvefninum og bjóða okkur til alvöru viðræðna? Við erum ekki óvinurinn. Við erum viðskiptavinir ykkar og þið fóruð illa með okkur þegar þið voruð undir gömlu kennitölunni. Verið bara fengin að við skulum ennþá stunda viðskipti við ykkur. Það er ekki víst að við gerum það til eilífðarnóns. Og hvað ætlið þið þá að gera? Loka búllunni?

Ég vil bara segja, að oftast þegar komið er illa fram við mig í viðskiptum, þá gef ég viðkomandi ekki annað tækifæri nema viðkomandi lofi bót og betrun og gefi mér einhverja tryggingu fyrir því. Ég er að vísu í þeirri stöðu að sá banki sem ég átti í mestum viðskiptum við, er ekki til lengur, þ.e. SPRON/Sparisjóðurinn á Seltjarnarnesi. Ég var fluttur nauðungaflutningum yfir í Kaupþing á Hagatorgi og varð illt í maganum við þá tilhugsun. En ástæðan fyrir því að ég ákvað að gera ekkert í málunum í bili er einföld. Þjónustufulltrúinn minn utan af Nesi hóf störf í útibúinu. Ef hún væri ekki þarna, þá væri ég löngu farinn eitthvað annað. Og þetta er oftast ástæðan fyrir því að við, viðskiptavinirnir, höldum ennþá tryggð við gömlu bankana okkar þó þeir séu komnir með nýja kennitölu. Vegna mannlegu samskiptanna sem við höfum byggt upp í gegnum árin. Þess vegna sárnar okkur, að stjórnendur bankanna skuli ekki skilja angist okkar og áhyggjur. Skuli ekkert mark taka á því að fjárhagsvandinn, sem gamla kennitalan skapaði, er að éta okkur að innan, valda svefnleysi, magaverkjum, streituköstum, reiði, höfuðverkjum og öðrum andlegum og líkamlegum kvillum. Við erum að biðja um að nýja kennitalan bæti okkur það tjón sem gamla kennitalan olli. Ekki málamyndagjörninga eða lengingu í hengingarólinni. Nei, við viljum sjá aðgerðir sem gera okkur kleift að sofa rólega og vera afslöppuð. Sem gera okkur kleift að líta björtum augum fram á veginn og skilja skuldaklafann eftir við vegkantinn áður en við höldum áfram ferð okkar í gegnum lífið. Sem lætur okkur vilja halda áfram að búa í þessu þjóðfélagi og geta sagt við börnin okkar að Ísland sé landið. Þetta var nefnilega einu sinni frábært land, en það var áður en gamla kennitalan ykkar óð yfir allt á skítugum skónum og skyldi hér allt eftir í rjúkandi rúst. Og við sátum eftir með reikninginn. Er það ekki furðulegur andskoti?

Ef þið hafið áhuga, þá vitið þið hvar okkur er að finna. En hafið hugfast: Ef þetta greiðsluverkfall dugar ekki til að sannfæra ykkur um samtakamátt okkar, þá boðum við bara annað sem mun vara lengur. Við vitum hvernig verklýðshreyfingin gerði þetta og hvaða árangri hún náði. Nýjasta hótun stjórnvalda um hrollvekjandi skattahækkanir mun bara þjappa okkur saman.

Marinó G. Njálsson
http://marinogn.blog.is/blog/marinogn/entry/958310/


mbl.is Fegruðu bankar stöðuna?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Takk fyrir þetta, Baldvin.  Vegna misskilnings sem hefur komið upp, þá vil ég taka fram að upptalningin er dæmi um það sem hefur komið upp, en ekki vísbendingum að þetta almennt það sem er að gerast.  Það var einhver, sem hélt að ég væri að væna alla bankamenn um dónaskap, en svo er alls ekki.  Ég held að bankamenn séu upp til hópa kurteist og almennilegt fólk, en það leynist misjafn sauður í mörgu fé.

Marinó G. Njálsson, 2.10.2009 kl. 14:56

2 Smámynd: Baldvin Jónsson

Þakka þér miklu heldur Marinó, þitt óeigingjarna starf er vonandi grunnur að því að hjálpa hér þúsundum fjölskyldna.

Baldvin Jónsson, 2.10.2009 kl. 15:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband