SKYLDULESNING VARÐANDI ICESAVE UMRÆÐUNA

Tekið af vef Pressunnar, sjá hér.

 

Ellefu firrur um Icesave

1.    Icesave innstæður eru á ábyrgð íslenska ríkisins. 

Fyrir setningu neyðarlaga voru innstæður í íslenskum bönkum tryggðar af tryggingarsjóði innstæðueigenda. Gildir einu hvort útibúið er innanlands eða erlendis. Tryggingarsjóðurinn er hins vegar sjálfseignarstofnun en fjármálafyrirtæki eru aðilar að sjóðnum og fara með meirihluta í stjórn.  Ef upphæð í sjóðnum dugar ekki fyrir lágmarksvernd innstæðueigenda þá er sjóðnum m.a. heimilt að taka lán.  Trúverðugur sjóður er hagsmunamál fjármálafyrirtækja og hluti af því sem þeir selja – þ.e. öryggi innstæðna og trúverðugleiki.  Íslenska ríkið er ekki og hefur aldrei verið í ábyrgð fyrir greiðslum í sjóðinn né því að upphæð í sjóðnum dugi til greiðslu lágmarkstrygginga.

2.    Jafnræðisregla ESB bannar mismunun innlendra innstæðna og Icesave. 

Í október 2008 ákváðu stjórnvöld að innlendar innstæður nytu ríkisábyrgðar.  Slíkt hið sama var ekki boðið fyrir innstæður erlendis.  Því er títt haldið fram að þetta standist ekki jafnræðisreglu ESB enda sé verið að mismuna á grundvelli þjóðernis.  Það er rétt að jafnræðisregla ESB bannar mismunun á grundvelli þjóðernis. Það var hins vegar ekki verið að gera upp á milli manna á grundvelli þjóðernis.  

Til þess að tryggja að greiðslukerfið á Íslandi stöðvaðist ekki sem hefði stöðvað atvinnulífið þá var gripið til aðgerða innanlands.  Innlendar innistæður, hvort sem er í eigu Íslendinga eða útlendinga, voru ríkistryggðar.  Innstæður í erlendum útibúum, hvort sem þær voru í eigu Íslendinga eða útlendinga, voru ekki ríkistryggðar.  Sumir Íslendingar og sumir útlendingar nutu ríkisábyrgðar en aðrir ekki.  Það er því ekki hægt að halda því fram verið sé að mismuna á grundvelli þjóðernis.  Þetta er mismunu á grundvelli landsvæðis og til þess gert að lágmarka skaða á Íslandi.

Þessi aðgerð var ekki gerð á kostnað innstæðueigenda erlendis enda staða þeirra óbreytt á eftir.  Mismunun á grundvelli landssvæða er vel þekkt og er landsbyggðarstefna dæmi um slíkt.  Þess til viðbótar var framkvæmd mjög svo sambærileg aðgerð nýlega í Bretlandi þegar Alister Darling ákvað að tryggja innstæður banka í Bretlandi en neitaði að tryggja innstæður sama banka á eynni Mön.  Rök breska fjármálaráðherrans voru að eigendur innstæðna á Mön greiddu ekki skatt á Bretlandseyjum og því óeðlilegt að breska ríkið ríkistryggði innstæður þar – jafnvel þó svo að innstæður sama banka væru tryggðar í útibúum í Bretlandi.

3.    Stjórnarskrá Íslands bannar mismunun innlendra innstæðna og Icesave. 

Því hefur verið haldið fram að 65. grein stjórnarskrárinnar geri það að verkum að ríkistrygging á innlendum innstæðum kalli á ríkistryggingu Icesave.  Hér er aftur ruglað saman mismunun á grundvelli þjóðernis og aðgerð sem beitt er vegna skilgreinds landssvæðis (sjá firru 2) .

4.    Tilskipun ESB um innstæðutryggingar kveður á um ríkisábyrgð.

Tilskipun ESB segir að aðildarríki beri að tryggja að til staðar sé tryggingarsjóður fyrir innstæðueigendur sem tryggi lágmarksvernd.  Ekkert er kveðið á um útfærslu eða hvað gerist ef sjóður tæmist.  Ekki er gerð krafa um ríkisábyrgð. Útfærsla á tilskipun ESB er í flestum tilvikum lík og hjá hefðbundnum tryggingarfélögum.  Þegar tryggingarfélag ábyrgist hið vátryggða þá er upphæðin í sjóðnum sem stendur á bak við tryggingar einungis brot hins vátryggða enda ekki gert ráð fyrir að reyna muni á alla upphæðina.  Á sama hátt eru tryggingarsjóðir innstæðueigenda ákveðið brot af því sem tryggt er.  Augljóslega dugar svona kerfi ekki í tilviki kerfishruns heils bankakerfis.  

Regluverk ESB dugði ekki í tilviki Íslands enda var ekki hugsað fyrir slíku tilviki.  Regluverk ESB er því gallað hvað þetta varðar.  Frakkar tóku sérstaklega fram í sinni útfærslu að í tilviki kerfishruns banka í Frakklandi þá væri ekki hægt að treysta á tryggingarsjóðinn.  Það að tilskipun ESB kveði ekki á um ríkisábyrgð er skiljanlegt enda umdeilt vegna freistnivanda sem slíkt skapar. Líklegt er að ESB muni kollvarpa regluverki sínu á þessu sviði í ljósi þeirra galla sem komu berlega í ljós og þá sérstaklega í tilviki Íslands. Það að regluverk ESB sé gallað er alvarlegt en það er ekki hlutverk Íslands að bjarga því á kostnað framtíðar Íslands.

5.    Ísland þarf að ábyrgjast lágmark 20 þúsund evrur pr. reikning

Ísland hefur ekki undirgengist að taka ábyrgð á innstæðum í einkareknum bönkum. Tryggingarsjóður innstæðueigenda á að tryggja lágmarksupphæð og sá sjóður er án ríkisábyrgðar.  Hvorki íslensk lög, stjórnarskrá landsins, tilskipun ESB eða neyðarlögin breyta þeirri staðreynd (sjá firrur 1, 2, 3 og 4).

6.    Að greiða ekki Icesave jafngildir því að segja sig úr lögum við siðaðar þjóðir.


Ísland hefur ekki undirgengist ríkisábyrgð vegna Icesave og þarf þess ekki.  Við hrun íslenska bankakerfisins hafa komið í ljós alvarlegir gallar í regluverki ESB.  Það að leysa Icesave er mikið hagsmunamál ESB í ljósi galla í regluverkinu.  Ef ESB er ósammála um rétt Íslands þá er það siðaðra þjóða háttur að leysa slíkt fyrir dómstólum og una síðan niðurstöðunni. Þess hefur Ísland óskað en ESB hingað til hafnað.  Að hafna slíku getur vart talist siðaðra þjóða háttur?

7.    Eignir Landsbankans duga líklega að stærstum hluta.

Það er alls óvíst hvort eignir Landsbankans dugi auk þess sem neyðarlögin breyttu forgangsröð kröfuhafa þannig að kröfur sem áttu að koma á undan innistæðum færðust aftar.  Ef síðar kemur í ljós að neyðarlögin halda ekki – hvað þá?  Af hverju ætti íslensk þjóð að taka áhættu af slíku sem og að eignir Landsbankans dugi?  Þetta ætti hins vegar að vera fagnaðarefni fyrir ESB.  Þá er hugsanlega hægt að semja við Íslendinga að setja eignirnar sem veð fyrir lágmarksupphæð vegna Icesave.  

8.    Við eigum enga vini í þessu máli.

Ef það væri rétt þá segir það lítið annað en að illa hefur verið haldið á málum Íslands og lítið farið fyrir sanngjörnum málstað Íslands.  Ísland þarf ekki að taka á sig skuldbindingar vegna Icesave og upphæðirnar eru landinu ofviða.  Þar sem að mistekist hefur að koma sterku rökum að og nýta sterka samningsstöðu þá þarf að skipta út samninganefndinni.  Síðan þarf Ísland allra síst á forsætisráðherra að halda sem lætur hafa eftir sér hvað eftir annað að Ísland sé skuldbundið til að greiða Icesave!

9.    Við höfum ekkert annað val annað en að greiða.

Ísland hefur hvorki val um né efni á ríkisábyrgð vegna Icesave. Ríflega þrjátíu manns á þingi ættu ekki að hafa val um að skuldsetja framtíðina með þessum hætti. Það er of mikið í húfi.  Forystumenn Íslands hafa val að taka hagsmuni Íslands fram yfir hagsmuni ESB.  Það er líka val að tala máli Íslands.  Það er líka val að endursemja undir forsæti nýrrar samninganefndar. Sú lausn þarf að vera í samræmi við lög, reglur og skuldbindingar Íslands.  Það er val að hætta að blekkja þjóð og þing um ágæti þessa samnings sem liggur fyrir. Það er heldur betur val að Alþingi felli samning Steingríms Joð.  Það er ábyrgt val og eina lausnin sem Ísland getur sætt sig að ríkið – þ.e. fólkið í landinu – gangist ekki í ábyrgð og greiði ekki það sem okkur ber ekki að greiða.  

10.    Samkomulagið hefur ekki áhrif fyrr en eftir sjö ár.

Þessi firra er móðgun við gáfnafar íslenskrar þjóðar.  Að reyna að halda því fram að tæplega 700 milljarða króna ríkisábyrgð sem ber 5,5% vexti hafi ekki áhrif fyrr en við fyrstu greiðslu er fráleitt!  Slík ríkisábyrgð hefur strax áhrif á lánshæfi og þar með lífskjör og möguleika þjóðarinnar að vinna sig út úr kreppunni.

11.    Með því að samþykkja að greiða Icesave er óvissu eytt.

Með því að samþykkja að greiða Icesave þá er framtíð Íslands í meiri óvissu en áður.  Þá er búið að spyrða saman framtíð Íslands við „skynsama“ útlánastarfsemi Landsbankans síðustu ár. Þjóðin hefur þá tekið að sér að ábyrgjast upphæð sem hún ræður ekki við og óvíst hvenær niðurstaða um greiðslu liggur fyrir.  Óvissu verður þá ekki eytt fyrr en endanlegt uppgjör liggur fyrir og málaferlum vegna neyðarlaganna er lokið.  Það gerist ekki á næstu árum og óvissan eykst því og varir lengi.

Sjaldan áður hefur reynt eins mikið á hlutverk Alþingis og nú.  Alþingi getur með sögulegum hætti komið í veg fyrir möguleg skelfileg og dýrkeypt mistök vegna Icesave.  Það að Alþingi hafni Icesave samningi er hluti af lýðræðinu og nokkuð sem jafnvel ESB verður að sætta sig við.  Slík höfnum Alþingis breytir því ekki að hagur ESB verður áfram að semja við Ísland og vissulega er það einnig okkar hagur að semja um lausn EN við getum ekki og megum ekki samþykkja ríkisábyrgð.


Jón Helgi er verkfræðingur og stundar doktorsnám í hagfræði, er fyrrum aðjúnkt við verkfræðideild Háskólans í Reykjavík, kenndi við verkfræðfræðideild Háskóla Íslands og í MBA námi Háskóla Íslands.  Hann hefur staðið að stofnun og veitt forstöðu þremur fyrirtækjum, var framkvæmdastjóri Klaks nýsköpunarmiðstöðvar atvinnulífsins og forstöðumaður gjaldeyris- og afleiðudeildar Landsbankans til 1999.
Netfang: j.h.egilsson@gmail.com

 


mbl.is Greiðslubyrði 77% viðráðanleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Björnsson

Einmitt þess vegna er óskiljanlegt hversvegna Íslensk stjórnvöld eru að eyða skattpeningunum framtíðarinnar í ræða málinn á röngum forsemdum.

Júlíus Björnsson, 11.6.2009 kl. 23:06

2 identicon

Slóðin á lögin um tryggingarsjóð innistæðueigenda (sjóðinn)

http://www.althingi.is/dba-bin/unds.pl?txti=/wwwtext/html/lagasofn/136b/1999098.html&leito=tryggingarsj%F3uri%5C0innst%E6%F0ueigenda#word1

ef menn trúa þér ekki

Örn A (IP-tala skráð) 11.6.2009 kl. 23:33

3 identicon

Að sjálfsögðu á að ganga frá þessu máli. 

En það á að gera það á réttum forsendum.  Ekki undir ofbeldi og kúgun.

Hlutlaus dómstóll verður að fjalla um málið á faglegum forsendum.

Kjarni málsins kemur hér fram að ofan hjá greinarhöfundi:

Það er líka val að endursemja undir forsæti nýrrar samninganefndar. Sú lausn þarf að vera í samræmi við lög, reglur og skuldbindingar Íslands.

Ég hef þurft að reka einkamál á erlendri grund og veit hvað slíkur ferill felur í sér. Það er oft ágreiningur um lögsögu í byrjun, en það skýrist.

Mér skilst af félagsmálaráðherra að s.k. "viðsemjendur" Icesave-nefndarinnar hafi hafnað dómsstólaleiðinni.

Það er mjög óeðlilegt og í raun segir alla söguna um viðhorf "þessara manna" til okkar.  Það er lítil virðing fyrir íslendingum í gangi á þeim bæ - og bræðraþelið víðsfjarri.

Innlánin voru viðskiptalegs eðlis - ekki pólítísk. Icesavesamningana á að reka með heilum her lögmanna, undir þar til bærum dómsstóli - ekki þreyttum embættismönnum á pólítískum forsendum. Þetta eru mjög alvarleg mistök gjörsamlegra vanhæfra stjórnmálamanna að setja málið í þennan farveg.

Að sjálfsögðu er til dómstóll sem getur fjallað um málið;  það var jú hægt í byrjun þessara viðskiptaferla (innlánsstarfssemi bankaútibús frá Íslandi) að finna farveg fyrir viðskiptin og þá hljóta að vera lög og reglur sem gilda - undir lögsögu tiltekins dómstóls.  En málið varðar einmitt "Jurisdiction" - lögsögu.  Hana þarf að skilgreina, greinilega.

Það er með ólíkindum hvernig bretarnir og evrópusambandið hafa spilað með íslensku ríkisstjórnina, fyrst nú í haust og svo aftur núna.

Þetta þarf að enda - með því að fara á byrjunarrreit.

Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 11.6.2009 kl. 23:44

4 Smámynd: Haukur Nikulásson

Flott, vel skipulagt lesefni og auðskilið. Takk fyrir þetta.

Haukur Nikulásson, 11.6.2009 kl. 23:48

5 Smámynd: Helga Þórðardóttir

Takk fyrir að benda á þessa grein. Mér finnst alveg hræðilegt hvað margir samþykkja þennan samning án þess að vita nokkurn skapaðan hlut hvað hann getur þýtt fyrir þjóðarbúið. Ég vil líka spyrja spurninga eins og hvert er vald Alþingis til að taka á sig endalausar og óljósar skuldir. Það verður að kynna þennan samning betur fyrir þjóðinni.

Helga Þórðardóttir, 12.6.2009 kl. 00:18

6 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

TAkk fyrir þessa færslu, ég finn fyrir smá létti.  Ekki veitir af upplýsingum ábyrgra manna, flumbrugangur stjórnarinnar er greinilega mikill.  Eina færa leiðin í Icesave deilunni er dómstólaleiðin.  Það er mín skoðun. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 12.6.2009 kl. 00:53

7 Smámynd: Júlíus Björnsson

E það satt að undirlagi Nefndarinnar í Brussel hafi 3 stærstu [einka]Bönkum ES : það er búið að gervi einkavæða alla ES, þannig að bankarnir eru allir óbeint á Seðlabanka eða ríkisábyrgð, fengið grænt ljós á að dæla lánsfé í væntanleg meðlimaríki í vestri og Norðri. Samfara útvíkkunarplönum ES og aðildarsamning EFTA að  efnahagsregluverki ES.

Þetta heitir að búa til skuldaþræl[vel þekkt úr öllum stéttum á öllum tímum] fyrst í stað ofmettnast lánþiggjandin, fyrst ekki er krafist fyllstu trygginga þá hlýt ég að vera svona klár.  Árin líða og 80% skulda eru á hendi sama hagsmuna aðila. Þá er talað við ríkisstjórn viðkomandi lands og bent á hve skuldstaðan sé há. Þrengingar fylgja í 4 ár síðan kosið og innlimun er orðin veruleiki. Stjórnmálamennirnir geta aldrei viðurkennt þetta opinberlega: sjálfsaftaka.

Stöðug kaup krónubréfa styrkja gengi krónu og auka útflutning til Íslands  auka líkur á að ES fyrirtæki fái stórverkefni á Íslandi. Lán til Íslendinga sem verjast í ES skila hagvexti þar og eining fá Íslendingar að taka byrjunaráhættu svo sem austur útvíkkunni.

Ef mínir líkar væru í ES Nefndinni: yfir meðalgreind og verkefnið væri að innlima ný lénssvæði í dag eða á morgun þá færi ég svona að þar sem Ísland [Danmörk, Svíþjóð] er lítið nægir að nota einn af mínum bönkum frekar en þrjá. Auðvitað er þetta ES fyrir bestu í samræmi við þess markmið og mitt starf er að stýra hlutunum þannig að sjálfkrafa gerist þeir að mínum vilja. Auðfengið fé spillir öllum ekki bara fjármálageirum og stjórnmálamönnum, meðalgreindur getur gefið sér það. Aftur á móti mun almenningur leita skýringa hrunsins þar síðar og það vita mínir líkar. 

Nú væri gaman að sjá hvort um þröngan hóp lánveitenda er að ræða?

Ég skil allavega leyndina í þessu ljósi. Og hef strategy í genunum.

Í lögunum fyrir ofan er ábyrgðin Viðskiptamálaráðherra og Fjármálaeftirlit.

Davíð Oddson er hvergi nefndur á nafn.  

Íslendingar eiga snúa sér að öðru en fjármálum og viðskiptum. Halda þessum geirum í lágmarki. Þeim er margt annað betra til lista lagt. 

Ódýrt einfalt fjármálkerfi væri best: hagstæðustu lánin.  Allir fíklar verða að byrja að viðurkenna sinn eigin veikleika.

Júlíus Björnsson, 12.6.2009 kl. 03:59

8 identicon

Ég við verðum að leita allra leiða að komast hjá því að greiða þetta, en er ekki samt smá munur á Mön og íslensku útibúunum að þau borguðu skatta til Íslands, eða var það ekki?:

"Þess til viðbótar var framkvæmd mjög svo sambærileg aðgerð nýlega í Bretlandi þegar Alister Darling ákvað að tryggja innstæður banka í Bretlandi en neitaði að tryggja innstæður sama banka á eynni Mön.  Rök breska fjármálaráðherrans voru að eigendur innstæðna á Mön greiddu ekki skatt á Bretlandseyjum og því óeðlilegt að breska ríkið ríkistryggði innstæður þar.."

Hermann (IP-tala skráð) 12.6.2009 kl. 10:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband