Auðmennirnir byrjaðir að taka til - fjórflokkurinn sýnir lítil tilþrif í þá áttina

Það er merkilegt að þurfa enn að bíða eftir því að rannsókn hefjist á ætluðum brotum auðmannanna. Það er enn merkilegra að lesa á sama tíma um það opinberlega að þeir séu að selja eignir sínar - það verður þá vonandi hægt að rekja í hvað peningarnir fóru.

Merkilegast finnst mér þó af öllu tvennt og það tengist flokkunum en ekki auðmönnum.

1. Flokkarnir tala um mikla endurnýjun fólks í þingliði sínu en prófkjörin sýna nánast algert status quo

2. Fólkið í landinu segist vilja endurnýjun og tiltekt, en þrátt fyrir lið 1. hér að ofan er fólkið í landinu samt enn samkvæmt skoðanakönnunum, ákveðið í að kjósa þennan óskapnað yfir þjóðina aftur.

Hvað er málið með þetta? Þarf ekki að kalla til geðlækna og sálfræðinga, aðila sem eru sérhæfðir í áfallaröskun og Stokkhólms heilkenninu?

Við bara einfaldlega verðum að breyta hugsun okkar, við verðum að þora að stíga fram og taka ábyrgð á eigin lífi. Við verðum að þora að breyta einhverju - varla viljum við að ástandið verði áfram eins??

Ég bið þig af hjartans einlægni, skoðaðu vel það sem við í Borgarahreyfingunni stöndum fyrir. Stefnumálin okkar og baráttufólkið. Við erum búin að sýna það og sanna að með einlægum vilja og baráttuþreki er hægt að koma á breytingum. Það er hægt að koma frá ríkisstjórn, stjórn Fjármálaeftirlits og meira að segja Seðlabankastjórn. Næsta eðlilega skref er að axla ábyrgð og taka til á Alþingi, í Framkvæmdavaldinu og í stjórnsýslunni.

Til þess þurfum við hins vegar þinn stuðning. Ertu með?  Að setja X við O er að verja börnin þín.


mbl.is Jón Ásgeir selur snekkju og flugvél
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Sæll Baldvin,

Sammála þér um flest. Engin endurnýjun, ekkert "Nýtt Ísland". Nýr flokkur eins og O verður þó að vera duglegri að koma því á framfæri til kjósenda fyrir hvað þið standið. Það hefur ekki verið gert hingað til. Kannski er peningaleysi um að kenna í kreppunni en það er aldeilis lag fyrir ykkur enda sýnast fjórflokkarnir stilla upp að mestu leyti sama liðinu en henda út svona einum og einum minni spámanni.

Það þýðir ekki að hafa bara einn duglegan bloggara Baddi! Þið þurfið að auglýsa og fá ykkur markaðsmann og allt þetta sem hinir gera. Þannig er það bara. Gangi þér vel.

Kveðja,

Muggi.

Guðmundur St Ragnarsson, 15.3.2009 kl. 22:50

2 Smámynd: Þór Jóhannesson

Sæll Baddi.

Vegna skrifa ykkar Birgittu um VG sem hluta af þessu spillingarkerfi hef ég skrifað heilan pistill til handa varna VG og birti hann hér með. Þetta bull í ykkur að draga VG í dilka með hinum er orðið fremur þreytandi enda flokkurinn ekkert til þess unnið. Hér kemur greinin sem þið knúðuð mig til að skrifa:

vg

Mér finnst það gildisfella alla umræðu nýrra framboða þegar þeir skilgreina VG með hinum flokkunum þremur, Sjálfstæðisflokk, Framsókn og Samfylkingu. VG kom hvergi nærri hruninu og er algjörlega laus við alla spillingu. Eina haldbæra skýringin á þessum árásum ný-framboðanna á VG er sú að þeir vilja slá ryki í augu almennings og búa til grýlu úr heiðarlegum og lýðræðislegum stjórnmálaflokki - sem VG er.

Einnig heyrist í þessum framboðum (O-lista og L-lista) að ekki sé neitt um nýliðun hjá VG sem er algjörlega út í hött og augljóst að þar eru þessi framboð að snúa meðvitað út úr sannleikanum. Lítum á þá sem líklega eru ál eið á þing fyrir VG:

Reykjavíkurkjördæmin (bæði):

Katrín Jakobsdóttir - kom fyrst á þing fyrir 2 árum og því nýliði
Svandís Svavarsdóttir - nýliði
Lilja Mósesdóttir - nýliði
Árni Þór Sigurðsson
Álfheiður Ingadóttir
Kolbrún Halldórsdóttir

Suðvesturkjördæmi:

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir - nýliði
Ögmundur Jónasson

Norðvesturkjördæmi:

Jón Bjarnarson
Lilja Rafney Magnúsdóttir - nýliði

Norðausturkjördæmi:

Steingrímur J. Sigfússon
Þuríður Backman
Björn Valur Gíslason - nýliði

Suðurkjördæmi:

Atli Gíslason
Arndís Soffía Sigurðardóttir - nýliði

Hér sjáum við að næstum helmingur - 7 af 15 - væntanlegra þingmanna VG eru nýliðar á þingi. Ekki bjóst fólk við því að það ætti að sópa öllum út? Líka þeim sem hafa unnið sér það eitt til saka að hafa verið kjörin á þing áður - en hafa samt ekkert til saka unnið og alls ótengdir spillingunni?

Það ætti líka að gleðja jafnréttissinna að 6 af 7 nýliðum VG eru konur og 9 af væntanlegum 15 manna þingflokki VG skuli vera konur.

Þannig að þessi ranga ályktun sem margir draga um að ekki sé neitt um nýliðun hjá öllum flokkum er beinlínis röng. VG er að vinna fyrir fólkið í landinu, alla leið, og fyrir jafnréttið sem aldrei fyrr - en Borgarahreyfingin (O-listi) er því miður eingöngu að sækja fylgi til vinstri og þá fyrst og fremst til VG (sjá færslu frá Gísla Freyr Valdórssyni þar sem hann fangar Borgarahreyfingunni á þessum forsendum: http://gislifreyr.blog.is/blog/gislifreyr/entry/820148/). Einnig sækir L-listi stærstan hluta síns fylgis til vinstri, sér í lagi VG sinnaðra sem eru andsnúnir ESB og mega ekki heyra á bandalagið minnst.

Því miður þá er þetta svona og sárt að sjá byltingarbræður og -systur setja saman andvana fæddan flokk sem tryggir á endanum höfuð óvininum betri útkomu en ella í komandi þingkosningunum.

En hvað sem öðru líður - ekki bera VG saman við hina flokkana! Það er einfaldlega ekki viðeigandi. Og þessi fjórflokka upphrópun er farin að minna á hræðsluáróðurinn frá BNA á tímum. VG er vissulega einn af fjórum flokkum sem hafa náð að festa rætur á Íslandi en VG á akkúrat ekkert annað skylt með hinum þremur flokkunum.

VG er flokkur byltingarinnar og berst ötullega gegn auðvaldsklíkuskap og spillingu. Látið ekki glepjast af upphrópunum frá lýðsskrumurum í L-lista og O-lista og kjósið VG ef þið viljið kjósa gegn spillingunni og áframhaldandi siðleysi í íslenskri pólitík.

Þór Jóhannesson, 16.3.2009 kl. 00:51

3 Smámynd: Baldvin Jónsson

Sæll Þór og takk fyrir að vera farinn að blogga líka í athugasemda kerfinu mínu :)

VG fer fremst í flokki þeirra sem eru að hlusta á rödd fólksins og skipta út fólkinu sínu, það er engin spurning með það. Forystan þeirra situr hins vegar öll áfram að Ögmundi undanskildum sem kaus að víkja í annað sæti fyrir Guðfríði Lilju. Almanna rómur vill meina að það hafi verið um það samið eftir hvalveiðimálið þegar að hún ætlaði að segja sig úr hreyfingunni vegna afar ólýðræðislegra (amm, ég get feitletrað líka) vinnubragða formannsins.

Ég hef hvergi haldið því fram að VG sé hlaðin spillingu, þvert á móti hef ég bent á það að einmitt vegna þess að þeir hafa aldrei setið við stjórn hafa þeir hvergi fengið tækifæri til þess að spillast. Steingrímur J. sýndi það hins vegar á ólýðræðislegum tilþrifum sínum á fyrstu tveimur vikum sýnum í embætti ráðherra að hann er mannlegur eins og væntanlega öll flokkslínan er. Það verður því að teljast hættulega líklegt að þau, eins og allir aðrir þingmenn sem hlíta ákvörðunum flokkslínunnar, muni spillast fái þau til þess nægan tíma.

Mér þykir í besta falli bara mjög mjög fyndið að þú sért nú farinn að vitna í Gísla Frey sem rökstuðning. Það er þá í fyrsta skipti sem að þú vilt meina að eitthvað sé að marka orð hans, í fyrsta skipti sem þú nefnir hann án þess að vera að benda á hversu óskaplega ómerkileg manneskja þér þykir hann vera. Ég svara honum þó hins vegar á sömu leið og ég svaraði þér í athugasemd hér um daginn, það eru nákvæmlega ENGAR vísbendingar uppi um það að O listi taki fremur fylgi frá vinstri en hægri.

Í skoðanakönnunni sem þú vitnaðir til og Gísli Freyr líka, hafði það gerst í millitíðinni frá síðustu könnun að 2 ný framboð kynntu sig undir lok könnunarinnar. Það má því telja líklegt þau framboð hafi ekki talið stórt í þeirri könnun, en hver veit. Samfylkingin hins vegar stækkaði meira en fylgi þessara tveggja nýju hreyfinga til samans eða um það bil. Hvaðan fékk Samfylkingin fylgið sitt? Hver þykist geta fullyrt um hvaðan fylgi kemur?

Eftir stendur að öll framboð fá fylgi sitt FRÁ FÓLKINU en ekki flokkum. Ef þið sem þetta lesið viljið gangast við Borgaralegri skyldu ykkar og stíga fram og verja börnin ykkar fyrir þessum gerningum stjórnmálamanna sem við höfum þurft að horfa upp á undanfarna mánuði og ár, þá kjósiði að sjálfsögðu Borgarahreyfinguna. Framboð sem er engum tengt með sérhagsmunum, framboð sem hefur engin völd eða hag af því að halda slíkum völdum. Treystir þú gömlu flokkunum til þess að raunverulega keyra það í gegn að koma á lýðræðisbreytingum sem munu minnka völd þeirra til muna?

Ef þú treystir gömlu flokkunum án vafa þá kýstu þá að sjálfsögðu, en ef ekki að þá verðurðu að sýna það hugrekki sem þarf til að koma að nýju fólki. Fólki sem ætlar sér að taka til í kerfinu feimnislaust. http://www.xo.is

Baldvin Jónsson, 16.3.2009 kl. 09:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband