Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

Nokkrar örlitlar leiðréttingar við fréttir af landsfundi Borgarahreyfingarinnar - Lýðræðið grætur

Vegna ítrekaðra frétta af því að önnur fyrirliggjandi tillaga að lagabreytingum sem lá fyrir landsfundi, hafi verið einhver sérstök tillaga þingmannanna okkar, að þá vil ég koma því á framfæri að sú tillaga var unnin af fjölda manna og kvenna en ekki aðeins af þingmönnum. Mun fleiri en skrifuðu á endanum undir sem stuðningsmenn við hana.

Títtnefndur Jón Þór var til að mynda einn af þeim aðilum og því alls ekki rétt að nefna annan tillögu pakkann sérstaklega við hann. Hann á mikið í þeim báðum.

Ég er leiður vegna þessa máls, leiður yfir því að hreyfing sem okkar geti samþykkt yfir sig lagabreytingar þar sem fram koma fasískar tillögur sem setja eiga bæði þinghóp og alla félaga hreyfingarinnar undir dóm, ef svo ber undir.

Mér er algerlega fyrirmunað að skilja hvernig slíkar hugmyndir ná fram að ganga í hreyfingu, sem sérstaklega kenndi sig við lýðræðisumbætur og persónukjör.

Ég tók ákvörðun um það fyrir nokkru að bjóða mig ekki fram áfram í stjórn hreyfingarinnar og tilkynnti það sérstaklega á fundinum í morgun. Ég gerði það áður en kosið var um lagabreytingartillögurnar, þolinmæði mín gagnvart þrætufundum er einfaldlega uppurin í bili.

Aldrei að vita nema að lýðræðislegri óþolinmæði minni verði fundinn einhver farvegur fljótlega. Ég mun að minnsta kosti taka sem mestan þátt í grasrótarstarfi hreyfingarinnar áfram.

En svo ég vitni í þingmanninn Þráinn Bertelsson, ég er þess sannfærður í dag að "lýðræðið grætur"


mbl.is Tillaga þingmanna féll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skýrsla stjórnar Borgarahreyfingarinnar flutt á landsfundi hreyfingarinnar í morgun

Flutt fyrir hönd stjórnar Borgarahreyfingarinnar í upphafi fundar í morgun.

Kæru fundarmenn, fyrir hönd stjórnar Borgarahreyfingarinnar langar mig að bjóða ykkur innilega velkomin á þennan fyrsta landsfund hreyfingarinnar. Það er okkur mikils virði að sjá hvað er góðmennt hérna í dag. Í hreyfingunni býr mikill dýnamískur kraftur og þið eruð öll svo sannarlega hluti af þeim krafti og birtingarform hans.

Á þeim stutta tíma sem liðinn er frá því að glæsilegur árangur náðist í kosningunum síðastliðið vor, hefur mikið gerst og gengið á. Við fluttum úr Borgartúninu og höfum komið okkur fyrir í ágætu lítillátu húsnæði að Tryggvagötu 17 í Reykjavík og þó lítið sé, hefur starfsemin rúmast þar ágætlega fram að þessu. Það húsnæði varð fyrir valinu bæði vegna góðrar staðsetningar sem og hóflegs leigugjalds og við leigðum það fram að komandi áramótum, til að byrja með.

Við héldum aukaaðalfund þar sem kosin var ný stjórn hreyfingarinnar, en fjölmargir úr upprunalegri stjórn höfðu horfið frá og kosningabaráttan keyrð áfram af framkvæmdastjórn sem skipuð var bæði frambjóðendum og öðru kraftmiklu baráttufólki. Allt þetta fólk á miklar þakkir skyldar og ljóst er að án alls þessa stórglæsilega hóps hefðum við aldrei náð þessum frábæra árangri sem við gerðum. Það er of langt mál að ætla að telja allt þetta fólk upp hér, þau skipta tugum, en mér finnst rétt að við stöldrum hér við og þökkum þeim hér öllum sérstaklega fyrir með lófataki.

En já, það var kosið og skyndilega stóðum við uppi sem hreyfing með umboð tæplega 14.000 kjósenda til þess að láta til okkar taka. Okkur var í snarhasti fleygt beint í djúpu laugina með gömlum pólitískum refum, til þess að takast á við tvö af stærstu málum sem komið hafa inn á Alþingi Íslendinga í sögu lýðveldisins okkar. ESB og ICESAVE. Þessi mál áttu að rúlla í gegn í flýti til þess að aumingja þingmennirnir og starfsmenn Alþingis kæmust nú fljótt í langþráð sumarfrí. En fyrir mikla elju og baráttu, meðal annars þingmannanna okkar og svokallaðrar andspyrnuhreyfingu VG, fengu þessi mál mikla kynningu og umtal og mikið af upplýsingum komst út til þjóðarinnar, sem að hugmyndin var að halda í þagnarhjúpi. ICESAVE málið átti, að virtist, helst að reyna að afgreiða bara hljóðlega í gegnum fjárlög í nóvember án mikils umtals og halda þar með þjóðinni utan við það. Hún hefði hvort eð er lítið vit á málinu.

Við erum ung hreyfing, í rauninni aðeins værðarvoðungur enn í pólitík, og hefur það sést á fjölmörgum mistökum sem gerð hafa verið frá því að frábærum árangri var náð í kosningabaráttunni. Mistökum sem ég vil leyfa mér að nefna byrjendamistök, mistökum sem að ég er sannfærður um að við höfum lært mikið af og munu verða til þess að tukta okkur til og styrkja í pólitísku baráttunni sem framundan er.

Framundan er haustþing þar sem markmið okkar er að leggja fram frumvörp til stuðnings okkar helstu stefnumála. Þar verðum við að vinna sem ein kraftmikil heild ef við ætlum okkur að ná því að vera afl til góðs í samfélaginu. Afl sem getur raunverulega tekist á við áratuga gamlar valdaklíkur og viðskiptablokkir, sem hér öllu stjórna og hafa gert um langa hríð.

Við erum að berjast við blokkir sem vilja einkavæða auðlindirnar okkar alfarið og eru við það að ljúka fyrsta hluta ferlisins, þar sem að til stendur að afhenda Magma Energy núna á þriðjudaginn komandi, hlut Orkuveitu Reykjavíkur í HS Orku. Og það á kjörum sem eru algerlega ósamþykkjandi og láta máltækið „lítið út og restin eftir minni“ hljóma sem skynsamlega viðskiptahætti.

Við verðum að berjast gegn því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn stýri hér áfram öllum hnútum í efnahagsmálum þjóðarinnar. Við, ásamt fjölda annarra, börðumst saman, og komum algerlega vanhæfri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar frá völdum.

Við valdasprotanum tók ríkisstjórn sem gaf sig út fyrir félagshyggju, en hefur í litlu sem engu breytt út frá stefnu þeirrar ríkisstjórnar sem á undan sat. Núverandi ríkisstjórn hefur sýnt að hún er algerlega jafn vanhæf þeirri fyrri þegar kemur að lausnum á vanda heimilanna, enda ekki skrítið. Hún tók einfaldlega við tilskipunum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þeim aðgerðarpakka sem að hann hafði þegar lagt fram og samþykkti að framfylgja honum að öllu leyti að virðist, erlendum auðhringjum til mikillar ánægju vænti ég.

Vandi hreyfingarinnar undanfarna mánuði hefur að miklu leyti til legið í algerum skorti á innra skipulagi starfsins. Við tókum kosningabaráttuna með krafti í spretthlaupi en gleymdum í látunum að setjast niður og skilgreina ítarlega hvernig við viljum að hreyfingin starfi. Það er því á okkar ábyrgð að þessi landsfundur gangi í að klára það mál og gera hreyfingunni fært að láta til sín taka með kröftugum hætti.

Fyrir landsfundinum liggja tvær lagabreytingartillögur.

Tillaga A gerir ráð fyrir því að stefnuskráin sé lifandi plagg sem megi breyta og bæta við með samþykki félagsmanna, til dæmis að breyta markmiðum hreyfingarinnar og bjóða fram til sveitarstjórnarkosninga sé áhugi fyrir því,  meðan að tillaga B gerir ráð fyrir að við höldum okkur við það sem í upphafi var ákveðið.
Það er, að vera Hit ´n Run framboð og leggja svo hreyfinguna niður þegar að yfirlýstum markmiðum upphaflegu stefnuskrárinnar er náð eða verður augljóslega ekki náð.

Umræðan um mögulegt framboð til sveitarstjórnarkosninga er augljóslega vangaveltur sem hreyfingin þarf að taka afstöðu til og þá hvort að félagar vilji að boðið sé fram undir merkjum Borgarahreyfingarinnar eða hvort að boðið er fram í gegnum minni grasrótarhópum á hverju svæði fyrir sig.

Þessum tillögum hefur verið stillt upp sums staðar sem baráttumálum mismunandi fylkinga, en ég vil biðja ykkur kæru fundarmenn að horfa fram hjá því. Það liggur einfaldlega fyrir okkur hér, að ákveða hvert við viljum sjá hreyfinguna stefna. Hvaða áherslur við viljum setja fókusinn á.

Að lokum langar mig til að nota tækifærið og þakka Ingu Rögnu og Björgu sérstaklega fyrir þeirra aðkomu að undirbúningi fundarins. Þær tóku framkvæmd fundarins í sínar hendur að mestu og eiga hrós skilið fyrir að klára verkið vel. Við skulum gefa þeim gott klapp.

Kæru félagar, það liggur á okkur mikil ábyrgð. Tæplega 14.000 kjósendur treysta á okkur til þess að rífa okkur upp úr þessum hjólförum kergju og þræta. Allir landsmenn þurfa á því að halda að við stígum fram sem kraftmikil heild og tökumst á hendur það verkefni sem við buðum okkur fram í. Það er undir okkur komið að taka nú höndum saman og vekja aftur hjá þjóðinni von um að það sé raunverulega hægt að koma hér á breytingum. Að hægt sé að bjóða þjóðinni upp á eitthvað annað en bara sama óhæfa draslið áfram. Ef við trúum því ekki sjálf að það sé hægt, hvernig er þá hægt að ætlast til þess að aðrir trúi því?

Ef við viljum vera afl til góðs í samfélaginu, þurfum við að trúa því að við getum það.

Trúið þið því?

Við verðum að stíga fram í þeirri trú og láta til okkar taka.

Viljið þið taka þátt í því?

 


mbl.is Læra af mistökunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn ein góð ástæða þess að erlendra fjárfesta er þörf hér í bankakerfið

Svona náin tengsl eins og eru í samfélaginu okkar geta haft gríðarleg áhrif á svo mörgum stöðum. Þarna er bent á möguleg tengsl á milli þess að Anna Kristine var að fjalla um málefni Kumbaravogs og þess að bankastóri Landsbankans er sonur forstöðumannsins á sama tíma.

Ef hingað kæmu stórir erlendir aðilar inn í bankakerfið tel ég að væri minni hætta á að slík tengsl myndu valda viðskiptavinum skaða sem þessum. Slíkt þyrfti þó auðvitað alltaf að tryggja með stífum starfsreglum eigenda til starfsmanna bankans.

Hvað sem öllu líður er ljóst, að mikillar valddreifingar er þörf í samfélaginu.
mbl.is Anna Kristine var þjófkennd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björn Þorri Viktorsson að standa sig alveg gríðarlega vel!!!

Ég er svo ofsalega ánægður með þennan kjark og dugnað hjá Birni Þorra og skjólstæðingum hans. Vinnist þetta mál er það stærsta skref í átt að því að skapa hér sátt aftur í samfélaginu, sem unnist hefur frá því áratugum fyrir hrunið fræga.

Frábært framtak!!!


mbl.is Kaupþing kært fyrir stórfelld fjársvik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Opið bréf til félaga í Borgarahreyfingunni og allra sem láta sig hreyfinguna varða

Þetta bréf var sent á tölvupósti á alla skráða félaga Borgarahreyfingarinnar.

Kæri félagi Borgarahreyfingarinnar.
Eins og kynnt hefur verið, verður landsfundur Borgarahreyfingarinnar
haldinn á laugardaginn komandi, 12. september 2009, á Grand Hótel í
Sigtúni, í fundarsalnum Hvammi.
Dagskrá fundarins er eftirfarandi:
1. Setning fundar - Klukkan - 09:00
2. Kjör fundarstjóra og ritara
3. Skýrsla stjórnar
4. Skýrsla þingmanna
5. Lagabreytingar Klukkan – 10:00
6. Hádegishlé Klukkan - 12:15 – 13:00
7. World Cafe hugmyndavinna Klukkan 13:00 – 15:00
8. Kynning frambjóðenda til stjórnar Klukkan 15:00 – 16:00
9. Stjórnarkjör Klukkan 16:00
10. Kjörnir 2 skoðunarmenn reikninga
11. Ályktanir landsfundar
12. Hlé Klukkan 19:00
13. Kvöldverður og skemmtiatriði í Kornhlöðunni. Húsið opnar klukkan 20:00
Pizzahlaðborð og Salat. 2.500 krónur á mann.

Fyrirkomulag stjórnarkjörs er á þann veg að frambjóðendur til stjórnar geta
boðið sig fram allt fram að stjórnarkjöri. Allir félagar í
Borgarahreyfingunni sem skráðir eru í hreyfinguna fyrir miðnætti að kvöldi
fimmtudagsins 10. september 2009, eru kjörgengir sem frambjóðendur sem og
hafa þeir atkvæðisrétt á landsfundinum.

Fyrir þá sem ekki hafa tök á því að mæta á landsfundinn, verður hægt að
taka þátt í stjórnarkosningunni í gegnum netkosningu. Sendur verður út kóði
í hlekk á föstudeginum, sem að verður virkur á laugardeginum um leið og
stjórnarkjör hefst.
Við viljum þó sterklega hvetja alla félaga hreyfingarinnar til þess að mæta
og setja mark sitt á landsfundinn. Því fleiri sem mæta, því lýðræðislegri
verður fundurinn okkar.

Nánari upplýsingar um landsfundinn má finna á heimasíðunni okkar
http://xo.is
Einnig er hægt að hringja á skrifstofuna í síma 511-1944 eða í mig í
892-3330

Vona að þú sjáir þér fært að mæta.

Kær kveðja,
f.h. stjórnar Borgarahreyfingarinnar,
Baldvin Jónsson.


mbl.is Borgarahreyfingin sem grasrótarafl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í dag gaf Guð mér Iphone

Bað Guð um Iphone - ekki langt síðan. Í dag svaraði hann.

Var að keyra á Kjalvegi og sá glampa á eitthvað utan við veginn. Stoppaði og stökk út úr bílnum til að skoða hvað þetta væri - og viti menn - það var 3G Iphone, akkúrat eins og mig langaði í :)

Galli samt að síminn var brotinn, opinn og fullur af mold.

Verð að muna næst samt, þegar ég bið um eitthvað, að vera nákvæmari.

 


mbl.is Bandarískur skemmtivefur notar íslenska tækni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðernishyggjan blómstrar á blog.is í skjóli fréttaflutnings mbl.is af fólki "af erlendu bergi brotnu"

Ég hef oft velt þessu fyrir mér áður og líklega skrifað um það, en hvers vegna er þetta tekið sérstaklega fram?

Ef þetta á að halda áfram að vera viðtekin venja er þá ekki alveg jafn eðlilegt að taka fram að hinn handtekni hafi verið frá "Þorlákshöfn, Selfossi, af Óðinsgötunni eða Kópavogi?"

Mér finnst þetta hlaða fréttina neikvæðni - það liggja engar niðurstöður rannsókna fyrir sem sýna fram á hærri afbrotatíðni hér á landi hjá fólki af erlendu bergi en hjá Íslendingum.

Reynum nú að asnast til að læra að vera góð við hvort annað.


mbl.is Fundu þýfi metið á milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auglýsing um landsfund Borgarahreyfingarinnar

Hæ, þessi auglýsing átti að birtast í Fréttablaðinu í dag en misfórst af einhverjum ástæðum. Kem henni hér með á framfæri hér:

landsfundur151x165-1_copy.jpg


mbl.is Á von á átakafundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tæpt ár er liðið - hefur eitthvað áunnist? Blessaði Guð kannski ekki Ísland?

Ég er trúaður og trúi því að Guð sé góður. Trúi því að Guð "hugsi" (ef hann gerir það, kannski bara ER hann) til mín eins og ég hugsa til barnanna minna. Ég vil þeim aðeins allt það besta. Ég vil að þau fái að alast upp full af lífsgleði, hugrekki, forvitni, og samúð með náunganum.

Hún Aðalheiður bloggvinkona mín táraðist yfir þessu myndbroti.

Ég er sorgmæddur en græt ekki - og er þó oft æði viðkvæmur fyrir. En ég skil algjörlega hvað hún er að upplifa.

Ég fyllist hins vegar löngun til að gera eitthvað - löngun til að sameina fólk, setja fram lausnir. Löngunin dvínar oft á milli, sérstaklega þegar að maður fær að upplifa í nærmynd hvað þetta er allt í raun skítugt þetta samfélag sem við lifum í.

En það er annaðhvort að duga eða dr.... flytja.

Hér á ég líf - hér á ég fjölskyldu sem ég elska - stóra fjölskyldu. Ég vil að börnin mín fái að upplifa að alast upp með stórfjölskyldunni eins og ég fékk að upplifa.

Til þess að ég sé sáttur við þá ákvörðun verð ég að berjast fyrir því að samfélagið þeirra verði byggt á réttlæti, lýðræði og sanngirni.

Tökum Nike á þetta bara - koma svo - "Just Do It"


mbl.is Þetta er bara allt farið í steik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áætlað TAP Orkuveitunnar af sölunni á móti söluandvirðinu, er nú komið í 13-14 MILLJARÐA króna

Í athugasemd við færslu hjá Láru Hönnu komu fram neðangreindar upplýsingar frá Birgi Gíslasyni. Þetta eru of veigamiklar vangaveltur til þess að gera þeim ekki góð skil. Tek mér það bessaleyfi að birta athugasemdina hér.

Sæl Lára,

Eins og þú þá hef ég skoðað þetta Magma / OR mál.  Í framhaldi af þeim fréttum í gær að OR hafi gengið að kauptilboði Magma í hlut OR í HS Orku og 95% hlut Hfj í gegnum OR í sama fyrirtæki.  Ég vil ekki taka svo sterkt til máls að kalla svona gjörninga landráð, heldur vanhæfi stjórnenda opinberra fyrirtækja.

Miðað við það sem fram hefur komið í fjölmiðlum varðandi efni sölusamnings OR til Magma má draga saman þessa niðurstöðu um áhrif hans á rekstur OR.  Það skal tekið fram að ég er ekki endurskoðandi, en það væri fróðlegt að fá álit endurskoðanda með þekkingu á uppgjörsreglum orkufyrirtækja.

Beint sölutap OR af þessum samningi er lauslega áætlað 4,211 milljarðar.  Inn í þeirri upphæð er sölutap upp á 743 milljónir vegna kaupa OR og framsals á hlutum Hafnarfjarðarbæjar (95% hlutur þeirra í HS Orku).

Vaxtaberandi skuldir OR bera allt að 9.325% vexti á ári (sjá árshluta uppjör þeirra 30.06.2009).  Miðað við þá vaxtabirgði félagsins má áætla að nettó vaxtakostnaður OR á hverju ári vegna láns á 70% kaupverðsins sé 657 milljónir á ári, eða 4,601 milljarður næstu 7 árin.  OR er mjög skuldsett félag og þar sem kaupverðið er að meirihluta lánað þá getur OR ekki greitt niður aðrar skuldir sínar á móti, eru í raun að taka lán til að lána Magma, ergo netto vaxtakostnaður OR næstu 7 árin 4,601 milljarður.

Heildartap OR á sölu hlut sínum í HS Orku er því varlega áætlað 8,813 milljarðar króna eða 54% af heildarverðmæti hlutanna beggja (bókfærtverð hlutanna beggja er 16,211 milljarðar en söluverðið er sagt vera 12 milljarðar).

Gengisáhætta OR af 8,4 milljarða (ca 66.9 milljónir USD) láni til Magma er eftirfarandi:  Ef gengi íslensku krónunar styrkist um 10% gegn US dollar, þá þýðir það tap upp á 840 milljónir.  Ef krónan styrkist um 20% er upphæðin 1,680 milljarðar.  Það skal tekið fram að mjög miklar líkur eru á því að gengi krónunar styrkist næstu 7 árin, út á það miðar efnhagsáætlun ríkisins og IMF.

Ég óska eftir því að stjórn OR og/eða fulltrúar eigenda félagsins (borgarfulltrúar) leiðrétti mína útreikninga ef þeir eru rangir, en svona lítur málið út miðað við þær fréttir sem stjórn OR hefur gefið út vegna þessarar sölu.

Ég spyr, ef útreikningar mínir eru réttir, eru hagsmunir eigenda OR borgið með sölu hlutabréfanna til Magma Energy núna, heildartap upp á 8,813 milljarð króna auk hugsanlegs gengistap ef krónan styrkist?

Að lokum vil ég benda á að óbeint eignarhald OR í HS Orku vegna veðs í hlutabréfunum er 22%.  Samræmist það kröfu Samkeppnisstofnunar um að OR megi ekki eiga meira en 10% í félaginu?  Er samningurinn því ekki brot á úrskurði Samkeppnisstofnunar og þar með ólögmætur?  Hvernig hyggst stjórn OR tryggja að veðið rýrni ekki í virði?

Almenningur á Íslandi á rétt á því að efni sölusamningins OR til Magma Energy sé gert opinbert og hlutlaus úttekt á heildarkostnaði af honum verði einnig gerð opinber.  Það er búið að leggja alltof miklar byrðar á þjóðina vegna "díla" sem gerðir eru í skjóli viðskipta- og bankaleyndar.  Opinber fyrirtæki eiga ekki að starfa í skjóli viðskiptaleynda, þetta eru fyrirtæki í eigu almennings.

Þetta mál er svo sannarlega að fá á sig réttnefnið REI II - eina er að þetta virðist vera enn verra og vanhugsaðra mál en REI I.

Ef saman er lagðar þær tölur sem nefndar hafa verið í málinu, tap Orkuveitunnar út frá hógværri 10% ávöxtunarkröfu, upp á 5-6 milljarða að viðbættum þessum 8,8 milljörðum sem hér eru settir fram í athugasemd Birgis Gíslasonar, er óhætt að segja að Orkuveitan er að tapa á þessum sölusamningi að lágmarki 13-14 milljörðum. Væntanlega meira þar sem að þeir munu áfram greiða HS Orku 4,5% af því sem þeir skulda þeim, þar til það lán er uppgreitt.

Þetta mál lyktar af þeirri siðspilltu pólitík sem almenningur var að vona að væri frá að hverfa. Kannski að það þurfi að fara að setja sérstaka áherslu á sveitarstjórnarmálin líka?

Þið getið séð meira um skrif mín um þetta mál hér, hér og hér.  Og enn eina vel rökstudda færslu frá Láru Hönnu um málið hér.

Sameinuð erum við afl - munum það!

"People have a way of becoming what you encourage them to be – not what you nag them to be." --S.N. Parker

Skrifið borgarfulltrúunum okkar, sendið tölvupósta, hringið. Gerið allt sem hægt er til þess að vekja athygli þeirra á því að við erum að fylgjast með og ætlum okkur ekki að leyfa þessu að hverfa. Mótmælið á alla vegu og sjáum til þess að þau geti ekki annað en hætt við. Ef þau gera það ekki, þá höfum við glatað náttúru-auðlind til þrjóta, þá höfum við glatað óbætanlegum verðmætum þjóðarinnar svo Finnur Ingólfs eða álíka skaðræðisgripur geti grætt á hörmungum þjóðarinnar.

Hér eru netföng borgarfulltrúa og staðlaður póstur fyrir þá sem vilja senda þeim staðlað bréf sem samið var af aðilum sem stendur ekki á sama:

Netföng borgarfulltrúa sem hægt er að afrita beint í póstforrit:
vilhjalmurth@reykjavik.is,bjork.vilhelmsdottir@reykjavik.is, dagur.b.eggertsson@reykjavik.is,gisli.marteinn.baldursson@reykjavik.is, borgarstjori@reykjavik.is,jorunn.frimannsdottir@reykjavik.is, jvi@reykjavik.is,kjartan.magnusson@reykjavik.is,oddny@reykjavik.is, olafur.f.magnusson@reykjavik.is,oskar.bergsson@reykjavik.is, sigrun.elsa.smaradottir@reykjavik.is,soley.tomasdottir@reykjavik.is, thorbjorghelga@reykjavik.is,thorleifur.gunnlaugsson@reykjavik.is

Netföng varaborgarfulltrúa sem hægt er að afrita beint í póstforrit:
marsibil@reykjavik.is,sif.sigfusdottir@reykjavik.is, bolli@hi.is,marta.gudjonsdottir@reykjavik.is, ragnar.s@simnet.is,kristjan.gudmundsson@or.is, bjorn.gislason@shs.is, aslaug@sja.is,margret.kristjana.sverrisdottir@reykjavik.is,dofri.hermannsson@reykjavik.is, stefan.johann@islandia.is,steben@internet.is, gerlag@internet.is, hermannv@nordlingaskoli.is

Hugmynd að texta (fengin frá AK-72), ef vill: 

Kæri borgarfulltrúi

Ég hvet þig eindregið til að samþykkja EKKI söluna á HS Orku. Ísland þarf á öllum sínum auðlindum að halda í komandi kreppu og þessi orka verður bara verðmætari eftir því sem á líður. Ég minni á að það styttist í sveitarstjórnarkosningar og það verður örugglega minnt á þetta mál þegar nær dregur, hvernig sem það fer. Mér finnst að hagsmunum Orkuveitunnar og borgarbúa sé illa sinnt með því að selja hlutinn á undirverði.

Virðingarfylls
t"


mbl.is Segir samninga við HS Orku í samræmi við orkulög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband