SPRON farið í gjaldþrot - stefnir allt í einn eða tvo ríkisbanka

Ánægðustu viðskiptavinirnir voru rétt í þessu að missa bankann sinn. Má telja líklegt að við sem vorum í viðskiptum við SPRON hefðum ekki verið sérlega glöð mikið lengur, eftir að hefði komið í ljós að bankinn hefði ekki til staðar lausafé til að mæta daglegri veltu lengur. Þó að ég sé afar ósáttur við að Finnur sitji enn sem bankastjóri Kaupþings verð ég víst að sætta mig við það, að minnsta kosti næstu daga, að vera í viðskiptum þar. Þarf að bíða og sjá hvernig framinda málsins verður.

Ef þú veist ekki af hverju ég er ósáttur við Finn sem bankastjóra þá veistu líklega ekki af því að hann er nátengdur Ingibjörgu Sólrúnu og í starfinu að líkindum fyrst og fremst þess vegna. Hann er jú eini bankastjóri á Íslandi sem keyrði bankann sinn (ICEBANK) nánast alveg í þrot í miðju (g)óðærinu.

Eftir að hafa lesið af því fréttir undanfarin ár að hinir og þessir fjármagnseigendur væru að eignast stofnfé Sparisjóðanna, án þess að skilja hvað það þýddi í raun, sjáum við nú afleiðingarnar af þeim gjörningum. Búið er að þurrausa sjóðina og eftir standa nú aðeins uppþornaðir bankar, ófærir um að reka sig án aðkomu ríkisins. Við sjáum hér enn og aftur afleiðingar þess að þjóðin var rænd í beinni útsendingu.

Ég held að afar fáir skilji í raun hvað hér er búið að gerast. Það sem raunverulega gerðist er að örfáir einstaklingar eignuðust hér nánast allt atvinnulífið, hreinsuðu úr því allt eigið fé og skuldsettu svo í topp í ofanálag, og færðu allt þetta fé úr landi.

Það var ekki bara verið að ræna bankana okkar og sjóðina okkar þar, það er einfaldlega búið að hreinsa ALLT lausafé úr landi og það margfalt.

Í stefnuskrá okkar hjá Borgarahreyfingunni segir meðal annars um nauðsynlegar efnahagsaðgerðir:

Gripið verði þegar í stað til neyðarráðstafana í þágu heimila og fyrirtækja

1. Alvarleg skuldastaða heimilanna verði tafarlaust lagfærð með því að færa vísitölu verðtryggingar fram fyrir hrun hagkerfisins (til janúar 2008). Höfuðstóll og afborganir húsnæðislána lækki til samræmis við það. Raunvextir á verðtryggðum lánum verði að hámarki 2–3% og afborgunum af húsnæðislánum megi fresta um tvö ár með lengingu lána. Skuldabyrði heimila vegna gengistryggðra íbúðalána verði lagfærð í samræmi við verðtryggð íbúðalán. Í framhaldinu verði gert samkomulag við eigendur verðtryggðra húsnæðislána um að breyta þeim í skuldabréf með föstum vöxtum og verðtryggingarákvæði í lánasamningum verði afnumin.

2. Leitað verði leiða út úr myntvanda Íslands með myntbandalagi við aðrar þjóðir eða, ef þess þarf, einhliða upptöku annars gjaldmiðils.

3. Boðin verði víðtæk aðstoð við atvinnulausa um allt land með það að markmiði að aðstoða þá í að nýta atvinnuleysið sem tækifæri.

4. Skuldsett fyrirtæki verði boðin til sölu og tilboðum aðeins tekið ef ásættanlegt verð fæst. Annars verði starfsfólkinu leyft að taka yfir fyrirtæki. Skuldir eigenda verði ekki felldar niður sjálfkrafa en veita má hagstæð lán eða breyta skuldum lífvænlegra fyrirtækja í hlutafé í eigu ríkisins frekar en að afskrifa skuldir.

5. Halla á ríkissjóði verði mætt með endurskoðun skattkerfisins, m.a. með fjölgun skattþrepa, hátekjuskatti og breytingum á virðisaukaskatti, frekar en niðurskurði í heilbrigðis- og velferðarþjónustu. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fái ekki að taka yfir stjórn á  landinu.

6. Strax verði hafist handa við að meta heildarskuldir þjóðarbúsins og að því loknu gert upp við lánardrottna eftir bestu getu. ICESAVE-reikningar Landsbankans og aðrar skuldir bankanna erlendis verði ekki greiddar fyrr en álit óháðra sérfræðinga liggur fyrir um skyldur Íslands, m.t.t. þess að sennilega hafi verið um svikamyllu að ræða en ekki eðlilega bankastarfsemi. Rannsakað verði hvað varð um allar færslur á reikningum bankanna erlendis sem og lánveitingar þeirra til tengdra aðila, fjármunirnir sóttir og þeim skilað til eigenda. Stjórnendur og eigendur bankanna verði gerðir ábyrgir fyrir því sem upp á vantar. Samið verður við grannþjóðirnar um það sem út af stendur m.t.t. neyðarástands efnahagsmála á Íslandi og reynt að fá þær skuldir niðurfelldar.  Samhliða því verði gefið loforð um að 2% af VLF Íslands renni til þróunaraðstoðar á ári í tíu ár til að sýna góðan vilja Íslendinga til að verða ábyrg þjóð meðal þjóða.

Mikið af fólki sem ég tala við þessa dagana er algerlega úrkula vonar um ástandið hérna heima. Fólk hefur því miður bara enga trú á því að eitthvað muni breytast. Fólk er reitt "flokknum" sínum en virðist samt ætla að kjósa hann aftur af því að þetta er hvort eð er vonlaust.

En það er ekki svo! Ný framboð eru ekki fyrirfram dauðadæmd, þannig virkar ekki þessi leikur stjórnmálanna. Stjórnmál eru ekki vonlaus nema að við sjálf dæmum þau þannig.

Borgarahreyfingin er afl sem getur haft gríðarleg áhrif til breytinga með þínum stuðningi. Saman getum við einfaldlega breytt mjög miklu. Við getum breytt leikreglunum varanlega sem að stjórnmálin þurfa að starfa eftir. Við getum búið okkur samfélag þar sem að samfélagssáttmálinn um jafnræði meðal okkar allra verður aftur virtur.

Við getum breytt þessu ef við viljum það! Ekki gefast upp fyrirfram, það eina sem þarf er að við tökum okkur öll saman, peppum upp hvort annað og kjósum Borgarahreyfinguna.

X við O er einfaldlega réttlætismál - við ætlum að berjast fyrir okkur öll. Berjast fyrir framtíð barnanna okkar.


mbl.is Gat ekki staðið við greiðslur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: TARA

Veistu, ég er í rauninni alveg hætt að botna nokkuð í þessu...hvern hefði grunað að SPRON færi á hausinn ? Ég hélt satt að segja að það væri einhver öruggasti sparisjóður landsins. En svona veit maður vel. Og ég er sammála þér um Finn.

TARA, 22.3.2009 kl. 11:08

2 Smámynd: Jakob Þór Haraldsson

Fjórir "ríkisbankar" - ekki gleyma "blóð- & sæðisbankanum", það gleymdist að "arðræna þá...."

kv. Heilbrigð skynsemi

Jakob Þór Haraldsson, 22.3.2009 kl. 11:19

3 identicon

Þetta er einmitt kjarni málsins eins og þú segir "Ég held að afar fáir skilji í raun hvað hér er búið að gerast".

Þessir atburðir eru svo fáránlegir að venjulegt fólk skilur þetta ekki eða "grípur". Enda eru gjörningar þessara siðspilltu og veruleikafirrtu einstaklinga langt fyrir utan mörk alls þess sem telst eðilegt og sanngjarnt hér á landi.

Þú nefnir úthreinsun fés úr sparisjóðunum. Ég hef aðeins hugleitt þetta og tel að það eigi eftir að koma alvarlegt bakslag í þetta.

Tel reyndar að þjóðin sé í áfalli –  hefur ekki forsendur til að skilja þessa vitfirringu eða bregðast við henni núna. Áfall veldur m.a. doða, framtaksleysi og kvíða og ég tel að fréttir síðustu vikna og mánaða. Yfirtökur sparisjóða, “kúlulán”, "skuldabréfavafningar" , undanskots fjármagns í skattaskjól, útgreiðsla arðs úr taprekstri  og fl. og fl. eigi eftir að vekja upp hörð viðbrögð þegar fram í sækir.

Þessir stöðugu gjörningar óreiðumannanna sem nú hellast hver af öðrum yfir almenning geta ekki annað en valdið sterkum viðbrögðum. Það er hlé núna en spurning um tíma.

Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 22.3.2009 kl. 12:04

4 Smámynd: TARA

  







TARA, 22.3.2009 kl. 12:06

5 identicon

Til hvers að ræna banka nú til dags? Miklu einfaldara að kaupa þá bara og ná þannig í allan peninginn. Og svo þó það komist upp um mann fer maður ekki einu sinni í fangelsi heldur fær bara feitan bónus.

Tryggvi R. Jónsson (IP-tala skráð) 22.3.2009 kl. 12:21

6 Smámynd: Jóhann Pétur Pétursson

Fjölgun skattþrepa, með öðrum orðum mismunandi há skattprósenta eftir því hve mikla peninga fólk vinnur sér inn.

Ég vinn á skipaverkstæði og það kemur mjög oft fyrir að við erum beðnir um á klára tilfallandi verkefni áður en við hættum þann daginn, með öðrum orðum beðnir um að vinna 1-2 klukkustundir í yfirvinnu. Í dagvinnu er ég með 1600 krónur á tímann en í yfirvinnu 2300 krónur á tímann fyrir skatt. Segjum sem svo að ég hafi 300 krónur í mánaðarlaun og fyrir tekjur upp að 300 þúsund borgi maður 30%  skatt. Allt yfir 300 þúsund borgi maður svo 40% skatt. Svo er ég beðinn um að vinna yfirvinnu 1 klst vegna þess að ísfisktogari í eigu útgerðarinnar þarf að komast út, þá um kvöldið. Ef að skattprósentan væri 30% þá fengi ég út úr einum yfirvinnutíma 1600 krónur í vasann. En ef ég hef færst upp um skattþrep þá fæ ég ekki nema 1300 krónur fyrir þennan yfirvinnutíma. Í raun borgar það sig fyrir mig að segja nei við yfirmanninn minn, ég vinn ekki yfirvinnu í dag og klára bara verkið daginn eftir í venjulegum dagvinnutíma

Þetta er gallinn við mörg skattþrep, þau geta í sumum tilfellum drepið viljann til þess að vinna. Og það er viljinn til þess að vinna sem að heldur þessu hagkerfi okkar gangandi, fólk vill vinna sér inn peninga og það græðir á að vinna meira. Með mörgum skattþrepum þá getur komið upp sú staða að fólk sem að er nálægt skattþrepunum sínum með sín mánaðarlaun það tapar á því að fara að vinna meira. Þetta er eitthvað sem að þið í Borgarahreyfingunni ættuð að hugsa alvarlega um.

Jóhann Pétur Pétursson, 22.3.2009 kl. 12:28

7 identicon

Góður punktur Jóhann. Borgarahreyfingin er ekki óskeikul frekar en hvað annað. Allar mögulegar hugmyndir eru jafn framt teknar með opnum hug. Þetta þarf vissulega að skoða en í minum huga þá þarf frekar að dreifa vinnu í augnablikinu heldur en að auka vinnuframlag einstaklinga. Það er vissulega vinnan sem heldur samfélagið gangandi en alls ekki aukin yfirvinna. Það góða sem mun koma út úr þessari kreppu er að fólk mun "vinna" meira á heimilinu, eyða meiri tíma með fjölskyldunni.

Jóhann (IP-tala skráð) 22.3.2009 kl. 13:28

8 Smámynd: Pétur Henry Petersen

Algerlega valid punktur Jóhann P, hinsvegar ættum við að spyrja okkur, eins og ástandið er í dag, hvort að það sé eðlilegt að einn gangi atvinnulaus meðan að aðrir vinna yfirvinnu?

Það er eðli allra skattaþrepa að við þröskuldinn er minni ástæða fyrir launþegann að bæta við sig vinnu,  nema að skjótast soldið upp fyrir þröskuldinn. Það er því ekki alveg sanngjarnt að setja upp dæmið eins og þú gerir, þó að það sé rétt. Lykillinn að sanngjörnu skattakerfi er að þessi aukning við þrepin má ekki vera of mikil (t.d. úr 30 í 60%) því að þá dregur það úr hvata þess að vilja bæta sig í tekjum. En vísa þó í upprunalega punktinn, ef það á að gera það með því að auka við sig tímafjöld... 

Pétur Henry Petersen, 22.3.2009 kl. 17:57

9 Smámynd: Baldvin Jónsson

Takk fyrir góða umræðu hérna. Jóhann Pétur, upphæðin sem viðmið fyrir hátekjuskattinn hefur ekki verið skilgreind hjá okkur, en við erum að tala um skatt á raunverulegar hátekjur. 300.000 á mánuði eru án nokkurs vafa ekki hátekjur.

Viðmiðunar tekjur heimilis þurfa að ég tel að vera einhversstaðar nálægt milljón krónum á mánuði til þess að geta talist til hárra tekna í dag.

Baldvin Jónsson, 22.3.2009 kl. 20:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband